04.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil, áður en lengra er farið, og vil raunar vona, að það verði ekki lengra farið að sinni, bera fram þá ósk við hæstv. forseta d., að þessari umr. verði nú frestað. Ég ber þessa ósk fram sem annar af frsm. n., sem hefur haft þetta mál til meðferðar. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að hér eru mjög fáir á fundi. (Gripið fram í.) Ja, ég fæ ekki séð annað en að hér sé innan við fjórðung dm. á fundi, og meðal þeirra sem ekki eru á fundi, er hv. frsm. meiri hl. og sumir þeirra, sem tekið hafa til máls í þessum umr.

Ég hef hugsað mér að koma fram með málsatriði og rök, sem ekki hafa áður komið fram í málinu, fyrir því, að ekki sé rétt að samþ. þær brtt., sem hér eru til staðar. En mér þykir illt að bera þau rök fram þannig, að þm. heyri ekki. Þó gæti ég hugsað mér að falla frá frekari umræðu um þetta mál nú, ef hæstv. dómsmrh. skyldi fallast á það að taka aftur brtt. sína til 3. umr., því að þá get ég að sjálfsögðu komið fram með það, sem ég ella mundi segja nú að því er hana varðar. — Ég bíð svars við þessari ósk.