27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Fyrir helgi vakti ég athygli á því, að hæstv. ríkisstj. hefði sýnt Alþ. heldur litla virðingu í sambandi við meðferð gengislækkunarmálsins, áður en það kom hér fyrir. Hér höfðu ekki verið gefnar neinar skýrslur um málið, og sú framsöguræða, sem hæstv. forsrh. flutti hér fyrir 1. fylgifrv., var ákaflega efnisrýr. Þessi vinnubrögð hafa haldið áfram af hálfu hæstv. ríkisstj. hér í umr. Hún hefur ekki tekið neinn þátt í umr. við hv. þm. og ekki látið svo lítið að svara fsp., sem fram hafa verið bornar aftur og aftur um ýmis mikilvæg efnisatriði þeirra frv., sem hér hafa legið fyrir. Þessum fsp. hefur alls ekki verið svarað.

Menn kasta því á milli sín hér, að ástæðan kunni að vera sú, að hæstv. ráðh. þekki ekki svörin við þessum spurningum. Til þess að við gætum fengið svör við þeim, þyrftum við að kalla hingað þá menn, sem raunverulega vita um hlutina og ákveða þá, þar á ég við hina háu efnahagssérfræðinga, Jónas Haralz og dr. Jóhannes Nordal. En ég hef samt eina spurningu, sem mig langar til að bera upp við tvo af hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., en sú spurning er þess eðlis, að þeir hljóta að geta svarað henni og þeir verða raunar að svara henni. Við eigum heimtingu á því að fá að vita um þau atriði, sem þar er fjallað um.

Það hefur verið minnzt á það hér í þessum umr., að hæstv. ráðh. hafi margsinnis að undanförnu og allt fram undir seinustu daga lýst því yfir, að það væri stefna þeirra, að gengið skyldi ekki verða fellt. Sú afsökun hefur komið fram á prenti fyrir því, að þeir hafi gjörbreytt um stefnu, að brezka stjórnin hafi sett þá í þann vanda, að þeir hafi orðið að taka gengi ísl. kr. upp til nýrrar yfirvegunar. En í öðru aðalmálgagni ríkisstj. í gær er birt allt önnur skýring. Og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa svolítinn kafla úr forustugrein Alþýðublaðsins í gær. Þar segir svo:

„Stjórnarandstaðan hefur í umræðunum um gengisbreytinguna notað eitt árásarefni á ríkisstj., sem ekki er margtuggið áður. Það er sú óneitanlega staðreynd, að ráðh. hafa undanfarna mánuði afneitað gengislækkun og hvað eftir annað sagt opinberlega, að til hennar væri ekki ætlunin að grípa. Af hverju gáfu Bjarni Benediktsson og Gylfi Þ. Gíslason slíkar yfirlýsingar, þótt þeir hafi án efa skilið betur en flestir aðrir, að gengi krónunnar kynni að falla innan fárra mánaða? Svarið er augljóst. Þeim bar sem ráðh. skylda til þess. Ráðh. verða að halda uppi trausti á gjaldmiðlinum, enda þótt það kosti yfirlýsingar, sem þeir vita sjálfir, að kunna að reynast rangar eftir skamma stund. Hvað mundi gerast, ef forsrh. eða viðskmrh. væru í ræðum sínum með vangaveltur um, að gengi krónunnar kynni að falla? Það mundi þegar tekið sem yfirlýsing um gengisfall, allt traust á gjaldmiðlinum mundi hverfa og gjaldeyrisbrask hefjast í stórum stíl. Slíkt má ekki koma fyrir. Þess vegna verða ráðh. að andmæla gengislækkun fram á síðustu stund. Stjórnarandstaðan ræðst persónulega á Bjarna og Gylfa í þessu máli, en henni mun ekki takast að varpa skugga á heiðarleik þeirra eða trúmennsku í starfi. Þeim bar skylda að tala eins og þeir gerðu, hvað sem á gekk. Ef þeir hefðu gert annað, hefðu þeir valdið þjóðinni stórfelldu tjóni og brugðizt skyldu sinni.“

Hér er því haldið fram, að þessir hæstv. ráðh. hafi gert sér grein fyrir því þegar fyrir nokkrum mánuðum, að gengið mundi falla og það hafi verið vísvitandi ósannindi, þegar þeir staðhæfðu annað. Því er haldið fram hér, að það hafi verið vísvitandi ósannindi, þegar hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, lýsti því yfir, bæði fyrir kosningar og hér í upphafi þings í stefnuyfirlýsingu sinni, að gengið yrði ekki fellt, og þegar lagt var fyrir hér frv. um efnahagsaðgerðir og hann sagði, að það væri gert til þess að komast hjá gengisfellingu, hann hefði þar farið með vísvitandi ósannindi. Því er einnig haldið fram, að hæstv. viðskmrh. hafi, þegar hann kom fram í sjónvarpi í haust í ágústmánuði og lýsti þar yfir því, að ekki yrði gripið til gengislækkunar, farið með vísvitandi ósannindi — að vísu af hinum göfugustu hvötum, eins og tekið er fram í forustugreininni, en engu að síður, þetta hafi verið skýringin. Nú væri það ákaflega fróðlegt að vita, hvort þetta er svona, því að hvað hefur þá verið að gerast hér á Alþingi?

Þegar hæstv. forsrh. kom hér og lagði fyrir frv. um efnahagsaðgerðir, sagði hann, að það frv. væri borið fram, vegna þess að ríkisstj. vildi koma í veg fyrir gengislækkun. Það hafi orðið að leggja á þjóðina byrðar, sem áttu að hafa þau áhrif, að hægt væri að komast hjá gengislækkun. Vissi hæstv. ráðh. þá, að gengislækkun mundi koma nokkrum víkum seinna?

En nú standa sakir þannig, að við fáum fyrst yfir okkur ráðstafanirnar, sem áttu að koma í veg fyrir gengislækkun, og síðan gengislækkunina sjálfa. Við fáum hvort tveggja, og það er ekki að sjá, að hæstv. ríkisstj. ætli að aflétta hinum fyrri ráðstöfunum, enda þótt hún hafi orðið að lækka gengið mjög stórlega.

1. gr. þessa frv., sem við erum að fjalla hér um í dag, mælir svo fyrir, að launafólk skuli 1. des. fá kauphækkun, 3.39%, sem stafar af verðhækkunum, sem ríkisstj. ákvað í októbermánuði til þess að koma í veg fyrir, að gengið væri lækkað, eins og hún sagði þá. Þessar verðhækkanir hafa ekki verið teknar til baka. Væri það ekki eðlileg ráðstöfun, hafi ríkisstj. verið alvara, þegar hún lagði fram hið fyrra frv. sitt? Hafi henni verið alvara með það þá að lækka ekki gengið, væri það þá ekki eðlileg og óhjákvæmileg ráðstöfun, að hún hagnýti m.a. gengislækkunina til þess að taka upp aftur niðurgreiðslur á þessum vörutegundum, á mjólk og kjöti og kartöflum, sem einmitt eru þær vörutegundir, sem viðkvæmastar eru fyrir það fólk, sem hefur erfiðust kjör í þjóðfélaginu? Hæstv. forsrh. sagði hér í dag, að atvinnuvegirnir gætu borið þessi 3.39%, sem ákveðið er, að launafólk fái greidd 1. des. Ef ríkisstj. tæki aftur upp niðurgreiðslur á þessum vörum, sem hún hækkaði sjálf, liggur sú staðreynd fyrir samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh., að atvinnuvegirnir geta risið undir nærri 31/2% kauphækkun. Sérfræðingar ríkisstj. segja, að gengislækkunin muni leiða yfir okkur 6–7% hækkun á almennu verðlagi. Margir trúa þeim spádómi að vísu varlega, en við skulum láta ríkisstj. vera með sínar eigin tölur. Þá liggur það fyrir samkv. mati hæstv. forsrh., að atvinnuvegirnir geta á þessari stundu greitt í hækkuðu kaupi helming þessarar upphæðar. Ef ríkisstj. er í raun og veru alvara með það að leggja eitthvað fram til þess að stuðla að vinnufriði í landinu, eins og hæstv. forsrh. sagði hér í þessum stól áðan, væri þetta aðgerð, sem lítandi væri á. Þá væri ekki eftir nema hluti af þeim stórfellda vanda, sem verkalýðshreyfingin hlýtur að leysa og mun leysa. En að sjálfsögðu er það þýðingarmikið fyrir þjóðfélagið, að sá vandi sé sem minnstur, sem verkalýðsfélögin verða að leysa með því að beita afli samtaka sinna.

En í sambandi við þessa 1. gr. og þá kauphækkun, sem á að koma til framkvæmda 1. des., væri raunar einnig fróðlegt að fá vitneskju um annað, og það er, hvaða ráðstafanir verða gerðar til þess, að þar verði um raunverulegar kauphækkanir að ræða. Við þekkjum ósköp vel þróunina, hvernig hún tíðkast hér á Íslandi. Það er samið um kauphækkun. Allir þeir atvinnurekendur, sem kost hafa á, velta henni af sér út í verðlagið, allir þeir, sem framleiða fyrir innlendan markað, eða þeir, sem gegna þjónustustörfum hér innanlands. Mér er spurn: Á þetta að gerast eftir 1. des.? Eiga þessar litlu bætur, sem launafólk á að fá, að hverfa aftur þegar næstu daga á eftir með því móti að það sem fólkið þarf að kaupa, sú þjónusta, sem það þarf að nota, verði allt saman þeim mun dýrara?

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég kom hingað aðeins til þess að biðja hæstv. ráðh. að svara þeirri spurningu, sem ég bar fram í tilefni af forustugrein Alþýðublaðsins. En ég vildi beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál núna, að mér finnst það gersamlega fráleit vinnubrögð að ætlast til þess, að Alþ. samþykki nýjan vísitölugrundvöll, eins og felst í þessu frv., án þess að sá grundvöllur hafi verið fyrir okkur lagður. Hér var lagður fram fyrir nokkru sem svar við fsp. frá mér útdráttur úr þessum grundvelli, en að sjálfsögðu er það algerlega óhjákvæmilegt, að þessi grundvöllur, eins og hann er, verði prentaður og honum dreift hér í þingsalnum. Þetta eru engin vinnubrögð að ætlast til þess, að þm. samþykki vísitölugrundvöll, án þess að hafa fengið hann í hendur.