29.03.1968
Neðri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

127. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta hefur hlotið afgreiðslu í Ed. Í sambandi við þetta mál vil ég minna á dómsmálaskýrslu, sem ég lagði fram haustið 1966 hér á Alþ., en þessi skýrsla fól í sér yfirlit yfir meðferð og afgreiðslu dómsmála og átti að skapa grundvöll til frekari athugunar í þá átt að hraða meðferð dómsmála í landinu og einnig að gera aðrar umbætur á grundvelli fenginnar reynslu, sem æskilegar teldust. Í framhaldi af þessari skýrslugerð skipaði ég sérstaka dómsmálanefnd til þess að hafa áfram með höndum athugun á ýmsum atriðum í sambandi við haganlegri meðferð dómsmála og einnig endurskoðun á dómaskipun í landinu. Og frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið að tilhlutun þessarar n. af þeim Magnúsi Thoroddsen borgardómara og Stefáni M. Stefánssyni, fulltrúa yfirborgardómara. En því er ætlað að gera mögulega mun hraðari meðferð verulegs hluta hinna einfaldari einkamála.

Eins og segir í grg., er lagabreytingu þeirri, sem hér er um að ræða, ætlað að stuðla að hraðari afgreiðslu nokkurra einfaldari dómsmála, sem þannig er farið, að ætla megi, að stafi eingöngu af getuleysi skuldara til að greiða. Þau mál, sem falla mundu undir ákvæði þessa lagafrv., eru t.d. yfirgnæfandi meiri hluti þeirra mála, sem nú er stefnt fyrir bæjarþing Reykjavíkur. Fjórir fulltrúar yfirborgardómara eru nú nær eingöngu bundnir við afgreiðslu þessara mála og mikið vélritunarstarf fer í að endurrita dóma í málum þessum.

Sú nýja meðferð, sem hér er lagt til, að tekin verði upp með þessu frv., er í því fólgin, að stefna í málum, sem ætlað er að sæta þeirri meðferð, þarf að vera í sérstöku skýru formi, sem inniheldur áskorun til skuldara um að greiða skuldakröfuna, en dómari getur síðan, ef lögvörnum er ekki haldið uppi, svo sem langtíðast er í málum þessum, lokið málinu með áritun á stefnuna um aðfararhæfi. Hefur stefnan með þessu hlotið sama gildi og venjulegur dómur. Hefur þá með þessari meðferð sparazt, eins og ég sagði áðan, talsverð vélritunarvinna og umfangsmeiri vinna dómaranna sjálfra Jafnframt munar verulega um þann tíma, sem skuldareigandi vinnur með hraðari gangi málsins, en málum þessum er þannig háttað, að skuldheimta hans er jafnan engum vafa bundin og því réttmætt, að hann fái, svo skjótt sem við verður komið, aðstöðu til þess að tryggja sér greiðslu hjá skuldara, eftir því sem efni standa til.

Það er mjög athyglisvert, að fjölgun einkamála, sem dómstólarnir fá til meðferðar, hefur orðið mjög stórkostleg á tiltölulega fáum árum undanfarið. Það má benda á það til upplýsingar í þessum efnum, að í dómsmálaskýrslunni, sem fjallar um árið 1961–1965, er þess getið, að þingfest mál við bæjarþing Reykjavíkur voru 2946 árið 1961, en fjölgaði jafnt og þétt í 4551 árið 1965 og urðu árið 1966 5068 og árið 1967 6019 talsins. Málafjöldinn hefur meira en tvöfaldazt á 6 árum, en eins og ég gat um í upphafi, eru mál þau, er fallið geta undir meðferð þá, sem þetta lagafrv. gerir ráð fyrir, yfirgnæfandi meiri hluti þessa fjölda. Má af þessu ráða, hversu miklu varðar að geta komið við vinnubrögðum, sem eru mun einfaldari og mun fljótvirkari.

Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg. frv. um tæknileg atriði, sem fram koma í einstökum greinum og skýrð eru í aths. Ég er þakklátur þeim mönnum, sem hafa unnið að samningu þessa frv., en það eru ungir embættismenn og það er unnið að tilstuðlan dómsmálanefndarinnar. Ég hygg, að hér sé um að ræða mjög verulegar umbætur á dómsmálameðferð á vissu sviði hjá okkur. Þessi meðferð mála er aðallega sniðin, eins og kemur fram í grg., eftir þýzkum og austurrískum rétti. Mér er kunnugt um, að þetta frv. hefur þegar vakið nokkra athygli hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndum, sem hafa óskað eftir að fá þýðingar af því og fylgjast með því, hvernig því reiðir af hér í þinginu.

Ég vildi því leyfa mér að mælast til þess, að málið geti fengið góða afgreiðslu nú, og ég geri ekki ráð fyrir ágreiningi um það í þessari hv. d. fremur en í Ed., þar sem samkomulag varð um málið.

Ég vil leyfa mér að svo mæltu, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. allshn.