18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur verið tekið, varð fjhn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls, enda þótt ekki beri mikið á milli. Minni hl. leggur til, að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu, sem kemur fram á þskj. 386, að ákvæði gildandi laga um embættisbústaði skuli haldast utan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður hefur myndazt fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu. Þessi eðlilegi markaður hefur nánar verið skilgreindur í frv., þar sem átt er við Reykjavík og þéttbýlissvæði hér í kring og e.t.v. Akureyri.

Meginatriði þessa frv. eru þau, að ríkið eigi ekki íbúðarhúsnæði til afnota fyrir starfsmenn, nema slíkt sé óhjákvæmilegt vegna staðhátta eða annarra brýnna ástæðna. Í öðru lagi að lagaskylda ríkisins til að byggja íbúðarhúsnæði fyrir ákveðnar starfsstéttir ríkisins verði afnumin. Í þriðja lagi að hver ráðh. hafi ákvörðunarvald um, hvaða íbúðarhúsnæði skuli byggt fyrir starfsfólk, sem undir hans rn. heyrir.

Í 2. grein frv. kemur fram sú meginregla, að afnema skal lagaskyldu ríkisins til að byggja íbúðarhúsnæði, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Lögin um embættisbústaði hinna ýmsu starfsstétta eru með nokkuð mismunandi hætti og gera ekki greinarmun á aðstæðum manna í þéttbýli og dreifbýli, og kann því að vera þörf á því að samræma ákvæði þessi og út af fyrir sig erum við því sammála. Hins vegar er öllum ljóst, hverjum vandkvæðum það hefur verið bundið á undanförnum árum að fá ýmsa embættismenn til þess að setjast að úti á landi og sinna þar þjónustu. Þetta vandamál snertir bæði sveitirnar og fjölmennari byggðarlög. Þess vegna teljum við, sem skipum minni hl. fjhn., að í þessu máli megi löggjafinn ekki með ákvörðunum sínum gera neitt, sem rýri aðstöðu þeirra, sem embættum vilja gegna úti á landi. Þvert á móti þarf að gera ráðstafanir í þá átt, að embætti úti á landi verði eftirsótt, svo að þangað veljist hæfir menn í embætti, ekki síður en í þéttbýlið hér syðra. Við teljum, að ef lagaskyldan varðandi byggingu embættisbústaða verður afnumin, muni það í augum margra gera aðstöðu embættismannanna nokkru óvissari. Það kann að mega segja, að þetta sé í höndum ráðh. að nokkru leyti, hvað sem allri lagaskipan líður. Eigi að síður verður það að teljast eðlilegra, eins og nú er málum háttað, að lagaskyldan haldist enn um sinn og ekki ástæða til, að ráðh. eða embættismenn í umboði hans hafi um það úrslitavald. Lagaskyldan er eðlilegri og ætti að vera ótvíræð, eins og nú háttar, hvernig svo sem þessum málum kann að verða skipað í framtíðinni. Frv. sjálft gerir einnig ráð fyrir því, að ekki verði komizt hjá því, að ríkið eigi framvegis embættisbústaði úti á landi eða byggi bústaði þar, og styður það þá skoðun okkar, að lagaskyldunni skuli halda enn um sinn. Og það er nú svo, að hvað sem líður þessu frv., þá verða enn í gildi ýmis lög, sem skylda ríkið til að hyggja embættisbústaði úti á landi, og það styður enn þá breytingu, sem við viljum gera á frv., að láta ákvæði gildandi laga um embættisbústaði haldast, nema á nánar tilteknum þéttbýlissvæðum, sem nánar yrði ákveðið um í reglugerð, sem ráðh. setur.

Í 11. gr. frv. er gert ráð fyrir, að nánari ákvæði verði sett um stærð, gerð og búnað íbúðarhúsnæðis, sem ríkið eignast eða kostar að einhverju leyti. Það er ekki nema eðlilegt, að um þetta verði sett reglugerð. Það eru mörg dæmi þess, að bústaðir á vegum ríkisins, víðs vegar um landið, hafi verið byggðir, að því er virðist, eftirlitslítið og aðhaldslítið um hagkvæma stærð eða gerð, og slíkt á auðvitað engan rétt á sér. Það er eðlilegt, að skýrar sé ákvarðað um þetta en hefur verið hingað til.

Frv. gerir einnig ráð fyrir því, að íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins innan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður er að myndast fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu, skuli samkv. nánari reglum þar um selt. Frsm. meiri hl. minntist á það, að rætt hefði verið við stjórn Prestafélags Íslands. N. sendi frv. ekki neinum aðilum til umsagnar, en það kom fram ósk frá stjórn Prestafélagsins um, að hún fengi að ræða við n., og það atvikaðist nú svo, að það voru aðeins tveir nm. viðstaddir, þegar stjórn Prestafélagsins ræddi um þetta. En stjórn Prestafélagsins var, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., mjög óánægð með þetta frv. og taldi það rýra kjör presta mjög mikið. Aðrar umsagnir voru ekki fengnar um þetta frv., en ég tel rétt, úr því að á þetta var minnzt af frsm. meiri hl., að fram komi sú till., sem hreyft var af formanni stjórnar Prestafélagsins, séra Gunnari Árnasyni. Raunar átti hann ekki upptökin að þeirri tillögu. Það mun hafa verið Sigurgeir heitinn Sigurðsson biskup. En till. var í þá átt, að ef embættisbústaðir presta í þéttbýli yrðu seldir, yrði andvirðið notað til sjóðsstofnunar og sá sjóður, ef myndaður yrði, veitti þeim prestum lán, sem kynnu að flytjast í þéttbýlið og ættu erfitt um vik að eignast húsnæði. Ég tel rétt, að þetta komi fram.

Einnig kom það fram í umr. í n., sem frsm. meiri hl. minntist réttilega á í sambandi við 10. gr., þar sem segir, að lög þessi taki hvorki til embættis forseta Íslands, biskupsstóls í Reykjavík né bústaða sendiherra Íslands erlendis. Um þetta var lauslega rætt, og voru nú ekki allir á því, að biskupsbústaður í Reykjavík ætti að hafa forgöngu, en eins og fram kom, hefur enn ekki verið flutt till. um þetta. Einnig kom það fram í n., að þarna mætti kannske e.t.v. skjóta inn í orði í sambandi við bústað forseta Íslands, þannig að það næði ekki til embættissetu forseta Íslands á Bessastöðum. Ég get þessa bara, úr því að farið var á annað borð að geta umr., sem fóru þarna fram. En við í minni hl. leggjum sem sagt til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum, að 2. gr. frv. orðist eins og kemur fram á þskj. 386: „Ákvæði gildandi laga um embættisbústaði skulu haldast utan þeirra svæða, þar sem eðlilegur markaður hefur myndazt fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu,“ 3. gr. falli brott og síðan breytist töluröð annarra greina fram að 12. gr. í samræmi við þetta, en 12. gr. falli niður og ákvæði til bráðabirgða falli niður.