16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessu frv. væri ekki ætlað að breyta þeim reglum, sem gilt hefðu varðandi byggðirnar utan þéttbýlissvæðis þess, sem um ræðir í aths. við frv. Þetta er nú svona og svona skýring. Í 2. og 3. gr. frv. segir svo, með leyfi hv. forseta: „2. gr. Það skal vera meginregla, að ríkið leggi ekki starfsmönnum sínum til húsnæði, nema því aðeins, að þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera slíkt nauðsynlegt. Þó skal heimilt að leggja til húsnæði þeim starfsmönnum, sem vegna sérstakra gæzlustarfa þurfa að búa á vinnustað.“ Og í 3. gr. segir svo: „ Hlutaðeigandi ráðh. ákveður í samráði við fjmrh., hvar ríkið skuli leggja starfsmönnum til íbúðarhúsnæði samkv. lögum þessum, eftir þeim meginreglum um svæðaskiptingu, er settar verða í reglugerð, sbr. 11. gr.“ Í þessu finnst mér þvert á móti felast töluvert mikil breyting. Og það verður sérstaklega ljóst, ef litið er á 12. gr., þar sem segir, að úr gildi skuli falla lög, sem þar eru til tekin, en það eru þau lög, sem fjalla um embættisbústaði presta, dómara, dýralækna og ýmissa starfsmanna í skólakerfinu. Þetta er töluvert mikil breyting og töluvert veigamikið mál, sem þarna er um að ræða. Nú er ástandið þannig, eins og alkunna er, að það er mjög erfitt að fá embættismenn til starfa víðs vegar um landið. Þess vegna er það, að ég álít mjög vafasamt og raunar alls ekki rétt að gera svo róttæka lagabreytingu varðandi þessi mál, sem ætlað er með þessu frv. Því það, sem gerist í raun og veru, ef frv. nær samþykki, er það, að lagaskyldan er afnumin, en hins vegar er lagt á vald ráðherra hverju sinni að ákveða, hvar ríkið skuli byggja yfir sína starfsmenn. Ég get ekki fallizt á það, að það sé rétt að gera svo róttæka lagabreytingu nú, eins og málin horfa við. Hins vegar má það vel vera, og ég skal ekki mótmæla því, að það sé ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar og e.t.v. að afnema byggingarskylduna á tilteknum svæðum.

Það kemur fram hér í grg. og það kom fram í fjhn., þegar hæstv. fjmrh. kom til viðtals við n., að það sé alls ekki fyrirhugað á þessari stundu að láta ríkið hætta að eiga húsnæði í hinum ýmsu byggðarlögum utan allra mestu þéttbýlissvæðanna. En þó að það sé ekki fyrirhugað nú, þá er það ekki að mínum dómi nægileg ástæða til þess að fallast á það frv., sem hér liggur fyrir. Ég álít, að það eigi að setja bein ákvæði um þetta í lögin, en að mínum dómi er málið ekki lagt þannig fyrir, að ég telji mig hafa grundvöll til þess að byggja á till. um það í einstökum atriðum, hversu skipta skuli svæðum í þessu tilliti. Ég tel mig ekki hafa aðstöðu til að gera það og hef þess vegna leyft mér með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, og sérstaklega vegna þess, að ég tel ekki málið nægilega undirbúið, að leggja til, að því verði vísað frá með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem miklir og vaxandi erfiðleikar eru á því að fá menn til að gegna embættisstörfum víða um land og mál þetta virðist hafa fengið fremur einhliða undirbúning, þá telur deildin ekki tímabært að afnema með öllu lagaskyldu ríkisins til að byggja íbúðarhúsnæði fyrir ákveðnar starfsstéttir í þjónustu ríkisins, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“