09.04.1968
Efri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

20. mál, kosningar til Alþingis

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég tel nú, að hér sé um svo stórt mál að ræða, að það hefði mátt vænta ýtarlegrar framsöguræðu fyrir málinu. En að sjálfsögðu verður það að virðast til betri vegar, þar sem sá maðurinn, sem hefur borið þá þýðingarmiklu breytingu, sem hér á að gera á kosningal., sérstaklega fyrir brjósti og haft orð fyrir þeim, sem að henni standa í hv. Nd., og borið hana fram í eigin nafni, er í skyndi hlaupinn burt af landinu og því kannske eðlilegt, að staðgengill hans, þótt ekki sé ómerkari maður en hæstv. forsrh., hafi hér skemmri skírn á hlutunum. En eins og kom fram í hans örstuttu ræðu, er hér um að ræða annars vegar breytingar á kosningalögum til samræmis við þá stjórnarskrárbreytingu, sem þegar hefur verið samþ., þess efnis, að kosningaaldur sé lækkaður úr 21 ári í 20 ára aldur. Um þær breytingar, sem þetta varða, munu allir hv. alþm. vera fyllilega sammála, og mundi þetta mál því engar deilur hafa ýft upp hér á hv. Alþ., ef það hefði ekki komið til, sem ég áðan gat um, að hæstv. dómsmrh. hefur í umboði ríkisstjórnarflokkanna og eftir samninga a.m.k. bak við tjöldin við formann þingflokks Framsfl. og einnig, að því er bezt verður séð, við formann þingflokks Alþb. tekizt að smeygja inn í þetta frv. breytingu, sem hefur í för með sér ákaflega veigamikla umturnun á þeim ákvæðum, sem gilda um framboð við kosningar. Þessi breyting, sem hæstv. dómsmrh. hefur beitt sér fyrir, hefur valdið allmiklum deilum í hv. Nd. Alþingis og mér er óhætt að segja vakið sterka andúðaröldu utan þings meðal hugsandi fólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Það er sýnilegt af allri málsmeðferð, að þessi brtt., sem nú hefur hlotið samþykki í hv. Nd., hefur valdið miklum höfuðverk í ríkisstj. og langvarandi bollaleggingum, eins og sést á því, hve lengi hún hefur verið þar í burðarliðnum og svo miklum og óeðlilegum töfum sem hún hefur valdið á framgangi máls, sem allir hv. alþm. eru þó sammála um. Þegar fyrri útgáfan af þessari till. sá dagsljósið hér á hv. Alþ., reis þegar í stað mótmælaalda, sérstaklega meðal ungu kynslóðarinnar, ekki sízt í Sjálfstfl. og einnig í Framsfl., og það fór svo, að hæstv. dómsmrh. þorði ekki að láta sverfa til stáls í þingsölunum um þetta fóstur sitt og meðráðh. sinna. En eftir tveggja eða þriggja mánaða umhugsun og bollaleggingar í ríkisstj. og makk við formenn stjórnarandstöðuflokkanna á þingi kemur hann svo nú undir þinglokin með nýja útgáfu af fyrri till. sinni, breytta að orðfæri, en að mínu áliti óbreytta að efni og eðli, og þykist nú hafa hagað svo málum, að hún gæti með góðri aðstoð forustumanna stjórnarandstæðinga flotið í gegnum þingið, án þess að andstaðan gegn henni fái rönd við reist, þegar svo er komið þingstörfum, að málum er mokað í haugum gegnum hv. þd., eins og óhæf venja hefur skapazt um, þegar líður að lokum hvers þings árlega.

Efni þessarar brtt. formanna þingflokkanna og ríkisstj. er kunnara en frá þurfi að greina, þ.e.a.s. það, að upp verði tekinn og lögfestur sá háttur, að ekki megi bjóða fram í nafni stjórnmálaflokks fleiri en einn lista í sama kjördæmi nema með beinu eða óbeinu leyfi bæði þess aðila, sem samkv. lögum viðkomandi flokks skal aðallega ákvarða framboð, og eins hins, sem endanlega skal staðfesta framboð. En sá aðili mun í flestum tilfellum vera flokksmiðstjórn eða framkvæmdastjórn eftir því, hvað það er kallað í lögum viðkomandi flokka, sem nú eru starfandi í landinu. En til þess að dulbúa ofur lítið tilganginn, sem allir mega sjá að er sá og sá einn að útiloka önnur framboð í flokksnafni heldur en þau, sem miðstjórnarvald flokkanna hefur velþóknun á, hvað sem líður vilja almennra kjósenda í kjördæmunum, er þessi tilgangur nú í hinni nýju útgáfu breytingarinnar orðaður svo, að ef sá aðili, sem ákveða skal framboð, þ.e.a.s. efnislega orðað svo, eða staðfesta það, mótmælir þrátt fyrir uppfyllingu allra skilyrða, sem í gildandi l. eru sett, að listi sé borinn fram fyrir viðkomandi flokk, skuli hann samt teljast utan flokka og merktur samkv. því. En í eldri útgáfunni hljóðaði breyt. upp á það efnislega, að framboð í nafni flokks væri því aðeins gilt sem slíkt, að viðkomandi flokksstjórn hefði samþykkt það. Ég hygg, að allir megi sjá, að hér er enginn munur á í raun og veru, að í báðum tilvikum eru flokksstjórnirnar, fámennar stjórnir flokkanna, löggiltar sem úrslitaaðili um þann mikilvæga þátt í okkar lýðræðis- og þingræðisskipulagi, hverjir þeir frambjóðendur flokkanna skuli vera, sem hinn almenni borgari í landinu á kost á að velja á löggjafarþing þjóðarinnar.

Það er vissulega engin furða að mínu viti, þó að ýmsar spurningar vakni, þegar slíkt mál er vakið upp og það af mönnum, sem varla opna svo munninn í umr. um stjórnmál, að þeim vökni ekki um augu af umhyggju fyrir lýðræði og þingræði, þegar slíkt mál er vakið upp af arftökum þeirra forustumanna, sem kváðu þennan flokksræðisdraug niður, sem hér er nú verið að magna gegn lýðræðinu í landinu, fyrir röskum aldarþriðjungi og gerðu það svo kirfilega, að hann hefur ekki látið á sér kræla síðan þar til nú. Og þó að ég þykist raunar vita, að það hafi ekki mikinn tilgang að spyrja, vegna þess að þeir, sem ber að svara, hvorki vilja né þora að svara hreinskilnislega til um hinar raunverulegu orsakir þess, að ákveðið hefur verið að knýja þetta mál fram nú fyrir þinglok, að því er bezt verður séð, þá hlýt ég þó að taka undir spurningar eins og þær, hvers vegna þetta mál sé einmitt fram borið nú, hvers vegna þessu máli liggi svo mikið á einmitt nú, að það megi ekki bíða milli þinga til slíkrar yfirvegunar, sem viðeigandi er, þegar um grundvallaratriði í stjórnarfari okkar og stjórnmálabaráttu er að ræða. Við spurningum eins og þeim, hverjar líklegar afleiðingar samþykkt slíkra breytinga hafi fyrir framtíðarþróun stjórnmálaflokkanna og þar með þingræðisins í landinu, og raunar mörgum fleiri spurningum, sem upp vakna, þegar þetta mál er skoðað, hefur hvorki Alþ. enn þá, svo að ég viti, né þjóðin fengið annað en gervirök og gervisvör frá fyrirsvarsmönnum flokksræðisins, flytjendum og stuðningsmönnum þeirrar breytingar, sem hér er á ferðinni. Rökin, sem við fáum að heyra, eru helzt þau, að ákvæði gildandi kosningalaga séu svo óljós, að við þau sé ekki unandi, og ekkert megi á hætta í því efni, að sá skelfilegi ruglingur, sem átt hafi að eiga sér stað í hugum fólks í síðustu kosningum vegna tveggja framboða Alþb. í Reykjavík, endurtaki sig. Okkur er líka sagt, að gildandi kosningalög séu til þess fallin að rifta og rífa niður sjálfsögð réttindi flokkanna, þeim verði að veita vernd, eins og hæstv. forsrh. orðaði það áðan, lágmarksvernd. Og okkur er sagt, að það sé hægt að splundra flokkunum jafnvel af óviðkomandi misindisfólki, og okkur er sagt, að þrátt fyrir það, þó að þessi ákvæði, sem nú gilda, eða önnur hliðstæð hafi verið í gildi í landinu í 35 ár, hafi menn ekki gert sér enn þá grein fyrir því, hver skelfileg ógn geti af þessum ákvæðum stafað. Eftir atvikum þykir mér rétt að reyna í örstuttu máli að meta þau rök, sem fram hafa verið borin í þessu máli, og þá fyrst þau, að gildandi ákvæði séu svo óljós, að ekki sé viðunandi. En ég held, að ekkert sé fjær sanni en þessi fullyrðing, og þarf raunar í engar grafgötur um það að fara, þegar skoðuð eru ákvæði 27. gr. og 41. gr. l. um kosningar frá 1959, en í 27. gr. l. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Framboðslista í kjördæmi skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra, sem á listanum eru, að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, svo og skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá eigi færri en 100 og eigi fleiri en 200 kjósendum í Reykjavík og eigi færri en 50 og eigi fleiri en 100 í öðrum kjördæmum.

Framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda listans um það, fyrir hvern stjórnmálaflokk listinn sé borinn fram. Ef yfirlýsingu þessa vantar, telst listi utan flokka.“

Að því er varðar það deilumál, sem hér er nú uppi, er hér um að ræða algerlega ljósa og tæmandi upptalningu á þeim skilyrðum, sem uppfylla þarf til þess að framboðslisti sé löglega borinn fram fyrir stjórnmálaflokk, og er raunar strax af ákvæðum þessarar gr. auðsætt, að mögulegt er að uppfylla þessi skilyrði af fleiri en einum aðila eða hóp manna, sem vilja bjóða sig fram fyrir einn og sama flokk. En 41. gr. l. kemur svo í rökréttu áframhaldandi af ákvæðum þessarar gr., en þar segir svo:

„Nú eru fleiri en einn listi boðnir fram fyrir sama stjórnmálaflokk í sama kjördæmi, og skal þá merkja þá A, AA, B, BB, C, CC o.s.frv. Listi, sem boðinn er fram utan flokka, er merktur bókstaf í áframhaldandi stafrófsröð á eftir flokkslistum.“

Mér þykir það gegna mikilli furðu að hafa heyrt færan lögfræðing eins og núv. hæstv. dómsmrh. við umr. í Nd., sem ég tafði mig á að fylgjast svolítið með og ber nafn dómsmrh. að auki eða nafnbót, halda fram þeirri firru, að hér sé eitthvað óljóst um lögmæti framboðs á ferðinni og skýrari ákvæði þurfi hér til að koma. Ég held, að hver leikmaður, sem er sæmilega læs, hljóti að vera fullfær um að skilja, hvað hér er við átt, við fyrsta lestur þessara ákvæða. Hér verður þó allt enn augljósara, hvað fyrir löggjafanum hefur vakað gegnum alla meðferð þessara mála þangað til nú hér á hv. Alþ.,þegar saga málsins og ákvæðanna er skoðuð, því að hér er vissulega ekki um neitt nýmæli að ræða, eins og ég sagði áðan, sem smeygt hafi verið inn í lögin í einhverju fljótræði. Þvert á móti hefur þessi háttur á framboðum, sem gildandi er nú, oftar en einu sinni verið grandskoðaður hér á hv. Alþ. og festur í l. í alveg fullmeðvituðum og ákveðnum tilgangi. Á Alþ. 1933 var borin fram till. svo til nákvæmlega eins orðuð og fyrri útgáfan af hrtt. hæstv. núv. dómsmrh., og þessi till. var felld eftir ýtarlega skoðun hennar á Alþ. og umr., sem tóku af allan vafa um það, hver ætlun meiri hl. löggjafarþingsins var þá í þessum efnum. Sú till. sem felld var þá á þingi, 1933, held ég að það hafi verið, hljóðaði svo:

„Framboði einstaklingsframbjóðanda, svo og framboðslista í Reykjavík, skal fylgja skrifleg yfirlýsing frambjóðanda, eða þegar um lista er að ræða, þeirra, sem lýsa því yfir, að þeir styðji kosningu listans, fyrir hvern stjórnmálaflokk frambjóðandinn eða listinn sé boðinn fram, svo og skrifleg viðurkenning hlutaðeigandi flokksstjórnar fyrir því, að frambjóðandinn eða listinn skuli vera í kjöri fyrir flokkinn. Þó nægir, ef yfirlýsing flokksstjórnar kemur áður en kjörseðlar eru fullgerðir. Vanti aðra hvora yfirlýsinguna eða báðar, telst frambjóðandinn eða listinn utan flokka.“

Þessari till. var í það sinn algerlega hafnað og þurfti vissulega ekki að fara í neinar grafgötur með það, hver tilgangurinn var með því að fella þessa brtt., þegar umr. frá þeim tíma eru athugaðar. En sá augljósi tilgangur var að hamla gegn fámennisvaldi flokksstjórna og stjórnmálaflokkanna um það, hverjir væru í kjöri til Alþ., og gefa hinum óbreyttu liðsmönnum rúmar hendur í þeim efnum, veita flokkunum aðhald í því efni að úrskurða ekki til framboðs menn, sem ekki nytu mjög almenns trausts og fylgis, þótt þeir kynnu að vera í náðinni hjá flokksvaldinu, — í annan stað að viðurkenna þá augljósu staðreynd, sem allir þekkja, sem við stjórnmál hafa fengizt hér á landi og fást, að stjórnmálaflokkarnir eru hér, eins og raunar víðast annars staðar, annað og meira en þeir tiltölulega fámennu hópar, sem skipulagðir eru í flokkssamtökum og allajafna fjalla einir um slík málefni sem framboðsmál. Stjórnmálaflokkarnir eru og hafa verið einnig þeir stóru hópar óskipulagðra liðsmanna, sem hafa ekki kært sig um að skuldbinda sig í flokksfélögum eða flokkssamtökum, en eru engu að síður meginhlutinn af fylgi flokkanna, þegar kosningar ber að höndum.

Tilgangur þeirra alþm., sem felldu hina áminnstu flokksræðistill. 1933, verður, eins og ég sagði áðan, algerlega augljós, þegar gripið er niður í þær umr., sem þá fóru fram um kosningal., og ætla ég ekki að tefja hér umr. með því að fara út í langar tilvitnanir í því sambandi, en þó aðeins minna á það, sem sá mæti maður, Pétur Magnússon, sagði hér í þessari hv. d., þegar nokkrir framsóknarmenn endurfluttu þá till., sem áður hafði verið felld með atkv. forustumanna úr öllum flokkum í Nd., sem m.a. voru Bernharð Stefánsson, Pétur Ottesen, Jón á Reynistað, Jóhann Þ. Jósefsson, Ásgeir Ásgeirsson, Ólafur Thors og margir aðrir, 16 þm. samtals. En málið kom aftur fyrir Ed., og þá sagði Pétur heitinn Magnússon m.a.:

„Flokksstjórnirnar hafa vissulega gott af að fá eitthvert aðhald frá kjósendunum. Ef það aðhald hverfur, er hætt við, að flokksstjórnirnar geti leiðzt til að velja á landslistana meira með tilliti til flokkshagsmuna en þjóðarhagsmuna.“

Þegar hér var komið í ræðu Péturs, greip Jón Þorláksson fram í og sagði: „Ætli flestir flokkar álíti nú ekki, að það fari saman?“ Og Pétur Magnússon svaraði af bragði: „Mér finnst, að reynslan hafi áþreifanlega kennt okkur, að það geri það eigi ávallt. Tel ég engum efa undirorpið að heppilegra sé, að þm. finni til ábyrgðar gagnvart þjóðinni en gagnvart flokknum. En á því gætu e.t.v. orðið nokkrir misbrestir, ef það í framkvæmdinni væru flokksstjórnirnar einar, sem réðu yfir endurkosningu þeirra.“

Í umr. í Nd., sem ég minntist á áðan, orðaði Halldór Stefánsson m. a. sína afstöðu, að hún mótaðist af nauðsyn þess að hamla gegn alræði flokksstjórnanna yfir þjóðarheildinni og einstaklingunum og láta flokksstjórnirnar fá aðhald frá kjósendum. En í þessum dúr held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að umr. hafi yfirleitt verið um þessa till., þannig að það fer ekkert á milli mála, hver meiningin var.

Enn komu þessi ákvæði kosningalaganna til álita bæði 1942 og 1959. Ég hef ekki gögn í höndum til þess að fara mörgum orðum um það, hvernig um þetta hafi verið fjallað 1942, en 1959 koma þessi ákvæði enn til skoðunar í sambandi við stjórnarskrárbreytinguna, sem þá var samþ., og kjördæmabreytinguna. Og þá verður það sama uppi á teningnum og áður, að allir eru samþykkir því að halda þeirri skipan óbreyttri, að fleiri en einn lista megi bera fram í nafni sama flokks og án þess að til komi náðarsamlegast leyfi flokksstjórnar. Og enn er augljóst, að tilgangurinn er sá sami og áður, að tryggja lýðræðislegt vald hins almenna fylgismanns flokks, ekki aðeins til þess að greiða atkv. á kjördegi, heldur til þess að ráða einhverju um það, hverra kosta þá sé völ, sem auðvitað er engu lítilvægara en sjálfur atkvæðisrétturinn, þar sem lifandi og raunverulegt lýðræði á að ríkja. Einar Olgeirsson, þáv. þingflokksmaður Alþb., sagði þá m.a.: „Mér virðist vera nokkur tilhneiging til þess að gera ráð flokksstjórnarmanna nokkuð mikil í þeim till. og hugmyndum, sem fram hafa komið um þessi mál,“ en segir svo og þykir þar helzt til skammt gengið: „Að vísu eiga kjósendur þess kost, ef þeir eru óánægðir með t.d. 1., 2. eða 3. frambjóðanda eða einhvern þeirra, að bjóða fram annan lista, þó að þeir tilheyri sama flokki, og ef sá listi yrði sterkari, er t.d., þegar um einn mann er að ræða, efsti maður af honum kosinn.“

Hæstv. núv. forsrh. ræddi þessi mál einnig. Ég er að vísu ekki með tilvitnanir úr þingtíðindum um það, sem hann hafði um málið að segja, en Morgunblaðið ætti að jafngilda sem sönnunargagn um það hvernig hann leit á málið þá. En í umr: á Alþ. 24. apríl 1959 um stjórnarskrárbreytinguna komst hæstv. forsrh., formaður stjórnarskrárnefndar Nd., svo að orði í framsöguræðu fyrir meiri hl. n.:

„Ef margir eru í kjöri, 5 eða 6, og kosið hlutfallskosningu, þá er ljóst í fyrsta lagi, að kjósandi getur valið um fleiri menn á hverjum lista og er ekki bundinn við þá röðun sem er á listanum, þegar hann er lagður fram af flokkssamtökunum. En eins verður það mun minni áhætta fyrir óánægða flokksmenn að bera fram sérstakan lista, ef hlutfallskosningar eru, vegna þess að þá er líklegt eða meiri líkur til þess, að minni hl. geti komið að sínum manni, og þó að klofningur verði í flokki, þurfi það ekki að leiða til þess, að sæti glatist alveg, heldur geti af tveimur mismunandi flokkslistum jafnvel tveir mismunandi menn verið valdir. Þetta aukna frjálsræði kjósenda sést berlega á tali manna um það, að þessari skipan sé sérstaklega fylgjandi hætta á smáflokkum. Sú hætta er í raun og veru ekkert annað en það, að kjósandinn megi sjálfur velja þann, sem honum líkar. Sumir kalla þetta hættu, aðrir kalla það aukið frjálsræði. En öruggt er, að bezta ráðið til þess að vinna á móti þessari hættu er að hafa á listunum sem allra vinsælasta menn, þá, sem líklegir séu til þess að afla flokknum sem mest fylgis. Það er því gersamlega öfugt, að verið sé að svipta kjósendur frelsi, það er verið að veita þeim aukinn rétt frá því, sem verið hefur, og gera líklegra, að eftir óskum sem allra flestra sé farið.“ Ég held, að þarna fari ekkert á milli mála, að 1959 hafi hæstv. núv. forsrh. verið nákvæmlega sömu skoðunar og Pétur heitinn Magnússon og aðrir þeir, sem börðust gegn flokksræðistill., sem borin var fram 1933. En nú þykir mér vera heldur sköpum skipt í þessu efni og af tilefni, sem ég fæ ekki auga á komið.

Eftir stjórnarskrárbreytinguna 1959 hefur hæstv. núv. dómsmrh. framsögu fyrir stjórnarskrárnefnd Nd., — sú ræða, sem ég nú vitnaði til, var haldin fyrir stjórnarskrárbreytinguna á vetrarþinginu 1959 — og þar telur hann upp ýmislegt, sem láðst hafi í frv., sem þáv. dómsmrh., Friðjón Skarphéðinsson, hafi lagt fram, og þurfi að breyta frekar en í frv. var ákveðið í samræmi við stjórnarskrárbreytinguna, m.a. það, að fellt verði niður, að flokksstjórnir geti raðað á landslista. Það telur hann nauðsynlega og eðlilega afleiðingu af þeirri stjórnarskrárbreytingu, sem þá var gerð, en minnist hins vegar hvergi á það í sinni löngu og ýtarlegu ræðu þá, að á því sé nein nauðsyn að hindra það, að unnt sé að bjóða fram fleiri en einn lista fyrir sama flokk í sama kjördæmi. Þá var sem sagt alveg greinilegt, að núv. hæstv. dómsmrh. og núv. hæstv. forsrh., hafi hann ekki skipt um skoðun frá því á vetrarþinginu og til aukaþingsins sumarið 1959, voru ekki betur sjáandi á þær geigvænlegu hættur, er í því frjálsræði til framboða í flokksnafni felast, sem þeir svo skyndilega telja nú svo ógnvekjandi, að þeir virðast vera sviptir sálarró sinni, meðan það er ekki þurrkað út, svo hættulegt, að ekki megi með nokkru móti taka sér neinn umhugsunarfrest áður en svo verður gert, ekki láta það bíða þeirra tíma að fram fari sú athugun á kosningalögunum, sem flestir virðast sammála um að æskilegt væri að færi fram hið fyrsta.

Þegar litið er til þeirrar eftirminnilegu meðferðar sem hin nú umdeildu ákvæði kosningalaganna fengu á Alþ. 1939, 1942 og 1959, dylst engum, að í þeim felast engin vafaatriði, allt hjal manna um það, að ákvæðin séu óljós, er fyrirsláttur einn. Hinu ber ekki að neita, að eitt atriði laganna, varðandi merkingu lista og meðferð mála, þegar tveir eða fleiri listar eru í kjöri, mætti e.t.v. vera ljósara, eins og sást af meðferð þessara mála í síðustu kosningum hér í Reykjavík, þ.e.a.s. það yrði gert alveg augljóst og þannig úr garði, að ekki gæti leikið á því neinn vafi, að landskjörstjórn sé og verði æðsti dómstóll varðandi úrskurði um þau efni, sem hér er um að fjalla. Tveggja lista framboð Alþb. í Reykjavík eða þó öllu heldur meðferð kjörstjórna á þeim framboðum gaf vissulega tilefni til þess, að slíkt væri gert alveg ljóst og óumdeilanlegt, enda var það í raun og veru ótvírætt þá, að þetta atriði var í rauninni hið eina, sem deilum og ruglingi olli í sambandi við þau framboð, framboð Alþb. þá, þó að þar væri vissulega fáránlegur áróður þeirra, sem stóðu að G-listanum, hinum lista Alþb. og annarra andstæðinga hins framboðslista Alþb. frumorsök og ég vil segja aðalorsök þess, að ýmsir kjósendur hafa vafalaust átt erfitt með að sjá í gegnum allt moldviðrið, sem þessir aðilar þyrluðu upp í skelfingu sinni yfir fylgi og framboði þessa síðarnefnda framboðslista. En síðan þetta framboð frjálslynda arms Alþb., vil ég kalla það, kom fram, hefur líka sitt hvað fleira gerzt, sem ekki verður fram hjá gengið að taka til greina. Í fyrsta lagi það, að landskjörstjórn úrskurðaði hin svonefndu I-listaatkv. Alþb., sem að réttu hefðu átt að heita GG-listaatkv. Alþb., hún úrskurðaði þau Alþb. og gaf út kjörbréf til landsk. þm. í samræmi við þann úrskurð, byggð á skýrum lagafyrirmælum og loks það, að sjálf löggjafarsamkoman staðfesti þennan úrskurð nú í byrjun þessa þings, sem nú er senn að ljúka, og skýrði þannig rétt og óumdeilanlega, hver meining og tilgangur laganna hefur verið og er.

Héðan í frá er því ekki um neitt að deila í þessum efnum, þó að menn vilji kannske halda því fram, að áður hafi svo verið. Héðan í frá er því um ekkert lengur að deila. Öll saga málsins allt frá 1933, öll meðferð þess á Alþ. a.m.k. í fjögur skipti, því að það var fjallað um það tvisvar sinnum 1959 og aftur nú í byrjun þessa þings, og úrskurður landskjörstjórnar, sem skipuð var hinum færustu lögfræðingum í landinu, hefur tekið af öll tvímæli um það, að tiltekinn hópur manna má og getur borið fram lista í nafni flokks, án þess að til komi formlegt eða óformlegt samþykki flokksstofnana eða flokksstjórna.

Rökin, sem hafa verið aðallega færð fram fyrir þessu máli, þ.e.a.s. um óljós ákvæði, rugling, sem slíkt geti valdið meðal kjósenda, og reynt sé að villa um fyrir þeim af þessum tilefnum, eru þess vegna margsinnis fallin dauð og ómerk. Hitt er svo auðvitað annað mál, hvort ekki er rétt að vega og meta það, hvort gallar þessara skýru ákvæða eru svo augljósir að þurrka beri út ákvæði frjálsræðisins, eins og nú er lagt til, og hvort kostir þeirra fljótfærnislegu breytinga, sem nú á að knýja í gegn og koma í staðinn fyrir eldri ákvæði, knýja í gegn með miklum hraða, — hvort þessir kostir þess eru svo auðsæir, að breyting, gerð af mikilli skyndingu, sé réttlætanleg út frá því mati.

Frá mínum bæjardyrum séð er þessu mjög auðsvarað, og fer því þó fjarri, að ég álíti núgildandi skipan stjórnarskrár og kosningalaga hafna yfir alla gagnrýni. Gildandi skipan um frjálsræði almennra kjósenda til framboða hafa verið og eru áreiðanlega visst aðhald gagnvart flokkum og flokksstjórnum, aðhald, sem er til þess fallið, að þeir taki tillit til a.m.k. stórra minni hl. í flokkum eða meðal fylgismanna sinna, en sigli ekki beint af augum með valdasjónarmið fámennisstjórnanna ein að leiðarljósi og herði þannig flokksræðisólarnar að áhangendum sínum og raunár þá um leið að þjóðinni gegnum vald sitt á Alþ. Gildandi skipan er viss trygging fyrir því, að flokksvaldið, í hvaða flokki sem er, geti ekki endalaust níðzt á minnihlutasjónarmiðum innan flokkanna, og hún er hvetjandi fyrir þá til þess að gefa slíkum sjónarmiðum tækifæri til þess að prófast í almennum þingkosningum, án þess að flokkar séu klofnir og nýir flokkar myndaðir. Af sjálfu leiðir svo, að þetta aðhald er fallið til þess að hindra eða a.m.k. að torvelda stofnun nýrra flokka. En almennt mun sú skoðun vera ríkjandi, að breyting flokkaskipunar í marga og smærri flokka sé ekki mjög æskileg, og sumir mundu jafnvel segja, að slík þróun væri hættuleg, þó að það sé hins vegar vissulega fjarri lagi að mínu viti og í andstöðu við allar viðteknar hugmyndir um lýðræði og þingræði að ganga of langt í þeim efnum að torvelda stofnun nýrra flokka, enda er slíkt í rauninni mjög auðvelt hér á landi og auðveldara en víða annars staðar, þar sem hér eru í rauninni engar kröfur gerðar til stjórnmálaflokka, hvorki að því er áhrærir skipulag þeirra, fylgi þeirra eða önnur formsatriði, sem um er að ræða, og þá vitanlega heldur engar kröfur gerðar til þess að innan þeirra ríki neitt lýðræði. Þær stofnanir sem nú á að löggilda, geta verið stofnanir, sem eru þannig uppbyggðar eftir flokkslögum, að þar hafi lýðræði ekki komið mikið við sögu, og er það áreiðanlega í mörgum tilfellum. Ég held, að reynslan af núgildandi skipan þessara mála geti ekki talizt slæm, og varla getur það talizt misnotkun, að alla þá áratugi, sem þessi ákvæði hafa verið í gildi, hefur aðeins komið tvisvar fyrir, að þessi skipan hafi verið notuð, og ég held, að það hafi sannazt í bæði skiptin, bæði með framboði Jónasar Jónssonar fyrir Framsfl. í Suður-Þingeyjarsýslu á sínum tíma og framboði Hannibals Valdimarssonar o.fl. í Reykjavík, að ákvæðin voru nauðsynleg og þau hafa ekki verið notuð nema í þeim tilfellum, þegar fullgildar ástæður lágu fyrir því.

Ég held þess vegna að rökin, sem voru færð fram frjálsræðinu til stuðnings allt frá 1933 af forustumönnum úr öllum flokkum, séu enn í fullu gildi og hafi reynzt flokkunum aðhald, það hafi komið að mestu í veg fyrir myndanir nýrra smáflokka. Ég held þess vegna, að þessari skipun eigi ekki að breyta nema þá að mjög vandlega athuguðu máli og þá því aðeins, að önnur ákvæði, sem þingræði og lýðræði er meiri stuðningur að, komi í þeirra stað. Gallar þeirrar fljótræðis- og flokksræðisskipunar, sem allir oddvitar þingflokkanna hér á hv. Alþ. hafa nú brætt sig saman um, sýnast mér hins vegar liggja í augum uppi. Með hinni nýju skipan, sem hér er verið að reyna að koma á, er fámennisstjórnum flokkanna eða öllu heldur meiri hl. þeirra fengið í hendur úrslitavald um framboð í öllum kjördæmum landsins og þeirri hættu þá um leið boðið heim, að ekki aðeins misvel fengið meirihlutavald í kjördæmisráðum eða einstökum flokksfélögum hafi þar öll ráð í sinni hendi, heldur geti flokksstjórnir eða meiri hl. þeirra, t.d. þrátt fyrir einróma samþykki um framboð í kjördæmisráðum, rift samþykktum þeirra um framboð og látið úrskurða þau utan flokka eða þá haft uppi hótanir við kjördæmisráðin og heimamenn í héruðum um, að þeir skuli haga framboðum svo og svo, svo að slíkt hljótist ekki af, að þeim verði mótmælt og þau úrskurðuð utan flokka. Þessari hættu er tvímælalaust boðið heim. Þannig er örfáum valdamönnum í raun og veru fengið allt framboðsvaldið í hendur, ef svo vill verkast, en hinar lægra settu flokksstofnanir og almennir fylgismenn, sem ekki eru skipulagsbundnir í flokkunum, sviptir öllu valdi. Ég álít, að slík skipan mála eigi ekkert skylt við lýðræði, heldur sé hér um það að ræða, að verið sé á gerræðisfullan hátt að löggilda hvert það tilræði, sem fámennisstjórnir flokkanna telja eða kunna að telja sér fært að beita gegn hinum óbreyttu liðsmönnum.

Samkv. hinni nýju breytingu er ráðizt að mínu viti á hinn freklegasta hátt inn á svið flokkanna og flokksstjórnunum, a.m.k. sumum þeirra, — því að það gilda ekki sömu lög í öllum stjórnmálaflokkunum, — sem ekkert vald hafa nú samkv. flokkslögum og reglum, sem innan þeirra eiga að gilda, fengið í hendur úrslitavald um framboð. Það er þess vegna að mínu viti hin freklegasta blekking, sem borin hefur verið fram af hæstv. dómsmrh., þegar hann hefur fullyrt, að hann og sálufélagar hans í hinum flokkunum séu með breytingu sinni að samræma kosningal. flokksreglunum. Þetta eru orðrétt ummæli hæstv. dómsmrh. úr umr. í Nd. Sumum kynni kannske að finnast sú háttsemi löggjafans rökréttari, að flokksreglur væru samræmdar landslögum, en ekki öfugt. En látum það nú í bili gott heita, þó að það sé eins og í öðrum efnum í þessu sambandi farið aftan að siðunum. Hitt er öllu lakara, að þessi fullyrðing hefur ekki við neitt að styðjast. Hér er ekki verið að samræma landslögin flokksreglunum. Ef ég tek t.d. Alþb. sem dæmi um þetta, þá eru þar gildandi lagaákvæði, sem segja, að kjördæmisráðin annars staðar en í Reykjavík hafi ákvörðunarvald um framboð í samráði við framkvæmdastjórn. Það eru sem sagt tveir aðilar samkv. lögum Alþb., sem eiga að taka ákvörðun um framboðið, en endanleg ákvörðun er hins vegar tekin af kjördæmisráði. Með þeirri breytingu, sem hér er á ferðinni, tel ég alveg vafalaust, að samkv. lögum Alþb. mundi það verða úrskurðað svo, að framkvæmdastjórnin, sem nú hefur ekkert vald í sínum höndum til þess að hindra framboð, sem ákveðið er af kjördæmisráði, hefði fengið slíkt vald fullkomlega í sínar hendur. Það getur því átt sér stað, þar sem slík ákvæði gilda og ég hugsa, að það séu ekki alveg ósvipuð ákvæði um þetta t.d. í lögum Framsfl., þó að ég fullyrði ekki um það, ég verð þá leiðréttur, ef það er ekki, að það geti vel farið svo, að framboðslista, sem jafnvel hefði verið einróma samþykktur heima í héraði, væri hafnað af fámennisstjórn þessara flokka og úrskurðaður utanflokkalisti. Og það er líka rétt að gæta að því í þessu sambandi, að flokkarnir geta breytt lögum sínum og sett inn ákvæði, sem tryggja þetta enn þá betur en e.t.v. kann að vera gert með þessum ákvæðum, sem nú er verið að reyna að lögfesta. Formenn þingflokkanna, sem bera þetta mál svo mjög fyrir brjósti, álíta greinilega, að hér sé vel sett fyrir allan leka, þeir hafi fengið valdið í sínar hendur og þeim hafi tekizt, ef þessi breyting nær fram að ganga, að gerbreyta jafnvel þeim lögum, sem nú gilda innan sumra stjórnmálaflokkanna, og færa hugsanlega mjög fáum mönnum, allt niður í 8 mönnum i flokki eða jafnvel færri, allt endanlegt vald í framboðsmálum viðkomandi flokks. Ég tel þess vegna, að af þessu sé alveg augljóst, að hæstv. dómsmrh., ef hann hefur ekki farið vísvitandi með rangfærslur, hafi fengið alrangar upplýsingar hjá samráðsmanni sínum í þessu máli, — þar á ég við formann þingflokks Alþb., — um lög þess flokks, ef hann telur sig hafa verið að samræma landslög lögum Alþb. En ég tel reyndar síðari tilgátuna, að hann hafi fengið rangar upplýsingar hjá formanni þingflokks Alþb., miklu sennilegri en þá, að hann hafi vísvitandi farið með rangt mál, þegar hann sagði þetta.

Ég held, að í engar grafgötur þurfi um það að fara, að hin breytta flokksræðisskipan geti hæglega valdið stórfelldri og hættulegri ringulreið í íslenzkum stjórnmálum. Flestum mun þegar finnast, að vald flokkanna og þó alveg sérstaklega fámennra stjórna þeirra sé nú þegar orðið svo mikið, að ekki sé á það bætandi. En hér er hugmyndin sú að gera það svo að um munar. Öflugt, jafnvel einróma fylgi flokksmanna og fylgismanna heima í héruðunum á ekki lengur að vera nein trygging frekar en verkast vill fyrir því, að menn hljóti viðurkenningu til þess að mega vera í kjöri til Alþ. fyrir þann flokk, sem þeir fylla eða fylgja. Náð fárra útvaldra ráðamanna verður að skína yfir þeim, til þess að svo megi verða. Ef hún gerir það ekki, eiga menn aðeins tveggja kosta völ, annarra en þeirra að láta ýta sér til hliðar og verða gerðir áhrifalausir um stjórnmál, þ.e.a.s. að bjóða fram utan flokka eða stofna nýja flokka. Eftir gildandi lögum eru utanflokkaframboð því sem næst útilokuð, þar sem atkv. nýtast þar verr en í flokksframboðum eða falla dauð, ef hlutaðeigandi nær ekki kosningu. Þeim, sem kunna því illa að kyssa á flokksvendina, er því sá kostur í raun og veru einn eftir skilinn að mynda nýja flokka til þess að geta háð stjórnmálabaráttu sína á jafnréttisgrundvelli. Þeir verða neyddir til þess, jafnvel þó að ekki sé um grundvallarágreining að ræða um stærstu markmið, heldur önnur smærri atriði, sem eðlilegt væri og sjálfsagt að útkljá að meira eða minna leyti með framboðum á tveimur listum í sömu kjördæmum og láta sjónarmiðin þróast. Afleiðing þessara nýju ákvæða verður því óhjákvæmilega, a.m.k. þegar til lengdar lætur, fjölgun stjórnmálaflokka, smárra eða stórra. Sé því eitthvert sannleikskorn í þeirri röksemd sem heyrzt hefur, að sú skipan, sem nú gildi, sé flokkum þeim, sem nú eru fyrir í landinu, hættuleg, sem reynslan raunar afsannar með öllu, þá er hitt alveg öruggt, að það flokka- og flokksstjórnarvald, sem hlýtur að komast í algleyming við þá breytingu, sem nú er verið að knýja fram, mun rífa þá sundur hvern af öðrum. Umbúðalaus sannleikurinn er nefnilega sá, að yfirgnæfandi meiri hl. kjósenda í landinu hefur megna skömm á því óhefta flokksræði, sem hér ríkir, og á því, hve blygðunarlaust fámennar stjórnir flokkanna beita valdi sínu, bæði utan þings og innan. Það mun því fyrr eða síðar rísa gegn flokksræðinu eftir hverri þeirri leið, sem því verður eftir skilin. Þetta er því augljósara sem þeirrar staðreyndar er betur gætt, að núverandi flokkaskipun er orðin afgömul og úrelt á ýmsa lund, hefur staðnað mitt í brimróti nýrra tíma og nýrra viðhorfa, og forusta flokkanna hefur gert það ekki síður, þar sem endurnýjun er nánast bannorð, nema alger ellidauði, annað hvort andlegur eða líkamlegur, komi til skjalanna og kveði upp dómsorð sitt. Og þegar svo er komið, stendur hinn nýi fyrrum flokksþægi prins á þröskuldinum reiðubúinn til að taka við stýrinu á strandaðri og staðnaðri flokksskútunni, og nú vil ég taka fram, að ég meina þetta ekki sérstaklega til hv. 3. þm. Norðurl. v.

Það er þess vegna vissulega engin tilviljun, að hin nýja flokksræðisskipan hefur hlotið harða andstöðu almennings, og ég vil segja jafnframt gleðilegt tímanna tákn, að unga fólkið, sem áhugasamast er um stjórnmál, hefur tekið upp einarða og harða baráttu gegn þessum ráðagerðum öllum, enda þótt þessu óþurftarmáli sé laumað inn í frv., sem á að fela í sér aukin stjórnmálaleg réttindi til handa unga fólkinu í landinu. Einróma samþykktir í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna, í Vöku, því félagi, sem ungir sjálfstæðismenn í háskólanum fylla, samþykktir félags háskólastúdenta og myndarleg skrif ungra framsóknarmanna í Tímanum og margt annað ber þessari uppreisn gegn flokksræði — uppreisn æskunnar gegn flokksræðinu greinilegt og gleðilegt vitni. Og það þarf ekkert að draga í efa, að þeir munu ekki standa einir í baráttu sinni gegn því, né heldur að sú barátta gegn flokksræðinu, sem hlýtur að verða eitt af höfuðviðfangsefnum í stjórnmálunum á næstu tímum, mun setja svipmót sitt þegar á næstu alþingiskosningar, hvort sem þær verða háðar á næsta sumri eða síðar. Það má vel vera, að þeir formenn þingflokkanna hér á hv. Alþ., sem hafa brætt sig saman um þessa breytingu og hafa ákveðið að hafa forgöngu um það að herða flokksböndin að lýðræðislegum réttindum almennra kjósenda, þeir álíti, að þeir muni a.m.k. um sinn geta bjargað sínu pólitíska skinni og hindrað uppreisn gegn ofurvaldi sínu, og svo mikið er víst, að til þess eins er leikurinn gerður. Tillitslaust fljótræðið, sem hér á að ráða ferðinni, á líka sínar aðrar augljósu skýringar, annars vegar þær, að núv. stjórnarflokkar telja líklegt, að ríkisstj. þeirra verði gliðnuð í sundur á næsta sumri, og þess vegna liggur málinu svo mikið á, að það getur ekki beðið stundinni lengur, og að haustkosningar séu þess vegna líklegar. Í annan stað hefur sú uppreisn gegn misbeitingu klíkuvalds og flokksræðis, sem framboð Hannibals Valdimarssonar var í síðustu kosningnum, orðið öllum ráðandi flokksbroddum hin mesta hrollvekja. Það kom sem sagt á daginn þá, að flokksvaldið, þó að það sé sterkt, þá er það ekki almáttugt. Það getur tapað gegn uppreisnarmönnunum, ef mannlega er á móti því tekið.

Það er þess vegna auðsætt, að það er hræðslan, óttinn, sem nú hefur bundið vináttuböndin milli Heródesar og Pílatusar t.d. milli hæstv. dómsmrh. og hv. 4. þm. Austf. meðal annarra. En óttinn hefur aldrei reynzt mjög ráðhollur leiðheinandi og allra sízt í stjórnmálum. Og það kynni enn svo að fara, að þessir herrar, sem nú láta stjórnast af hræðslunni einni saman og reiða til höggs gegn lýðræðinu að boði hennar, verði frekar skamma stund höggi fegnir. Baráttan gegn auknu flokksræði mun þrátt fyrir þá atlögu, sem nú er gerð, brjóta sér nýjar leiðir, þó að einni þeirra sé lokað. Víðtæk samstaða um vernd lýðræðis og þingræðis og um heiðarlegar leikreglur í stjórnmálabaráttunni verður knýjandi dagskrármál allra andstæðinga aukins flokksræðis, aukins fámennisvalds yfir grundvallarréttindum hins almenna kjósanda, á samri stundu og flokksvélarnar hér á hv. Alþ. hafa knúið fram þá breytingu, sem hræddir flokksforingjar hafa í ótta sínum við heiðarlega lýðræðisreglu gerzt frumkvöðlar að. Og við skulum ekkert fullyrða um það á þessari stundu, að slík samstaða sé ekki möguleg eða geti tekizt á allra næstu tímum. En ég fullyrði a.m.k. hér og nú, að það mun ekki standa á okkur, sem teljumst til hins frjálslynda arms Alþb., að vinna heils hugar að slíkri samstöðu, hve mikið sem í milli ber að öðru leyti, og að taka jafnframt til gaumgæfilegrar íhugunar endurskoðun á öllum öðrum leikreglum, sem um er að tefla í íslenzkum stjórnmálum, jafnt kjördæmaskipunarinnar sjálfrar sem annars, sem hér að lýtur.