19.03.1968
Efri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég stend hér aðeins upp til þess að leiðrétta misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. 1. flm. þessarar till., þar sem hann gat þess að allir nm. í fjhn. að undanskildum formanni væru meðmæltir þessari till. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, kom þessi hugmynd fram í n. Það fór nú að vísu ekki, svo að ég muni a.m.k., fram nein allsherjar skoðanakönnun um það þar, hverjir væru með henni og hverjir væru á móti henni, og ég lýsti þá ekki neinni persónulegri afstöðu til þessarar till. frekar heldur en ég gerði í framsöguræðu minni í gær. Hins vegar er það rétt, að ég féllst ekki á það, að till. væri flutt af n. sem slíkri og tók það fram, að ef til þess ætti að koma, vildi ég fyrst segja hæstv. fjmrh. frá því, að n. hefði hug á slíku. Í því lá ekki, að það væri gert í þeim tilgangi að leita fyrirmæla hans um það, hvernig n. ætti að haga sér í þessu máli, heldur taldi ég, að þar sem um stjfrv. væri að ræða, sem lagt var fyrir af hæstv. fjmrh., væri það kurteisisskylda við hann að láta hann vita af því, ef n. sem slík flytti einhverja brtt., og er það alveg hliðstætt því að jafnvel þó að einstakur þm. hefði verið flm. að frv., sem n. hefði tekið til meðferðar, hefði ég alveg á sama hátt talið það kurteisisskyldu við viðkomandi þm. að láta hann vita um það, áður heldur en n. flytti slíka till. Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning varðandi þetta mál, en endurtek svo aftur það, sem ég sagði í minni framsöguræðu í gær, að auðvitað verður það d. að skera úr um þessa brtt.