27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., er það megininnihald þess frv., sem hér er nú til umr., að afnema skuli úr l., að kaupgjald og aðrar launagreiðslur skuli fylgja vísitöluútreikningi og að uppbætur skuli greiðast á laun miðað við verðlag á hverjum tíma. Þetta eru meginatriðin, sem er að finna í þessu frv. Þau atriðin, sem fram koma í 1. gr. og fjalla um annað en þetta, eru um það að gera verðlagsuppbætur á laun fram til 1. des. n.k. nokkru minni en lög og samningar segja til um. En þó er þar sem sagt gert ráð fyrir því að greiða áfram nokkrar verðlagsuppbætur á laun 1. des. og taka þar nokkurt tillit til þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa á tímabilinu frá 1. ágúst til 1. nóv. s.l. En meginkjarni frv. er sem sagt um það að taka nú aftur upp það fyrra fyrirkomulag að hafa ekki ákvæði í l. um vísitöluuppbætur á laun eða kaupgreiðslur. Við vitum, að núv. hæstv. ríkisstj. bannaði með lögum vísitöluuppbætur á laun í efnahagslöggjöf sinni, sem samþykkt var á Alþ. í febr. 1960. Og þá hélt ríkisstj. því fram, að þetta væri nauðsynlegt, vegna þess að reglurnar um vísitöluuppbætur á laun verkuðu sjálfkrafa til verðbólgumyndunar í landinu. Hins vegar var sú löggjöf þannig, að samkv. henni gátu launþegasamtökin eða verkalýðsfélögin í landinu breytt grunnkaupi með samningagerð við vinnuveitendur, og á þann hátt var auðvitað opið að hreyta kaupgjaldinu frá því, sem það var, þegar þessi löggjöf ríkisstj. var sett.

Auðvitað fór það ekki á milli mála, að það, sem vakti fyrir ríkisstj. á sínum tíma eða í febrúarmánuði 1960, þegar löggjöfin var sett um efnahagsráðstafanirnar, var það, að ríkisstj. taldi, að launþegar í landinu ættu ekki að fá bætur í launum fyrir þá verðhækkun, sem fyrirsjáanlegt var, að mundi sigla í kjölfar þeirrar gengisbreytingar, sem þá var verið að samþykkja. Það var sem sagt fyrirætlun ríkisstj. á þessum tíma að lækka launakjörin, skerða kjörin frá því, sem þau höfðu verið. Það er býsna fróðlegt, þegar ríkisstj. kemur nú á nýjan leik með löggjöf, sem fer í sömu átt og þessi fyrri, að rifja upp nokkur helztu atriðin, sem gerzt hafa í þessum málum á undanförnum árum.

Hver varð afleiðing þess, að slitið var sambandið á milli launa og verðlags með efnahagsmálalöggjöfinni 1960? Afleiðingin varð sú, að allmiklar verðhækkanir gengu yfir, og svo var komið á miðju ári 1961 eða eftir rétt u.þ.b. 11/2 ár, að verðlag á vörum og þjónustu hafði hækkað skv. útreikningum Hagstofunnar um 17%. Vitanlega hafði kaupgjald verkafólks í landinu rýrnað að kaupmætti til sem þessu nam á þessu tímabili. Ríkisstj. hafði því náð þeim tilgangi sínum í þetta skipti að koma fram allverulegri kjaraskerðingu á þessum árum. En á miðju ári 1961 neitaði verkalýðshreyfingin að una þessari þróun, og þá var kjarasamningum sagt upp og verkföll skullu á um allt land svo að segja. Þá voru gerðir nýir samningar og kaup var hækkað talsvert, en ríkisstj. vildi ekki una við hina nýju samninga, sem þá voru gerðir, og þótt atvinnurekendur í landinu hefðu gert skuldbindandi samninga við verkalýðssamtökin, svaraði ríkisstj.

með því að skella á nýrri gengislækkun í ágústbyrjun 1961. Og enn hélt ríkisstj. sér við sína fyrri stefnu að banna vísitöluuppbætur á kaup. Og hvernig varð svo þróunin áfram? Hún varð þannig, að hvert verkfallið rak annað, bæði á árinu 1961, einkum þó á árinu 1962 og árinu 1963. Slíkur verkfallafjöldi eins og dundi yfir á þessu tímabili hefur ekki dunið yfir nokkurn tíma fyrr eða síðar á jafnlöngum tíma.

Og hver varð svo þróunin í verðlagsmálum í landinu, á meðan þetta gekk allt yfir? Þannig var komið á miðju ári 1964, að vísitala Hagstofunnar, sem sýndi breytingar á vörum og þjónustu, hafði hækkað upp í 187 stig eða um hvorki meira né minna en 87% á þessu tímabili. Og síðasta árið, sem þetta stóð, eða frá því í júní 1963 þar til í júní 1964, hækkaði þessi vísitala á vörum og þjónustu úr 149 stigum í 187 eða um 38 stig, en það samsvarar 25.5%. Þegar þetta hafði allt gengið yfir, sá núv. hæstv. ríkisstj. það, að með öllu var óhugsandi að halda svona áfram. Stefna hennar um það að banna vísitöluuppbætur á laun og að ætla að koma fram kjaraskerðingu á þann hátt, sem hún hafði reynt, gat ekki gengið og þá breytti hæstv. ríkisstj. um stefnu, og enginn undirstrikaði það betur en hæstv. forsrh. sjálfur í þeim yfirlýsingum, sem hann gaf. Hann viðurkenndi það fullkomlega, að fyrri aðferðin hefði ekki heppnazt, það hefði ekki fengizt vinnufriður og það hefði ekki fengizt sú þróun í kaupgjalds- og verðlagsmálum, sem ríkisstj. hefði ætlazt til. Og þá voru gerðir nýir samningar í júní 1964 og það viðurkennt, að kaupgjald verkamanna og launagreiðslur yfirleitt í landinu skyldu tengdar við kaupgjaldsvísitölu og hreyfast skv. verðlagi í landinu á hverjum tíma. Og hver var svo reynslan af því, að þessi nýja stefna var tekin upp? Jú, reynslan varð sú, að eftir að þetta skipulag var tekið upp, hreyfðist kaupgjald og verðlag í landinu minna en það hafði gert áður. Þetta hefur hæstv. forsrh. margsinnis undirstrikað í skrifum sínum um þessi mál, að júnísamkomulagið hafi einmitt breytt þeirri óhagstæðu þróun í þessum efnum, sem áður var. Og hann hefur einnig bent á það, og það hafa margir fleiri gert, að um leið og þessi stefnubreyting varð, sýndi það sig einnig, að kaupmáttur launa hjá verkalýðsfélögunum í landinu jókst líka meira á seinna tímabilinu en á hinu fyrra, þrátt fyrir öll stóru stökkin. Og sem sagt, verðhækkanirnar urðu miklu minni. En þrátt fyrir þessa reynslu, sem fyrir liggur í þessum efnum, kemur hæstv. ríkisstj. nú enn einu sinni með till. um það að taka upp gamla lagið, sem hafði reynzt svona ömurlega, byrja aftur á sama leiknum og hér var tekinn upp í febr. 1960.

Hér fyrr á þessu þingi lagði ríkisstj. fram frv. um það, að hætt skyldi að miða kaupgjald í landinu við verðlag, og hún vildi, vegna sérstakra efnahagsráðstafana, sem hún var þá með á prjónunum, gera kröfu um það, að launþegar í landinu féllu frá kaupuppbót á laun sín, sem næmi 41/2 % miðað við hina nýju vísitölu, en hefði numið í kringum 71/2 % miðað við eldri vísitöluna, sem mælt hefur verið eftir. En nú er ríkisstj. aftur búin að breyta till. sínum nokkuð, nú þykist hún sjá fram á það, að hún þurfi að fara fram á enn þá meiri kjaraskerðingu en hún fór fram á fyrir nokkrum vikum síðan. Nú vill hún greinilega, að launþegar í landinu taki á sig bótalaust allar verðhækkanirnar, sem hljótast af framkvæmd hinnar nýju gengislækkunar. En það er augljóst, að þær verðhækkanir muni verða a.m.k. 7–8%, eftir því sem sérfræðingar ríkisstj. telja, en ég fyrir mitt leyti tel miklu líklegra, að þær nemi einum 10%, en hvað sem því líður er sem sagt enginn vafi á því, að hér er um verðhækkanir að ræða, sem munu nema a.m.k. 7–8%. Það er því augljóst, að ríkisstj. stefnir að því, að launþegar í landinu taki á sig þessar verðhækkanir án bóta í kaupi. En auk þess ætlar hún svo launþegum að taka á sig einnig nokkra kjaraskerðingu vegna fyrri efnahagstill., sem ríkisstj. hefur lagt fram, eins og hér hefur verið bent á fyrr í þessum umr. Og til þess að koma þessu fram hugsar ríkisstj. sér þá leið að nema úr lögum þau ákvæði, sem tryggja launþegum í landinu uppbætur á laun sín í fullu samræmi við verðlagið í landinu á hverjum tíma. Í þessu sambandi vil ég minna á það, að í umr. um þessi mál áður, á meðan ríkisstj. sérstaklega var að streitast við sína fyrri leið í málinu, þá leið, sem hún barðist við að halda hér uppi frá febr. 1960 og þar til í júní 1964, þá hafði ég margsinnis bent á það, að það skipti ekki höfuðmáli í þessum efnum, þótt ríkisstj. sliti á pappírnum í sundur ákvæðin um fast hlutfall milli launa og verðlags. Ef það yrði gert, mundi hitt ráða úrslitum, að ef verðlagið í landinu hækkaði, mundi kaupið koma á eftir, og það gæti aðeins verið um stuttan tíma að ræða. Kauphækkanirnar mundu segja til sín, ef verðhækkanirnar gengju yfir og það væri alveg vafasamt, að það yrði heppilegra fyrir þróun kaupgjalds- og verðlagsmála að halda uppi þessu fyrirkomulagi, sem ríkisstj. streittist við að halda hér uppi á árunum 1960–1964, þótt ekki væri í gildi nein formleg kaupgjaldsvísitala.

Þessar aðvaranir mínar á þessu tímabili gilda alveg eins nú. Ríkisstj. mun sanna það, að þó að ekki sé í gildi skráð kaupgjaldsvísitala, sem breytir kaupinu sjálfkrafa til samræmis við verðlag, mun hitt koma í staðinn, að verkalýðshreyfingin mun með vissu millibili knýja fram sínar kauphækkanir til samræmis við hækkað verðlag á hverjum tíma, og ég dreg það í efa enn, eins og ég gerði áður, að þróunin í kaupgjalds- og verðlagsmálum verði hagstæðari fyrir efnahagslíf þjóðarinnar með þessu lagi en hinu. Það er blekking, sem ríkisstj. telur sér trú um, að hún geti komið fram slíkri kjaraskerðingu hjá launþegum, sem hún nú stefnir að. Hún hefur ekki getu til þess, það getur ekki staðið nema stuttan tíma, að slík kjaraskerðing verði í gildi.

Ég veit, að hæstv. ríkisstj. telur, að vegna þess að nú hefur verið gripið til gengislækkunar og fyrirsjáanlegt er, að verðlag hér innanlands muni hækka allverulega í kjölfar hennar, sé ekki hægt að hafa vísitölu í gangi, þannig að kaupgjald fái að hreyfast skv. henni til samræmis við það hækkandi verðlag, sem menn vita, að er í vændum. Hér er að mínum dómi um alranga skoðun hjá ríkisstj. að ræða. Það er fyllilega hægt að hafa kaupgjaldsvísitölu í gangi, þó að um gengislækkunaráhrif sé að ræða. En það er einmitt eitt höfuðatriðið í sambandi við framkvæmd á gengislækkuninni að hafa náið auga á því, hvernig tekst til með þróun verðlagsmálanna í landinu. Það á ekki að loka augunum fyrir því, sem er að gerast í þessum efnum, heldur á ríkisstj. þvert á móti að leggja sig alla fram um það að koma í veg fyrir of mikla hækkun á verðlagi í landinu, þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar eins og lækkun á verðgildi krónunnar. Þar koma auðvitað mörg ráð til. Og ég efast ekkert um, að hefðu ákvæðin um kaupgjaldsvísitölu verið í l., hefði ríkisstj. séð sig knúna til að fylgjast náið með þessum verðlagsbreytingum og þá hefði hún talið sér hagstæðast að reyna að koma í veg fyrir það, að verðlag hækkaði í nokkurri grein umfram það, sem allra nauðsynlegast var. En þegar ríkisstj. hefur einmitt slitið í sundur sambandið á milli kaupgjalds og verðlags, kemur strax upp hirðuleysi. Þá fást menn ekki um það, þó að látið sé undan þessum eða hinum með hans kröfur, sem leiða síðan til verðhækkana í landinu. En einmitt það undanlát mun síðan leiða af sér kauphækkun innan skamms og þá auðvitað nýjan vanda fyrir okkar útflutningsatvinnuvegi, sem verða að keppa á erlendum vettvangi.

Mig langar í þessum efnum að koma hér að nokkrum atriðum, sem ég tel mjög mikilvæg í sambandi við framkvæmd á gengislækkun miðað við þá aðstöðu, sem við búum við nú í dag, og sem einmitt snerta þetta atriði, sem ég er að tala um. En því miður hefur ríkisstj. ekki lagt sín spil enn þá á borðið, ekki gefið hér eðlilegar upplýsingar um það, hvernig á að standa að framkvæmd gengislækkunarinnar varðandi þessi mikilvægu mál, og maður verður því í ýmsum efnum að fara að geta sér til eða ráða í líkurnar af því, sem fram hefur komið. Ég kem þá að því fyrsta atriði, sem nokkurn veginn er kunnugt um, en þar var um það að ræða, hvort heimila ætti verzluninni í landinu að hækka í verði í skjóli gengisbreytingarinnar þær vörubirgðir, sem verzlunin hefur í sínum höndum, þegar gengislækkunin fer fram. Hér var auðvitað um mjög mikilvægt atriði að ræða. En mér sýnist, að ríkisstj. byrji á framkvæmd þessa atriðis þannig, að sú framkvæmd muni leiða til þess, að svo að segja allar vörubirgðir í landinu verði strax hækkaðar til samræmis við hið nýja verðlag, sem er að koma. Það atriði að heimila þeim innflytjendum, sem skulda erlendis, en eiga hér enn þá vörubirgðir, að hækka þær vörubirgðir, vegna þess að þeir skulda erlendis, það gefur vitanlega öðrum aðilum kost á því að hækka sínar vörur í skjóli þessara verðhækkana. Það getur ekki öðruvísi farið. Lítum svo á þá ákvörðun að heimila skipafélögum að hækka fragtir sínar á vörum, sem fluttar hafa verið til landsins, jafnvel fyrir mörgum mánuðum síðan, í samræmi við hið nýja gengi, ef þær liggja aðeins í geymslum skipafélaganna og skipafélögin geta sýnt, að þau skulda erlendis vegna þeirrar þjónustu sinnar að flytja vörur til landsins. Þetta þýðir það í framkvæmd, að ég hygg, að svo að segja öll skipafélögin, sem hafa auðvitað meira og minna af vörum liggjandi í sínum vöruskemmum, sem þau hafa ekki afhent enn þá, og skulda ábyggilega öll eitthvað talsvert mikið erlendis vegna skiparekstrar síns, þau fá öll aðstöðu til þess að hækka flutningsgjaldið á öllum þeim kössum og öllum þeim pokum, sem enn þá liggja í vörugeymslum þeirra, þó að þetta hafi verið flutt til landsins fyrir löngu síðan.

Framkvæmd eins og þessi er vitanlega ekki í þá átt að reyna að standa gegn hækkandi verðlagi, heldur þvert á móti. Hér er um meiri eftirgjöf að ræða varðandi þessi verðlagsákvæði en hefur verið áður í sambandi við framkvæmd á gengislækkuninni.

Hvað er svo að segja um þann mikilvæga þátt, sem snertir einnig þróun verðlagsins í landinu, tolltekjur ríkisins? Ja, eins og þau frv. liggja fyrir, sem hér hafa komið fyrir Alþ., er gert ráð fyrir því, að allir tollstigar ríkisins verði óbreyttir, a.m.k. fyrst um sinn. Það er að vísu talað um, að við gengisbreytinguna megi nú lækka eitthvað hæstu tolla á einstaka vörutegundum. Ekkert liggur fyrir um það, að hve miklu leyti þetta yrði gert, en það er alveg augljóst mál, að ef tollstigar ríkisins eiga að vera óbreyttir, hækkar ríkisstj. sínar tekjur í sambandi við gengisbreytinguna um gífurlega háa fjárhæð. Heildarinnflutningurinn á vörum til landsins árið 1966 var í kringum 6800 millj. kr. Ef maður gerir ráð fyrir því, að innflutningur á vörum til landsins á næsta ári yrði í kringum 6000 millj. kr., sem sagt allmiklu minni en hann var orðinn árið 1966, þá hygg ég, að það sé mjög nærri lagi að reikna með því, að innflutningsverð á þessum vörum, sem áður var talið um 6000 millj. kr. á fyrra gengi, mundi hækka að meðaltali um ca. 25%. Það hækkaði um 32.6% frá öllum þeim löndum, sem miða gengi sitt við dollar, en minna nokkuð frá hinu svæðinu. Mér þykir því mjög sennilegt, að hér gæti verið um meðaltalshækkun að ræða, sem næmi yfir 25%. Hvað þýðir það? Það þýðir þá, að innflutningsverðmæti á vörum, sem tollar eru greiddir af, mundu hækka um 15011 millj. kr., og ef tollstigar ríkisins yrðu óbreyttir, mundi ríkið taka inn í auknum tolltekjum eftir þessari leið í kringum 500 millj. kr., sama hlutfall og reiknað hefur verið á þessu ári. Og þegar svo einnig kemur til, að söluskattur hækkar eðlilega líka, þá yrði þar miðað við svipað hlutfall og verið hefur, varla um minni upphæð en 250 millj. kr. Ég hygg því, að tekjur ríkissjóðs að öllu óbreyttu mundu vaxa um ekki minna en 750 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar, ef tollstigarnir og söluskattsstiginn verða óbreyttir. Nú þýðir auðvitað þessi innheimta ríkissjóðs það, að verðlagið í landinu hækkar, ef þessir tollstigar og söluskattsstiginn eru ekki lækkaðir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði hér fyrr í ræðu minni nokkuð vikið að því, hvað það skipti miklu máli í sambandi við framkvæmd á gengisbreytingu, að reynt yrði af hálfu ríkisvaldsins að hafa hemil á þróun verðlagsins í landinu. Og ég hafði bent á, að mér sýndist, að allmikilvægar ráðstafanir, sem ríkisstj. þegar hefði gert, færu ekki í þá átt, að þær miðuðu að því að koma í veg fyrir óþarfar verðhækkanir. Og þá hafði ég nokkuð minnzt á það, að mjög miklu máli skipti í þessu efni, hvernig farið yrði með tekjur ríkissjóðs af tollum og söluskatti, en auðvitað skapast möguleikar til þess við gengisfellingu að lækka til muna tollstiga, og einnig mundi skapast möguleiki til þess að lækka verulega söluskattinn. En eins og málin horfa nú við, er ekki annað að sjá en ætlunin sé sú, að ríkissjóður taki til sín mjög auknar tekjur sem tolltekjur og einnig sem auknar söluskattstekjur, og afleiðingin yrði að sjálfsögðu, eins og ég hafði bent á, hækkað verðlag í landinu.

Nú er einnig þess að gæta, að í þessu tilfelli væri einnig mögulegt fyrir ríkið að lækka ýmsar sínar álögur, sem hafa áhrif á verðlag í landinu, ýmsar álögur, sem ákveðnar hafa verið á undanförnum árum í því skyni að styðja útflutningsatvinnuvegina. Þannig hafði ríkissjóður t.d. fengið tekjustofna, sem námu um 300 millj. kr. og varið var síðan gagngert til stuðnings útflutningsatvinnuvegum. Nú eiga útflutningsatvinnuvegirnir ekki lengur að fá þennan fjárhagslega stuðning, sem byggðist á þessum sérstöku tekjustofnum, heldur er ætlað, að útflutningsatvinnuvegirnir fái bætta rekstrarstöðu í gegnum gengisfellingu. En þá væri líka möguleiki til þess, að ríkissjóður lækkaði eitthvað af sínum tekjukröfum á öðrum sviðum, og það væri hægt að nota þessa hreyfingu til þess að hafa áhrif á verðlagsþróunina. Verði þetta ekki gert, eins og helzt er að sjá á öllu, fær auðvitað ríkissjóður eftir þessari leið stórauknar tekjur eða sem nemur 300 millj. kr. í þessu tilfelli.

Þá er einnig þess að gæta, að ríkisstj. hafði gert sérstakar ráðstafanir, áður en til gengislækkunarinnar kom, til þess að auka við tekjustofna ríkisins. Hún hafði ákveðið vissar hækkanir á vöruverði í landinu, minnkað niðurgreiðslur, sem talið var að mundi nema á einu ári kringum 410 millj. kr., og þetta þýddi að þessu leyti til auknar tekjur fyrir ríkissjóð, og ríkisstj. hafði einnig gert ráðstafanir til þess að hækka ýmsar aðrar álögur, svo sem verð á tóbaki og áfengi o.fl., en allt miðaði þetta vitanlega að auknum tekjum ríkissjóðs. Mér sýnist, að ef ríkisstj. heldur fast við allar þessar till., en hún hefur ekki gefið upplýsingar um neitt annað, verði afleiðingarnar þær, að tekjur ríkissjóðs muni hækka stórkostlega, talsvert mikið á 2. milljarð. Það getur ekki farið öðruvísi. Ef hins vegar ríkisstj. liti þannig á, að það skipti verulega miklu máli að hamla gegn verðhækkunum, væri hægt að haga þessari tekjuöflun þannig, að hún drægi úr verðhækkunum frá því, sem annars yrði. Þetta skiptir auðvitað alveg höfuðmáli í sambandi við framkvæmd á gengislækkuninni. Og ég er anzi hræddur um, að ef svona verður staðið að framkvæmd gengislækkunarinnar, fari það svo, að útflutningsatvinnuvegirnir fái tiltölulega lítið út úr krafsinu og gengislækkunin verði þá meira gerð til þess að auka við tekjur ríkissjóðs með þeim afleiðingum að sjálfsögðu, að verðlag í landinu hækkar meira en það hefði þurft að hækka, en afleiðingar af því verða svo aftur innan skamms, að kaupgjald í landinu hækkar til samræmis við hækkandi verðlag, hvort sem vísitöluákvæðin verða bundin í l. eða ekki.

Þá er auðvitað gefið mál einnig, að það mun hafa mjög mikil áhrif varðandi framkvæmd gengislækkunarinnar, hvernig staðið verður að verðlagseftirliti í landinu. Ef ríkisstj. ætlar að halda sér við óbreytta stefnu í verðlagsmálum frá því, sem verið hefur, þ.e.a.s. hún ætlast til þess, að verðlagið í landinu eigi að miðast við það, hvað framboð og eftirspurn ákveður á hverjum tíma, ef álagning á að vera frjáls á mjög mörgum vörutegundum og miklu af þjónustu, eins og ríkisstj. hafði beitt sér fyrir áður, og eins ef álagningarprósenta á að vera sú sama eftir gengisbreytinguna eins og hún var fyrir, er auðvitað gefið mál, að þá gengur verðhækkunin miklu hraðar yfir og hefur þá auðvitað hinar sömu afleiðingar, að kaupgjaldið mun leita þar samræmis fljótlega á eftir. Um þessi atriði hefur hæstv. ríkisstj. ekki viljað upplýsa neitt, og það er í rauninni ekki hægt að ganga þar út frá öðru en því, sem fyrir liggur um hennar fyrri yfirlýsingar og stefnu í þessum málum. Ég hafði vikið að því hér, þegar fylgifrv. ríkisstj. með gengislækkuninni varðandi tollaafgreiðslu o.fl. var hér til umr. nú fyrir helgina, að veruleg hætta væri á því, ef þannig yrði staðið að framkvæmd gengislækkunarinnar, eins og mér sýndist, að ýmsar greinar útflutningsframleiðslunnar fengju heldur litlar bætur út úr gengislækkuninni. Og ég nefndi þá hér nokkrar lauslegar tölur; t.d. viðvíkjandi fiskiðnaði landsmanna. Ég hef haft tækifæri til þess að athuga það nokkru nánar síðar og sé, að allar líkur eru til þess, að útkoman verði mun verri en ég hafði gert hér ráð fyrir í ræðu minni fyrir helgina. En ég vil nú ræða þetta nokkru nánar aðeins til þess að benda hv. þm. á það, hvaða hættur hér eru á ferðinni í sambandi við framkvæmd gengislækkunarinnar, af því að því er mjög haldið að mönnum, að það sé verið að gera þessa miklu gengislækkun einvörðungu fyrir útflutningsatvinnuvegina. Og segja má, að ef allt væri alveg með felldu, hefði slíkt átt að geta komið út úr gengislækkun.

Ég hygg, að það sé heldur ríflegt að áætla, að heildarverðmæti útfluttra frystra fiskafurða á yfirstandandi ári verði kringum 1200 millj. kr. Mér er sagt af mjög kunnugum mönnum í þessum málum, að það muni frekar vera of í lagt en á hinn veginn. En við skulum hugsa okkur það, að verðmæti útfluttra frystra fiskafurða sé í kringum 1200 millj. kr. Við vitum, að sá hluti af þessum afurðum, sem fer inn á dollarasvæðið, mundi hækka í verði um 32.6%, ef verðlagsbreyting verður engin sérstök. En sá hlutinn, sem færi inn á pundssvæðið, mundi aftur hækka í verði um 14%, einnig gengið út frá því, að þar yrði ekki um neinar verðbreytingar að öðru leyti að ræða. Ég hygg því, að það muni láta mjög nærri og þó vera fremur ofreiknað en vanreiknað, að meðaltalshækkunin á útfluttum frystum fiskafurðum gæti verið í kringum 25%, sem fengist brúttó inn fyrir þennan útflutning. En það mundi þá nema í kringum 300 millj. kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að þær sérstöku bætur, sem greiddar hafa verið þessum iðnaði með millifærslu, falli niður. Og hverjar hafa þessar bætur verið? Þær hafa verið sérstakar greiðslur í gegnum verðjöfnunarsjóð eða verðtryggingasjóð frystra fiskafurða, og það er gert ráð fyrir því, að þær verði miðað við þetta ár í kringum 110 millj. Þessi fjárhæð á að falla niður. Þá hefur verið um aðra fjárhæð að ræða til stuðnings frystiiðnaðinum, en það eru 50 millj. kr., svonefnt hagræðingarfé, sem greitt hefur verið til frystihúsanna. Þetta á líka að falla niður. Þarna eru komnar 160 millj. kr. Þá hefur nú um tíma verið í gildi sérstök uppbót á fiskverð, sem talið var, að næmi í kringum 8% verðhækkun á fiskafla. Og þessi upphæð hefur numið í kringum 100 millj. kr. á ári. Og það mun ekki vera fráleitt að reikna með því, að þessi fiskverðshækkun, sem nú á að falla niður, hvíli á frystiiðnaðinum að svona hálfu leyti til eða kannske aðeins innan við 50%. Þarna er því um að ræða fjárhæð, sem verður tekin af frystiiðnaðinum og nemur 50 millj. kr., og væru þá þarna komnar 210 millj. kr. Nokkrar fleiri upphæðir koma hér til, en þær skipta ekki neinu höfuðmáli og ég sleppi þeim því. Miðað við þennan útreikning gæti því hér verið um það að ræða, að frystiiðnaður landsmanna fengi út úr þessari gengisbreytingu í kringum 90 millj. kr. brúttó, 90 millj. kr. meira en hann hefur fengið. En þessi iðnaður verður svo aftur að taka á sig allar afleiðingar gengisbreytingarinnar í hækkuðu verðlagi.

Í fyrsta lagi munu auðvitað umbúðir og annað þess háttar utan um útflutningsvöruna hækka í verði. Fragtir á erlenda markaði stórhækka auðvitað í verði, og olían mun hækka mikið í verði og þar af leiðandi rafmagn líka og fjöldamargar aðrar kostnaðarvörur, sem tilheyra þessum rekstri. Maður verður auðvitað líka að áætla það, að fiskverð hljóti að hækka eitthvað almennt séð frá því, sem verið hefur. Ég hygg, að það þurfi ekki að fara öllu lengra í þessum samanburði til þess að sýna hv. þm. það, að vel getur svo farið, að þessi þýðingarmikla grein útflutningsframleiðslunnar búi hreint ekki við betri kjör eftir gengisfellinguna en hún bjó við áður. Og ástæðan liggur einfaldlega í því, að ýmsir aðrir aðilar og þá í þessu tilfelli fyrst og fremst ríkissjóður tók til sín hagnaðinn af gengisbreytingunni. Eða þá einnig það, að ýmsir aðrir milliliðir, sem verzla hér með vörur og þjónustu, taka til sín hinn stóra hluta í þessum efnum. Og það er að þessu, sem ég hef viljað beina athygli manna, vegna þess að það er ekki aðeins í þetta skipti, sem þetta er að gerast. Þetta hefur gerzt æ ofan í æ að undanförnu, þegar framkvæmd hefur verið gengislækkun undir því fororði, að hér væri um sérstaka fjármálalega ráðstöfun að ræða til stuðnings útflutningsatvinnuvegunum. En af því að áður en kom til gengislækkunarinnar var búið að leggja út í allmikla tilfærslu í gegnum ríkissjóð, leggja á nýjar álögur, afla nýrra tekna, en ríkissjóður hirðir svo þessa tekjustofna við gengisbreytinguna, þá verður útkoman sú, að hagnaðurinn af gengisbreytingunni verður fyrst og fremst fyrir ríkissjóð. Auðvitað hefði hæstv. ríkisstj. átt að gefa hér upplýsingar um það, hvernig á að standa að gengisbreytingunni í framkvæmd núna að þessu sinni varðandi þessi atriði, því að hér er vitanlega alveg um grundvallaratriði að ræða. Ég óttast það, að afleiðingarnar í þessum efnum verði þær, eins og stundum áður, að útflutningsatvinnuvegirnir standi ekki mikið betur að vígi eftir breytinguna, og sá mikli vinningur, sem ríkisstj. hafði hugsað sér að fá út úr breytingunni, þ.e. að koma fram raunverulegri kauplækkun í landinu m.a. með því að slíta vísitöluna úr sambandi, verði léttvægur, hún tapi þeim leik eins og hún hefur tapað áður og kaupið komi til með að hækka bara eftir öðrum leiðum. Það gerist ekki jafnfriðsamlega eins og það gerðist með vísitölu í sambandi. Verkalýðsfélögin nota sér sinn rétt, og þau heimta nýja kjarasamninga, hækka sitt kaup í fullu hlutfalli við hækkandi verðlag í landinu. Ég held, að verkalýðssamtökin á Íslandi hafi alveg afl og getu til þess og þau muni gera það. Ég held, að ríkisstj. komist ekki upp með það, eins og háttað er hér hjá okkur, að koma fram þessari kjaraskerðingu. Og hverjir eru það svo, sem eiga að borga hið hækkaða kaup, þegar um það verður samið, vegna þess að verðlagið hefur hækkað? Útflutningsatvinnuvegirnir, atvinnuvegir landsmanna verða að borga það.

Hér er auðvitað um miklu fleiri, mjög mikilvæg atriði að ræða varðandi framkvæmdina á þessari fyrirhuguðu gengislækkun eða þessari nú ákveðnu gengislækkun. Ég vil t.d. benda á, að það liggur fyrir, að útvegsmenn, sem hafa verið að kaupa sér nýja báta til landsins að undanförnu, hafa blátt áfram orðið að sæta þeim kjörum samkv. fyrirskipun íslenzkra stjórnarvalda að taka að láni u.þ.b. 70% af andvirði hinna nýju báta til sjö ára í byggingarlandi bátanna, aðallega í Noregi, nokkuð í öðrum löndum. En nú hafa margir bátar verið keyptir til landsins með þessum kjörum, og skuldirnar eru gífurlega miklar. Skuldirnar út á nýju bátana aðeins í Noregi eru yfir 500 millj. kr. og þær eru allar í norskum kr. Það þýðir, að þessi skuldaupphæð hækkar í íslenzkum kr. um a.m.k. 170 millj. kr. Hér verður um gífurlega hækkun að ræða á þessum bátum, og þeir þurfa því eðlilega að fá meira fyrir þann afla, sem þeir skila á land. Það verður ekki hægt að komast hjá því, að síldaraflinn eða fiskaflinn yfirleitt verður að hækka í verði, annars geta þessir aðilar ekki staðið undir stórauknum rekstrarkostnaði. Veiðarfærin, sem keypt eru t.d. til síldveiðiflotans, eru mestmegnis nú orðið keypt frá Japan. Þau koma til með að hækka um 32.6% í verði. Við sjáum, að olían, sem fiskiflotinn notar, hækkar alveg fullkomlega til samræmis við hækkun erlendrar myntar eða um 32.6%. Ekkert liggur fyrir um það í sambandi við framkvæmdina á þessari gengislækkun, hvernig fer um fiskverðið, hvernig á að sjá þessum aðilum útflutningsins fyrir auknum tekjum. Það eina, sem hefur frétzt, er það, að sérfræðingar ríkisstj., sem reiknað hafa út gengisbreytinguna, hafa reiknað hana út á þeim grundvelli, að aflahlutur sjómanna megi ekki hækka í krónum, að kaup þeirra skuli standa óbreytt, og formaður Sjómannasambandsins, Jón Sigurðsson, hefur fundið sig knúinn til þess að gefa opinberlega yfirlýsingu um, að þessu mótmæli hann, og þetta skuli aldrei ná fram að ganga. En ætlunin hefur sem sagt verið sú, að reyna að halda kaupi sjómanna óbreyttu, þrátt fyrir þessa miklu verðsveiflu. En lítur ríkisstj. virkilega þannig á, að hún komist upp með slíkt, að fiskverð verði ekki að hækka allmikið við þessa miklu gjaldeyrisbreytingu? Og hvernig er þá ætlað að standa að framkvæmd þessara mála?

Ég held fyrir mitt leyti, að það sé enginn vafi á því, að ef ríkissjóður ætlar að taka til sín slíkan gróða, sem mér sýnist, að stefnt sé að með framkvæmd þessara mála, með því að halda í öllum aðalatriðum óbreyttum tollstigum og óhreyttri söluskattsprósentu og stinga í sinn vasa þeim 300 millj. kr., sem áður var ráðgert að rynni til útflutningsatvinnuveganna, og halda öllum þeim nýju tekjustofnum, sem ríkisstj. var með fyrri efnahagstill. sínum búin að gera ráð fyrir, ef á að framkvæma gengislækkun á þessum grundvelli, þá fer hún til fjandans á örstuttum tíma, og þá fær ríkisstj. uppreisn, einnig hjá útflytjendum í landinu, því að þeir þola þetta ekki, þegar þeir eru búnir að átta sig á því, að reiknimeistarar ríkisstj. hafi lagt grundvöllinn að framkvæmdinni á þennan hátt. Þetta mun ekki standast. Og þá er ég hræddur um, að þetta fari hvort tveggja um koll. Það verði ekki aðeins, að samtök launamanna komi til með að halda uppi sínum rétti og tryggja sig í framkvæmdinni, því að það efast ég ekkert um, að þau samtök muni gera, heldur fari það einnig svo, að hinn þátturinn, sem í þessu tilfelli snýr einkum að framkvæmdinni gagnvart ríkissjóði og svo atvinnuvegunum sjálfum, fái heldur ekki staðizt.

Ég veit, að það er þessi sterka tilhneiging, sem alltaf gerir vart við sig hjá öllum ríkisstjórnum, ég tala nú ekki um hjá öllum fjármálaráðherrum, og nú í seinni tíð einnig hjá seðlabankastjórum, að þessir aðilar vilja alltaf í sambandi við gengisbreytingu drýgja dálítið tekjur ríkissjóðs. Þeir segja: Nú er tækifærið að ná í dálítið auknar tekjur. Og þeir vilja því stinga á sig í leiðinni allmyndarlegum upphæðum og segja: Við skulum nú ekki lækka tollana nema lítils háttar og græða heldur á breytingunni, og við skulum heldur ekki lækka söluskattsprósentuna og græða heldur á breytingunni, og taka gömlu tekjustofnana, sem höfðu verið myndaðir til stuðnings útveginum, og renna þeim í ríkiskassann. Það er kannske mannlegt, að fjmrh. vilji þetta og ekki með öllu ómannlegt, þótt ríkisstj. fallist á þetta líka, því að henni þykir vænt um það að hafa svolítið rúmt um sig með fjárhag hjá ríkissjóði, og seðlabankastjórinn hugsar sér gott til glóðarinnar, eins og maður hefur svo sem oft orðið var við í málflutningi þeim megin frá. Hann segir: Það er gott að fá afgang hjá ríkinu, þá leggur ríkissjóður peninga inn í Seðlabankann, og Seðlabankinn fær allt önnur tök á fjármálalífinu á eftir. En ég segi það, að reynslan hefur alltaf orðið sú, að jafnvel þótt menn komist upp með þetta í fyrsta umgangi örstuttan tíma, fer það þannig, að ríkisstjórnirnar og Alþingi ráðstafa þeim fjármunum, sem koma inn í ríkissjóð, fljótlega, og það fer svo meira að segja, að seðlabankastjórinn heldur ekki þessum summum lengi, það verður stuttur tími. En hins vegar hefur þessi ranga pólitík í sambandi við framkvæmd á gengislækkun það í för með sér, að sú fjármálalega ráðstöfun, sem þar hafði verið fyrirhuguð, fer öll út í sandinn. Hún verður stuttur gálgafrestur, en hún leysir engan vanda. Það, sem vitanlega þurfti að gera, eins og ég hef bent hér á áður í umr. um þetta mál, eru þrjú atriði alveg fyrst og fremst, sem þarf að huga að í sambandi við framkvæmd á gengislækkun og sem skipta öllu máli um það, hvernig til tekst. Það er í fyrsta lagi, að það verður að framkvæma gengislækkun í fullu samráði og samstarfi við launþegasamtökin í landinu. Sé þar ekki um neitt samkomulag að ræða og menn fari þá leið, eins og nú er ætlazt til, að segja: Þið þarna á vinnumarkaðinum, þeir, sem stjórna verkalýðsfélögum og hinir, sem ráða fyrir atvinnufyrirtækjum í landinu, þið getið bara farið í deilu út af öllu saman og flogizt á um þetta, þá er það ófær leið, það er engin lausn. Fyrsta grundvallaratriðið er vitanlega það, að það takist fullt samráð og fullt samstarf um framkvæmdina við launþegasamtökin í landinu. En þetta hefur ekki verið uppfyllt í þessu tilfelli.

Annað meginatriðið er það, að stjórnarvöldin séu ákveðin í því að reyna að hamla gegn öllum verðhækkunum í landinu, sem hægt er að hamla gegn. Og þetta kallar auðvitað á það, að á ákveðnu tímabili eftir gengislækkun sé haldið uppi mjög öflugu verðlagseftirliti og þess sé vandlega gætt, að milliliðirnir taki ekki meira til sín en nauðsynlegt er.

Og í þriðja lagi þarf svo að sjá um það, einmitt vegna þess hvernig aðstæður eru hérna hjá okkur á Íslandi með tekjustofna ríkisins, að framkvæmdin verði sú, að ríkissjóður notfæri sér ekki ástandið rétt eins og venjulegur milliliður og hrifsi til sín þann hagnað, sem út af fyrir sig gat komið út úr gengisbreytingunni. Það verður að sjá um það, að ríkið sætti sig við svipaðar tekjur eins og áður, nema þá rétt að því leyti til sem útgjöld ríkisins vaxa við gengisbreytinguna. En mér sýnist fyrir mitt leyti, eins og ég hef rakið hér, að öll þessi þrjú meginatriði séu þverbrotin hér, þverbrotin. Og svo langt er gengið í þessum efnum, að það er jafnvel farið inn á alveg óvenjulegar brautir gagnvart útflutningnum, alveg nýjar og óvenjulegar brautir á neikvæðan hátt, því að nú er það ákveðið í fyrsta skipti í sambandi við gengisbreytingu, að útflutninginn, sem sagt var að þyrfti á gengislækkuninni að halda sér til stuðnings, því að hann væri svo illa kominn, á nú að beita þeim órétti, að það á að gera upptækan allan þann hagnað, sem kemur út úr þeim útflutningsbirgðum í landinu, sem fyrir liggja. Það hefur verið gert að vísu tvívegis áður, en ekki alltaf, þegar gengisbreyting hefur átt sér stað. Fyrst og fremst var það gert með gengisbreytingunni 1961 og að nokkru leyti 1960, en þá gilti nokkuð sérstakt um þessi mál, vegna þess að áður hafði verið í gangi útflutningssjóður, en nú er gert ráð fyrir því, að allur hagnaður, sem kemur til með að falla til af þeim birgðum, sem eru í landinu, skuli gerður upptækur og það er ekki hægt að sjá annað en það eigi að ráðstafa þessari upphæð í einhverjar almennar þarfir, sem kallaðar eru fyrir útveginn, en ekki sérstaklega fyrir hinn gangandi rekstur, sem um er að ræða. Ef ætlunin er t.d. að ráðstafa þessari fjárhæð í það, eins og mér hefur verið sagt, að komið hafi til mála, að greiða vanskilaskuldir vátryggingarkerfisins, sem nú munu vera orðnar 80–100 millj. kr., þá breytir það engu um afkomumöguleika og rekstur sjávarútvegsins á næstu árum. Þá er í rauninni alveg eins hægt að nota orðalag þess ráðh., sem hér var við völd árið 1961, og segja: Við tökum upphæðina og setjum hana í ríkiskassann. Því að raunverulega er það svo, að ríkið hefur átt að standa undir rekstri þessa sjóðs, a.m.k. að því leyti til, sem fram yfir var þá gjaldstofna, sem þar hafa hvílt á útveginum hingað til, og þar er ekki um neinn stuðning við rekstur útvegsins að ræða. En nú er ætlazt til meira. Nú er beinlínis gert ráð fyrir því að gera einnig upptækan þann hagnað, sem yrði af gengisbreytingu vegna framleiðslu, sem fellur til eftir gengisbreytingardag. Öll sú framleiðsla, sem verður til í des., á m.ö.o. að reiknast áfram í útflutningsverði á gamla genginu. Og það er auðvitað ekkert um það að villast, að hér er verið að búa til kerfi, sem þannig kemur út í reynd, að framleiðendur munu fá minna fyrir framleiðslu sína nettó í des. en þeir hafa fengið fyrir hana á undanförnum mánuðum, því að ýmiss konar framleiðslukostnaður mun verða allt annar í des. en hann hefur verið á undanförnum mánuðum. Olían hefur þegar hækkað í verði. Við vitum það, að margvísleg gjöld koma til með að hækka í verði. Það er alveg gefið mál, að sú vara, sem framleidd verður í des., verður flutt út úr landinu á miklu hærri flutningsgjöldum en gilt hafa hingað til. Nettógreiðslan fyrir afurðirnar verður minni en áður. Hvernig stendur á því, að þessi háttur er í fyrsta skipti tekinn upp nú? Það getur vitanlega ekki skýrzt með öðrum hætti en þeim, að þeir, sem hafa reiknað út gengisbreytinguna, hafa talið, að hún væri svo rífleg fyrir útflutningsatvinnuvegina, að það mætti taka nokkuð af henni og ráðstafa nokkrum hluta af þeim hagnaði, sem gengislækkunin gefur, í annað.

Þessi atriði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, varða öll í rauninni framkvæmdina á gengislækkuninni, og ég hygg, að ef framkvæmdin varðandi þessi atriði verður sú, sem ég hef hér reiknað með og þá skv. þeim upplýsingum, sem helzt liggja fyrir, þá sýnist mér, að það sé raunverulega stefnt að því að gera þessa gengislækkun fyrir ríkissjóð eftir stífustu kröfum Seðlabankans, en hagnaðurinn fyrir útflutninginn muni verða lítill. Og hér er auðvitað augljóslega einnig um þá framkvæmd að ræða, sem er mjög óhagstæð vinnandi fólki í landinu og mundi ábyggilega leiða af sér harðnandi átök á vinnumarkaði, og það kæmi mér ekkert á óvart, þótt ríkisstj. sannfærðist um það tiltölulega fljótlega, að þessi leið er í rauninni ófær. Það er ekki hægt að komast hjá því að gera ráð fyrir því, að laun séu verðtryggð, eins og nú hefur verið um skeið.

Rétt er svo einnig að minna á, að það er um meira að ræða varðandi verðtryggingu á launum en kaupið í þrengstu merkingu. l., um verðtryggingu launa frá 1964 gerðu einnig ráð fyrir því að verðtryggja ýmsar aðrar bætur eins og t.d. bætur skv. almannatryggingalögunum, ellilaun, örorkubætur og annan lífeyri. En nú er sem sagt ætlunin að hafa þetta ótryggt. Þau gerðu einnig ráð fyrir því að tryggja ýmsar lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum. Nú er ætlunin að afnema það. Þessir aðilar geta vitanlega ekki fengið fram rétt sinn með því að fara í verkföll og knýja fram kröfur sínar eftir þeim leiðum. Og í þessum lögum, sem nú er gert ráð fyrir að afnema, voru ákvæði um það að verðtryggja bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði, slysabætur og annað þess háttar.

Ég tel því, að með þessu frv. sé farið inn á ranga braut og mun beita mér fyrir því að flytja brtt. við frv. hér við 2. umr., sem fara í þá átt, að meginatriði úr l. frá 1964 um verðtryggingu launa verði tekin inn í þetta frv.

Ég skal svo láta máli mínu lokið hér við þessa 1. umr.