04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

20. mál, kosningar til Alþingis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér verður til framhaldsumr. í kvöld frv. til l. um breyt. á l. um kosningar til Alþingis. Þetta frv. felur þær breytingar í sér, að kosningarrétt við kosningar til Alþ. eigi allir karlar og konur að hafa, sem orðnir eru 20 ára og eldri, þegar kosning fer fram, í öðru lagi, eiga ríkisborgararétt hér á landi, í þriðja lagi eiga lögheimili hér á landi, í fjórða lagi hafa óflekkað mannorð og í fimmta lagi hafa eigi verið sviptir lögræði.

Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. í upphafi þessa þings, og er ætlunin, að það sé til síðari meðferðar í sambandi við stjórnarskrárbreytingu, sem þegar hefur náð fram að ganga. Það er þegar vitað, að þessi réttindalöggjöf unga fólksins mundi engri andstöðu sæta af hv. Alþ., og er það víst að um efni þessa frv. er ekki ágreiningur. Þess hefði því verið kostur, ef menn hefðu viljað nýta hann, að fá þetta frv. afgreitt þegar á fyrstu dögum þingsins, eftir að það kom fram. En til þess hefur sá möguleiki ekki verið nýttur, því að málið hefur verið látið liggja allt frá upphafi þings á s.l. hausti og þar til nú, að komið er að því að fresta þingfundum fyrir páska, síðan er ætlunin að ljúka þinginu á örfáum dögum eftir páskana. Og þá er blandað inn í það hatrömmu og viðkvæmu deilumáli, sem engin leið er að komast hjá að ræða. Þar að auki er það deilumál þess eðlis, að það virðist vera ákaflega erfitt að tengja það þessu réttindamáli unga fólksins, því að deilumálið, sem nú er flutt í formi brtt. við þetta frv., er um réttindaskerðingu ungs fólks, og hefur unga fólkið látið allmyndarlega til sín heyra um það, að það vilji ekki una slíkri réttindaskerðingu. Ég segi: Það er næstum því óviðurkvæmilegt efnisins vegna að tengja þessa réttindaskerðingu ungs fólks réttindafrv., sem því var heitið í fylgd með stjórnarskrárbreytingu fyrir síðustu kosningar. En þennan hátt hafa menn viljað hafa á um þetta mál, og þess vegna getur ekki hjá því farið, að þessi vinnubrögð verði nú til einhverrar tafar fyrir hið annars svo sjálfsagða réttindamál unga fólksins um að fá kosningaaldurinn lækkaðan úr 21 ári niður í 20 ár.

Ég hygg, að ég hefði getað orðið mjög stuttorður um þetta mál, ef menn hefðu ekki í dag gert þetta mál og sérstaklega ágreiningsatriðið, sem í brtt. við það felst, að umræðuefni og hæstv. dómsmrh. í tilefni af sínum brtt. rifjað upp forsögu málsins. Af því leiðir, að ég kemst ekki heldur hjá því að gera það, og í þriðja lagi af því, að einn af forustumönnum þingflokkanna, hv. 1. þm. Austf., hélt hér fyrirlestur, að nokkru leyti fræðilegan fyrirlestur um flokkana sem stofnanir og það, hvort þá bæri að veikja eða styrkja, og tjáði sig svo í sambandi við þennan fyrirlestur sinn um flokkana ákaflega ánægðan með þá till. hæstv. dómsmrh., sem nú liggur hér fyrir, eftir að hann hefur tekið aftur aðra till., sem hann hafði áður flutt við þetta mál. En lítil breyting hefur orðið á málinu við það, að hæstv, dómsmrh. tók sína fyrri till. aftur og flutti aðra í staðinn, því að það er, eins og hann sagði sjálfur í ræðu sinni í dag, meira formsbreyting heldur en efnisbreyting. Síðari till. er um nokkurn veginn það sama og hin fyrri, þ.e. að efla flokksræðið og rýra lýðræðið innan flokkanna. Tilgangurinn er sá hinn sami og getur ekki dulizt neinum, og hygg ég, að það verði, áður en máli mínu lýkur, gerð nokkur tilraun til þess að sýna fram á það, að efnislega eru till. náskyldar og að sumu leyti sú síðari öllu óskemmtilegri. Þar er aðeins reynt með formsbreytingunni að breiða yfir tilgang hennar, en hin till., eins og hún lá upphaflega fyrir, var alveg ódulbúin, hún var um það að skerða þau lýðræðislegu réttindi, sem meðlimir stjórnmálaflokkanna hafa haft um langan aldur, og um heimild til stjórna flokkanna að banna fleiri en eitt framboð í kjördæmi, og þannig duldist engum, hver tilgangurinn með henni var. En ég hygg, að það sé ótvírætt ætlun flm. till. að ná hinum sama tilgangi með hinum nýja búningi. Þess vegna er málið í raun og veru alveg óbreytt, eins og það lá fyrir, þegar hæstv. dómsmrh. hafði borið fram sína fyrri till. Fyrri till. hæstv. dómsmrh. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram, svo og skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að listinn skuli vera í kjöri fyrir flokkinn. Ekki getur stjórnmálaflokkur boðið fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi. Vanti aðra hvora yfirlýsinguna, telst listinn utan flokka.“

Þetta er a-liður í brtt. hæstv. dómsmrh., sem legið hefur alllengi hér fyrir þinginu og er tengd frv. um 20 ára kosningaaldur unga fólksins. Ég hefði talið, að þetta mál hefði átt að taka upp sem sjálfstætt mál í þinginu og harma mjög, að því skyldi vera blandað saman við þetta réttindamál unga fólksins. En það vinnst kannske eitthvað með þessum vinnubrögðum, það t.d., að þetta mál hefur aldrei verið til 1. umr. hér, það verður látið nægja að taka það nú með í umr. um stjórnarfrv., og það er nú hér til 2. umr. og fer svo út úr þessari deild, þegar þessari umr. og þeirri 3. lýkur. Þar með fara ekki fram um þetta stóra mál, um gerbreytingu á kosningal. í þessum atriðum, fram nema 2 umr. í þessari hv. d. Ef um góð mál er að ræða, er það venja flm. að gera engar ráðstafanir til þess, að þau verði lítið rædd, en ef menn hafa hugboð um það, að þeir séu ekki að flytja gott mál, get ég vel skilið, að þeir vilji komast hjá sem allra mestum umr. um það. Má vera, að einhver neisti af þeirri tilfinningu liggi að baki því, að þessari brtt. er hnoðað saman við stjfrv. um lækkaðan kosningaaldur ungs fólks. Nú hefur hæstv. ráðh. lýst því yfir, að þessi upphaflega till., í því formi sem hún er, sé tekin aftur, en aftur borin fram önnur till., er þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef sá aðili, sem skv. reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega, ber fram mótmæli gegn því, að listi sé í framboði fyrir flokkinn, skal yfirkjörstjórn úrskurða slíkan lista utan flokka og landskjörstjórn úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það.“

Menn sjá, að nú er það að vísu ekki flokksstjórn sem þarf að gefa skriflega viðurkenningu fyrir framboðslista, til þess að hann geti tilheyrt flokki, heldur er það sá aðili, sem samkvæmt reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega, í þessu tilfelli líklega kjördæmisráð í einstökum kjördæmum, eða eftir atvikum bara sá aðili, sem um þetta skal fjalla skv. reglum flokkanna. Þá skal ekki vera mikill vandi á höndum landskjörstjórnar, því að þá skal þessi listi vera úrskurðaður utan flokka, hún skal úrskurða hann utan flokka, og landskjörstjórninni eru enn fremur gefin fyrirmæli um það, að undir þessum kringumstæðum, þegar mótmæli hafa komið fram, frá kjördæmisráði skulum við segja, þá skuli úthlutað uppbótarþingsætum í samræmi við það. En ef engin mótmæli berast, virðist landskjörstjórnin eiga að hafa frjálsar hendur um það, að listinn geti talizt flokkslisti og uppbótarþingsætum verði þá úthlutað að mér skilst eftir núgildandi ákvæðum laga.

Þarna á því greinilega að ná sama tilgangi og í hinni fyrri till., en binda ákvæði kosningal. þeim reglum, sem flokkarnir hafa nú um þessa framkvæmd. Lögin skulu laga sig eftir reglum flokkanna, sem þó kunna að vera mismunandi, og var einmitt upplýst af hæstv. dómsmrh. í dag, að þetta væri ekki eins hjá öllum flokkunum, ákvæði Sjálfstfl. væru t.d. á annan veg í þessum efnum heldur en hinna flokkanna. En samt sem áður á að miða lagasetninguna nú á hv. Alþ. við reglur flokkanna, að því er þetta varðar. Mér finnst þetta vera ambögulegt. Mér finnst þetta vera hálfgerð afturfótafæðing. Maður skyldi ætla, að flokkunum væri miklu fremur ætlað að móta sínar reglur í samræmi við lög, sem Alþ. hefur sett. En svona á þetta að vera, og þá er það komið í það form, að hv. 1. þm. Austf. sér alveg sérstaka ástæðu til þess að lýsa yfir, að vankantar, sem hann hafi séð á hinni fyrri till., séu sniðnir af og þessi till. sé alveg að hans skapi, þessi sé ágæt og hann mæli með henni og ætli að reiða henni atkv.

Ég mun þá þessu næst víkja nokkuð að umr., sem fram hafa farið í dag um þessa till. hæstv. dómsmrh., því að um hana hafa umr. fyrst og fremst snúizt, till. sem legið hafa fyrir frá hans hendi, og það form, sem till. hans er nú l. Allir hafa lýst því yfir, að um frv. sjálft væru þeir sammála og óskuðu eftir, að það yrði samþ., það yrði afgreitt á þessu þingi óbreytt, án þess að hnoða við það einum eða öðrum brtt.

Hv. 4. þm. Vestf. hafði orð fyrir meiri hl. hv. allshn. og greindi frá þessari niðurstöðu í n., að n. hefði verið algerlega sammála um sjálft frv., en hún hefði klofnað um afstöðuna til brtt., sem formaður n. hefði borið fram, till., sem væri á þskj. 303 og till. hæstv. dómsmrh. á þskj. 437.

Frsm. meiri hl. gat þess, að það hefði verið rætt í n. um hugsanlegar breytingar aðrar, miklu fleiri, á núgildandi kosningal., en horfið þó frá að flytja þær brtt. nú og hefði n. þess vegna eða meiri hl. hennar komið sér saman um að flytja tilmæli til ríkisstj. um, að kosningal. verði tekin til endurskoðunar, almennrar endurskoðunar. Mér finnst þetta dálitið sérkennilegt líka. Ef n. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að margra annarra breytinga væri þörf á kosningal. en þessara tveggja, sem n. tók upp á sína arma, eða meiri hl. hennar, þá væri eðlilegt, að n. flytti till. um það, að kosningal. yrðu tekin til endurskoðunar og síðan til afgreiðslu á næsta Alþ. Nei, svo er það ekki. Það eru aðeins aftan við efnisbrtt. við stjórnarfrv. borin fram tilmæli um það, að frv. verði endurskoðað. Þetta er orðað þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það kom til umr. í n., að ástæða væri til, að fram færi heildarendurskoðun á kosningal., því að ýmislegt hefur leitt í ljós, að þar þarf breytingar að gera, einkum í sambandi við utankjörfundarkosningar. Það eru því ákveðin tilmæli okkar, að ríkisstj. láti endurskoða þessi l. fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Till., sem meiri hl. hv. n. tekur síðan upp á sína arma, sýnist ekki vera bráðaðkallandi, sem sé það, að það hafði komið till. frá einum fjórum hv. þm. um það, að ef svo bæri við, að félagsheimili væri sameiginlegt fyrir fleiri en eitt sveitarfélag, þá mætti utankjörstaðaratkvæðagreiðsla fara fram utan hreppsfélags, miðað við kjósandann. Þessi till. hv. þm. var síðan gerð af meiri hl. n. nokkru rýmri og færð í það horf, að hreppsnefnd sé heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað utan hreppsfélagsins. Þetta er þannig orðin almenn heimild, og held ég, að það sé vafasamt að breyta l. í þessa átt, en a.m.k. sé ég ekki, að þetta hafi verið aðkallandi nauðsyn, þegar mælzt er til, að löggjöfin sé síðan endurskoðuð.

En aðalatriðið, aðalbreytingin, sem hv. meiri hl. n. tekur að sér að mæla með, er brtt. hæstv. dómsmrh. í hinni síðari útgáfu. Hv. frsm. meiri hl. tók það fram, að minni hl. n. hefði boðið að standa að samþykkt frv. óbreytts, en ekki viljað veita öðrum till. nú stuðning. Hins vegar mun minni hl. hafa mjög tekið undir það, að hann teldi þörf almennrar endurskoðunar á kosningal., og gjarnan viljað samþykkja það, að slík till. væri nú flutt, ef engar breytingar væru gerðar á stjórnarfrv. En um það fékkst ekki samkomulag. Hv. 1. þm. Norðurl. e. gerði svo grein fyrir afstöðu minni hl., þ.e.a.s. tveggja af sjö nm., hans sjálfs og hv. 8. landsk. þm., Steingríms Pálssonar. Það var vottað, að allt, sem frsm. meiri hl. hafði sagt um afstöðu minni hl., var rétt, minni hl. hefði verið fús til þess að standa að afgreiðslu stjórnarfrv. án breytinga, en verið andvígur því, að nokkrar brtt. væru nú samþykktar. Þeir höfðu einnig látið í ljós, að þeir væru á ýmsan hátt samþykkir hugmyndum meiri hl. um aðrar hreytingar, sem þörf væri að gera á kosningal., t.d. að auðvelda farlama fólki, sem statt væri utan síns eigin kjördæmis, að neyta kosningarréttar síns. Það dæmi var nefnt og allir sammála um, að athuga bæri breytingar í þá átt að gera þessu fólki auðveldara að njóta þessara mannréttinda.

Ég tók sérstaklega eftir því, að hv. frsm. minni hl., Gísli Guðmundsson, hv. 1. þm. Norðurl. e., undirstrikaði það í sinni ræðu, að það væri óvenjulegt á Alþingi, að verið væri að gera smábreytingar, kákkenndar breytingar á löggjöf, ef endurskoðun á þeirri löggjöf stæði fyrir dyrum. Og það hlýtur hver maður að viðurkenna, að slíkt eru engin vinnubrögð. Það á auðvitað að láta allar breytingar á þeirri löggjöf bíða, sem menn eru sammála um að taka þurfi og taka skuli til almennrar endurskoðunar. Það virðist því sem það hefði verið mjög eðlilegt, að samstaða hefði náðst um að afgreiða nú stjórnarfrv. óbreytt, en fá algert samkomulag að öðru leyti um að láta allar brtt. nú bíða, en sameinast um till. um það, að kosningal. yrðu tekin til almennrar endurskoðunar og þeirri endurskoðun lokið fyrir næsta Alþingi.

Ég tók einnig eftir því, að hv. frsm. minni hl. undraðist það ofurkapp, sem hæstv. dómsmrh. virtist leggja á að knýja sína brtt. fram um viðkvæmt mál, þegar svo langt væri liðið þingtímans og ágreiningur um málið gæti jafnvel stofnað framgangi þess í hættu, með því að tengja brtt., sem ágreiningur væri um, við það, en hins vegar er enginn ágreiningur um málið sjálft og þannig auðsótt mál að fá það afgreitt viðstöðulaust. Hæstv. dómsmrh. taldi frsm. minni hl. taka of djúpt í árinni með þessum orðum, að sér fyndist það nálgast ofurkapp að vilja knýja brtt. fram í viðkvæmu deilumáli, ágreiningsmáli, þrátt fyrir það þó að svona stæði á um starfsháttu Alþ., þ.e.a.s. komið er að þinglokum.

Ég er hv. frsm. minni hl. enn fremur alveg sammála um það, að víst er það almennt séð gott að ná sem víðtækustu samkomulagi um lausn mála, hver sem þau eru, en alveg sérstaklega mjög þýðingarmikið að geta náð samkomulagi milli flokka um setningu kosningalaga. Þau fjalla um framkvæmd mjög viðkvæmra mála, og þess vegna er mjög óhyggilegt að afgreiða kosningalög með ágreiningi, allra helzt þegar það er gert að óþörfu eins og í þessu tilfelli.

Þetta voru, að mér fannst, meginniðurstöður hv. frsm. minni hl., og er ég honum alveg sammála í þessum niðurstöðum hans og sé ekki annað en honum hafi mælzt viturlega og það sé full ástæða til að taka tillit til þessara skoðana hans um afgreiðslu þessa máls, og held, að það væri alfarasælla, að menn tækju tillit til þessara orða hans, því að það er algerlega að tilefnislausu, algerlega að óþörfu, ef svo fer, að hér verði knúin fram breyting á kosningalögum í samræmi við efni þeirrar till., sem hæstv. dómsmrh. hefur tvívegis borið fram. Það er að vísu hugsanlegt, að kosningar verði á næsta ári, og það má vel vera, að hæstv. ráðh. búist við, að svo verði, að það verði þingrof og kosningar, og þá sé betra að vera búinn að gera breytingu á kosningal. að því er þetta varðar. En ekki er það nú á almannavitorði enn, að kosningar standi fyrir dyrum. Við erum stödd á fyrri hluta kjörtímabils, og er ekki vitað, að til kosninga muni draga á tímabilinu til næsta Alþingis. En það má vera, að hæstv. ráðh. viti eitthvað meira um þetta heldur en ég eða menn almennt og þess vegna þyki honum liggja svo mjög á um að koma sinni till. fram. En sú nauðsyn byggist a.m.k. ekki á því, að það þurfi að taka af neinn vafa varðandi ákvæði gildandi kosningal., því að hafi nokkur maður verið í vafa um hin skýru ákvæði kosningalaganna, eins og þau voru á s.l. vori, eru allar efasemdir um það, hvernig eigi að skilja þau lög, þurrkaðar burt með úrskurði landskjörstjórnar, sem hefur staðizt og hefur fengið staðfestingu hv. Alþ. Eftir það vita allir, að um þau mál, sem deilt var um á s.l. vori, þarf enginn að fara í neinar grafgötur. Lögin eins og þau eru nú, eru skýr og þau mundu ekki verða misskilin af neinum, hvorki af yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis né neinum öðrum, eftir að landskjörstjórn hefur fengið sinn úrskurð staðfestan af Alþ. Það er því alger þarfleysa að flytja till. til þess að taka af vafa um skilning gildandi kosningalaga.

Hæstv. dómsmrh. rifjaði upp ýmis atriði, sem hann nefndi staðreyndir um það, hvers vegna till. hans væru fluttar. Hann sagði, að tilefnið væri það, að ágreiningur hefði orðið um framboðslista í Reykjavík á s.l. vori. Sá ágreiningur hefði verið tvenns konar. Það hefði verið innbyrðis ágreiningur meðal Alþb.-manna og það hefði verið ágreiningur milli yfirkjörstjórnar Reykjavíkur og landskjörstjórnar. Allt er þetta rétt. En það vantaði niðurlag lýsingarinnar. Það vantaði, að mér fannst, frásögnina af því, að Alþ. skar úr og tók af allan vafa, staðfesti niðurstöðu landskjörstjórnar og varpaði þannig úrskurði yfirkjörstjórnar Reykjavíkur fyrir borð sem marklausum og löglausum. Það er því alveg ótímabært fyrir hæstv. dómsmrh. að hafa kápuna á báðum öxlum lengur. Hann gerði það á s.l. vori, áður en úrskurður Alþ. féll, en það er ekki fært fyrir hann að hafa kápuna á báðum öxlum, eftir að Alþ. hefur úrskurðað að lögin voru með þeim mönnum, sem stóðu að framboði hins svokallaða I-lista, eins og hæstv. forsrh. orðaði það einmitt á s.l. hausti í byrjun þingsins, þegar málið var hér til umr. „Því verður ekki neitað,“ sagði hann, „að Hannibal og þeir, sem sömu afstöðu höfðu og hann, höfðu lögin sín megin.“ Þetta voru óbreytt orð hæstv. forsrh., sem mundi þó af ýmsum vera talinn kunna allmikið fyrir sér í lögum.

Það er því algerlega óþarft nú að koma með brtt. við núverandi kosningalög til þess að skera úr einhverjum vafaatriðum, sem enn þá vefjist fyrir mönnum. Nú er það skýrt, að framboð eins og framboð mitt á s.l. vori var í fullu samræmi við skýran lagabókstaf stjórnarskrár og kosningalaga og fékk staðfestingu Alþ. sem slíkt. Þar með vita allir, að það er flokkum frjálst að hafa fleiri en eitt framboð í sama kjördæmi við sömu kosningar, og jafnframt hitt, að það þarf ekki uppáskrift flokksstjórna, til þess að slíkt framboð sé löglegt. Þetta mundi enginn láta sér detta í bug nú að vefengja á nokkurn hátt.

Hæstv. dómsmrh. vitnaði alllangt mál í grg., sem umboðsmenn G-listans í Reykjavík höfðu borið fram í yfirkjörstjórn Reykjavíkur í þeim tilgangi að reyna að sanna, að slíkt framboð sem framboð mitt og þeirra manna, sem skipuðu lista með mér, væri ekki flokkslegt framboð Alþb. og Alþb. alveg óviðkomandi, og má vera, að hann hafi orðið svo hrifinn af þessum rökstuðningi, að hann hafi þess vegna orðið að koma honum nú inn í þingtíðindin á ný. En svo mikið er víst, að það er hæstv, dómsmrh. ljóst og það er öllum ljóst nú, að þessi rökstuðningur, svo ágætur sem hann virtist vera hjá umboðsmönnum G-listans, var rangur, studdist ekki við lög og því að engu hafandi. Ég skil því ekki, hvaða tilgang það hafði að rekja þennan rökstuðning umboðsmanna G-listans svo ýtarlega hér í málflutningi fyrir brtt. hæstv. dómsmrh., nema ef vera skyldi af því, að till. hæstv. ráðh. fer mjög í sömu átt og rökstuðningur þessara manna, sem reyndist stangast á við gildandi lög. Þessi málflutningur umboðsmanna G-listans var í algeru ósamræmi við úrskurð landskjörstjórnar, sem fékk síðan staðfestingu hv. Alþ.

Hæstv. dómsmrh. vitnaði líka, vafalaust máli sínu til stuðnings, til stuðnings sínum brtt., í samþykkt, sem stjórn Alþýðuhandalagsfélagsins í Reykjavík hefði gert 12. maí s.l. Þetta var alllöng tilvitnun líka hjá hæstv. ráðh. í dag, og efni þessarar tilvitnunar var það, að aðrir framboðslistar en G-listinn í Reykjavík væru Alþb. óviðkomandi. En það er þó öllum ljóst, að þessi samþykkt reyndist líka vera markleysa. Listi minn og þeirra, sem á honum voru með mér, var dæmdur af landskjörstjórn og Alþ. að vera Alþb. viðkomandi. Atkv. hans voru reiknuð Alþb., uppbótarsætum var úthlutað Alþb. samkv. niðurstöðum kosningarinnar, atkv. þessa lista bætt við annað atkvæðamagn Alþb. Þessi tilvitnun virtist mér því líka vera nokkuð mikið út í hött á þessum tíma, þegar Alþ. hafði kveðið upp sitt dómsorð. Það var verið að vitna í plögg, sem höfðu af Alþ. og landskjörstjórn verið dæmd ómerk. En því verður ekki neitað, að till. hæstv. dómsmrh. fara nokkuð að efni og anda í þá átt, sem þessar tilvitnanir frá því í vor hnigu.

Þá vitnaði hæstv. dómsmrh. í það, að flokkarnir hefðu í haust í þingbyrjun gefið út yfirlýsingar hér á hv. Alþ., þegar Alþ. fjallaði um afgreiðslu kjörbréfa, yfirlýsingu um það, að þeir mundu freista þess að bera fram brtt. við kosningal., breyta, eins og hann sagði, óljósum ákvæðum kosningalaga. Sjálfstfl. hefði lýst þessu yfir og Alþfl. hefði gefið yfirlýsingu um það, og það er hvort tveggja rétt. Stjórnarflokkanir lýstu þessu yfir, að þeir mundu bera fram brtt. við kosningalögin vegna óljósra ákvæða þeirra, en það var einmitt rökstuðningur dómsmrh. þá: óljósra ákvæða þeirra. Og enn fremur hafði heyrzt ein rödd úr röðum Alþb. um það, að hann mundi verða samþykkur slíkum breytingum, þegar þær kæmu fram, án þess að mér sé þó kunnugt um, að sá þm. Alþb. hafi talað í flokks nafni eða stuðzt við einhverjar samþykktir Alþb. eða þingflokks þess um þá afstöðu. Það var mér ókunnugt þá, og það er mér ókunnugt enn, þó að það kunni kannske að skýrast í þessum umr., hvernig sakir standa nú með það. En á þeim tíma vissi ég ekki til, að Alþb. hefði tekið þá afstöðu. En ég hef áður vikið að því, að hafi einhverjum þótt ákvæði kosningalaga varðandi þessi mál óljós á vordögum, hafa þau nú skýrzt svo, að enginn getur sagt nú, að þau séu óljós. Alþ. hefur þar alveg tekið af skarið samhljóða niðurstöðu landskjörstjórnarinnar. Ég held, að það geti þess vegna enginn maður rökstutt það nú, að það sé nauðsynlegt að gera breytingu á kosningalögum, svo að framboð eins og á s.l. vori endurtaki sig ekki. Það er alveg augljóst mál, að framboð með sama hætti og framboð mitt á s.l. vori mundi tvímælalaust teljast löglegt og það mundi enginn fara af stað með að fitja upp á því, að það væri óljóst, hvernig ætti að merkja slíkan lista. Eftir úrskurð landskjörstjórnar og eftir úrskurð Alþingis mundu allir vita, að þann lista ætti að merkja, ef Alþb. hefði G-lista, sem GG-lista, og það mundi enginn heldur fara í grafgötur um það, að það ætti að leggja atkvæðamagn slíks lista við annað atkvæðamagn Alþb. og úthluta uppbótarþingsætum samkv. því. Ekkert af þessu er vafaatriði lengur. Það er öllum ljóst, að ef það henti einhverja flokksstjórn að stilla upp svo þröngt, svo einhliða, að flokksfólk unnvörpum vildi ekki sætta sig við, er það skýlaust heimilt samkv. gildandi kosningalögum að bjóða þá fram annan lista í nafni sama flokks. Ef allir frambjóðendur á þeim lista lýsa yfir, að þeir séu í framboði fyrir flokkinn, eða allir meðmælendur listans lýsa því yfir, að þeir mæli með listanum fyrir ákveðinn flokk, þá duga engin mótmæli félagsstjórnar eða flokksstjórnar. Það er öllum nú ljóst. Það er kannske skýrast í þessu máli að lesa orðrétt úrskurð landskjörstjórnar, sem féll varðandi þetta mál, sem sagt er undirrót þess tillöguflutnings, sem hér er um að ræða. Úrskurður landskjörstjórnar var á þessa leið í heild, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. d-lið 31. gr. stjórnarskrárinnar sitja á Alþingi 11 landskjörnir þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar. Er landskjörstjórn í kosningalögum falin framkvæmd þessa ákvæðis.

Landskjörstjórn getur ekki úthlutað uppbótarþingsætum fyrr en að kosningum loknum, svo sem mælt er í 119. gr. kosningalaga. Hins vegar leiðir af 40. gr. l., að landskjörstjórn á úrskurðarvald um það, hvernig listar eru merktir, en af því leiðir, að yfirkjörstjórn ber að hlíta ákvörðun landskjörstjórnar í því efni.

Í 27. gr. kosningalaga er svo mælt, að framboðslista skuli fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé boðinn fram. Jafnframt er í 41. gr. afdráttarlaust heimilað, að fleiri en einn lista megi bjóða fram fyrir sama stjórnmálaflokk í kjördæmi,.og skal þá merkja listana svo sem mælt er í greininni. Meðferð kosningalaga á Alþ. 1933 og 1959 sýnir, að ætlan löggjafans var sú, að ekki þyrfti samþykki stjórnmálaflokks til þess, að listi yrði boðinn fram fyrir flokkinn. Um fjölda frambjóðenda á hverjum lista gildir niðurlagsákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar og um fjölda meðmælenda á lista ákvæði 27. gr. kosningalaga.

Þar sem meðmælendur framboðslista Hannibals Valdimarssonar o.fl. hafa lýst því yfir, að listinn sé boðinn fram fyrir Alþb., og ágreiningslaust er, að Alþb. hefur listabókstafinn G, verður með skírskotun til 41. gr. kosningalaga að telja, að lista Hannibals Valdimarssonar o.fl. beri að merkja bókstöfunum GG.“

Þá kemur að dómsorðinu:

„Því úrskurðast: Listi Hannibals Valdimarssonar o.fl. við alþingiskosningarnar 11. júní 1967 skal merktur bókstöfunum GG.

Landskjörstjórn, 13. maí 1967,

Einar B. Guðmundsson, Einar Arnalds, Vilhjálmur Jónsson, Guðjón Styrkársson,

Björgvin Sigurðsson.“

Einnig lá svo fyrir yfirlýsing frá formanni landskjörstjórnar, Einari Baldvin Guðmundssyni. Hún kom í ríkisútvarpinu og var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fréttastofan hafði í kvöld samband við Einar B. Guðmundsson, formann landskjörstjórnar. Hann sagði, að landskjörstjórn hefði ekki haldið fund, síðan bréfið barst frá yfirkjörstjórn. Hins vegar sagði Einar, að hvernig sem yfirkjörstjórn auglýsti listann, leiddi úrskurður landskjörstjórnar til þess, að uppbótarsætum yrði úthlutað í samræmi við hann, þannig að atkv., sem greidd yrðu listanum, teldust til lista Alþb.

Staðfest rétt,

Margrét Indriðadóttir.“

Ég segi það enn, ég get ekki séð, að það sé nokkrum manni fært að halda því fram, að ákvæði núverandi kosningalaga séu óskýr, séu ekki skiljanleg öllum, sem læsir eru á mælt íslenzkt mál, og eftir að úrskurður landskjörstjórnar hefur komizt í framkvæmd og Alþ. staðfest hann, er það út í hött að tala um nauðsyn á því að gera óljós ákvæði kosningalaga skýrari.

Hæstv. dómsmrh. tók það fram í dag í ræðu sinni, að þegar flokkarnir gáfu yfirlýsingar hér á Alþ. um þetta mál á s.l. hausti, hefðu þeir ekkert um það sagt, hvernig þeir ætluðu að gera hin óljósu ákvæði kosningal. skýr. En það virðist eiga að gerast með þeim till., sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt. En þær till. koma eftir að málið er hætt að vera á nokkurn hátt vafamál. Nú er það ekkert vafamál og allur tillöguflutningur til þess að gera gildandi kosningalög skýrari algerlega óþarfur, allur slíkur tillöguflutningur óþarfur. Það er hætt að vera vafamál, hafi það verið vafamál fyrir einhverjum í vor. Það er ekki þörf á því, að flokksstjórnir leggi samþykki á fleiri en eitt framboð. Það er skýrt, að það er heimilt, ef frambjóðendur lýsa því yfir, fyrir hvaða flokk þeir bjóði sig fram, og ef meðmælendurnir lýsa því yfir, fyrir hvaða flokk þeir mæli með lista. Samkv. fyrri till. hæstv. forsrh. átti að banna það, að framboð gæti verið nema eitt fyrir einn og sama flokk og það átti að tilskilja samþykki flokksstjórnar, en samkv. síðari till. á nú að vera leyfilegt að bera fram tvo eða fleiri lista og ekki krafizt skriflegra yfirlýsinga flokksstjórna, heldur þess aðila, sem á að staðfesta framboð hjá viðkomandi flokki. Og að því leyti er þessi till. verri en sú fyrri, að það á að vera eftir geðþótta flokkanna. Það á að vera leyfilegt, að framboðin séu fleiri en eitt þegar flokkur ætlar í spekúlasjónsskyni að hafa framboðin fleiri en eitt. Samkv. síðari till. hæstv. dómsmrh. getur flokkur tekið upp á því að hafa þrjú framboð, fjögur framboð, engin takmörk hve mörg, ef honum reiknast svo til, að með mörgum framboðum geti hann nurlað saman atkv. frá öðrum flokkum, þá geti hann haft flokkslegan ávinning af því. En ef fólkið, kjósendurnir þyrftu að hnekkja einhliða þröngu framboði klíku í flokki, þá á ekki að tryggja rétt fólksins með þessari till. Þess vegna segi ég: Þessi till. er óhæfari hinni fyrri. Ef hópur skattsvikara t.d. vildi bjóða fram sérstaklega og hópur stóreignamanna, hópur kaupmannasamtaka t.d., o.fl. o.fl. hópar vildu bera fram framboð og flokksstjórnin eða sá aðili, sem staðfesta skal framboð, kæmist að þeirri niðurstöðu, að líklega kæmu þessir mörgu listar að landi með fleiri atkv. en einn flokkslisti, eiga samkv. síðustu till. hæstv. dómsmrh. slík framboð að vera heimil. En ef það kæmi fram framboð eins og mitt og minna félaga á s.l. vori, þannig að þeir sem skipuðu sérstök framboð, teldu, að of þröngt væri siglt, svo einhliða, að það væri einungis einn skoðanahópur innan flokksins, sem hefði valið sína menn á framboðslista, og þeir vildu ekki við það una og vildu bjóða fram sérstakan lista samkv. skýlausum ákvæðum gildandi kosningalaga og leggja þannig undir dóm kjósenda, hvort það væri rétt eða ímyndun ein, að framboðið hjá flokksstjórninni hefði verið of þröngt, hvað þá? Ef fólkið vildi ganga undir þennan dóm, þá á það ekki að fá að ganga undir þennan dóm núna samkv. till. dómsrh. Það á ekki að fá það. Þá á bara einhver aðili í flokknum að geta sagt: Nei, þetta framboð skal ekki samþykkt. Og ef mótmæli koma fram, fá menn ekki að bjóða sig fram fyrir sinn flokk, fá ekki að leggja atkv. sínum flokki, þá skal landskjötstjórnin dæma þetta utanflokksframboð. Þeir skulu ekki fá að velja á milli manna, flokksmennirnir, mannanna á G-listanum og I-listanum, svo að maður minni á dæmið frá því í vor, og atkv. leggist síðan flokknum. Nei, það skal bannað. Þó er það vitanlegt, þegar slíkt framboð fær undirtektir og fær mann kosinn, þá er það sönnun þess, að viðkomandi flokksstjórn eða þeir; sem stilltu upp lista upphaflega fyrir flokkinn, hafa gert sig seka um of þröngt framboð og að flokksmennirnir hafa viljað hafa valfrelsi um að velja aðra menn fyrir flokkinn, en það skal þeim bannað.

Með þessari brasktillögu hefur hv. l. þm. Austf. séð sérstaka ástæðu til þess að mæla alveg sérstaklega, að flokkur megi hafa marga í kjöri, ef og í þeim tilfellum, sem hann metur það flokkslegan ávinning heldur en hafa framboðið eitt, en ekki til þess að ganga úr skugga um það, hver dómur fólksins er. Fólkið má ekki hafa rétt til þess að dæma á milli tveggja lista fyrir sinn flokk og segja til, hverja menn á þessum listum það vilji heldur, en þó þjóna flokknum.

Það er í samræmi við það, sem ég hef nú sagt, alveg hárrétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði í dag, þegar hann bar saman sína fyrri og sína síðari till., það er formsbreyting. Það er formsbreyting, en ekki efnisbreyting, sem um er að ræða milli hans fyrri till. og hinnar síðari. (Dómsmrh.: Ég sagði, að það væri bæði efnisbreyting og formsbreyting.) Ég skrifaði það rétt af vörum hæstv. ráðh., að hann sagði, að þetta væri formsbreyting, og hann neitar því nú ekki, hann segir að það hafi verið formsbreyting og efnisbreyting, en hann lagði áherzlu á að það væri formsbreyting. Og það tel ég, að hafi verið rétt hjá honum. Hann er þeirrar skoðunar, að það megi koma fram fleiri en einn listi, ef honum sé ekki mótmælt, þ.e.a.s. hann sé talinn vera í þágu stjórnenda flokksins. Það mega koma fram fleiri framboð, þegar flokkur sér sér hag í því, en ekki þó að kjósendur sæju sér hag í því fyrir sinn flokk og vildu fá rétt til þess að velja milli annarra manna í flokknum. Það mun vera rétt, að hjá mörgum flokkum gildir sú regla, að kjördæmisráðin í hverju kjördæmi ákveði framboðin, og hjá sumum flokkunum þarf ekki staðfestingu miðstjórnar, hjá öðrum flokkum þarf staðfestingu miðstjórnar á þessu. Það mun vera hjá Sjálfstfl. þannig, að þó að framboðin séu ákveðin í kjördæmunum, hafa þau ekki hlotið gildi, fyrr en þau hafa fengið staðfestingu miðstjórnar. Samkv. orðalagi till. dómsmrh. eins og hún liggur nú fyrir, skal landskjörstjórn úrskurða lista utan flokka ef mótmæli koma fram frá þeim aðila í flokknum sem á að ákveða eða staðfesta framboð, og landskjörstjórn skal úrskurða úthlutun uppbótarþingsæta í samræmi við það, þegar mótmæli hafa komið fram, en með allt öðrum hætti, ef ekki er mótmælt.

Ég skal nú ekki fara miklu fleiri orðum um ræðu hæstv. ráðh. í dag, aðeins þó víkja að því, að hann viðurkenndi í sinni ræðu, að það væri vissulega þörf endurskoðunar kosningalaga. En þó vildi hann ekki fresta afgreiðslu brtt. við stjórnarfrv. nú, virtist halda sér fast við það að knýja sína brtt. fram. Og hann gerði það með þessum orðum: Við vitum ekki, hvenær kann að verða kosið. Þess vegna er bezt að setja undir lekann. — En þessi leki hæstv. ráðh. er bara ímyndun. Það er ekki neinn leka að setja undir, því að Alþ. hefur kveðið upp skýran úrskurð um, hvaða réttur sé til fleiri en eins framboðs fyrir einn og sama flokk í sama kjördæmi. Það þarf ekki að setja undir neinn leka, því að hann er þegar stöðvaður. Það hefur gerzt með skýrum úrskurði landskjörstjórnar, og það hefur enn betur gerzt með lokaúrskurði Alþ.

Ég heyrði það á ræðu hv. f. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, að hann hafði ekki verið alls kostar ánægður með fyrri útgáfu af till. dómsmrh., því að hún hefði ekki samrýmzt að öllu leyti flokksreglum Framsfl. um framboð, en till. hæstv. ráðh., eins og hún væri nú í þessu breytta formi, hann lýsti sig samþykkan henni, ánægðan með hana og mundi greiða henni atkv., því að hann teldi hana eðlilega. Hann sagði, að flokkarnir ættu að hafa sama rétt og sérhver önnur félagssamtök, og mér skildist á honum, að þar ætti það að ráða, að meiri hl. í flokki ætti að hafa alger ráð. Ég gat ekki skilið það öðruvísi. Rétt minni hl. minntist hann ekki á a.m.k. En það er einmitt þetta, sem er um að ræða: Eiga þau ákvæði, sem eru í gildandi kosningalögum og verja rétt minni hl. að vera eða á að afnema þau? Á að ofurselja minni hl. í flokkum algerum flokkslegum yfirráðum, flokkslegu einræði þeirra, sem merkja meiri hl. í flokki, og á að loka öllum leiðum til þess, að kjósendur megi velja á milli manna, ef minni hl. hefur verið misboðið með einhliða og þröngu framboði? Ég er ekki þeirrar skoðunar, að flokkar veikist neitt við það, þó að réttur minni hl. sé allvel tryggður. Ég held, að það sé einmitt í samræmi við anda lýðræðis og þingræðis að réttur minni hl. sé allverulega tryggður og það jafnvel betur en gert er í íslenzkri löggjöf.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson taldi það vera nægilegt, að ef minni hl. í flokki væri óánægður með ákveðið framboð, þá hefðu þeir leyfi til þess að bjóða fram utan flokka. Er það nú víst, að það væri til bóta að neyða minni hl. í flokki til að segja skilið við sinn flokk og stofna nýjan? Er það alveg víst, að það væri til bóta að knýja menn þannig til að fjölga flokkum fremur en lögin heimili minni hl. vissan rétt og gefi honum þannig kost á að velja á milli manna innan flokksins með fleiri en einu framboði, eins og lögin ætlast til nú? Ég er þeirrar skoðunar, að flokkarnir séu sterkari, ef þeir iðka það og jafnvel verða að gera það samkv. gildandi lagaákvæðum að taka tillit til minni hl. Það má vel vera, að ef till. hæstv. dómsmrh. hefði verið orðin að lögum í vor, hefðum við í Alþb., sem stóðum að öðru framboði, ekki átt neins annars kost en að bjóða fram utanflokkalista, sem við ekki gerðum. Við vildum, að okkar flokkur nyti atkv., sem við fengjum og okkar flokkur fékk þau atkv. En ef till., sem við erum að ræða um núna, hefði verið orðin samþ., hefðum við ekki átt þennan möguleika. Við hefðum orðið að hrökklast úr röðum Alþb. og bjóða fram utan flokka, koma sem sérstæður flokkur inn í þingið. Hefði Alþb. verið að sterkara? Ég sé það ekki. Ég sé ekki, að þau ákvæði í gildandi kosningalögum, sem leiddu til tveggja framboða hjá Alþb. á s.l. vori, hafi á nokkurn hátt veikt Alþb., og það finnst mér stangast á við röksemdafærslu hv. 1. þm. Austf.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, mælti með brtt. Dómsmrh. Ef hún á rétt á sér nú, þessi till. mundi hún vafalaust við vandlega endurskoðun kosningal. á næstu mánuðum, fyrir næsta þing, hljóta náð fyrir augum manna, augum glöggra endurskoðenda á löggjöfinni. Þá mundi hún sennilega skila sér, þessi góða till. Ég sé ekki, að það ætti að vera nokkur hætta á því, að hún fyrirfærist og þess vegna spyr ég hv. þm.: Telur hann svo bráðnauðsynlegt, að þessi till. hæstv, dómsmrh. Verði samþ. nú, að hann geti ekki fallizt á, að hún verði látin bíða eins og önnur atriði kosningal., sem endurskoða þarf að margra áliti? Mér mundi þykja mjög mikilsvert að heyra frá honum, hvort hann teldi hana svo bráðaðkallandi, þó að hann sé efnislega samþykkur henni, að hann gæti ekki hugsað sér, að hún biði hinnar almennu endurskoðunar. Ég fer ekkert dult með það, að ég mun bera fram ákveðin tilmæli til hæstv. dómsmrh. um það og til ríkisstj., að hún láti sér nægja að fá stjórnarfrv. eitt samþ. án annarra breytinga, en því sé jafnframt slegið föstu, að kosningal. verði tekin til endurskoðunar fyrir næsta haust og þá borin fram á Alþ. endurskoðuð. Ég býst við því, að ef þessum tilmælum mínum verður synjað af hæstv. dómsmrh., sem getur ráðið þar mestu um, þar sem hann er tillögumaður, ættu forustumenn annarra flokka, þ. á m. hv. 1. þm. Austf., að geta fallizt á frestun á afgreiðslu þessari till. Þó veit ég það ekki, og þess vegna spyr ég hann um það, hvort hann telji, að svo mikið liggi á að samþykkja þessa breytingu, sem í till. felst, að hann gæti ekki hugsað sér að fallast á, að sú breyting yrði látin bíða almennrar endurskoðunar, sem fram færi fyrir næsta þing.

Hv. þm. Eysteinn Jónsson orðaði það þannig í dag, að flokkarnir væru ofurseldir óviðkomandi fólki, ef kosningal. væru óbreytt og brtt. ráðh. væri ekki samþykkt. Ég veit nú ekki, hvað hann á við með þessu. Hafi hann haft í huga framboð mitt og minna félaga s.l. vor, er það augljóst mál, að það fólk var ekki óviðkomandi Alþb. (Gripið fram í.) Einhvern tíma í ræðunni tók hv. þm. það fram, að hann væri ekki með hugann við það framboð, en ég held samt, að það hafi af og til hvarflað að honum, að breytingarinnar væri þörf vegna þess, sem komið hefði fyrir, og það kæmi nánar fram í því, sem hann sagði. Það var ekkert óviðkomandi fólk, sem stóð að þessum lista. Það var formaður Alþb. í efsta sæti, og það voru fjöldamargir Alþb.-menn alkunnir á listanum, ýmsir forustumenn úr verkalýðshreyfingunni fyrr og síðar og meðal meðmælendanna, þekktir Alþb.-menn og forustumenn í stéttarfélögunum hér í Reykjavík. Það var þetta fólk, sem fór fram á það að mega nota sér skýr og skýlaus ákvæði kosningal. um það að bjóða fram annan lista, af því að það hafði verið boðinn fram í nafni Alþb. listi, sem svo að segja eingöngu var skipaður einum skoðanaarmi Alþb., þ.e.a.s. viðurkenndum kommúnistum. Og við þetta vildum við ekki sætta okkur. Ef þessi listi, sem merktur var G-listi., hefði í hugum fólks verið talinn þannig samansettur, að Alþb.-fólk almennt vildi og gæti sætt sig við hann, þá hefði minn listi sennilega lítið sem ekkert atkvæðamagn fengið, en það litið það hefði verið, hefði það þó fallið Alþb. En dómurinn varð sá, að kommúnistaarmurinn í Alþb. hefði stillt of þröngt til þess að ná atkv. og stuðningi Alþb.-manna almennt. Hálft fjórða þús. kjósenda sagðist ekki vilja sætta sig við það framboð, sem vissulega hafði þó verið ákveðið af stjórn

Alþb.-félagsins í Reykjavík, og leyfði sér það samkv. kosningalögum að kjósa annan lista. Og af því að við notuðum þennan rétt, fékk Alþb. þennan stuðning, stuðning þessa fólks, sem að öðrum kosti hefði verið misboðið á þann hátt, að það hefði orðið að yfirgefa Alþb., bjóða fram utan flokka og ætlast þannig alls ekki til þess, að Alþb. fengi þetta atkvæðamagn, mikið eða lítið, sem listinn drægi að landi. Eins og l. eru nú, fer það ekkert á milli mála, að þegar boðinn er fram annar listi í nafni ákveðins flokks og fullnægir gildandi ákvæðum um það, frambjóðendurnir lýsa því yfir, fyrir hvaða flokk þeir bjóði sig fram, og meðmælendurnir votta það allir saman, þá fær viðkomandi flokkur atkv. og hann fær uppbótarsæti, eins og atkvæðamagnið nægir til. Getur nokkur bent á, að flokkur geti haft tjón af þessum rétti, sem kosningal. heimila? Menn hafa verið að tala um, að þetta skapi möguleika fyrir því, að annarra flokka menn geti hópað sig saman á lista og boðið sig fram í nafni annars flokks. Þetta er slík fásinna, að engu tali tekur. Dettur nokkrum manni í hug, að sjálfstæðismenn raði sér upp á lista í Reykjavík og segist bjóða sig fram fyrir Framsfl., og fái 200 meðmælendur til að votta það, að þeir styðji þennan lista fyrir Framsfl., þennan lista sjálfstæðismanna fyrir Framsfl.? Sjálfstæðismennirnir sem þetta gerðu, eða úr hvaða flokki sem þeir væru, yrðu að leggja sig í þá áhættu, að atkv., sem listinn fengi, féllu svo sem ekki Sjálfstfl., ekki þeirra flokki, nei, heldur yrðu Framsfl. til styrktar, hversu fá eða mörg sem þau yrðu. Þetta mundi vera algerlega utan við takmörk hins mögulega. Þetta er fásinna. Það kemur ekki fram annar listi í nafni flokks, nema flokksmenn fáist til þess að skipa hann og flokksmenn fáist til þess að mæla með honum. Þeir, sem tala um nauðsynina á því að afnema þennan rétt flokksmanna til að velja á milli manna, en láta sinn flokk njóta atkv., sem báðir listarnir fá, eru, hvort sem þeir vilja játa það eða ekki, talsmenn fyrir óheftu flokksræði. Þeir vilja ekki láta sér nægja neitt annað eða minna en að meiri hl. skuli einn geta ákveðið framboð og ákveðið þannig hverja kjósendurnir í flokknum skuli og verði að kjósa, ella víkja úr flokknum. Þeir vilja ekki viðurkenna minni hl. neinn rétt til þess að gefa fólki kost á að velja á milli manna í flokknum. Þeir eru að berjast fyrir flokksræði. Þeir eru að berjast móti lýðræði, engu síður hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, heldur en sjálfur dómsmrh. Þeir eru báðir að berjast fyrir flokksræði gegn lýðræði. Og það hefur ekkert breytzt frá fyrstu till. dómsmrh. annað en það, að hin síðari er dulbúin árás á lýðræðið, dulbúinn málflutningur fyrir flokksræðið, en fyrri till. hans var opinská og heiðarleg og duldist engum. En þessa breytingu þurfti til, til þess að hv. 1. þm. Austf. lýsti sig ánægðan og samþykkan. — Og þá hlær Björn Pálsson.

Nei, sú till., sem hér liggur fyrir frá hæstv. dómsmrh. í annarri útgáfu, gengur á svig við rétt minni hl. í flokkum, gengur gegn rétti minni hl., og hún gengur þráðbeint gegn mannréttindum hins almenna kjósanda, í hvaða flokki sem er. Hún er flokksræðistill., svolítið dulbúnari í seinni útgáfunni en þeirri fyrri. Það er því eingöngu formsbreyting, sem átt hefur sér stað í þessum tillöguflutningi, lítil eða engin efnisbreyting.

Hv. 1. þm. Austf. talaði um, að það mætti ekki veikja flokkana, það þyrfti að styrkja þá og styðja, og að lýðræðið mundi ekki eflast, ef flokkarnir yrðu veiktir. Ég er sízt á móti því, að flokkar séu sterkar stofnanir. En ég held, að svo bezt séu þeir sterkar stofnanir, en ekki risar á brauðfótum, eins og hv. þm. orðaði það, að þeir taki tillit til minni hl. Ef þeir taka ekki tillit til minni hl, og vilja sníða lög á þann hátt, að þeir þurfi ekki að gera það, þá verða þeir veikir. Það er mín sannfæring. Sá lýðræðisandi er til í Íslendingum, að með þeim vinnubrögðum verða flokkarnir veikir, gera sig veikari. Þeir munu ekki styrkja sig með auknu flokksræði. Þeir munu styrkja sig, ef þeir gæta anda lýðræðisins og ætla minni hl. einnig nokkurn rétt. Þar eru gildandi lagaákvæði miklu meira í anda lýðræðisins heldur en þau ákvæði, sem nú er ætlunin að lögfesta með brtt. hæstv. dómsmrh.

En það fannst mér furðulegt, að meginstofn ræðu hv. 1. þm. Austf. var um það, að það þyrfti að efla flokkana á margvíslegan hátt, það þyrfti að gera þeim fært að hafa starfsmenn, það þyrfti að gera þeim fært að afla sér upplýsinga, og um þetta fór hann mörgum orðum og hélt mikinn fyrirlestur um þetta, hvernig ætti að efla flokkana að þessu leyti. Og ég var honum samþykkur að þessu leyti. En það var bara allt saman um efnisatriði, sem ekkert koma nálægt kosningalögum á nokkurn hátt. Hann lýsti því, hvernig stjórnarflokkarnir væru að vísu betur settir en stjórnarandstöðuflokkarnir að því leyti að geta sótt vit sitt í alls konar sérfræðinga og embættismenn, þeir hefðu menn á hverjum fingri sjálfir ráðh., en þm. í stjórnarflokkunum væru litlu betur settir um þekkingaröflun á almennum þjóðmálum og að kryfja þau til mergjar heldur en þm. stjórnarandstöðuflokkanna. Og hann sagði að ungur ráðh. væri alveg ömurlega settur, þegar hann yrði settur andspænis þessu valdamikla embættis og sérfræðingakerfi, sem nú ríkti í íslenzku þjóðfélagi, hann gæti varla risið gegn því og það gætu þm. jafnvel í stjórnarflokkunum ekki heldur. Þetta embættis- og sérfræðingakerfi væri orðið svo sterkt, að það yfirbugaði allt og gerði þá, eins og hann sagði, bæði unga ráðh. og þm. stjórnarandstöðuflokkanna og þm. stjórnarflokkanna líka, að föngum embættis- og sérfræðingakerfisins.

En hvað kemur þetta allt saman, þó að hann hafi hárrétt fyrir sér í þessu, — hvað kemur þetta við kosningalögunum? Ekki hið minnsta. Ég held, að hann hafi tekið einhverja gamla ræðu, sem ekkert átti við í þessu samhengi, og ágæta ræðu, en hún snertir ekki þetta mál. Það má vel vera, að það þurfi að efla flokkana og starfsaðstöðu þeirra að því er þetta snertir. En um það er hægt að bera fram alveg sjálfstæðar till., þó að við látum brtt. hæstv. dómsmrh. bíða almennrar endurskoðunar kosningal., svo mikið er víst. Nei, þó að ég berjist á mót till. hæstv. dómsmrh., er það ekki af því, að ég vilji veikja flokkana. Það er ekki af því, að fyrir mér vaki neinar ólýðræðislegar hugsanir. Ég held einmitt, að lýðræðinu sé betur sinnt með lögunum eins og þau eru nú heldur en að samþykktri brtt. ráðh., og ég held líka, að flokkarnir séu sterkari, ef þeir verða að lúta lýðræðislegum ákvæðum laga um það, að flokkarnir taki tillit til minni hl. Og því aðeins að flokkarnir taki til ólýðræðislegra vinnubragða veikjast þeir. En ef þeir taka tillit til lýðræðislegra vinnubragða í sínum starfsháttum, styrkjast þeir, og það held ég, að sé mergurinn málsins. Og l., eins og þau eru, eru vörn gegn því, að flokkarnir beiti minni hl. ofríki.

En núna vakir það fyrir mönnum með fylgi við brtt. hæstv. dómsmrh. að auka flokksræðið, veikja lýðræðið, og þannig mundi samþykkt till. veikja flokkana og ganga þvert gegn því, sem hv. 1. þm. Austf. taldi skipta mestu máli í þessu sambandi.

Hv. Alþ. hefur áður fyrr staðið frammi fyrir því, hvort ætti að innleiða þau vinnubrögð, sem fólust í fyrri till. hæstv. dómsmrh. og þar með einnig í till. hans í núverandi mynd, því að efnið er hið sama. Alþ. hefur tvisvar sinnum tekið ákvarðanir um, hvort það ætti að lögfesta þessi ákvæði í einni eða annarri mynd eða ekki. Til þessa hefur Alþ. tekið afstöðu bæði 1933 og 1959. Og það vekur því athygli áreiðanlega, hvað Alþ. gerir nú, þegar það er tekið til athugunar í þriðja sinn, hvernig eigi að haga löggjöf um þessi efni.

Eins og alkunnugt er, var stjórnarskrárbreyting samþ. á árinu 1933, og sú stjórnarskrárbreyting heimilaði stjórnmálaflokkunum að bera fram landslista og hafa þannig áhrif á úthlutun uppbótarþingsæta, því að það voru flokksstjórnirnar, sem máttu ráða röðun á landslista. Ég man það sérstaklega, að Alþfl. notfærði sér jafnan, meðan þessi lagaheimild var, heimildina til þess að raða á landslista, og má vera, að einhverjir fleiri flokkar hafi notfært sér þá heimild. En svo mikið er víst, flokkarnir fengu með stjórnarskrárbreytingunni frá 1933 heimild til þess að bera fram landslista og raða á landslistann og fengu þannig ákaflega mikil flokksleg ráð til þess að hafa áhrif á úthlutun uppbótarþingsæta.

Í frv. til kosningalaga, sem lagt var fram á Alþ. á aukaþingi 1933, eftir að stjórnarskrárbreytingin hafði verið samþ., var svo hljóðandi ákvæði um takmörkun á rétti manna til þess að bjóða fram frambjóðanda eða í Reykjavík lista í nafni flokks:

„Framboði einstaks frambjóðanda, svo og framboðslista í Reykjavík, skal fylgja skrifleg yfirlýsing frambjóðandans, eða þegar um lista er að ræða þeirra, sem lýsa yfir, að þeir styðji kosningu listans, fyrir hvern stjórnmálaflokk frambjóðandinn eða listinn sé boðinn fram, svo og skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að frambjóðandinn eða listinn skuli vera í kjöri fyrir flokkinn. Þó nægir, ef yfirlýsing flokksstjórnar kemur áður en kjörseðlar eru fullgerðir. Vanti aðra hvora yfirlýsinguna eða báðar, telst frambjóðandinn eða listinn utan flokka.“

Kannast menn við þetta orðalag? Þetta er nákvæmlega það, sem felst í fyrri útgáfu till. hæstv. dómsmrh. Hann hefur tekið hér upp till., sem var borin fram í kosningalagafrv. 1933. Orðalagið er nákvæmlega það sama og efnisatriðin eru þau sömu. En hvernig leizt nú Alþ. á þetta 1933? Þetta ákvæði 1933, sem fól augljóslega í sér, að fleira en eitt framboð í nafni flokks skyldi því aðeins tekið gilt, að því fylgdi skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar, en ella skyldi framboðið teljast utan flokka, var fellt. Ákvæðið var fellt 1933. Strax í meðferð Nd. Alþ. var það fellt með 16:12 atkv., og í stað þess var sett ákvæði samhljóða því, sem nú gildir og ekki krefst neinnar viðurkenningar flokks á öðru framboði í flokksnafni. Þannig fór þetta 1933. Það var borið fram stjórnarfrv. með þeim ákvæðum, sem hæstv. dómsmrh. vill nú láta taka upp, en það var fellt í Nd. strax með 16:12 atkv. En fulltrúar flokksræðisins þá voru iðnir við kolann eins og nú, því að eftir að þessi efnisatriði, sem ég nú greindi, höfðu verið felld í Nd., var samt gerð tilraun til þess í Ed. að koma aftur inn í frv. ákvæði um, að skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að frambjóðandi eða listi mætti vera í framboði fyrir flokkinn, væri gerð að skilyrði fyrir því, að bjóða mætti fram fleiri en einn frambjóðanda eða lista fyrir einn og sama flokk. Og hvernig fór þetta þá í Ed. við aðra tilraunina á því þingi? Sú tilraun mistókst einnig, því að þessi till., sem þar var borin fram, var felld í Ed. með 8:5 atkv. Um þetta má sjá í Alþingistíðindum, B-deild, árið 1933, 220. dálki. Þar með var þessi tilraun til þess að tryggja einræði flokksstjórnanna endanlega fallin á þessu þingi, 1933, og hefur aldrei skotið upp kollinum á Alþ. síðan þar til nú. Afturgangan er komin nú.

Ég skal fara fljótt yfir þessa sögu, en þó má geta þess, að meðal þeirra, sem stóðu að því að fella þetta ákvæði, voru Ólafur Thors, Tryggvi heitinn Þórhallsson, Pétur Ottesen, Ásgeir Ásgeirsson núv. forseti og Jörundur Brynjólfsson. Og ég get enn fremur upplýst, að aðrir, sem lögðu hönd að því verki að fella ákvæðið í burtu, voru Magnús Guðmundsson, Pétur Halldórsson, Guðbrandur Ísberg, Þorsteinn Þorsteinsson, Jóhann Þ. Jósefsson, Jón Ólafsson, Bernharð Stefánsson, Halldór Stefánsson, Jón Sigurðsson á Reynistað, Jón Pálmason á Akri og Hannes Jónsson.

Mér virðist, að þessi upptalning sýni, að það voru engir aukvisar, sem risu upp til varnar lýðræðislegum rétti kjósendanna gegn flokksræðinu á þinginu 1933. Kannske eru þessir menn einskis virtir nú í Framsfl. og Sjálfstfl., en hér hef ég þó nefnt nöfn flestra forustumanna þessara flokka og margra virtra þm. þeirra, sem þá sátu á þingi. Menn halda kannske, að afstaða sósíalista á því þingi, 1933, hafi verið á annan veg en Ólafs Thors og Tryggva Þórhallssonar og Péturs Ottesens og Jóns á Reynistað og Jóns á Akri og þeirra, sem ég áðan nefndi, en það var nú síður en svo. Einar Olgeirsson, foringi Sósfl., lét þá í ljós, að sér þætti gæta allt of mikillar tilhneigingar til flokkslegs einræðis, og taldi, að það væri þó stefnt í rétta átt, að menn fengju rétt til þess að bjóða fram annan lista í sama flokki, en þó væri þar varla sinnt nægilega réttindum fólksins. Hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Mér hefur virzt vera nokkur tilhneiging til þess að gera ráð flakkanna nokkuð mikil í þeim till. og hugmyndum, sem fram hafa komið í umr. um þessi mál. Að vísu eiga kjósendur þess kost, ef þeir eru óánægðir með t.d. 1., 2. eða 3. frambjóðanda eða einhvern þeirra, að bjóða fram annan lista, þó að þeir tilheyri sama flokki, og ef sá listi yrði sterkari, er, t.d. ef um 1 mann er að ræða, efsti maður af honum kosinn.“

Þannig er það, að enginn ómerkari maður en formaður Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., hefur opinberlega samkv. vitnisburði þingtíðindanna sett fram sinn skilning á þessum ákvæðum kosningal., þegar umr. fór fram um þau á Alþ. 1959. Hann taldi sem sé ekki nægilega langt gengið til þess að tryggja rétt flokksmannanna með þeim ákvæðum, sem enn eru í gildi í kosningal., og hann studdi því vissulega að því að fella þessi ákvæði, sem borin voru fram í stjórnarfrv. 1933, fella þau úr gildi, og þau eru samhljóða þeim ákvæðum, sem felast í fyrri till. hæstv. dómsmrh. Ég kemst ekki hjá því að minna enn á 26. gr. stjórnarskrárinnar frá 1934:

„Heimilt er flokkum að hafa landslista í kjöri við almennar kosningar, enda greiði þá kjósendur atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða þá landslista.“

Þessi ákvæði stjórnarskrárinnar frá árinu 1934 um landslista í nafni flokkanna voru í gildi fram til ársins 1959, en þá steig löggjafinn það geysiþýðingarmikla skref að fella niður með öllu ákvæðið um heimild flokka til þess að hafa landslista í kjöri, og þar af leiðandi voru felld niður ákvæðin um rétt og skyldur flokka til þess að raða mönnum á landslista. Með því féllu eðlilega alveg niður ákvæði kosningalaga um rétt flokka eða flokksstjórna til þess að hafa nokkur áhrif á úthlutun uppbótarþingsæta, og það hafa stjórnir flokka ekki haft síðan, þar til á að reyna að innleiða þann rétt til handa flokksstjórnunum nú. Ákvæði núgildandi kosningalaga eru líka frá árinu 1959. Aukaþing var kallað saman í júnímánuði 1959, og lá fyrir því það verkefni að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna í annað sinn, eins og á þessu þingi, og veita henni þar með stjórnarskipunargildi og setja ný kosningalög í samræmi við stjórnarskrárbreytinguna og endurskoða þau að öðru leyti, ef Alþ. þá sýndist svo. Þegar þáv. dómsmrh., Friðjón Skarphéðinsson, lagði frv. til hinna nýju kosningalaga fyrir Alþ., lét hann þess getið, að það hefði verið samið af þremur færum lögfræðingum og í frv. væri gert ráð fyrir því, að ákvæði þágildandi kosningalaga yrðu látin haldast nær því óbreytt, önnur en þau ákvæði, sem stjórnarskrárbreytingin tæki til. Í kosningalagafrv. hinna lærðu lögfræðinga voru m. a. þessi ákvæði í 26. gr., þ.e.a.s. í niðurlagi 1. mgr.:

„Þegar landslistar eru bornir fram, skulu þeir tilkynntir landskjörstjórn á sama hátt og eigi síðar en 4 vikum og 2 dögum fyrir kjördag.“

Og í 28. gr. kosningalagafrv. stóð svo: „Landskjörnir þm. eru kjörnir samkv. landslistum, sem stjórnmálaflokkar bera fram. Landslista skal fylgja til landskjörstjórnar skrifleg yfirlýsing um það, hver stjórnmálaflokkur beri hann fram, undirrituð af flokksstjórninni. Slík skýrsla ein nægir, þegar um stjórnmálaflokk er að ræða, sem átt hefur fulltrúa á síðast háðu Alþ., eða náð 1000 atkv. við síðustu alþingiskosningar, þar af a.m.k. 20% greiddra atkv. eða 500 atkv. í einu og sama kjördæmi. Nú uppfyllir stjórnmálaflokkur ekki þessi skilyrði, og skal hann þá láta fylgja lista sínum og skýrslu til landskjörstjórnar skriflega yfirlýsingu frá eigi færri en 500 kjósendum, þar af eigi færri en 20% kjósenda á kjörskrá eða 250 kjósenda í einu og sama kjördæmi, um, að þeir fylli flokkinn, enda séu þeir ekki í öðrum stjórnmálaflokki, er þátt tekur í þeim kosningum, sem í hönd fara.“

En hvað gerði nú Alþ. 1959 við þessar frvgr. lögfræðinganna, sem höfðu samið kosningalagafrv.? Þessir lögfræðingar vildu gera það að skilyrði fyrir löglegum landslista og þar með rétti til uppbótarþingsæta, að honum fylgdi skýrsla, undirrituð af flokksstjórninni, um það, hvaða stjórnmálaflokkur bæri hann fram. Það er fljótsagt. Alþ. kolfelldi einróma báðar þessar fyrirhuguðu lagagreinar, nam þær í burtu úr kosningalagafrv. Og hvernig stóð nú á því, að Alþ. felldi þessar gr. úr kosningalagafrv. 1959? Þær voru við nákvæma athugun í n. taldar brjóta í bága við stjórnarskrána. Mjög mikilsvirtur hæstaréttardómari, sem var einn höfundur stjórnarskrárbreytingarinnar og kosningalagafrv., viðurkenndi, að hér væri um yfirsjón að ræða, og að fengnu þessu áliti varð stjórnarskrárnefnd Nd., sem fékk málið fyrst til meðferðar, einróma sammála um það, að öll þessi ákvæði hinna lærðu lögfræðinga um landslista og skilyrði um yfirlýsingu frá flokksstjórn fyrir rétti til uppbótarþingsæta væru lögleysa ein og brytu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau voru þá orðin, eftir að niður hafði verið felld úr henni heimild til handa flokkum til þess að bera fram landslista eftir sínu höfði og gefa flokksstjórnunum þar með vald til að hafa áhrif á úthlutun uppbótarþingsæta og þar með að svipta t.d. þá menn, sem bornir væru fram í kjördæmum án viðurkenningar flokksstjórnanna, rétt til uppbótarþingsæta. Og nú hefði verið gott, að hæstv. dómsmrh. væri við, því að ég spyr nú: Hver hafði forustu fyrir þessari afstöðu stjórnarskrárnefndarinnar í Nd. um að fella niður þessar greinar, fella þær burt úr kosningalagafrv.? Það var einmitt núv. dómsmrh., Jóhann Hafstein. Hann var frsm. stjórnarskrárnefndarinnar að því er þessi ákvæði snerti, og hann viðurkenndi í framsöguræðu sinni, að nokkur mistök hefðu orðið á samningu kosningalagafrv. hjá hinum lærðu lögfræðingum og þannig hefði láðst að taka í frv. breyt. þær, sem hlaut, eins og hann sagði, að leiða af breytingum nýju stjórnarskrárinnar, þeim breytingum að felld er niður heimild stjórnmálaflokkanna til þess að bera fram landslista. Þetta þurfti að leiðrétta, og er mikið af brtt. n. eingöngu miðað við það. Það var sjálfur núv. hæstv. dómsmrh., sem sagði, að þessi ákvæði, m.a. um viðurkenningu flokksstjórnanna varðandi uppbótarþingsæti, brytu í bága við stjórnarskrána og þess vegna yrði að taka þessi atriði út úr kosningalagafrv. Og allir vita, að stjórnarskránni hefur ekki verið breytt síðan þangað til nú, þegar breyta á kosningaaldrinum, sem ekki snertir þetta mál.

Í umr. um málið í Nd. 1959 kom það skýrt fram, að tilgangur þeirra mætu manna, sem ég áðan nefndi og vildu fella það ákvæði frv. niður, að skrifleg viðurkenning flokksstjórnar þyrfti að fylgja framboði í kjördæmi, var einmitt sú að takmarka vald flokksstjórnanna. Með því að fella þessi ákvæði niður lýstu þm. unnvörpum yfir, að þeir væru að takmarka vald flokksstjórnanna, þeir væru að vinna gegn auknu flokksræði. Halldór Stefánsson, 2. þm. N.-Múl., komst t.d. svo að orði um þetta ákvæði, sem einmitt var fellt niður úr frv. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í síðustu mgr. 27. gr. frv. er svo til tekið, að auk þess sem framboði einstaks frambjóðanda skuli fylgja skrifleg yfirlýsing hans sjálfs um það, hvaða stjórnmálaflokki hann fylgi, skuli og fylgja skrifleg yfirlýsing hlutaðeigandi flokksstjórnar um það, að hann sé í kjöri fyrir flokkinn. Samkv. þessu eru því sjálfir frambjóðendur og meðmælendur þeirra ekki teknir trúanlegir um það, hvaða flokksafstöðu þeir hafi. Mér finnst þetta í fyllsta máta óviðkunnanlegt, þar sem líka hugsunin, sem liggur til grundvallar fyrir því, er sú að koma hér á alræði flokksstjórnanna yfir þjóðarheildinni og einstaklingunum. Ég legg því til, að þetta ákvæði um hina skriflegu yfirlýsingu flokksstjórnanna sé fellt burt úr greininni.“

Og það var gert. Það var fellt burt úr gr. En fleiri þm. d. beittu mjög svipuðum rökum gegn þessu fáránlega ákvæði, enda var það, eins og áður segir, fellt úr kosningalagafrv. og hefur aldrei skotið upp kollinum á Alþ. síðan þar til nú. Till., sem var samhljóða till. hæstv. dómsmrh., var, eins og ég áðan sagði, felld í Nd., og þegar hún var tekin upp í Ed., var hún þar einnig felld. Þar lagðist Pétur Magnússon, síðar ráðh., eindregið á móti þessari till. um einræði flokksstjórna um framboð og beitti sér gegn slíku. Ég skal hafa eftir honum örstutta tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta. Hann sagði í þessu tilfelli m.a.:

„Flokksstjórnirnar hafa vissulega gott af því að fá eitthvert aðhald frá kjósendunum. Ef það aðhald hverfur, er hætt við, að flokksstjórnirnar gætu leiðzt til þess að velja á landslista meira með tilliti til flokkshagsmuna en þjóðarhagsmuna.“

Þá greip Jón Þorláksson fram í fyrir honum og sagði: „Ætli flestir flokkar álíti nú ekki, að það fari saman?“ En Pétur Magnússon svaraði af bragði: „Má vel vera, en mér finnst, að reynslan hafi áþreifanlega kennt okkur, að það gerir það ekki ávallt, en hvað sem því líður, tel ég engum efa undirorpið, að heppilegra sé, að þm. finni til ábyrgðar gagnvart þjóðinni en gagnvart flokknum. En á því gætu e.t.v. orðið einhverjir misbrestir, ef í framkvæmdinni væru flokksstjórnirnar einar, sem réðu yfir endurkosningu þm.

Og nú er það einmitt það, sem á að gera. Það á að setja það undir flokksstjórnirnar, hverjir verða endurkjörnir af þm. og hverjir nýir þm. valdir til. Fólkið á ekki að hafa það frjálsræði, sem það hefur samkv. gildandi kosningalögum til þess að velja á milli manna.

Eins og ég hef nú gert grein fyrir, var mikill bálkur felldur úr kosningalagafrv. 1959, af því að lögfræðingunum hafði sézt yfir að breyta ýmsu í þeim, vegna þess að landslistarnir voru lagðir niður, og kosningalagafrv. 1959 var alveg umsteypt. Þeir höfðu gleymt stjórnarskránni við samningu þess, og brtt. n. urðu 46 að tölu, og það var núv. hæstv. dómsmrh., sem minnti á, að þessi ákvæði brytu í bága við hina breyttu stjórnarskrá. Þess vegna hlýt ég að spyrja: Hafði hæstv. dómsmrh., Jóhann Hafstein, sem leiðrétti yfirsjón lögfræðinganna 1959 gleymzt að taka tillit .til stjórnarskrárinnar, þegar hann bar fram sína fyrri till. núna? Síðan þá hefur stjórnarskránni alls ekki verið breytt að þessu leyti, og fyrst krafa um yfirlýsingu frá flokksstjórn fyrir rétti til uppbótarþingsæta stangaðist á við ákvæði stjórnarskrárinnar, hvernig getur sami Jóhann Hafstein þá leyft sér nú, að stjórnarskránni óbreyttri, að bera fram þá till., að bæta skuli í kosningalög ákvæði um skriflega viðurkenningu flokksstjórna fyrir því, að listi skuli vera í kjöri fyrir flokk. Þetta taldi hæstv. ráðh., og ekki aðeins hann, heldur einnig stjórnarskrárnefndin 1959 og sjálft Alþ., þá brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ráðh., stjórnarskrárnefndin og Alþ. í heild var þá á því, að þessi ákvæði brytu í bága við hina breyttu stjórnarskrá. Og hafi hann haft rétt fyrir sér þá, þá getur það ekki farið á milli mála, að hann hefur nú með till. sínum verið að biðja Alþ. um að samþykkja ákvæði, sem ekki samrýmast stjórnarskránni eftir breytingu þá, sem á henni var gerð 1959. Og þó að ekkert annað kæmi til en þetta, bæri auðvitað að fella slíkar till. Efnislega er síðari till. alveg um það sama og hin fyrri, þó að hún sé öðruvísi orðuð. Sú fyrri hefur verið tekin aftur, en efni hennar tekið upp með breyttu orðalagi í þeirri síðari.

Hvernig undirtektir fengu nú till. hæstv. ráðh., þegar þær komu fram í hinni fyrri útgáfu sinni? Ég hef fáa heyrt mæla þeim bót. Mér er hins vegar kunnugt um það, að mótmæli gegn þessari till. komu fram í Alþýðublaðinu, málgagni annars stjórnarflokksins. Það komu einnig fram mótmæli gegn till. hæstv. ráðh. í Tímanum, blaði Framsfl. Og undirtektir flokksmanna Sjálfstfl. komu skýrlega fram í fleiri en einu eintaki af Morgunblaðinu. Sérstaklega var það áberandi, hverjar undirtektir ungra sjálfstæðismanna voru við þessari till. ráðh. Ég hef áður greint frá því, hvert viðhorf hinna öldnu forustumanna Sjálfstfl. með Ólaf Thors í broddi fylkingar og ýmissa þeirra, semenn eru á lífi, eins og Péturs Ottesens, Jóns á Akri, var við sams konar till. á þingi 1933 og 1959. En nú kemur að því, hver er afstaða unga fólksins í Sjálfstfl. núna. Hún er nefnilega nokkuð á sömu lund og gömlu forustumannanna, sem snerust eindregið gegn sams konar till. tvívegis eins og þeirri, sem hæstv. dómsmrh. ber nú fram og vill lemja fram, getur ekki fallizt á, að því er virðist, að verði frestað, þar til almenn endurskoðun fari fram á kosningalögunum.

Það var 3. febr. í vetur, sem Morgunblaðið birti heilsíðugrein um þessar till. hæstv. ráðh. Greinarhöfundur var ungur, efnilegur lögfræðistúdent, Ármann Sveinsson. Blaðið setti fyrirsögn á grein hans á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Tillaga liggur fyrir Alþingi um stóraukið flokksræði. Alvarleg atlaga að svigrúmi einstaklinganna í stjórnmálaflokkunum.“ Og síðan sagði þar, — ég skal grípa niður í greininni hingað og þangað, með leyfi hæstv. forseta, — hann sagði:

„Fyrir Alþ. liggur nú stjórnarfrv. um breytingu á kosningalögum, nr. 52 1959, til samræmis við till. til stjórnarskrárbreytingar, sem samþykkt var á síðasta þingi og er í annað sinn nú til meðferðar. Við þetta stjórnarfrv. hefur dómsmrh. flutt svo hljóðandi brtt., þskj. 224:

„2. mgr. 27. gr. l. orðist svo:

Framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram, svo og skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að listinn skuli vera í kjöri fyrir flokkinn. Ekki getur stjórnmálaflokkur boðið fram fleiri en einn lista í sama kjördæmi.“

Aðrar brtt. dómsmrh. eru til samræmis við þessa.“

Síðan segir: „Till. dómsmrh. lætur ekki mikið yfir sér, og hafa litlar umr. farið fram um hana enn. Kann það að nokkru að stafa af því, að mál þetta hefur ekki verið á dagskrá d., eftir að ráðh. lagði fram till. Hér er um stórmál að ræða, sem ekki má afgreiða umræðulítið. Till. ráðh, er alvarleg atlaga að svigrúmi óbreyttra flokksmanna stjórnmálaflokkanna, svo og annarra stuðningsmanna þeirra. Hugmyndir um að auka flokksræði kunna að vera eðlilegar frá sjónarhóli forustumanna stjórnmálaflokka, en óbreyttir flokksmenn og aðrir stuðningsmenn fallast ekki á sjónarmið, sem ganga í þá átt.“

Hæstv. dómsmrh. er kominn, og er það vel, því að ég hef hér áður minnt á afstöðu fyrri foringja Sjálfstfl. til samhljóða till. og fyrri útgáfan af hans till. fjallar um og er nú að minna á afstöðu ungu kynslóðarinnar í Sjálfstfl., og sú afstaða er gegn till. hæstv. ráðh., en gengur mjög í sömu átt og afstaða hinna fyrri forustumanna flokksins, eins og Ólafs Thors, Péturs Ottesens, Péturs Magnússonar, Jóns frá Akri og margra fleiri. Ungi maðurinn segir, að till. ráðh. feli í sér „afnám þess ákvæðis, sem staðið hefur í kosningalögum frá 1933 og gilti um kosningar í eina kjördæminu, sem kosið var hlutfallskosningu, Reykjavík, þess efnis, að heimilt sé að bjóða fram fleiri en einn lista í nafni sama flokks í sama kjördæmi. Jafnframt kveður till. ráðh. á um, að skrifleg viðurkenning flokksstjórnar skuli fylgja framboðslista. Núgildandi ákvæði um þetta efni eru í 41. gr. kosningal.“ — á þessa leið, og það eru hin skýru ákvæði, sem enginn hefur getað farið í grafgötur um, hvernig ætti að skilja, og sízt af öllu er hægt að efast um, eftir að Alþ. hefur fellt sinn úrskurð í samræmi við úrskurð landskjörstjórnar. En 41. gr. núgildandi kosningalaga er á þessa leið:

„Nú eru fleiri en einn listi boðnir fram fyrir sama stjórnmálaflokk í kjördæmi, og skal þá merkja þá bókstöfunum A, AA, B, BB og C, CC o.s.frv. Listi, sem boðinn er fram utan flokka, skal merktur bókstaf í áframhaldandi stafrófsröð á eftir flokkslistum.“

Í 27. gr. segir:

„Framboðslista í kjördæmi skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra, sem á listanum eru, að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, svo og skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá eigi færri en 100 og eigi fleiri en 200 kjósendum í Reykjavík og eigi færri en 50 og eigi fleiri en 100 í öðrum kjördæmum. Framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram. Ef yfirlýsingar vantar, telst listi utan flokka.“

Síðan rekur hinn ungi lögfræðinemi, hvernig þetta mál hafi áður borið að Alþ., og minnir á, að sams konar till. hafi verið felld 1933 og einnig 1959, eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Síðan kemur ungi maðurinn með tilvitnun í ræðu, sem núv. formaður Sjálfstfl., núv. hæstv. forsrh., hélt á Alþ. 1959, og segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í umræðum á Alþingi 24. apríl 1959 um stjórnarskrárbreytinguna komst Bjarni Benediktsson forsrh., þáv. formaður stjórnarskrárnefndar Nd., svo að orði í framsöguræðu fyrir nál. meiri hl. n.“ Og síðan kemur tilvitnunin í ræðu hæstv. forsrh. núv. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef margir eru í kjöri, 5 eða 6, og kosið hlutfallskosningu, er ljóst í fyrsta lagi, að kjósandi getur valið um fleiri menn á hverjum lista og er ekki bundinn við þá röðun, sem er á listanum, þegar hann er lagður fram af flokkssamtökum. En eins verður það mun minni áhætta fyrir óánægða flokksmenn að bera fram sérstakan lista, ef hlutfallskosningar eru, vegna þess að þá er líklegt eða meiri líkur til þess, að minni hl. geti komið að sínum manni og þó að klofningur verði í flokki, þurfi það ekki að leiða til þess, að sæti glatist alveg, heldur geti af tveimur mismunandi flokkslistum jafnvel tveir mismunandi menn verið valdir.

Þetta aukna frjálsræði kjósenda sést berlega af tali manna um það, að þessari skipan sé sérstaklega fylgjandi hætta á smáflokkum. Sú hætta er í raun og veru ekkert annað en það, að kjósendur megi sjálfir velja þann, sem þeim líkar. Sumir kalla það hættu, aðrir kalla það aukið frjálsræði. En öruggt er, að bezta ráðið til þess að vinna á móti þessari hættu er það að hafa á listunum sem allra vinsælasta menn, þá sem líklegir séu til þess að afla flokknum sem mests fylgis.

Það er því svo gersamlega öfugt, að verið sé að svipta kjósendur frelsi, að það er verið að veita þeim mikinn aukinn rétt frá því, sem verið hefur, og gera líklegra, að eftir óskum sem allra flestra sé farið.“

Þetta er allt saman tilvitnun í ræðu Bjarna Benediktssonar, sbr. Alþingstíðindi B 1958-1959, dálk 1313-1314. Síðan segir Ármann Sveinsson um þessa tilvitnun í ræðu hæstv. forsrh.:

„Þessi gagnmerku ummæli lýsa sömu afstöðu til flokksræðis og yfirsterkari varð á aukaþinginu 1933. Á sama veg er andinn í kosningalagaumr. síðustu áratuga. Þar hafa lagt fram drjúgan skerf Magnús Guðmundsson fyrrv. dómsmrh., Pétur Magnússon fyrrv. fjmrh., dr. Bjarni Benediktsson forsrh. og Einar Baldvin Guðmundsson hrl., formaður landskjörstjórnar. Annaðhvort eru menn farnir að bera brigður á túlkun þessara viðurkenndu lagamanna eða viðhorf til flokksræðisins hefur tekið annarlegum breytingum.“

Síðan víkur Ármann Sveinsson að meðferð aukaþingsins 1959 á kosningalagabreytingunni og kemur þá að því, sem ég vitnaði einmitt til áðan, hvað núv. hæstv. dómsmrh. lagði þá til, sem var formaður n. og frsm. meiri hl. hennar, og skýrir einmitt frá því, hvernig færir lögfræðingar höfðu undirbúið frv., en yfirsézt að kippa út úr kosningalagafrv. alllöngum kafla vegna þeirrar breytingar, sem gerð hafði verið á stjórnarskránni. En dómsmrh. núv. hæstv., ,Jóhann Hafstein, kom auga á þetta og lagði til, að þessi ákvæði væru öll saman felld niður úr kosningalagafrv. Ármann Sveinsson lögfræðinemi segir um starf núv. hæstv. dómsmrh. og umr.:

„Verður ekki séð, að frsm. meiri hl. (þ.e.a.s. Jóhann Hafstein) hafi vikið neinum orðum í d. að efni 27, gr. Stjórnarskrárnefndin lagði til, að 41. gr. yrði eins og hún er nú í l., og vék formaður n. ekki að mikilsverðasta ákvæði gr., þ.e. heimild til framboðs tveggja eða fleiri lista í nafni sama flokks í kjördæmi.“

Hann dregur auðvitað þá ályktun af þessu, að þá hafi núv. hæstv. dómsmrh. ekkert haft við slíkt að athuga og hafi lagt blessun sína yfir það, þar sem hann vék ekki að því einu orði. Og „ekki verður séð, að stjórnarskrárnefnd Nd. hafi unnið athugun sína og tillögugerð þá í neinu fljótræði, því: að margvíslegar brtt. flutti n., eins og áður hefur verið sagt.“

Síðan víkur hann að hinum breyttu viðhorfum nú vegna framboðs míns s.l. vor og segir:

„Úrskurður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis um það, hvort listi Hannibals Valdimarssonar o.fl. s.l. vor skyldi teljast utan flokka eða ekki, kann að hafa ruglað ágætustu menn í ríminu. Nú liggur hins vegar fyrir úrskurður landskjörstjórnar um tilvik sem þetta. Í úrskurði hennar 13. maí 1967 sagði m.a.:

„Meðferð kosningalaga á Alþ. 1933 og 1959 sýnir, að ætlan löggjafans var sú, að ekki þyrfti samþykki stjórnmálaflokks til þess, að listi yrði borinn fram fyrir flokkinn“.

Við afgreiðslu kjörbréfa s.l. haust staðfesti Alþ. úrskurð landskjörstjórnar. Engum blandast því lengur hugur um, hvaða reglur gilda um tvö eða fleiri framboð í nafni sama flokks.

Öllum má ljóst vera, að vald forustumanna stjórnmálaflokkanna er ærið. Það væri því eins og að færa bakarabarni meira brauð að veita forustumönnunum lögverndaðan rétt til útgáfu leyfisbréfa handa frambjóðendum. Frambjóðendur strjálbýlisins mundu þá væntanlega verða að sækja flokksstimpil á flokksskrifstofu í öðru kjördæmi til þess að sanna kjósendum sínum, að þeir væru útvaldir til framboðs.“

Þetta var meginefnið í grein, sem ungur lögfræðinemi í samtökum ungra sjálfstæðismanna fékk birta í Morgunblaðinu 3. febr. s.l. En ungir sjálfstæðismenn létu meira að sér kveða í þessu máli. Það er alveg bersýnilegt, að þeim hefur verið allmikið niðri fyrir út af till. dómsmrh. og talið sig standa á verði um frjálslyndi og lýðræði, þegar þeir hófu að ræða þessi mál, því að næst sjáum við það í Morgunblaðinu, að það er boðaður fundur í Félagi ungra sjálfstæðismanna, Heimdalli, og fyrirsögnin í auglýsingunni um fundinn er á þessa leið: „Á að auka flokksræðið á Íslandi. — Stjórn Heimdallar boðar til almenns félagsfundar mánudaginn 5. febr., kl. 8.30, um fram komna till. á Alþ. um breytingu á kosningalögunum. Fundurinn verður haldinn í Himinbjörgum í Valhöll. Framsögumenn eru Ármann Sveinsson stud. jur. og Jón E. Ragnarsson hdl.“

En var þessi ungi maður nú ekki kveðinn niður á Heimdallarfundinum með þessar skoðanir, sem gengu gegn till. dómsmrh.? Nei, svo virðist ekki vera, því að þann 10. febrúar, 5 dögum eftir að fundurinn var haldinn, fáum við að heyra þá samþykkt, sem Heimdallarfundurinn gerði. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni „Félagsfundur í Heimdalli“ og í samræmi við auglýsinguna:

„Mánudaginn 5. febrúar s.l. var boðað til félagsfundar í Himinbjörgum, félagsheimili Heimdallar. Auglýst fundarefni var: Á að auka flokksræði á Íslandi. Framsögumenn voru Ármann Sveinsson stud. jur. og Jón E. Ragnarsson hdl. Voru fundarmenn mjög á einu máli um, að ekki beri að auka flokksræðið, og spunnust umr. út frá því um till., sem liggur fyrir Alþ. um breytingu á

kosningal., nr. 52 frá 1959. Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Fundurinn álítur, að sporna beri gegn allri tilhneigingu í þá átt að efla völd forustumanna stjórnmálaflokkanna. Með vaxandi flokksræði færist valdið frá fólkinu í hendur fárra forustumanna hvers stjórnmálaflokks. Það er verkefni ungs fólks að koma í veg fyrir slíka öfugþróun, sem stofnar lýðræðinu í hættu. Fram hefur komið á Alþ. till. um breytingu á kosningal., nr. 52 1959, en hún felur tvímælalaust í sér skerðingu á svigrúmi einstaklinga í stjórnmálaflokkum við val á frambjóðendum til alþingiskosninga og stuðlar að auknu flokksforustuvaldi. Fundurinn mótmælir fram kominni till., en hvetur jafnframt til heildarendurskoðunar stjórnarskrár og kosningalaga og bendir á ályktanir Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, og Sambands ungra sjálfstæðismanna um breytingu á kjördæmaskipun landsins í einmenningskjördæmi.“

Þannig var samþykktin, sem Heimdallarfundurinn gerði, eftir að ungu mennirnir tveir höfðu flutt framsöguræður um þetta mál. Þeir enda till. sína á því, að þeir mæli með endurskoðun kosningal., og er þá komið nokkuð inn á það svið, sem bæði frsm. minni hl. allshn. hefur gerzt talsmaður fyrir og ég hef einnig tekið undir í minni ræðu.

Annar ungur maður, sjálfsagt úr samtökum ungra sjálfstæðismanna, einnig laganemi, Friðrik Sophusson, skrifar grein í þetta sama Morgunblað, 10. febr., undir fyrirsögninni: „Flokksræði lýðræði.“ Hann rekur tilefnið, sem var till. dómsmrh. í sinni fyrri mynd, og minnir á, að Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, hafi gert ályktun um þá till., þar sem hún var harðlega gagnrýnd og talin vera tilraun til að efla flokksforustuvald stjórnmálaflokkanna. Síðan segir þessi ungi maður, að frsm. stjórnarskrárnefndar 1959 hafi skírskotað til þess frjálsræðis og svigrúms, sem um geti í 27. gr., en það sé einmitt sama frjálsræðið og nú sé verið að gera tilraun til að afnema. Þá segir hann, að inn í umr. um fram komna till. hafi svo spunnizt vangaveltur um núverandi kosningalöggjöf, kjördæmaskipunina og hver eigi að vera staða og hlutverk stjórnmálaflokka í þjóðfélaginu. Inn á líkar brautir hafa nú umr. sveigzt hér í dag. Síðan kemur undirfyrirsögn hjá honum um lýðræðið. Og þar segir:

„Íslenzkt stjórnarfyrirkomulag grundvallast, eins og í flestum öðrum vestrænum ríkjum, á lýðræðishugsjóninni. Hugtakið lýðræði er ákaflega óskýrt og ónákvæmt hugtak. Sú skilgreining hefur þó verið sett fram, að hið „ideala“ lýðræðisþjóðfélag komi fram í því stjórnarfyrirkomulagi, þegar sem flestir borgarar ráða sem mestu um sem flest málefni ríkisins. Lýðræðið í framkvæmd birtist síðan aðallega í því, þegar kjósandinn, hinn almenni borgari, velur á milli skoðana og manna við kjörborðið á kjördegi. Fari þessi skilgreining saman við þær hugmundir, sem við höfum um lýðræðið og finnist okkur ástæða til að viðhalda lýðræðinu, þá hljótum við að sporna við hverri þeirri tilraun, sem færir valdið til þess að velja og hafna frá fjöldanum í hendur fámenns hóps útvaldra manna.

Í lýðræðisþjóðfélögum er hlutverk stjórnmálaflokka að koma á framfæri skoðun og hugmyndum þjóðfélagshópa, ásamt því að bjóða fram menn, sem eru eins konar boðberar þessara skoðana og hugmynda. Stjórnmálaflokkarnir eru þess vegna tæki í höndum almennings til þess að hafa áhrif á stjórn ríkisins, og til þess að þeir fái sem bezt valdið þessu hlutverki sínu, má ekki útiloka áhrifamátt minnihlutahópa í stjórnmálaflokkunum með því að skerða svigrúm einstaklinga, sem fylgja þeim að málum. Með till., sem nú liggur fyrir Alþ., er stefnt að því að minnka þessi áhrif, en af því leiðir, að valdið færist yfir á færri hendur. Sú þróun sem þá mun eiga sér stað, er þeim mun hættulegri, þegar til þess er tekið, hve Íslendingar virðast íhaldssamir á flokkaskipan í landinu, en sem kunnugt er hafa allar tilraunir til þess að fjölga íslenzkum stjórnmálaflokkum undanfarinn aldarþriðjung runnið út í sandinn.

Ungir sjálfstæðismenn hafa látið í ljós þá skoðun sína, að nauðsynlegt sé að endurskoða stjórnarskrá og kosningalöggjöf. Það hlýtur að vera áhugamál æskunnar á hverjum tíma að búa sem bezt í haginn fyrir framtíðina. Þetta gildir einnig um stjórnskipun ríkisins. Það er þess vegna von okkar, að till. sú, sem nú liggur fyrir Alþ., verði ekki samþ. óbreytt, heldur verði dýrmætum tíma þm. frekar varið til þess að undirbúa heildarendurskoðun á stjórnarskrá og kosningalöggjöf.

Við skulum hafna auknu flokksræði, en standa vörð um lýðræðið,“ segir ungi maðurinn.

Ég lýsi því hiklaust yfir, að ég er þakklátur hinum ungu mönnum Sjálfstfl., sem taka alveg í sama streng og hinir eldri foringjar Sjálfstfl. um það, að það megi ekki auka flokksræðið, það verði að gæta neista lýðræðisins. Og ég tek alveg sérstaklega undir kröfur þeirra um almenna endurskoðun á kosningalöggjöfinni, eins og þeir gera. Sú krafa hefur verið höfð uppi af frsm. minni hl. allshn., og ég hef mjög tekið undir þá ósk og kröfu. Þar með mætti taka auðvitað til meðferðar og hlyti að vera til meðferðar efni þeirra till., sem hæstv. dómsmrh. hefur borið fram í sambandi við þetta mál, ásamt mörgum öðrum atriðum, og ég sé ekki, að það gæti neinn skaði af því hlotizt þó að þessi athugun biði næsta þinghalds.

Allt, sem ungu mennirnir, sem ég nú hef vitnað til, í Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta, og Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna, segja, er að vísu borið fram, þegar till. hæstv. dómsmrh. var í sinni fyrri mynd. En það er formsbreyting fyrst og fremst, sem síðan hefur átt sér stað. Efnið er í raun og veru hið sama, eins og ég hef áður reynt að skýra. Hér er lagt til, að ef sá aðili, sem samkv. reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega, ber fram mótmæli gegn því, að listi sé í framboði fyrir flokkinn, skal yfirkjörstjórnin úrskurða slíkan lista utan flokka og landskjörstjórn úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það. Ég held, að það sé alveg augljóst mál, að hér er verið að leggja það til, að landslögin séu sniðin eftir mismunandi reglum flokkanna um framboð, og það eitt er nógu ambögulegt. En það er verið að heimila fleiri en eitt framboð, þegar flokkarnir sjá sér hag í því sjálfir að hafa framboðin fleiri. Það er beinlínis ýtt undir það, að þeir geri það í „spekúlasjóns“-skyni. En með mótmælum einum saman er hægt að koma í veg fyrir það, að flokksmennirnir, kjósendurnir, eigi þann rétt að skírskota til fólksins um það, hvort ráðandi afl í flokki hefur sýnt of mikla þröngsýni og þannig gengið á rétt minni hl. Þá þarf ekkert annað en mótmælin frá þessum aðila. Þá skal flokksframboðið vera dæmt utan flokka og úthlutun uppbótarþingsæta fara fram í samræmi við það. Menn skulu ekki mega tjá stuðning sinn við sinn eigin flokk. Það verður ekki tekið mark á því, þó að frambjóðendurnir lýsi því yfir, að þeir bjóði sig fram fyrir flokkinn. Þó að allir meðmælendur votti það, að framboðið sé fyrir flokkinn, þá skal það ekki tekið til greina. Ef aðili í kjördæmi, sem á að leggja blessun yfir framboð samkv. flokksreglum, ber fram mótmæli, þá skulu þeir hrekjast úr flokknum, þeir skulu teljast utanflokkamenn. Ég sé ekki, að þetta verði til eflingar flokkunum. Ég sé ekki annað en þetta leiði það af sér, að menn séu flæmdir úr flokkum sínum, ef þeim líkar ekki framboð og vilja berjast þar á móti og prófa sinn rétt. Og ég held, að það sé ekki heppilegt. Með öðrum lista í nafni eins og sama flokks, eins og nú er heimilt, eru menn að tjá stuðning sinn og fylgi við sinn eigin flokk, en vilja fá að velja um aðra menn. Og það er mín sannfæring, að ef menn vilja taka tillit til lýðræðislegs réttar fólksins, á ekki að afnema þennan rétt. Hins vegar, ef menn vilja búa sem bezt um einræðisvald flokksstjórnenda, er þetta eðlilegt. En það mun sízt verða til þess að styrkja flokkana. Þeir verða svo bezt sterkir, að þeir taki lýðræðislegt tillit, ekki aðeins til þess hóps, sem myndar meiri hl. í flokknum, heldur einnig til þeirra hópa, sem mynda minni hl. Ef þeir fá að bjóða fram í nafni flokksins, sannast það, hvort ákvörðunaraðili í flokknum hefur stillt upp af viðsýni og frjálslyndi, þannig að minni hl. hafi átt kost á að kjósa þá menn, sem honum falla í geð, og þá kemur það fram í litlu fylgi flokkslistans, en flokkurinn nýtur þeirra atkv., og það getur ráðið úrslitum um uppbótarsæti hjá flokknum. En ef það sannast, að sá ákvörðunaraðili í flokknum, sem ákvað framboð, hefur beitt minni hl. ofríki, kemur það í ljós í verulegu fylgi, sem hinn listinn fær, og það atkvæðafylgi kemur flokknum til góða, og náist maður kosinn, þá á hann einnig þingsæti fyrir flokkinn. Og það er þetta, þessi réttur fólksins, til vals milli frambjóðenda, sem menn vilja svo ákaft

afnema, að það er ekki tekið í mál að bíða með ákvarðanir um þetta til næsta þings.

Er ástæðulaust að ætla annað en þessi sjónarmið yrðu grandskoðuð af þeim, sem settir verða til að endurskoða kosningalögin, og væru þeir sama sinnis að þeirri athugun lokinni og núv. hæstv. dómsmrh. og hv.1. þm. Austf.,mundi þessi till. að ári liðnu skila sér og verða lögð undir dóm alþm. En ef hún þyldi ekki nákvæma skoðun, þá að vísu mundi hún ekki verða með í þeim brtt., sem almenn endurskoðun kosningal. leiddi af sér, en þar finnst mér, að tillögumaður eigi að láta reynsluna skera úr og sætta sig við það, að till. hans í hinni síðari útgáfu fari undir þessa skoðun og fáist þá lögfest, ef meirihlutafylgi væri fyrir henni,ásamt öðrum breyt. við kosningal. á næsta þingi. Það fer ekkert á milli mála, að ef till. hæstv. ráðh. fæst ekki tekin aftur nú og verður hér samþ., er Alþ. að taka allt aðra stefnu í þessum málum en niðurstaða varð um 1933 og 1959. Og það, sem hlálegast er, það eru ekki aðeins hinir eldri foringjar Sjálfstfl., sem hafa tjáð sig andvíga þeirri breyt., sem hér er verið um að ræða, heldur hefur hæstv. dómsmrh. sem frsm. nefndar 1959, að því er virðist, verið samþykkur núgildandi ákvæðum kosningalaganna og mælt gegn breyt. í þá átt, meira að segja haldið því fram, að það væri brot á stjskr. að hafa ákvæði um yfirlýsingar flokksstjórna í kosningal., eftir að stjskr. var breytt 1959. Það hefur einnig verið vitnað í ræðu núv. hæstv. forsrh., formanns Sjálfstfl., þegar hann 1959 lýsir því með mörgum orðum, að það sé aukið svigrúm fyrir kjósendurna og flokkunum engin hætta, það sé bókstaflega þeim til styrktar, að ákvæðin séu eins og þau voru ákveðin í kosningal. þá. En allt þetta er nú lagt fyrir róða og gengið gegn því, gerð hver tilraunin á fætur annarri að orða breyt. alveg í gagnstæða átt við það, sem Alþ. hefur tvívegis áður samþ., og þannig standa málin nú, að það efni, sem fólst í fyrri tillögu hæstv. dómsmrh., er nú að finna með breyttu orðalagi í hinni síðari útgáfu till. Efnislega er þar ákaflega litlu breytt, nema að því leyti, að orðalagið verður ógeðslegra að því leyti, að flokkarnir skulu samþykkja — geta samþykkt mörg framboð, ef þeir telja sér flokkslegan ávinning að því, ef þeir geta „spekúlerað“ í því. En kjósendurnir, flokksfólkið skal svipt þeim rétti að velja á milli frambjóðenda af fleiri en einum lista hjá flokki og láta síðan kjósendurna á kjördegi skera úr um það, hvort óánægja hefur verið í flokknum og þeirra málstaður hefur fengið hljómgrunn. Þeim skal fyrirmunað það. Þeir skulu ekki fá að bjóða fram í nafni flokksins, og þá skal dæma þá utanflokkamenn og landskjörstjórnin skal í þessu tilfelli, ef mótmæli hafa komið fram, úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það, að framboðið sé utanflokksframboð.

Ég lýk máli mínu með því að óska þess eindregið við hæstv. dómsmrh., að hann taki till. aftur, láti hana bíða almennrar endurskoðunar kosningalaganna, sem lokið verði áður en næsta Alþ. kemur saman. Ég mundi gjarnan vilja standa að till. um slíka endurskoðun og hygg, að það fengist allsherjarsamkomulag um það. Slík afstaða væri í samræmi við afstöðu Alþ. 1933, í samræmi við afstöðu Alþ. 1959, í samræmi við afstöðu forustumanna stjórnmálaflokkanna, sérstaklega Framsfl. og Sjálfstfl., bæði 1933 og 1959, og í samræmi við kröfur og óskir unga fólksins í Sjálfstfl. nú 1967 og 1968. Og ég sé ekki, að neinu væri glatað, þótt á það væri fallizt, að till. væri ekki knúin fram nú, heldur eingöngu frv. eins og það var upphaflega lagt fram, stjfrv., um lækkaðan kosningaaldur unga fólksins. Ef svo fer, að ekki verði orðið við þessari ósk minni, sem ég ber fram af einlægni við hæstv. dómsmrh. og ríkisstj., mun ég a.m.k. freista þess að bera fram till. og láta mér ekki tilmælin ein nægja um allsherjarendurskoðun kosningalaganna fyrir næsta þing.

Ég lýsi andstöðu minni við þessa till., jafnt í fyrstu sem annarri útgáfu, og tel þá till. vera jafnaugljóslega í anda flokksræðis og gegn anda lýðræðis og þess vegna eigi Alþingi að fella hana og vera þar í samræmi við fyrri afstöðu Alþingis, bæði 1933 og 1959.