27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hann las kafla úr forustugrein Alþýðublaðsins í gær, las auðvitað rétt eins og hans var von og vísa, en túlkaði það, sem hann las, rangt. Hann las þessa setningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hverju gáfu Bjarni Benediktsson og Gylfi

Þ. Gíslason slíkar yfirlýsingar, þótt þeir hafi án efa skilið betur en flestir aðrir, að gengi krónunnar kynni að falla innan fárra mánaða.“

Ræðan var um það, bollaleggingar um það, hvort við forsrh. hefðum sagt ósatt í því, sem við sögðum um gengismál í sumar og haust, hvernig það mætti vera, að við gætum gefið yfirlýsingar um það, að gengið mundi ekki falla, ef við hefðum vitað, að það mundi falla, sagði hv. þm. Hann átti að segja, ef við hefðum vitað, að það kynni að falla, sem er auðvitað annað. (MK: Þarna er vitnað í erlenda ráðh., sem …) Ég er að tala um, hvað hér hefur átt sér stað. Ég vildi aðeins benda á og vekja athygli á því, undirstrika sérstaklega, að ég hef aldrei sagt í nokkurri ræðu eða nokkurri grein og mér vitanlega ekki hæstv. forsrh. heldur, að gengi krónunnar mundi ekki falla. Þau orð hafa aldrei verið prentuð eftir mér, enda aldrei sagt slík orð. Það, sem ég hef sagt hvað eftir annað og mælt af hreinskilni og af beztu vitund, var það, að ég teldi, að það væri stefna míns flokks og ríkisstj. að vinna gegn því, að krónan félli, enda var það svo. Ríkisstj. hefur miðað stefnu sína um langt skeið undanfarið við það, að komizt yrði hjá gengisfalli. Við höfum gert okkur algerlega ljóst, að það væri erfið braut, meira að segja mjög erfið braut, og við undirbúning till. undir upphaf þingsins var stefna okkar enn sú að reyna að komast hjá því, gera allt, sem í okkar valdi stæði, til að komast hjá því, að gengi krónunnar þyrfti að falla. Það var ekki af því, að við héldum, að þær ráðstafanir, sem við gerðum till. um í upphafi þings, væru nægilegar til þess að leysa allan efnahagsvanda þjóðarinnar, meira að segja ekki á þessu ári. Við vissum vel, að vandi útflutningsatvinnuveganna var óleystur, við höfum aldrei dregið minnstu dul á það. En við töldum í þingbyrjun, að við hefðum ekki skilyrði til þess að sjá út yfir þann vanda. Við höfðum þá ekki skilyrði til þess að gera okkur grein fyrir því, hversu stór hann væri. Og þess vegna vildum við láta tillögugerð um það efni bíða til seinni starfsmánaða þingsins, til áramótanna. Það er um það leyti, sem vandamál útflutningsatvinnuveganna venjulega hafa verið rædd og eru leyst og við töldum eðlilegt, að eins skyldi farið að nú í þetta skipti. Það er auðvitað hægt að tilfæra um það mörg dæmi, að við gerðum okkur þetta ljóst og drógum á það enga dul. En þegar svo hins vegar það gerist, sem kom okkur á óvart, þegar það gerðist, að Bretar felldu sterlingspundið, fannst okkur algerlega nýtt viðhorf blasa við. Og þá tókum við okkar fyrri stefnu upp til endurskoðunar. Það vona ég, að þurfi engum að vera til minnkunar, þótt hann, við algerlega breyttar aðstæður, taki sína stefnu upp til endurskoðunar. Það lá lengi vel ekki ljóst fyrir, ég segi fyrir mitt leyti og tala þar ekki fyrir hönd neins annars, það tók mig nokkurn tíma og mikla umhugsun að gera mér grein fyrir því, hvort halda ætti fast við fyrri stefnu og leysa vandamál útflutningsatvinnuveganna um áramótin eftir svipuðum leiðum og þau hafa verið leyst nokkur undanfarin ár eða hvort gerbreyta ætti um stefnu í lausninni, sem var til umr. varðandi útflutningsatvinnuvegina, og breyta genginu.

Auðvitað hefur, held ég, öllum mönnum verið það ljóst í marga mánuði, jafnvel 1–2 ár, að gengi brezka sterlingspundsins kynni að falla. Þarna eiga við þau orð, sem leiðarahöfundur Alþýðublaðsins notar. Það hefur öllum mönnum verið ljóst, að svo kynni að fara, einkum síðustu mánuði, að gengi sterlingspundsins kynni að falla, en það var hins vegar ástæðulaust fyrir okkur að vera með nokkra spádóma eða getgátur um það og enn þá óskynsamlegra að miða okkar aðgerðir við það hér heima, að brezka pundið kynni að falla. Það gerðum við heldur ekki. Þótt okkur grunaði, a.m.k. marga, eins og menn, sem fylgjast með í efnahagsmálum og fjármálum um allan heim, að svo kynni að fara, var ég og er enn þeirrar skoðunar, að það hefði verið rangt að miða stefnu okkar í efnahagsmálum t.d. við upphaf síðasta Alþ. við það, að brezka pundið kynni að falla, enda gerðum við það ekki. Stefna okkar var einmitt miðuð við það, að brezku stjórninni tækist að vernda pundið, tækist að varðveita gengi pundsins. En það jafngildir svo hins vegar ekki því, að það er algerlega nýtt viðhorf fyrir okkur eins og aðrar miklar viðskiptaþjóðir Breta, þegar gengi sterlingspundsins síðan var fellt. Eins og ég sagði áðan, komst ég að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti, það gerði minn flokkur, það gerði ríkisstj. í heild og hennar stuðningsflokkar, að það væri rétt stefna, sem tekin var, að við ættum að endurskoða okkar fyrri afstöðu og breyta stefnunni. Það gerðum við, — ég segi ekki: „Það játa ég hiklaust,“ heldur vek ég athygli á því. Það þýðir ekki, að það, sem við höfðum lagt til í þingbyrjun, hafi verið rangt. Ég tel enn, að það hafi verið rétt miðað við þær aðstæður, sem þá voru, og bak við það var jafnmikill sannfæringarkraftur og bak við hitt, að gengisbreytingin var rétt miðað við þær aðstæður, sem sköpuðust eftir fali sterlingspundsins.