16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

176. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að sú breyting verði gerð á l. um vernd barna og ungmenna, að menntmrh. verði heimilað að fela félagsmálaráði Reykjavíkurborgar störf barnaverndarnefndar í Reykjavík að nokkru eða öllu leyti og verði kveðið nánar á um starfssviðið í reglugerð. Frv. þetta er flutt að ósk borgaryfirvalda og í beinu framhaldi af nýskipan félagsmála í Reykjavík og stofnun félagsmálaráðs Reykjavíkurborgar frá því í júlí á s.l. ári, en samþykkt fyrir félagsmálaráðið fylgir frv. sem fskj.

Með stofnun félagsmálaráðs var að því stefnt að samræma félagsmálastörf Reykjavíkurborgar, sem áður höfðu lotið nefndum og ráðum, sem fóru þá hvert um sig með ákveðinn, afmarkaðan þátt félagsmála. Hins vegar var það ljóst orðið, að nauðsyn var á að samræma þessi störf, og var með stofnun félagsmálaráðs einmitt að því unnið. Það er a.m.k. að svo stöddu ekki ætlunin, að félagsmálaráði verði falin öll þau störf, sem barnaverndarnefnd hefur með höndum. Það er ætlunin, að barnaverndarnefnd fari áfram með vissa þætti þeirra starfa, sem hún nú sinnir, þ. á m. úrskurði hún um vistun og forræði barna, veiti umsagnir og hafi auk þess með hendi eftirlitsstörf með ýmsum stofnunum, og er frá þessu greint í aths. við lagafrv. Starfssvið félagsmálaráðs, eins og það er ákveðið í samþykkt þess, kallar á breytingar á nokkrum lögum og þ. á m. á lögum um vernd barna og ungmenna. Það má minna á það, að Alþ. hefur nú fyrir örfáum vikum síðan afgreitt sem lög breytingu á framfærslulögum, þar sem félagsmálaráði Reykjavíkurborgar eru falin störf framfærslunefndar í Reykjavík. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. Það hefur verið til athugunar hjá menntmn. þessarar hv. þd., og n. leggur einróma til, að frv. verði samþ.