10.04.1968
Efri deild: 88. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú hingað komið eftir miklar þrengingar, að segja má. Menn þekkja þá sögu hér í hv. Ed. Það tókst að vísu að lokum að afgreiða það héðan með mjög skaplegum hætti. Ég held, að það hafi að lokum tekizt svo einnig í hv. Nd. Fjhn. þeirrar d. klofnaði ekki meira en í þrennt, hér klofnaði hún í fjóra parta. Ég orðlengi það ekki. Það komu fram þar margar brtt., sem allar voru felldar að undanskildum tveimur, sem er orsök þess, að frv. er hér aftur komið.

Þessar brtt. hafa efnislega raunverulega engin áhrif á frv. Önnur þeirra er þess efnis, að ákvæði frv. um nýja reglu varðandi frádráttarheimildir menn þurfi að hafa borgað tiltekinn hluta útsvars fyrir mitt ár til þess að njóta heimilda — taki ekki til fyrirframgreiðslu á árinu 1968. Í rauninni er þetta engin efnisbreyting, því það var ekki gert ráð fyrir því; að þetta tæki til ársins 1968. Það var ekki framkvæmanlegt að gera það. En það er sem sagt skýrt tekið fram og markað með sérstöku ákvæði í frv. eftir þá breytingu, sem gerð var í Nd., þannig að hér er ekki um raunverulega efnisbreytingu að ræða. Þá var einnig um þetta sama ákvæði samþykkt sú breyting í hv. Nd., að ef sveitarstjórn neyti heimildar samkv. þessu ákvæði laganna, þá skuli hún gera um það sérstaka samþykkt fyrir 15. jan. ár hvert og auglýsa hana á þann hátt, sem venjulegt er um almennar auglýsingar á hverjum stað. Þetta er í rauninni ekkert annað en sjálfsagt og eðlilegt að gera og raunar óumflýjanlegt, að gjaldendur viti það, hvort viðkomandi sveitarstjórn ætlar að nota þessa heimild eða ekki, öðruvísi er ekki hægt að framkvæma þetta með eðlilegum hætti, þannig að einnig þetta tel ég leiða af eðli málsins og því hvoruga þessa breytingu vera þess eðlis, að þær gefi tilefni til þess að fara að taka málið upp að nýju.

Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að gefnum þessum skýringum á þeim breytingum, sem orðið hafa á frv. í Nd., að þessi hv. d. geti fallizt á að staðfesta frv. endanlega.