27.11.1967
Neðri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að líkjast Perikles sáluga með það að vera stuttorður í þetta sinn. Það mál, sem hér er verið að ræða, er um vísitölubindinguna eiginlega. Þess vegna er óþarfi að dreifa umr. allt of mikið.

Skoðun mín er sú, að ríkisstj. vinni atvinnuvegunum ekkert hagræði með því að binda ekki vísitöluna áfram eða ákveða hana ekki áfram. Ég held, að það verði ekki hagkvæmara fyrir atvinnurekendur eftir áramótin að þurfa að taka upp samninga í hinum einstöku félögum. E.t.v. semja viss félög þannig, að þau hækka grunnkaup, önnur taka vísitöluna og þetta verður ringulreið á samningunum, þannig að ég er sannfærður um, að það verður ekkert hagræði fyrir atvinnurekendur. Mér dettur ekki í hug að ímynda mér, að það verði hægt að fá t.d. launalækkun hjá hásetum á fiskiskipum, því að sannleikurinn er sá, að hlutur þeirra er ekki of góður. Þeir einu, sem gætu lækkað laun sín og lifað þó nokkurn veginn sæmilegu lífi eftir sem áður, væru náttúrlega yfirmennirnir á skipunum, en það hefur alltaf gengið fullilla að fá nokkra lækkun þar og í flestum samningum hefur þeim heldur verið ýtt upp á við en hitt. Ég hygg, að það verði eins með fólkið, sem vinnur í frystihúsunum, og það mun auðvitað ganga alls staðar. Það mun vera ákaflega erfitt að taka ekki þátt í þeim hækkunum, sem verða á því, sem fólkið þarf að kaupa, og það efast ég um, að verði gert með sanngjarnara móti en með vísitölunni. Og ég held, að það sé nokkurn veginn samkomulag um, að þessi nýja vísitala eigi að geta sýnt öllu gleggri mynd af hinum raunverulega kostnaði en sú eldri, og það er vel, ef launþegum og vinnuveitendum kemur saman um það, og ég hef ekki trú á, að ríkisstj. vinni atvinnuvegunum neitt hagræði með þessu. En þó að maður hafi þessa skoðun, er náttúrlega hvað snertir samninga aldrei hægt að fullyrða neitt. En þetta er mitt álit. Ég held, að það eigi við að fara aðra leið, og það er fyrst og fremst á valdi ríkisstj. og flokka, sem hana styðja, að fara hana. Og það er að lækka útgjöldin á fólkinu.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði hér um daginn, en ég held, að það sé fyrst og fremst leiðin, sem á að fara. Við vitum það, að gengislækkanir hafa yfirleitt allar unnið sig upp. Ég ætla ekki að ráðast á ríkisstj. fyrir það, að hún auglýsti ekki, að hún ætlaði að fella gengið. Í fyrsta lagi hef ég persónulega þá skoðun, að hæstv. ríkisstj. hafi aldrei ætlað að gera það fyrr en eftir áramótin, þegar Wilson kom henni til hjálpar núna. Í öðru lagi er það nú sannleikur málsins, að það er gersamlega ómögulegt fyrir ríkisstj. að vera að hampa því framan í fólkið fleiri mánuðum áður en gengi er breytt, að það eigi að fella gengið. Hitt vissu allir menn, sem kunnugir voru útflutningsatvinnuvegunum, að gengið hlaut að falla, áður en langt um leið. Og persónulega leit ég þannig á, að það mundi ekki verða fellt fyrr en eftir áramót, en þá mundi það verða fellt eða lækkað til þess að koma frystihúsunum af stað, m.ö.o. til að fá hjólið til að snúast, því að það var við það að stöðvast, bæði fyrir iðnaðinn o.fl. En það er rétt, sem hv. 4. þm. Austf. hélt fram, að gengislækkun étur sig yfirleitt upp. Og þó að ég álíti, að hann fari nú ekki alveg rétt í smáatriðum með vissa hluti, eins og með að ríkið borgaði einhvern hlut af tryggingum af bátum og fleira var það nú eitthvað, þá var útreikningur hans í stórum dráttum réttur varðandi frystihúsin.

En það er ótalmargt, sem við gætum lækkað, ótalmörg útgjöld, sem snerta atvinnuvegina beint. Ég er ekki sammála hv. 3. þm. Vesturl. um það, að það eina, sem eftir sé af þessum júnísamningum, sé vísitalan á þessi húsnæðismálalán. Það er einkennilegt, hve margir virðast alltaf gleyma nema annarri hlið málsins, þ.e. þeirri, sem að launþegum snýr, og er ekkert nema gott um það að segja að lita sanngjarnlega á þeirra mál. En þeir eru fleiri en hinir. En það var bæði hækkað orlof og launaskattur, sem var laumað á atvinnurekendurna þá, og satt að segja var ég aldrei hrifinn af þessum samningi og álít vísitöluliðinn vera það sanngjarnasta í honum. En ég held, að úr því að á að afnema hann, væri nú þrifnaðarráð að afnema þetta allt saman, sem gert var þá, og taka þá alveg upp nýja samninga.

Það er fleira, sem snýr að okkur, einmitt að þinginu, sem er kannske hvað ranglátast í öllum þessum kaupgjaldsmálum. Og yfirleitt hefur það verið mín skoðun, að þegar ríkisvaldið fer að skipta sér af launamálunum, sé það yfirleitt frekar til ills en góðs. T.d. er engin sanngirni í þessu að borga orlof á hlut hálaunaðra manna eða umframvinnu. Fyrst var þetta bara miðað við dagvinnu og það er það eina eðlilega, að menn hafi á venjuleg laun orlof. Það má deila um, hvort það eigi að vera 6 eða 7%, en hitt er bara ranglátt, að menn hafi orlof á margföld laun og ástæðulítið. Þetta er t.d. einn liður.

Við getum tekið vökulögin. Það hefur aldrei neinn þorað að minnast á þetta. Það er alveg furðulegt, að það skuli aldrei hafa verið talað um að endurskoða þessi lög, af því að aðstaðan er gerbreytt. Það er sjálfsagt að láta fólkið hafa hvíldartíma og svefntíma, en vinnutilhögunin er orðin allt önnur en hún var, og m.a. aflinn miklu minni. Hvers vegna mega launþegar og atvinnurekendur ekki endurskoða þetta og vita, hvort þeir geti fengið hagkvæmari leið? Nú er verið að selja einn togara fyrir 11/2 millj. í góðu lagi til Noregs, og mér var sagt, að það ætti að gera hann út með 16 mönnum. Hvaða vit er nú í því að láta þetta standa svona? Enginn þorir að tala um þetta. Vitanlega á ríkisstj. að hafa frumkvæði um að láta endurskoða svona lagað, að koma vinnunni fyrir á hagkvæmari hátt og gera reksturinn ódýrari. En svona er bara ótalmargt. Svo er ríkisvaldið að gripa inn í með löggjöf, sem verður svo úrelt kannske á fáum árum, og þetta er ekki endurskoðað — ekki lagað það, sem hægt er að laga. Það væri hægt að borga mönnunum, ef það væri hægt að koma vinnunni fyrir haganlega á þessum skipum, reka þau með betri afkomu og láta hásetana hafa hærri laun, alveg eins og gert er í fiskiðnaðinum með ákvæðishlunnindi. Svona er þetta ótalmargt.

Ég taldi upp eitthvað 26 skatta einu sinni á útveginum. Svona helming af þeim sköttum væri hægt að afnema, og ég segi ykkur alveg satt, að þó að genginu sé breytt, þurfið þið ekki að imynda ykkur, að kaupið lækki, það fylgir ekki. Það er ekkert gagn að því að afnema vísitöluna. Og þá er það þannig, að það er það mikið, sem atvinnuvegirnir verða að borga, að þetta fer allt í sama farið aftur eftir 1–2 ár. Hjólið fer í gang núna, það veit ég vel, en ef ríkisvaldið gerir ekkert til þess að létta sköttunum af fólkinu, e.t.v. má gera það að einhverju leyti með því að innheimta þá réttlátlegar en gert hefur verið, þá fer allt í sama ,farið eftir 1–2 ár aftur. Þá skeður aftur þetta sama, þessar sömu verkanir, sem alltaf fylgja gengislækkunum. Það örvar viðskiptin í bili. Hjólið heldur áfram að snúast, en það er tekinn af sparifjáreigendunum viss hluti af eignum þeirra, og það er stórfelldasti þjófnaður, sem á sér stað í einu þjóðfélagi. Það væri náttúrlega ekkert aukaatriði, ef Seðlabankinn vildi nú t.d. lækka vexti af stofnlánum ofan í það, sem þeir voru, áður en ráðstafanirnar voru gerðar 1960, ofan í t.d. 4%. Það væri ekki neitt lítill léttir.

Það er annað atriði, sem gæti vel komið til íhugunar fyrir okkur Íslendinga, og það er hreinlega að láta ríkið eiga fiskiskipin og útgerðarmennina borga vissa leigu, sem yrði tekin í gegnum afurðirnar sem nokkurs konar útflutningsgjöld. Nú er staðreynd í ár, að eigendur fiskiskipa geta ekki borgað afborganir og sennilega fæstir vexti heldur. Þannig er nú ástandið. Og væri það þá ekki eðlilegra, að annaðhvort yrðu vextirnir mjög lágir af þessum stofnlánum, þar sem það er algert skilyrði til þess að þjóðin geti lifað, að fiskiskipin séu rekin og síldarskipin, eða þá að almenningur ætti skipin. Hann á þau á vissan hátt, þótt útgerðin hafi náttúrlega verið skattlögð um framlag í Fiskveiðasjóð, sem veitir lánin, sem skipin eru borguð með. Ef þessi háttur yrði upp tekinn, yrðu skipin leigð þeim, sem reka þau, við mjög sanngjörnu verði. En á einhvern hátt verður að stuðla að því, að rekstrarkostnaður útvegsins verði minni en hann hefur verið, annars fer allt í sama farið aftur, og það þarf aftur að fella gengi og enn þá að ræna sparifjáreigendur. Og það er fyrst og fremst í valdi ríkisstj. og þeirra flokka sem hana styðja að laga það, sem áfátt er í þeim efnum.