26.03.1968
Efri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

127. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Máli þessu eru gerð mjög ítarleg og glögg skil í aths. við frv. og meðfylgjandi grg., þannig að ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta nema örfáum orðum. Eins og kunnugt er, hefur undanfarin ár verið unnið að því að hraða meðferð dómsmála. Má m.a. vísa til þess, að fyrir nokkrum árum var samþ. þáltill. á Alþ. í þá átt. Það, sem þetta frv. fjallar sérstaklega um, er að flýta afgreiðslu hinna svonefndu einfaldari skuldamála, sem hafa hrúgazt upp hjá dómstólunum á undanförnum árum og tekið ákaflega mikið af tíma þeirra, en það eru mál samkvæmt víxlum, tékkum og skuldabréfum og öðrum einhliða óskilyrtum skuldaviðurkenningum. Og þar er í langflestum tilfellum um að ræða mál, þar sem ekki er ágreiningur um fjárhæð eða skyldu, heldur eru þetta fyrst og fremst vanskilamál, þar sem skuldararnir hafa ekki staðið í skilum og skuldareigendurnir hafa orðið að leita ásjár dómstólanna til þess að fá dóma, svo að þeir gætu gengið að eignum skuldara til að innheimta kröfur sínar.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri breytingu og einföldun á meðferð þessara mála, að í stað þess, að dómari þurfi að kveða upp sérstakan dóm, geti hann við þingfestingu málsins eða síðar, þegar varnir falla niður af hálfu stefnda, áritað stefnuna og hún hafi þá í raun og veru sama gildi og dómur hefur í dag og verði þá aðfararhæf, en jafnframt er aðfararfrestur styttur í þessum málum úr 15 sólarhringum í 7. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Þetta liggur allt í raun og veru mjög ljóst fyrir og er ákaflega skýrt í aths. með frv. Þessu frv. var vísað til allshn. og samþ. hún einróma að mæla með því, að það yrði samþ.