01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

18. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. því til l. um veitingu ríkisborgararéttar, sem hér er til umr., var vísað til allshn. Mál þetta hefur þar hlotið hefðbundna meðferð, sem er sú, að allshn. beggja d. hafa starfað saman, kosið fjögurra manna undirnefnd. Síðan hefur þessi undirnefnd ásamt skrifstofustjóra Alþ. farið yfir allar umsóknir þeirra 11 einstaklinga, sem 1. gr. frv. greinir frá, og öll fylgigögn með þeim umsóknum. Síðan hefur n. einnig farið yfir fjölda umsókna, sem bárust, eftir að þetta frv. var lagt fram á Alþ. í haust, en þessar umsóknir berast eins og kunnugt er til dómsmrn. og síðan eru þær sendar til skrifstofu Alþingis. Þar lá fyrir fjöldi umsókna og þessi undirnefnd fór einnig gegnum þær, og varð það niðurstaðan af þessum athugunum undirnefndarinnar að staðfesta í fyrsta lagi umsóknir þeirra 11 einstaklinga, sem upp eru taldir í 1. gr. frv. Við umsóknir þessara aðila var ekkert að athuga. Enn fremur varð það niðurstaðan að af þeim umsóknum, sem síðar komu fram, skyldu teknar til greina umsóknir frá 28 einstaklingum, en frá þeim greinir í brtt. allshn. á þskj. 461. En tveimur eða þremur umsóknum var hafnað, þar sem umsækjendurnir uppfylltu ekki. þau skilyrði, sem farið er eftir. En skilyrði þau, sem sett eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar og allshn. og Alþ. hefur miðað við síðustu árin, hafa í raun og veru verið að mestu leyti hin sömu frá því á árinu 1955, þó með minni háttar breytingum, en þessar reglur, sem nú er farið eftir, eru teknar upp í nál. allshn. á þskj. 460. Allshn. varð síðan sammála því, sem undirnefndin hafði gert, og leggur allshn. til, að þetta frv. verði samþ. með þeim breytingum,sem greinir á þskj. 461. En rétt er þó að vekja athygli á því, að tveir umsækjenda, sem teknir eru upp í brtt. á þskj. 461, umsækjendur nr. 19 og 20, uppfylla ekki að fullu skilyrðið um dvalartímann hér á Íslandi. En það var mjög skammt í land og þess vegna voru umsóknir þeirra teknar til greina með þeim fyrirvara, að þessir aðilar fengju réttinn síðar á tilteknum tíma, nr. 19 21. júní 1968, nr. 20 24. maí 1968, þannig að það eru ekki nema örfáar vikur þangað til þetta fólk fær ríkisborgararéttinn samkv. þessu frv. Þótti eðlilegra að taka þetta til greina með þessu skilyrði, eins og tíðkazt hefur áður, heldur en að láta þetta fólk bíða ákvörðunar næsta Alþ.

Þá er enn fremur rétt að vekja athygli á brtt. undir h-lið á þskj. 461. Þar er einungis um leiðréttingu að ræða. Við athugun kom í ljós skekkja, þar sem umsækjandi nr. 5 í 1. gr. frv. var sagður fæddur í Færeyjum í apríl 1945, en átti að vera 1942, og það er leiðrétt með þessari brtt. Ég endurtek síðan, að allshn. varð sammála um að leggja til, að þetta frv. yrði samþ. með þeirri brtt. á þskj. 461, sem ég hef gert grein fyrir.