21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Þetta er nú í þriðja sinn, sem hv. Ed. Alþingis hefur þetta frv. til meðferðar. Það verður ekki annað sagt, en að málið væri þegar í upphafi vel undirbúið af nefnd skipaðri mönnum með sérþekkingu í siglingamálum og ágætum lögfræðingum og öðrum embættismönnum, sem um slík mál fjalla; samt fór það nú svo, að í hitteðfyrra dagaði málið uppi hér í d. Í fyrra hygg ég, að það hafi verið afgr. óbreytt úr Ed., en komst ekki lengra í Nd. en að vera vísað til n. Það var eitt þeirra mála, sem þegar voru lögð fyrir í byrjun þingfunda í haust, en þess varð strax vart, að þrátt fyrir þennan langa undirbúningstíma fór því fjarri, að allir væru á eitt sáttir um þetta mál.

N. leitaði sérstaklega álits Skipstjórafélags Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um málið, og þessi tvö mætu félög voru á öndverðum meiði um, hvernig bæri að afgreiða það. Skipstjórafélagið fann eiginlega fáa kosti á frv., en marga galla, en Farmanna- og fiskimannasambandið áleit, að rétt væri að afgreiða málið óbreytt. Enn fremur barst n. erindi frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi á Suðurnesjum, þar sem frv. var fundið ýmislegt til foráttu, og voru það að mestu leyti sömu atriðin sem þegar höfðu verið tekin fram í bréfi frá Skipstjórafélaginu og síðan í samtali, sem formaður þess, sá ágæti maður Jón Eiríksson skipstjóri, átti við n., þar sem hann útskýrði sjónarmið þeirra félaga mjög ítarlega.

Og loks má geta þess, að eftir að nál. var afgreitt frá n., barst henni enn eitt erindi frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Öldunni hér í Reykjavík, þar sem þess er getið, að aðalfundur þess félags, haldinn 2. þ.m., mótmæli harðlega þeirri breytingu, sem fram kemur í frv., þar sem ekki er gert að skyldu að hafa stýrimann á bátum allt að 60 rúmlestum. Það er nú of flókið mál að fara út í öll þau tæknilegu atriði, sem fundið var að í bréfi Skipstjórafélagsins. Þeir sem óska að kynna sér það frekar, geta litið á fskj. l með nál., sem er prentaður kafli úr bréfi félagsins, en niðurstaða n. varð sú að rétt væri að taka tillit til vissra af þeim aðfinnslum, sem fram komu.

Á það var bent, bæði af Skipstjórafélaginu og Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi, að það væri óvarlegt í senn að lækka það aldurstakmark, sem siglingaréttindi eru talin frá, um eitt ár, þ.e.a.s. úr 16 árum í 15 ár, og samtímis að stytta þann tíma, sem þarf til að öðlast ýmis réttindi. Þessari mótbáru hefur n. reynt að mæta með 1., 2. og 3. brtt. á þskj. 389, og er öll n. sammála um þessar þrjár brtt.

Þá var annað atriði í viðbót, sem bæði þessi félög og enn fremur Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan höfðu mikið á móti; það var, að skyldan til að hafa stýrimann á svo kölluðum landróðrarbátum skyldi fyrst eiga við frá 60 rúmlestum í stað 30 rúmlesta nú. Nú má að vísu segja, að þetta yrði að nokkru leyti löghelgun á því ástandi sem nú er, því að mikill hluti þessara báta er með stýrimenn, sem aðeins hafa fengið undanþágu til þess að gegna því starfi og hafa ekki þá menntun, sem tilskilin er í lögum. En samt varð það nú niðurstaða 5 af 7 nm. að halda lögunum óbreyttum um þetta og halda áfram að miða við 30 smálestir, eins og nú er, og í því sambandi vil ég — a.m.k. frá eigin brjósti og ég hygg fyrir hönd ýmissa nm. bæta því við, að þessar undanþágur, sem veittar eru, eru ósköp óskemmtilegar. Þær kunna að vera óhjákvæmilegar, eins og á stendur, en ég hygg, að það eigi að fara hægar og varlegar en gert hefur verið og eiga ekki á hættu að fá ásakanir um, að þeir fái slík bráðabirgðaréttindi, sem t.d. hefur verið neitað um inntöku í Sjómannaskólann, vegna þess að þeir hafa ekki haft þá sjón, sem þarf til þess, að þeir hefðu nokkur líkindi til að geta öðlazt stýrimanna- eða skipstjórnarréttindi síðar. Sem sagt, ég vil fyrst og fremst fyrir sjálfs mín hönd — en ég þykist vita, að ég tali fyrir hönd margra sjómanna, — biðja hæstv. atvmrn. að fara sér hægara en stundum hefur verið gert um þessar undanþágur.

Tveir nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, einmitt um þetta atriði, hvort miða skuli við 60 eða 30 rúmlestir; ég geri ráð fyrir, að þeir eða annar hvor þeirra geri nánari grein fyrir rökum þeirra fyrir sinni skoðun og fjölyrði því ekki um það. Að svo mæltu leyfi ég mér að mælast til þess, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem n. hefur borið fram, og að því verði síðan vísað til 3. umræðu.