09.04.1968
Efri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

20. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt í samræmi við þá stjórnarskrárbreytingu, sem samþ. var á síðasta þingi og nú hefur verið endursamþykkt, og er þar ákveðið, að kosningaaldur skuli vera í samræmi við það, sem stjórnarskráin segir fyrir um. Segja má, að þetta sé formleg breyting, sem meira að segja er óþörf, vegna þess að stjórnarskráin hefur meira gildi en venjuleg lög, en víst fer betur á að hafa samræmi þarna á milli. Um þetta ákvæði eru allir sammála.

En í Nd. voru svo gerðar, að því er ég hygg, tvær aðrar breytingar, önnur um það, að með vissum skilyrðum má hafa kjörstað utan hrepps, það var minni háttar ágreiningur um það atriði, en meiri háttar ágreiningur um hitt, hvort setja skyldi þær takmarkanir á heimild manna til að bjóða fram í nafni flokks, sem hv. Nd. samþykkti. Hér er um að ræða deilumál, sem þegar hefur verið rætt um og mönnum sýnist sitt hvað um, eins og gengur og gerist. Í mínum huga er það ljóst, að það eitt sé eðlilegt, að enginn geti boðið fram í nafni flokks, ef réttir aðilar, þeir sem flokkurinn sjálfur hefur þar til kjörið, mótmæla því, að í nafni flokksins sé fram boðið. Með þessu eru ekki lögð höft á neina, því að þeir, sem ekki vilja una mótmælum flokksins, geta þá boðið fram í eigin nafni, en í nafni hvorki flokks né annarrar stofnunar eða einstaklinga er eðlilegt að fram sé boðið, a.m.k. ef aðili sjálfur mótmælir. Um tíma var ráðgert, að það þyrfti beinlínis samþykki eða staðfestingu þess aðila. Frá því var horfið og haldið sér við það eitt, að framboð skyldi ekki tekið gilt að þessu leyti í nafni flokks, ef réttir aðilar innan hans, sem til þess eru valdir af flokknum sjálfum, mótmæla því, að svo sé gert. Þetta sýnist mér sú minnsta réttarvernd fyrir flokkinn, fyrir samtök almennings, sem hægt sé að ætlast til, og því sé á engan hallað með þessu fyrirmæli.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið. Ég tala hér einungis í fjarveru hæstv. dómsmrh., en vil eindregið mælast til, að málið gangi til 2. umr. og verði vísað til hv. allshn.