17.04.1968
Neðri deild: 100. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

171. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það um stofnfjársjóð fiskiskipa, sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu, er lagt fyrir Alþ. í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til aðstoðar útveginum vegna erfiðrar afkomu hans.

Þegar fiskverð var ákveðið um s.l. áramót og fiskverð til fiskseljenda hækkaði um 10%, þá gaf sú fiskverðshækkun að vísu sjómönnum á þorskveiðum kjarabót, sem gat talizt eðlileg miðað við aðrar starfsgreinar, en það var aftur á móti augljóst, að hlutur útgerðarinnar mundi ekki vera nægilegur til þess, að bátarnir gætu vænzt viðunandi afkomu á þorskveiðum á árinu 1968.

Meðal þeirra ráðstafana, sem samkomulag varð svo um við forsvarsmenn útvegsins, var það, að ríkissjóður skyldi á þessu ári leggja fram 124 millj. kr., sem renna eiga í sérstaka deild hjá fiskveiðasjóði, til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af lánum útgerðarinnar hjá sjóðnum, sem fyrirsjáanlegt er, að útgerðin getur ekki risið undir miðað við þær afkomuhorfur, sem við blasa. Þetta frv. felur þess vegna í sér, að við fiskveiðasjóð verði stofnuð sérstök deild, sem nefnist stofnfjársjóður fiskiskipa. Í 2. gr. frv. er kveðið á um meginhlutverk sjóðsins, en það er að veita eigendum fiskiskipa aðstoð við að standa straum af stofnfjárkostnaði fiskiskipa sinna, og þá fyrst og fremst með því að greiða afborganir og vexti af lánum þeim, sem veitt hafa verið af fiskveiðasjóði og tryggð eru með veði í skipunum. Stofnféð verður samkv. 3. gr. frv., eins og ég áðan gat um, 124 millj. kr., og leggur ríkissjóður það fram á þessu ári, en um tekjur sjóðsins í framtíðinni hefur ekki verið ákveðið.

Það eru svo í frv. nánari ákvæði um, eftir hvaða reglum þessi sjóður skuli skiptast milli skipaeigenda, en það er í meginatriðum eftir heildarfiskimagni hlutfallslega og var kveðið svo á í upphaflega frv., að Fiskifélag Íslands skyldi senda fiskveiðasjóði eigi sjaldnar en misserislega skýrslur, þannig að hægt væri samkvæmt þeim að reikna út aflaverðmæti fiskiskipanna og finna út, hvað kæmi í hlut hvers og eins á sérstökum reikningi hjá sjóðnum. Í meðförum hv. Ed. var þessu ákvæði 4. gr. breytt, þannig að í staðinn fyrir að skýrslur Fiskifélagsins áttu að koma misserislega til sjóðsins, þá stendur nú í frv., að það eigi að skila þeim ársfjórðungslega.

Í sjútvn. þessarar hv. d. ræddum við lítillega um þessa breytingu, og þar kom fram sú skoðun, að breytingin mundi naumast hafa raunverulega þýðingu, vegna þess að skýrslur Fiskifélagsins eru eingöngu um heildarfiskmagn, en ekki um verð á aflanum. Það er ekki hægt að reikna verðið út fyrr en í fyrsta lagi í vertíðarlok á aðalvertíðinni og sennilega ekki fyrr en í árslok vegna síðari hluta árs, en að sjálfsögðu er það hagsmunamál útvegsmanna sjálfra, að þessar skýrslur berist á réttum tíma, því að eftir því, sem meiri dráttur verður á, að þær berist, dregst það lengur að þeir fái uppgjör á sínu innleggi í þennan sjóð. Þess vegna var ekki talin ástæða til að breyta þessu aftur í upphaflegt form, þó að nefndin dragi í efa, að breytingin hafi praktíska þýðingu.

Síðan er í frv. kveðið á um, að verja megi innstæðum útgerðarmanna í stofnfjársjóði fiskiskipa til annarra hluta en til greiðslna á afborgunum og vöxtum hjá fiskveiðasjóði, og er þá fyrst og fremst gert ráð fyrir, að þær greiðslur gangi til þess að gera upp vanskil hjá öðrum stofnlánasjóðum, en einnig að verja megi sjóðnum til nýrra framkvæmda eða til endurnýjunar á skipi, ef viðkomandi útgerðarmaður er ekki skuldugur við stofnlánasjóðina.

Við 12. gr. frv. gerði hv. Ed. þá breytingu, að bætt var við greinina því, sem stendur nú í síðari málsl.: „Ef skip ferst eða verður dæmt ónýtt, skal innstæða hjá stofnfjársjóði falla til skipseiganda.“

Þessari breytingu er sjútvn. d. algjörlega sammála, og sér ekki ástæðu til að gera neinar athugasemdir við hana.

Um 13. gr. urðu nokkrar umr. í n., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að breyta nafni skips, sem aðild á að stofnfjársjóði, umdæmisbókstöfum eða umdæmisnúmeri, nema að fengnu skriflegu leyfi stjórnar fiskveiðasjóðs.“

Þetta þótti sumum nm. nokkuð strangir kostir, en sáu þó ekki ástæðu til að gera við það athugasemdir eða brtt. Niðurstaðan af athugun sjútvn. á frv. er sú, að við leggjum til, að það verði samþykkt óbreytt.

Ég vil geta þess, að persónulega lít ég þannig á þá ráðstöfun, sem gerð er með þessu frv., að hún eigi eingöngu að miðast við það erfiðleikaástand, sem skapazt hefur hjá útgerðinni um þessar mundir. Ég álít, að það sé ekki æskileg þróun að gera mikið meira af því en gert hefur verið, að ríkissjóður taki að sér að greiða einstaka kostnaðarliði hjá útgerðinni, því að sé það gert langtímum saman, skapast sá hugsunarháttur hjá viðkomandi aðilum, að um þessi mál þurfi þeir ekki frekar að hugsa eða hafa af þeim áhyggjur.

Við höfum nokkra reynslu af þessu varðandi vátryggingargjöldin, sem undanfarin ár hafa verið greidd fyrir milligöngu ríkisins, þannig að hluti af útflutningsgjaldi hefur runnið til þess að greiða vátryggingargjöldin. Mín skoðun er sú, að þetta fyrirkomulag hafi skapað mjög mikið vandræðaástand í tryggingarmálunum, ástand, sem við erum ekki búnir að greiða fram úr ennþá, og sem gerir það að verkum, að nú liggur hér fyrir þinginu frv. um hækkun og tilfærslu á útflutningsgjöldunum, sem alls ekki er æskileg miðað við þær aðstæður, sem við búum við í dag.

Ég skal ekki ræða það mál frekar, en ég tel, að vátryggingariðgjöldin hafi hækkað óeðlilega mikið, vegna þess að þetta fyrirkomulag býður þeirri hættu heim, að tjónakröfur á tryggingarfélögin verði óeðlilega miklar. Þau mæta að sjálfsögðu tjónakröfunum með því að hækka iðgjöldin. En meðan útgerðin fær iðgjöldin greidd gegnum ríkissjóð, þó að gjaldið sé tekið af sjávarútveginum, hugsa menn ekki nægilega vel um þessi mál, og af þeirri hagsýni, og með því aðhaldi, sem vera þyrfti. Ég er anzi hræddur um, að ef það ástand, sem nú ríkir, verður varanlegt, að við þurfum að greiða vexti og afborganir af stofnlánum með svipuðum hætti, geti það haft alvarlegar afleiðingar.

Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að benda á þessa hættu, þó að mér sé ljóst, að eins og sakir standa er ekki um annað að ræða en að fara þessa leið. Ég vona, að strax þegar afkomuhorfur útgerðarinnar batna, verði horfið frá þessu hvorutveggja, þ.e. að greiða vexti og afborganir á þennan hátt, sem nú er lagt til, og að greiða tryggingariðgjöld með því móti, sem gert hefur verið undanfarin ár. Það má segja, að það sé hægt að vera hygginn eftir á, en ég álít, að einmitt á meðan góðæristímar gengu yfir útgerðina, hafi alls ekki átt að hafa þann hátt á greiðslu tryggingariðgjaldanna, sem gert hefur verið.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti, en endurtek það, að sjútvn. mælir með frv. eins og það liggur fyrir.