21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Jón Árnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. sjútvn., er þetta mál ekki nýtt hér í þessari hv. d. Það hefur áður verið rætt hér og rakið allítarlega. Undanfari þess, að rn. skipaði n. til þess að undirbúa þetta frv., voru margs konar kvartanir, sem höfðu borizt varðandi lögin og framkvæmd þeirra, og það hafði sýnt sig, að þeir, sem bezt fylgdust með í þessum efnum, töldu nauðsynlegt að breyta ýmsu í þeim lögum sem hafa verið og eru í gildi allt til þessa varðandi þessi atvinnuréttindi. Og það er einmitt á þeim forsendum, sem n. er skipuð. Í þessari n. eiga sæti, eins og fram kemur í aths. við lagafrv., þessir menn:

Kristinn Gunnarsson, fulltrúi í atvmrn. Það er sá maður þar, sem fjallar um allar undanþágurnar, sem berast til rn. og sér um þá fyrirgreiðslu, sem óhjákvæmilega verður að eiga sér stað til þess að koma þessu áfram.

Gunnar Í. Hafsteinsson. Hann er fulltrúi hjá LÍÚ og hefur líka mjög náin kynni af, hvernig þetta allt fer fram.

Guðmundur H. Oddsson, sem er form. Farmanna- og fiskimannasambandsins, er þessum málum einnig gagnkunnugur. Sömuleiðis Jónas Sigurðsson skólastjóri og Hjörtur Magnússon fulltrúi.

Allir þessir menn hafa ábyggilega sett sig mjög vel inn í þetta málefni, sem verið er nú að ræða og afgreiða hér út úr þessari hv. d. Ég mundi því telja, að eftir þá rækilegu athugun, sem átt hefur sér stað, hefði verið ástæða til að gera sem minnstar breytingar á frv., eins og það liggur hér fyrir. Hins vegar er það rétt, eins og komið hefur fram hjá frsm., að n. er einróma samþykk því og sammála um að gera þær breyt., sem felast í 1., 2., og 3. tölulið brtt. En hitt atriðið, um stærð landróðrarbáta, sem ekki þurfi að hafa stýrimann, sýndist mönnum vafasamara, eins og fram kemur í sjálfu nál., einkum með tilliti til þess, að mikill fjöldi þessara báta er nú með stýrimenn, sem ekki hafa full réttindi að lögum, heldur hafa fengið undanþágu atvmrn. Og okkur, sem erum með fyrirvara um afgreiðslu málsins út af þessu, þykir einmitt eðlilegt að þetta ákvæði sé eins og það er í frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að þetta er rétt, að það er um mikinn fjölda stýrimanna að ræða með undanþágu á landróðrarbátunum, þessum litlu, og ef að því yrði horfið að hætta við að veita þessar undanþágur, er hægt að fara að ganga út frá því, að meginhlutinn af vertíðarbátunum verði bara alls ekki gerður út á vertíð. Og ef menn vilja horfast í augu við, áð slíkt ástand skapist, þá er það náttúrlega nýtt sjónarmið. Hitt er það, sem hefur viðgengizt.

Og það er náttúrlega fjarri öllum sanni, sem fram kemur hérna í bréfi frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi á Suðurnesjum, þar sem er látið að því liggja, að það sé þá jafnvel ekki um annað að velja heldur en 15 ára ungling, sem eigi að trúa fyrir stýrinu á siglingunni að landi í misjöfnum veðrum. Við vitum það, að þar sem ekki er um að ræða að fá stýrimann með prófi, eru það venjulegast valinkunnir menn, sem eru kannske ekkert verri en menn með skipstjóraréttindi, sem fá þessar undanþágur og er trúað til þessara starfa. Það segir sig alveg sjálft, að hér er um algera fjarstæðu að ræða, að halda því fram, að það verði 15 ára unglingar, sem muni hafa þessi störf á höndum, ef þetta verði lögfest, sem lagt er til í þessu frv.

Við skulum segja, að það sé allt í lagi með að veita þessar undanþágur, eins og gert hefur verið allt til þessa, en þá er þess að gæta, að þetta kostar geysilega fyrirhöfn, sérstaklega fyrir menn úti á landi. Allt þarf að sækja til Reykjavíkur. Það fæst engin undanþága, nema búið sé að senda símskeyti eða eiga símtal við stjórnarráðið í Reykjavík. Síðan þarf að senda umsóknina til Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem Guðmundur H. Oddsson er forseti fyrir, en hann leggur til, að sú breyting verði gerð á lögunum, sem felst í þessu frv. Síðan eiga viðkomandi aðilar, sem fá þessa undanþágu, að greiða tilskilda upphæð. Þeir greiddu lengi vel 150 kr. fyrir þessa undanþágu, en nú allra seinustu mánuðina hefur þetta breytzt á þann veg, að það þarf að borga 1500 kr. fyrir undanþáguna, og þessar 1500 kr. renna í félagssjóð hjá viðkomandi félagi, sem veitir undanþáguna. Hér er um svo mikinn nýjan skatt að ræða á útgerðina, að það er út af fyrir sig alveg óviðunandi.

Við skulum hugsa okkur, að við skiptum árinu í tímabil. Venjulega er undanþágan bara miðuð við viðkomandi vertíð, vetrarvertíð, vorvertíð og síðan haustvertíð. Þá þarf að greiða fyrir slíkan mann ekki minna en 4500 kr. á hverju ári, bara til þess að hann fái þessa undanþágu, sem alltaf hefur verið veitt, því að það er ekki um annað að ræða en að horfast í augu við það, að annaðhvort verður að veita þessar undanþágur ellegar þá að bátarnir liggja bundnir við festar. Og það er ekki bara um það að ræða, að þessi maður, sem á að fá undanþáguna, missi sína atvinnu, heldur einnig aðrir skipverjar, sem eiga atvinnu sína undir því, að viðkomandi landróðrarbáti sé haldið út.

Ég vil biðja hv. d. og alþm. að athuga það við afgreiðslu þessa máls, að hér eru bornar fram sanngirniskröfur, að yfirlögðu ráði og yfirveguðu, af þeim mönnum, sem bezt til þekkja í þessum efnum og falið var að semja þetta frv. Og ég veit það, að þegar forseti Farmanna- og fiskimannasambandsins hefur lagt þetta til, ásamt skólastjóra Stýrimannaskólans, þá erum við ekki að fara út fyrir þau takmörk, sem ætla má að sé óhætt að treysta í þessum efnum. Ég vil því eindregið leggja til, að 4. tölul. þessarar brtt. verði felldur og frv. að öðru leyti samþ. með þeim breyt., sem n. leggur til.