21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

14. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum

Jón Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta með áhættuna, sem því sé fylgjandi að hafa ekki menn með fullum réttindum til þess að vera stýrimenn á þessum 30–60 tonna landróðrarbátum.

Þegar þessi lög voru upphaflega sett á sínum tíma, var það algengt, að landróðrarbátarnir voru ekki stærri en í kringum 30 tonn. 50 og 60 tonna bátar lágu oft úti á vertíðinni, og ég vissi, að t.d. á Akranesi var hafnaraðstaða þá enn svo ófullkomin, að þessir bátar fóru í verið í Sandgerði, söltuðu í sig fiskinn um borð, þegar kom fram á vertíðina og lönduðu svo aflanum t.d. uppi á Akranesi. Þeir bátar, sem voru raunverulega landróðrarbátar á þeim tíma, voru ekki stærri en í kringum 30 smálestir. Hins vegar er þetta breytt, eins og við vitum í dag, og þeir bátar, sem núna stunda róðra á þennan hátt, eru almennt í kringum 50 og 60 smálestir, og það er þess vegna ekkert óeðlilegt að gera þessa breytingu. Og ég vil spyrja þá menn, sem vilja samþykkja þetta með tilliti til þess, að hér sé verið að hugsa um mannslífið eða annað þess háttar: Ja, hvers eiga þá þeir að gjalda, sem eru á 30 smálesta bátunum, ef það skiptir engu máli, að það sé maður með réttindi þar við stýrið, þegar tekið er land?