16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var fyrst og fremst út af fsp. frá hv. 3. þm. Vesturl. Hann spurðist fyrir um það, hver áhrif þessi lög mundu hafa á læknisbústaði. Þessi lög hafa ekki áhrif á læknisbústaði. Það er tilgreint í 12. gr. frv., hvaða lög falla úr gildi af þeim lögum, þar sem gert er ráð fyrir embættisbústöðum. Læknisbústaðir eru samkv. þeim lögum, sem um þá gilda, eign læknishéraðs, og þar er aðeins um að ræða framlag ríkissjóðs til þeirra bygginga, og það er ekki gert ráð fyrir því, að það breytist með þessum lögum.

Ég tek undir það, sem hv. þm. sagði, að mér skilst, að hér séu menn yfirleitt ekki að deila um efni málsins, heldur aðeins það, að menn séu óánægðir með það annars vegar að auka vald ráðh. í þessum efnum og hins vegar, að það skuli ekki vera skýrar markað beinlínis í l. sjálfum, til hvaða landssvæða þau eigi að taka. Vitanlega hefði það verið æskilegast, að allir gætu orðið um þetta sammála, en úr því að menn efnislega eru sammála um málið, þá fæ ég nú ekki séð, að þessir þættir séu í það veigamiklum atriðum á annan veg en menn almennt mundu kjósa, að ástæða sé til þess að vera á móti frv. af þeirri orsök. Mér finnst það vera ákaflega erfitt í almennum lögum að fara að setja beinlínis ákvæði um það, hvaða landssvæði skuli falla undir lögin. Vitanlega getur þetta orðið breytingum undirorpið, og þetta verður að metast og það verður metið, eins og ég áðan sagði, út frá vissum grundvallaratriðum. Og það, að hér sé verið að auka vald ráðh., er í rauninni meira og minna formsatriði, vegna þess að hingað til hefur ráðh. ráðið því, hvaða embættisbústaðir hafa verið byggðir innan ramma þeirra laga, sem um það hafa gilt. Alþ. hefur ekki ákveðið hverju sinni, í hvaða embættisbústað væri veitt fé, heldur hefur verið varið einni heildarupphæð til tiltekinna tegunda embættisbústaða og ráðh. síðan ákveðið, hvernig því hefur verið ráðstafað, þannig að mér finnst við hér vera að deila um keisarans skegg að þessu leyti. Hins vegar er beinlínis tekið fram, að ráðh. er að því leyti bundinn hér eftir, að hann getur ekki ráðizt í nein slík kaup eða byggingu, nema hafa fengið sérstaka fjárveitingu frá Alþingi til þess, þannig að það er alls ekki verið að taka vald af Alþ. í þessu sambandi.

Ég mundi því telja, að skoðanir okkar allra séu svo skyldar í þessu efni, að það ætti ekki að þurfa að valda deilum um efni þessa máls. Komi fram síðar óánægja um það, hvernig ráðh. túlki þessi lög, þá er auðvitað alltaf hægurinn hjá að breyta l., þannig að þingið afsalar sér á engan hátt þeim rétti, þó að frv. yrði samþ. í þeirri mynd, sem það nú er í. Ég vildi nú þess vegna mega leyfa mér að vænta þess, að menn gætu fallizt á að samþykkja málið. Ég tel það mikils virði, að þessi stefna verði mörkuð og eins og hér var bent á, með því að spara fé til embættisbústaða í þéttbýli, verður auðvitað auðveldara um vik að leysa þá e.t.v. vandamálin annars staðar. Og ég álít, að það sé mikilvægt að fá þessa löggjöf ákveðna nú, vegna þess að það eru umsóknir uppi um byggingu ýmissa embættisbústaða hér í þéttbýlinu, þannig að meðan lög um það efni eru í gildi, þá auðvitað verður mjög erfitt um vik að standa gegn þeim óskum, og það er ástæðan til þess, að ég vildi leggja áherzlu á, að hv. þm. gætu fallizt á að samþykkja frv. eins og það er.

Varðandi biskupsmálið vil ég ekkert frekar segja. Ég endurtek aðeins það, sem ég hef sagt, þó að ég geti ekki fallizt á skoðun hv. 6. þm. Reykv. um það efni, að hér sé ekki galli á málatilbúnaði. Það var hins vegar algerlega eðlilegur málatilbúnaður að leggja til, að biskupsbústaður væri tekinn út úr frv. út af fyrir sig. Það var hrein og afdráttarlaus ákvörðun um það, að hann ætti ekki hér að vera. Ég get alveg fullvissað hv. þm. um það, að ég er andvígur því, að það verði farið að setja upp mörg biskupsembætti hér á Íslandi, þannig að okkur ber ekki á milli í því efni. Varðandi það atriði, að bústaðurinn var yfirleitt tekinn inn í frv., held ég, að ég hafi nú gert grein fyrir því í framsögu um málið, að Alþingi sjálft hefur nú um nokkurt bil veitt í fjárlögum sérstaka fjárveitingu til biskupsbústaðar í Reykjavík, þó að um það gildi engin sérstök lög. Þá hefur það lýst vilja sínum í þessu efni og á þeim grundvelli var það, sem ráðizt var í kaup á biskupshústað. Og með hliðsjón af þessari ákvörðun Alþ. þótti óeðlilegt, að svo yrði lagt til núna að fella niður þennan bústað hér, enda er sannleikur málsins sá, þó að menn kunni að greina á um þetta, að auðvitað er ekkert sambærileg nauðsyn biskups hér að hafa bústað eða presta í Reykjavík, bæði miðað við launakjör biskups og presta og miðað við þá risnu, sem biskup þarf að hafa í sambandi við bæði innlenda og erlenda gesti. Ég skal svo fullkomlega fallast á það, að það má deila um það, hvort yfirleitt eigi að hafa biskupsbústaðinn engu að síður, en þá á Alþ. bara að taka rögg á sig og segja til um það, og þeir, sem eru á móti því, eiga þá einfaldlega að flytja till. um að fella þetta niður, en ekki að reyna að komast að málinu með krókaleiðum, eins og hér er gert, sem verða aðeins til að klúðra frv., sem um er að ræða.