08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

157. mál, Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með shlj. atkv., eftir að menntmn. d. hafði einróma mælt með samþykkt þess. Á vegum stúdenta við Háskóla Íslands eru nú reknar ýmsar stofnanir, stúdentagarðar tveir, bóksala stúdenta, kaffistofa, og ferðaskrifstofa auk þess sem á görðunum er rekið sumarhótel, sem stúdentaráð hefur annazt rekstur á nokkur undanfarin ár. Höfuðefni þessa frv. er það að sameina allar þessar stofnanir stúdenta í eina stofnun, Félagsstofnun stúdenta, sem stúdentar, háskólaráð og menntamálaráð skulu eiga aðild að. Langstærsta fyrirtæki stúdenta, sem eru stúdentagarðarnir, er nú stjórnað þannig, að í fimm manna stjórn eru tveir fulltúar frá háskólaráði, tveir frá stúdentaráði og formaður skipaður af menntmrh. Stjórn Félagsstofnunarinnar á samkv. þessu frv. að vera þannig, að hún skuli skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn og meiri hl. skuli tilnefndur af stúdentum, þrír af fimm, einn frá menntmrn. og einn frá háskólaráði. Að vísu er gert ráð fyrir því, að einn af hinum þremur fulltrúum stúdenta sé kandídat. Hefur þótt eðlilegt að vandlega athuguðu máli að sýna stúdentum það traust að fela þeim að meiri hl. stjórn sinna eigin stofnana. Tekjur Félagsstofnunarinnar eiga að vera hluti af árlegum skrásetningargjöldum við Háskóla Íslands, en í ráði er að taka upp árlega skrásetningu þar í stað þess, að nú eru stúdentar aðeins skráðir við upphaf námsins. Enn fremur er gert ráð fyrir framlögum úr ríkissjóði eftir því, sem Alþingi ákveður hverju sinni, en nú er á fjárlögum fjárveiting til Félagsstofnunar stúdenta eða til byggingar félagsheimilis stúdenta, sem mundi verða eitt af fyrirtækjum Félagsstofnunarinnar, og var sú fjárveiting ekki felld niður í sparnaðarfrv. ríkisstj. Með því vildi ríkisstj. undirstrika, að hún telji hér um mikilvægt mál að ræða, sem eigi að fá sem skjótastan framgang. Þá er gert ráð fyrir gjöfum og öðrum úrræðum til fjáröflunar.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. Hér er um einfalt mál að ræða, og ég vona, að hv. Ed. verði sömu skoðunar og hv. Nd., að hér sé um mál að ræða, er sem fyrst eigi að ná fram að ganga, og er það eindregin ósk mín til hv. menntmn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, að hún afgreiði málið svo tímanlega, að þessu þingi megi auðnast að taka endanlega afstöðu til málsins og afgreiða það. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.