08.04.1968
Neðri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna þess, að ég þarf að mæla fyrir brtt., og einnig vegna þess, að ýmislegt, sem fram kom við 2. umr. þessa máls, varð mér tilefni til hugleiðinga, sem ég hafði hugsað mér að koma á framfæri, en af því varð ekki við 2. umr., vegna þess að hún dróst á langinn og nótt fór að, og hæstv. forseti var þess mjög fýsandi, að umr. yrði lokið. En á þetta vildi ég eitthvað minnast nú við 3. umr.

Ég hélt því fram við 2. umr. fyrir hönd minni hl. allshn., að ekki bæri að samþykkja brtt. við stjórnarfrv. á þskj. 20, sem stóð eingöngu í sambandi við stjórnarskrárbreytinguna um að færa kosningarréttarlágmarkið úr 21 ári niður í 20 ár. Það var okkar sjónarmið í minni hl. þá, að í sambandi við brtt., sem fram höfðu komið, væri um töluvert ágreiningsmál að ræða, sem reyndist rétt, og mundi það tefja málið að vera að leita eftir eða gera ráð fyrir afgreiðslu á þeim, enda engan veginn nauðsynlegt, þar sem allir nm. og margir aðrir virtust sammála um, að ástæða væri til að endurskoða kosningal. nú á milli þinga. Sýndist okkur í minni hl. alveg sjálfsagt að fresta þessu ágreiningsatriði og láta það koma inn í endurskoðunina. Hins vegar gerði ég ekki efnisatriði þessa ágreiningsmáls neitt verulega að umræðuefni við 2. umr., taldi afgreiðslu till. minni hl. ekki gefa tilefni til þess. En svo fór, að sjálft ágreiningsefnið var allmikið rætt í umr. og á nokkuð breiðum grundvelli. Það kom í ljós við atkvgr., að allmargir þm. tóku þessi rök gild, sem frá minni hl. komu, enda voru þau auðskilin, og greiddu þess vegna atkv. gegn brtt. frá hæstv. dómsmrh., en aðrir reyndust, og þeir urðu fleiri, betur verjaðir gegn þessum rökum, enda volkinu vanir. Og því var brtt. hæstv. ráðh. samþ.

Einn af þeim, sem létu í ljós, að þeir féllust í raun og veru á röksemdir minni hl., var sjálfur höfundur brtt., hæstv. dómsmrh., sem því miður er hér ekki viðstaddur í dag, mun vera í öðru landi eða á leið þangað. Hæstv. dómsmrh., . sem jafnan er sanngjarn í umr., viðurkenndi, að það væri rétt hjá minni hl. n., að úr því að menn væru sammála um endurskoðun, væri það eðlilegt sjónarmið, að ágreiningsmálið kæmi inn í þá endurskoðun og að þar yrði um það fjallað. En hæstv. ráðh. sagðist vera vant við látinn í þessu máli og af þeim ástæðum verða að fylgja eftir till. sinni. Hann skýrði frá því, sem var raunar nýjung fyrir mig, að vel gæti svo farið, að alþingiskosningar færu fram á þessu ári, áður en ráðrúm ynnist til endurskoðunar og að hann vildi breyta ákvæðum kosningal., sem hann taldi óeðlileg, fyrir kosningar, sem kynnu að fara fram á þessu ári. Nú hlaut ég að viðurkenna það, að ef svo færi, að kosningar færu fram á þessu ári, í sumar eða haust, gæti auðvitað svo farið, að endurskoðuninni yrði ekki lokið. En af því að mér hefur sýnzt allt til þessa hæstv. ríkisstj. sitja nokkuð fast í sínu sæti og raunar lengur en sætt er, þá gerði ég ekki ráð fyrir, að ég þyrfti að hafa áhyggjur af þessari röksemdafærslu hæstv. ráðh., og greiddi atkv. gegn brtt. Við 2. umr. var frv. síðan breytt nokkuð. Það voru samþ. tvær nýjar gr., sem nú eru 4. gr. og 5. gr. frv.: till. hæstv. ráðh. og till. hv. meiri hl. allshn. um, að hreppsnefnd sé jafnan heimilt, ef hún fær til þess samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað í öðru sveitarfélagi, og ekki aðeins í öðru sveitarfélagi, og ekki aðeins í þeim tilfellum, sem lagt hafði verið til í öndverðu, þegar sveitarfélög eiga saman félagsheimili.

Þannig liggur frv. þá fyrir nú í byrjun 3. umr., og minnugur þess, sem hæstv. dómsmrh. sagði við 2. umr. um ástæður sínar til þess að vilja ekki fallast á afstöðu minni hl., sem hann þó taldi í rauninni eðlilega, hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 537 brtt. við 4, gr. frv., eins og það nú liggur fyrir. Og þessi brtt. er um það að sú gr.,sem á að verða 3. mgr. í 27. gr. kosningal., hafi takmarkaðan gildistíma, gildi aðeins til 31. des. 1968. Þá sýnist mér að allir aðilar megi að líkindum við una. Hæstv. ráðh. hefur fengið tryggingu fyrir því, að ef það færi svo, að kosningar yrðu á næsta sumri, verða framboð undirbúin samkv. því, sem hann vill vera láta, en jafnhliða og eigi að síður er fullt tilefni til þess að endurskoða bæði þessa gr. og aðrar í kosning l., vegna þess að hún fellur úr gildi um áramótin. g það er þá ekki hætta á því, að samþykkt þessa ar brtt. frá ráðh. verði til þess, að hætt verði við endurskoðunina, sem ekki er ólíklegt að kunni að verða, ef ekki er settur þar slíkur varnagli.

Ég vona, að mér hafi tekizt að setja þetta nægilega skýrt fram, er í brtt. felst, og hvers vegna mér sýnist, að aðilar gætu báðir við það unað,að hún yrði samþ. Mundi það þá greiða fyrir afgreiðslu málsins nú og væntanlega í hv. Ed.

Hæstv. ráðh. er nú því miður ekki viðstaddur hér, eins og ég sagði, til þess að láta í ljós álit sitt á þessari úrlausn. En ég vænti þess, að aðrir, sem að málinu standa með honum og hafa staðið, taki hana til athugunar fyrir sitt leyti, svo og þeir, sem hafa verið mjög andstæðir efnisbreytingu að þessu leyti, og það leiði til þess, að brtt. á þskj. 537 verði samþ.

Ég hef, eins og ég sagði áðan, ekki talað mikið um efni þess deilumáls sem hér er á ferð fyrst og fremst. Ég hef verið að tala um endurskoðun á því atriði, sem hér er um að ræða, og öðrum atriðum kosningal. Og atkvgr. mína við 2. umr. gegn brtt. hæstv. dómsmrh. ber, eins og ég hef áður að vikið, að skoða sem andstöðu gegn því að afgreiða deiluefnið nú, án samhengis við önnur atriði. Vera má, að endurskoðun hefði leitt í ljós og jafnvel til samkomulags um, að eðlilegt sé að breyta nokkuð framboðsákvæðum l. og fleiru um leið. Ég skal ekki heldur fara langt út í þetta nú, þetta efnisatriði, þótt að vísu sé meira tilefni til þess en var við 2. umr. En ég vil nota tækifærið til þess að taka það fram, að mér finnst ákaflega erfitt að auka enn rétt þingflokka eða stjórnmálaflokka án þess að setja um leið sérstök ákvæði um starfsemi flokkanna og skyldur. Að þessu hef ég áður vikið hér á Alþ. við annað tækifæri. Það eru engin smáræðishlunnindi, að flokkarnir, stjórnmálaflokkarnir eða þingflokkarnir, skuli eiga rétt til 11 fulltrúa fyrir sig á sjálfu löggjafarþinginu eða nálega eins marga og hin fjölmenna höfuðborg, sem hefur 12 fulltrúa eða eins marga og allt Austurland og Suðurland vestur að Hellisheiði saman talið. Menn segja, að þetta séu félög, að stjórnmálaflokkarnir séu félög, og þess vegna eigi ekki að vera að tala um svona lagasetningu, ekki láta sér slíkt um munn fara hér á hv. Alþ. En hafa ekki verið sett lög um samvinnufélög t.d., um stéttarfélög, um hlutafélög o.s.frv.? Jú, það hafa verið sett lög um allar þessar tegundir félaga. Og þó hafa þau engan veginn slíkan rétt í stjórnarskránni sem flokkarnir hafa. Þessi ákvæði, sem ég nefndi um flokka eða þingflokka, gætu verið í kosningalögum, þau gætu líka verið í sérstökum lögum. En ég álít að ef hnigið er að því ráði að auka rétt stjórnmálaflokkanna, og það er óneitanlega gert á vissan hátt í frv., sem hér liggur fyrir, eins og það er nú, þá eigi jafnframt ákvæði um skyldur flokkanna að koma inn í kosningalög eða önnur lög.

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um þingið og þingflokkana. Hvað er Alþingi? Hvað á Alþ. að vera samkvæmt lýðræðishugmyndum manna? 60 þjóðfulltrúar, þeir 60 menn, sem kjósendur landsins eða landshluta eða byggðarlaga sýna við atkvgr., að þeir nefni til þess fyrir sína hönd og treysti bezt til þess að setja landinu lög og skipa landsstjórn til þess að fara með framkvæmd laga. En hvað er Alþ. nú? Og hvað er það að verða? Hv. 1. þm. Austf. t.d., sem ég hef löngum metið mikils, sagði sitt af hverju um þetta efni og greiddi atkv. með brtt. hæstv. dómsmrh. Hann sagði m.a., að á Alþ. væru 4 risar á leirfótum. Þannig held ég, að hann hafi orðað það á einum stað. Og þessir 4 risar eru þingflokkarnir. Ef þetta er rétt og ef það á að vera svona áfram, þá má segja, að það sé eðlilegt að reyna, eins og hv. þm. minntist á, að koma sterkari fótum undir „risana“, þar eigi t.d. að koma gullfætur í stað leirfótanna og þarna eigi ríkissjóður til að koma með sínar líknarhendur. Þessi hv. þm. setti fram ákveðnar hugmyndir um þessa fótaaðgerð á „risunum“, og þær eru víssulega þess verðar, að um þær sé hugsað. Og nú ber nýrra við í „risalandi“. Morgunblaðið, sem við þekkjum öll, hefur núna fyrir helgina varið meira en hálfri síðu til að kynna þessar hugmyndir með fyllstu samúð og segir þær hinar merkilegustu. Það hirtir m.a. óspjallaða mynd af stjórnarandstöðuforingja í þessu sambandi. Það mætti láta sér detta í hug, að sjálfur stjórnarformaðurinn hæstv. hefði verið með eitthvað svipaðar hugmyndir. Það kynni líka að vera til þess fallið að stytta þrásetu stjórnarformanna nú og síðar, ef þeir gætu haft ráðherralaunin sín og t.d. efnahagsmálaráðunautinn sinn og seðlabankastjórann sinn með sér úr stjórnarráðinu og staðsett þá á flokksskrifstofunni sér og flokknum að kostnaðarlausu.

Nú hefur hæstv. dómsmrh. talað um það, eins og ég sagði áðan, að það kunni að verða kosningar á þessu ári, og þá er þetta ósköp elskulegt tilhugsunarefni fyrir stjórn, sem er að syngja sitt síðasta vers. Ég segi þetta bæði í gamni og alvöru. En við lifum á breyttum tímum, sem mora af nýstárlegum hugmyndum, sem við hinir eldri eigum eins og von er, dálítið erfitt með að vinza úr, en sjálfsagt koma margar hverjar til framkvæmda síðar. Hv. 1. þm. Austf. var í sjálfu sér ekki að hrósa þessum hugmyndum, sem hann varpaði fram til umhugsunar fyrir þm. og ráðh. Hann sagði í rauninni, að framkvæmd þeirra gæti reynzt nauðsynleg til að koma í veg fyrir eitthvað, sem verra væri, þegar tímar líða og það getur víst verið rétt. Svona hugmyndir eða líkar hafa svo sem borizt í tal fyrr, og ekki veit ég, hvaðan þær eru upprunnar í öndverðu, þótt hv. þm. yrði til þess að reifa þær að þessu sinni.

En fleira hefur gerzt í „risalandi“ um þessar mundir. Daginn eftir 2. umr. þessa frv., sem nú er til umr., fór hæstv. forsrh. á kreik í Sþ. og hélt langa ræðu um till. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem þar liggur fyrir, og var sýnilega mikið niðri fyrir. Það væri nú æskilegt, að hann væri hér viðstaddur, en hann er það nú ekki. Hann leyfði sér þar m.a. að fara með ósannaðar fullyrðingar um tilgang ákveðinna manna á stjórnmálasviðinu fyrir 20-25 árum, og var það athyglisvert. En að ræðu hæstv. forsrh. lokinni frestaði hæstv. forseti Sþ. umr., án þess að aðrir fengju tækifæri til þess að gera aths. við málflutning hæstv. ráðh. Ég er ekkert að deila á hæstv. forseta Sþ. fyrir það. Hann hefur sjálfsagt haft sínar ástæður og m.a. kannske þá, að fundartíminn hafi verið langt kominn. (Gripið fram í.) Já, vera má, að hann heyri þetta einhvers staðar í tæki. En þessi ræðuflutningur hæstv. ráðh. og að umr. var frestað, eftir að hann hafði flutt þessa löngu ræðu, sem vissulega gaf tilefni til andsvara, það er í rauninni ekki ný aðferð, það er aðferð sem við höfum átt að venjast nokkuð hér í þessum sal. Og það minnti mig á það, að nú er mál til komið, að athugað verði á milli þinga í sambandi við þingsköpin og frv. um breytingu á þingsköpum, sem hér hefur legið fyrir, en það mun ekki verða afgreitt, að það verði athugað í sambandi við þingskapamálið, hvort það eigi að haldast án takmarka, að ráðherrar geti sýnt þm. ójöfnuð með því að eiga sjálfir ótakmarkaðan ræðutíma hvenær sem er og geta gripið inn í ræðuhöldin á milli ræðna hvenær sem er, en geta varnað öðrum máls á eftir með því að láta taka mál af dagskrá og eiga ekki afturkvæmt þangað aftur.

Ég minnist slíkra tilfella. Ég minnist þess t.d. að fyrir nokkrum árum var þm. í miðri ræðu, og þá frestaði forseti ræðunni, og seinni hluti ræðunnar var aldrei haldinn, hann hefur ekki verið haldinn enn. Þetta kalla ég að sýna þm. ójöfnuð, vitandi eða óvitandi, sem þeir ættu ekki að láta sér lynda, og ég nota þetta tækifæri til þess að minnast á það. En ég er að minnast á þessa merkilegu stjórnarskrárræðu, sem kannske verður aldrei tækifæri til að svara, vegna þess að það er mín hyggja, að málið, sem nú er til umr. og liggur hér fyrir í hv. d. hafi trúlega minnt hæstv. forsrh. á það, að í till. um stjórnarskrána er einnig vikið að þingflokkunum og rétti þeim, er þeir hafa, án þess að skyldur komi á móti. Og ég heyrði það glöggt, að honum er eins og fleirum illa við umtal um það, sem almenningur kallar flokksræði.

Mér koma í hug þingin, sem kölluð voru saman fyrr á tímum, þegar konungar voru við völd af guðs náð í mörgum ríkjum Norðurálfu. Þetta voru þing stéttanna. Það voru ekki kjörin löggjafarþing, það voru þing stéttanna, enda stundum bara kölluð stéttir eða stéttirnar, eins og menn geta lesið um í sögulegum ritgerðum, en ekki þing. Það var talað um stéttirnar og að stéttirnar kæmu saman. Aðalsmenn komu saman út af fyrir sig, klerkar út af fyrir sig, svo voru út af fyrir sig borgarar og bændur eða þriðja stétt, sem nefnd var. Það var upphaf frönsku byltingarinnar eða stjórnarbyltingarinnar í Frakklandi, sem kölluð hefur verið, að stéttirnar gengu saman í einn sal. Stéttaþing með þrem stéttum var í rauninni þrjú þing og með fjórum stéttum fjögur þing. Þetta var ekki gott fyrirkomulag, enda árangurinn eftir því. Þar varð annað vald æðra til að koma.

Mér verður stundum um þessar mundir á að spyrja sjálfan mig: Er eitthvað í þessa átt að verða til smám saman á Alþingi Íslendinga? Má vera, að ég sé búinn að vera lengur í stjórnmálaflokki en nokkur annar í þessum sal um þessar mundir, að undanteknum hv.l. þm.Vestf. og hv. 9. þm. Reykv. Og ég hef verið nokkuð lengi í þingflokki. Það situr því sízt á mér að tala illa um flokka eða flokkafyrirkomulagið eða telja það óalandi og óferjandi, enda geri ég það ekki. Víst er um það, að flokkar hafa gegnt mjög mikilsverðu sögulegu hlutverki í þróun lýðræðisins, og enn álít ég, að ekki sé hægt að vera án þeirra og ekki fyrst um sinn. En flokkarnir þurfa að gæta sín fyrir freistingum og kunna sér hóf, muna, hvað þeir eru og eiga að vera. Og þjóðin þarf að gæta sín fyrir flokkum sínum, ekki bara vegna varhugaverðrar stefnu sumra flokka að mínum dómi, heldur fyrir flokkafyrirkomulaginu sem slíku. Þó að það hafi verið nauðsynlegt og gert mikið gagn, getur það umskapazt, vanskapazt, er tímar líða, og þá er illt í efni.

Á meðan flokkarnir okkar hér á Íslandi gera sér í hugarlund a.m.k., að þeir starfi fyrir hugsjónir eins og sjálfræði, öðru nafni frelsi, félagshyggju, landsbyggð eða eitthvað, sem þeir kalla sósíalisma, er okkar litlu þjóð enn þá lífs von. En ef þeir, þegar þeir eru orðnir nokkuð fastir í sessi, fara að líta á sjálfa sig fyrst og fremst sem stofnun eða fyrirtæki, sem allt velti á að hægt sé að efla með einhverjum ráðum, hvað sem öðru líður, þá er illt í efni. Málstaður eða stefna á að skapa flokk um sig og þarf þess með. En flokkur í leit að málum, í leit að stefnumálum, er það, sem vitur maður, nú látinn, kallaði mettan flokk. Ég er ekki að deila á neina sérstaka flokka miðað við núverandi ástand, en ég er hræddur um, að þróunin geti færzt í þessa átt á komandi tímum, að flokkarnir fari að líta á sig sem stofnanir, eða fyrirtæki, þar sem varla er hægt að þekkja sundur stefnuskrárnar ef nöfnin eru strikuð úr.

Ég vona, að það verði ekki svo. En mér verður samt ósjálfrátt að sjá fyrir mér í dálítið ískyggilega mynd einhvers staðar yfir í framtíðinni: Ekkert Alþingi, sem því nafni megi nefnast, aðeins fjögur þing í stað þess, fjögur þing, fjórir þingflokkar eða kannske fleiri, þar sem það er úr sögunni, að þm. reyni að komast að niðurstöðum sameiginlega á vettvangi þingsins sjálfs. En þá er Alþingi sem slíkt raunverulega ekki lengur til, bara risar, kannske á gullfótum, og þm., sem verða fangar risanna. Og það er nú það, að risaþing er ekki heldur líklegt til einingar. Það er hætt við, að risarnir haldi áfram að slást, þá ekki síður en nú. Grunur minn er sá, að stjórnmálaflokkarnir eða þingflokkarnir hafi kannske þegar gengið of langt, þó að það væri hugsanleg framtíð, sem ég var að lýsa hér áðan. Ég álít, að allt of mörg mál séu gerð að flokksmálum, tekin fyrir á flokksfundum eða sótt um leyfi hjá ráðh., áður en þau eru rædd í þinginu almennt, mál, sem ekki eru flokksmál í eðli sínu, alls ekki. Auðvitað eru mörg mál eðlileg flokksmál, en ekki svona mörg eins og þau stundum reynast. Við megum ekki gleyma því, ef vel á að fara, að við erum þjóðfulltrúar á Alþingi og að það á að vera svo áfram, ekki bara flokksmenn og kannske ekki það fyrst og fremst. Og samt skulum við ekki óvirða flokkana eða stuðla að því, að það sé almennt gert.

Það er stundum talað um, að Alþingi eða alþm. njóti ekki mikillar virðingar í landinu um þessar mundir. Ég held, að þetta sé orðum aukið, alþm. njóti kannske ekki miklu minni virðingar nú en stundum áður. En fólk er samt að velta því fyrir sér, af hverju þetta stafi, þessi hugmynd, að þingið njóti ekki nógu mikillar virðingar. Einu sinni var sagt, að það stafaði af því, að þm. mættu ekki með pípuhatt við þingsetningu, það hefðu þeir gert áður, a.m.k. allir embættismenn. En einhver, ég held þm. — ég skal ekki alveg með það fara, hver það var, en þó minnir mig, að það væri hv. 4 landsk., gizkaði á það nýlega, að þetta væri af því, að þm. rökuðu nú skegg sitt, en væru ekki eins og í fyrri daga alskeggjaðir. Það hefði verið mjög virðulegt að hafa alskegg. Það skyldi nú ekki vera, að flokkarnir okkar og blöðin okkar hefðu það fyrir öðrum að tala illa um þingið eða hluta af því, sem verður þingið allt saman, ef saman er lagt og allt tekið trúanlegt? Margt af þessu er sjálfsagt réttmæli, en ekki allt.

Þetta eru nú þær almennu hugleiðingar, sem ég var að tala um áðan. Þær hafa orðið til hjá mér við að hlýða á þær nokkuð löngu umr., sem urðu síðast um þetta frv. En ég ætla að enda á því, að mér finnst, að þegar mjög mikið liggur við, verði risarnir okkar að hætta að slást og risarnir sem þykjast vera að meðaltali einni alin hærri en hinir, að gleyma þessari einu alin, því að einnig þeir standa á leirfótum við stjórnvölinn, þó að þeir hafi ríkisvaldið og hagfræðingana á sínum vegum. Og það veitir sannarlega ekki af öllum þingsins leirfótum til þess að standa undir þunga þjóðmálanna, þegar mest reynir á.

Ég skal svo láta útrætt um þetta mál, en vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á að samþykkja brtt. mína á þskj. 537 við 4. gr. frv.