17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

20. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. um kosningar til Alþ., var flutt í hv. Nd., og var í upphafi aðalefni þessa frv. að breyta kosningaaldrinum, þ.e.a.s. færa hann úr 21 ári niður í 20 ár til samræmis við nýgerðar breytingar á stjórnarskránni. Í Nd. komu síðan fram ýmsar brtt. við þetta frv., og voru tvær þessara tillagna samþ., annars vegar till. um, að hreppsnefnd sé heimilt, að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, að hafa kjörstað utan hreppsfélagsins, og svo hins vegar till. frá dómsmrh., sem segir, að ef sá aðili, sem samkvæmt reglum flokks er ætlað að ákveða framboðslista eða staðfesta framboðslista endanlega, ber fram mótmæli gegn því, að listi sé í framboði fyrir flokkinn, skal yfirkjörstjórn úrskurða slíkan lista utan flokka og landskjörstjórn úthluta uppbótarþingsætum í samræmi við það.

Hér á Alþ. hefur ekki verið mér vitanlega neinn ágreiningur um hið upprunalega meginefni frv. um að færa niður kosningaaldurinn, og ég hygg, að það sé ekki heldur neinn ágreiningur um þessa fyrrnefndu brtt. úr Nd., sem ég gat hér um, þ.e.a.s. að hafa megi kjörstað utan hreppsfélags. Hins vegar snýst ágreiningurinn um þetta frv. um till. hæstv. dómsmrh., sem samþykkt var í Nd., og mun ég því fyrst og fremst gera þetta atriði frv. hér að umræðuefni.

Upphaf þessa máls má rekja til alþingiskosninganna á s.l. vori, en eins og kunnugt er, kom þá fram listi hér í Reykjavík, þar sem Hannibal Valdimarsson skipaði efsta sætið. Það var ágreiningur um merkingu þessa lista. Yfirkjörstjórnin í Reykjavík úrskurðaði þennan lista utan flokka og merkti hann bókstafnum I, en landskjörstjórn gaf út yfirlýsingu eða úrskurð fyrir kosningar þess efnis, að hún teldi, að atkv. þessa lista ættu að leggjast við G-listaatkv. eða lista Alþb. og hefði raunar átt að merkja hann GG samkvæmt kosningal., og mundu atkv. þessara tveggja lista, G-listans og I-listans, verða lögð saman við úthlutun uppbótarþingsæta. Ég held það hafi komið mörgum á óvart, hvernig kosningal. voru úr garði gerð, þegar þessi deila reis. Menn hafa kannske skiptar skoðanir á því, hvort kosningal. séu ljós eða óglögg, en mér finnst þetta alveg sláandi dæmi um það, að kosningal. séu alls ekki eins skýr og vera ætti. Þetta var lögfræðilegur ágreiningur milli yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík og landskjörstjórnar, því í yfirkjörstjórninni í Reykjavík eru 5 menn og þar af held ég að séu 4 lögfræðingar, í landskjörstjórn eru einnig 5 menn og þar eru allt lögfræðingar að ég hygg. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en allir þessir menn í báðum þessum kjörstjórnum hafi viljað dæma þetta mál eftir fyllstu samvizkusemi og beztu þekkingu, en samt sem áður varð ágreiningurinn slíkur sem allir þekkja. Ég hafði ekki leitt hugann að þessu áður og varð ærið undrandi á því, að það væri í rauninni hægt að bera fram fleiri en tvo lista í nafni sama stjórnmálaflokks, og það gegn mótmælum flokksins.

Það sem kom hér fyrst og fremst til álita, var ákvæðið í l. um kosningar til Alþ., 41. gr., sem segir, að nú verði fleiri en einn listi boðnir fram fyrir sama stjórnmálaflokk í kjördæmi, og skuli þá merkja þá A, AA, B, BB, C, CC o.s.frv., en listi, sem borinn er fram utan flokka, er merktur bókstaf í áframhaldandi stafrófsröð á eftir flokkslistum. Það er fyrst og fremst þessi grein, sem veldur ágreiningi. Yfirkjörstjórnin virtist leggja þann skilning í greinina og reyndar önnur ákvæði kosningal. og stjórnarskrárinnar, að það sé alls ekki heimilt, þrátt fyrir þetta ákvæði að bjóða fram tvo lista í nafni sama stjórnmálaflokks í sama kjördæmi, ef full tala frambjóðenda er á báðum listunum. Aftur á móti segir landskjörstjórnin, að það sé tvímælalaust heimilt, og taldi hún að listi Hannibals Valdimarssonar ætti að merkjast GG. Hins vegar kom það ekki skýrt fram hjá landskjörstjórn, hvort í raun og veru, eins og ég hef heyrt marga halda fram, eigi að skilja þetta ákvæði á þann hátt, að það geti hvaða hópur manna sem er, ef hann nær nógu mörgum mönnum á lista og tilteknum fjölda meðmælenda, þá geti hvaða hópur sem er, í hvaða kjördæmi sem er, boðið fram viðaukalista eða hjálparlista fyrir hvaða flokk sem er, þ.e. að það sé ekki einungis verið að ræða um það, hvort minni hlutinn í einhverjum flokki á að hafa rétt til að bjóða fram viðbótarlista, heldur bara hvort Pétur og Páll, einhverjir menn, sem eru algerlega óflokksbundnir, hafi þennan rétt líka. Þennan skilning hef ég heyrt marga túlka. Og ég verð að segja það, að anzi horfir það undarlega við, ef menn, sem eru einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki alveg óviðkomandi, ekki þar einu sinni flokksbundnir, geta notað nafn stjórnmálaflokksins og sett fram framboðslista í hans nafni. Ég held, að engum detti það í hug t.d., að minni hl. fulltrúa á flokksþingi einhvers stjórnmálaflokks geti gefið út stjórnmálaályktun í nafni flokksins. Hann getur gert það í eigin nafni, en hann getur ekki gert stjórnmálaályktanir í nafni flokksins. Á sama hátt geta menn auðvitað ekki tekið sig saman og gefið út blað, stjórnmálablað, og gefið það út í nafni einhvers tiltekins flokks, ekki nema viðkomandi flokkur hafi samþykkt. Minn persónulegi skilningur er, að það höggvi nærri 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að menn hafi rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi og þau njóti þannig verndar ef stjórnmálafélag sem stofnað er beinlínis í þeim tilgangi að vinna að framgangi ákveðinnar stjórnmálastefnu og m.a. með því að bjóða fram, verður að þola það, að einhverjir alveg óviðkomandi menn geti komið og notað nafn þessa félags gegn mótmælum þess.

Menn eru að tala um, að umrædd hrtt. hæstv. dómsmrh. sé eiginlega til þess að efla flokksræðið í landinu eins og það sé út af fyrir sig hættulegur hlutur. Nú er það auðvitað alveg augljóst, að það er hagsmunamál stjórnmálaflokkanna í landinu að fá um þetta skýr og ótvíræð ákvæði og vita, hvar þeir standa, og það geti ekki annaðhvort minni hl. þeirra eða einhverjir óviðkomandi menn tekið upp nafn flokksins og notað það í framboði og kosningaáróðri. Það er út af fyrir sig alveg ljóst, að þetta er hagsmunamál flokkanna. En verðum við ekki að hugsa þetta eitthvað lengra, skoða þetta betur? Er þetta hagsmunamál þjóðarinnar? Er þetta til þess fallið að styrkja lýðræðið, að hafa lögin svona óbreytt? Margir halda því fram reyndar, ég að vísu tek ekki undir það, að helzt ættu bara að vera tveir stjórnmálaflokkar í landinu, og sumir vilja breyta kjördæmaskipun með það fyrir augum, að það sé naumast grundvöllur fyrir nema tvo stjórnmálaflokka. Ég hugsa, að á hinu leitinu séu margir þeirrar skoðunar, að ekki beri að ganga svona langt, þótt hins vegar sé hættulegt að hafa slíkt kosningafyrirkomulag og stjórnskipan, að hætta sé á, að mjög margir smáflokkar rísi upp, það geti verið ógnun við lýðræðið. En ég spyr: Er það þá ekki einnig hættulegt fyrir lýðræðið í landinu og stjórnarfarið, ef kosningalögin eru þannig, að það sé auðvelt að margkljúfa sérhvern stjórnmálaflokk? Eru menn þá nokkru bættari? Mönnum er kannske gjarnt að hugsa þetta mál einvörðungu með stjórnmálaflokka í huga. Í kosningalögunum er talað um lista stjórnmálaflokka, og það er talað um lista utan flokka, og þarna virðist ekki vera til neitt millistig. En það mætti hugleiða ýmis dæmi. Við skulum taka sem dæmi, að í einhverju kjördæmi væri borinn fram listi óháðra borgara eða listi launþega eða listi frjálslyndra kjósenda, listi bindindismanna o.s.frv. Eru þá þetta væntanlega flokkslistar eftir kosningalögunum, af því að það eru einhver samtök á bak við listana, þó að þau hafi kannske önnur verkefni aðallega en bjóða fram til Alþ. og standa í stjórnmáladeilum eða berjast fyrir einhverjum málefnum á stjórnmálavettvanginum. Ég álít að á þessu sviði sé kosningalögunum nokkuð ábótavant, því að þau gera annaðhvort ráð fyrir hreinum listum stjórnmálaflokka og jafnvel fleirum en einum í sama kjördæmi, eða þau gera ráð fyrir utanflokkalistum. En ef við hugsum þetta mál miðað við gildandi lög, þó ættum við ekki endilega að horfa á stjórnmálaflokkana, — það getur stundum villt okkur sýn, mönnum finnst stundum, að þeir séu samtök einhverra kaldrifjaðra manna, þar sem klíkur ráði lögum og lofum o.s.frv., þó að það sé kannske ekki vert að taka allt of mikið tillit til slíks. Við skulum taka sem dæmi, að í næstu alþingiskosningum, að óbreyttum kosningalögum bjóði Verkamannafélagið Dagsbrún fram lista samþykktan af stjórn þess, trúnaðarmannaráði og félagsfundi. Fyndist mönnum þá ekki andkannalegt, ef einhver hópur Reykvíkinga, við skulum segja menn, sem alls ekki væru í Dagsbrún, gæti verið einhver ótiltekinn hópur, kæmi og semdi lista og segði: Við bjóðum þennan lista fram í nafni Dagsbrúnar. — Ef Dagsbrúnarlistinn héti H, þá væri þetta bara HH-listi. Mér finnst þetta í rauninni alveg fáránlegt. Við skulum taka annað dæmi. Aðalhlutverk stjórnmálaflokka er auðvitað stjórnmálabarátta, að gefa út blöð, bjóða fram við bæjarstjórnarkosningar og alþingiskosningar og reyna að þoka sínum stefnum áleiðis. En nú er til einn stjórnmálaflokkur, sem hefur vanrækt þennan framboðsþátt nokkuð undanfarinn áratug og lengur, það er Sósfl. Hugsum okkur nú það dæmi, að Aki Jakobsson hefði í síðustu alþingiskosningum ekki stofnað Lýðveldisflokkinn, heldur hefði þessi listi hans og meðmælendur sagt: Við bjóðum þennan lista fram í nafni Sósfl., Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., þó að kannske enginn af þessum mönnum á listanum væri í þeim flokki. Fyndist mönnum ekki alveg stórfurðulegt, ef þetta væri hægt, ég heyri marga túlka kosningalögin þannig, að þetta væri í raun og veru fullkominn möguleiki.

Nei, menn verða að hafa það í huga, að sérhver stjórnmálaflokkur þarf auðvitað að leggja sig fram um það að bjóða fram þá menn, sem líklegastir eru til trausts og vinsælda, líklegir til þess að afla flokknum atkv. og berjast fyrir hans málstað, og ef einhverjar klíkur ná undirtökunum í flokksstjórnunum eða kjördæmaráðunum og koma fram einhverjum framboðum eða mönnum, sem ekki væru ákjósanlegir eða menn væru óánægðir með, þá geldur flokkurinn þess auðvitað í kosningum. Minni hl. í kjördæmisráði eða flokksstjórn hefur alltaf sín áhrif, því að á listanum eru margir menn, og þótt kannske minni hl. fái ekki 1. sæti, þá fær hann 2. sæti o.s.frv. Hver stjórnmálafl. reynir auðvitað alltaf að bjóða fram sinn sterkasta lista með sín flokksfélög að bakhjarli, hann mótar sína stefnu, berst fyrir henni og hann býður fram menn, sem eiga að fylgja þessari stefnu og berjast fyrir henni á Alþ., ef þeir ná kosningu. En svo gæti komið einhver hópur, annaðhvort minni hl. úr þessum flokki eða óflokksbundnir menn, og sagt: Þetta er ágæt stefna hjá þessum flokki, við fylgjum henni alveg, en við erum óánægðir með frambjóðendur þessa flokks í þessu kjördæmi og við ætlum að búa til annan lista og koma honum fram til þess að koma þar að betri mönnum. Það er tæpast eðlilegt, að menn, sem eru með sömu skoðanir í stjórnmálum, séu sitt á hvorum lista. Ef menn fylgja sama flokki að málum, ef menn vilja hafa áhrif á, hverjir eru boðnir fram til þess að fylgja stefnuskrá flokksins eftir á Alþ. og annars staðar, þá geta menn gengið í viðkomandi flokksfélag og haft sín áhrif þar að koma þeim mönnum á framfæri, sem þeir hafa mestan áhuga á. Ég held, að það sé eiginlega grundvallarhugsunin á bak við lýðræðislegar kosningar að velja milli málefna, en ekki manna.

Ég tel, í ljósi þess, sem ég hef sagt hér að framan að þá sé í raun og veru alls ekki viðunandi fyrir stjórnmálaflokk að þurfa að þola mótframboð og jafnvel framboð óviðkomandi manna í nafni flokksins og það gegn beinum vilja flokksins. Ég álít líka, að slíkir möguleikar, ef þeir væru hafðir a.m.k. mjög opnir, væru í raun og veru afbökun á lýðræðinu.

Ég skal taka það fram, að það eru auðvitað ýmis önnur ákvæði kosningalaganna, sem kynnu að þurfa endurskoðunar við, þó að þetta ákvæði, sem hér hefur verið aðallega til umr., sé það brýnasta að bæta úr. Ég vil t.d. taka reglu kosningalaga um að utanflokkalistar eigi ekki rétt á að fá uppbótarþingsæti. Persónulega álít ég, að það hefði verið eðlilegast, — það er kannske ekki lagaheimild fyrir því sem stendur, — í sambandi við I-listann hér í Rvík, að annar maður á I-listanum, Vésteinn Ólason, hefði fengið uppbótarþingsæti við síðustu kosningar, en ekki sá uppbótarþm., sem valinn var og borinn fram af G-listanum á Vestfjörðum. Og mér finnst t.d. afar óeðlilegt, ef við hugsum okkur það, að listi Lýðveldisfl., sem borinn var fram hér í kosningunum í vor, hefði fengið sama atkvæðamagn og listi Hannibals, miðað við, að listi Hannibals væri utan fl., þá ætti sá listi, sem kenndi sig við nafn eða flokksheiti uppbótarþingsæti, en listi, sem væri utan fl., ætti það ekki. Það finnst mér vissulega vera atriði, sem þarf að taka til athugunar.

Ég tel, að með þessum breytingum, sem gerðar hafa verið í Nd., á þessu frv., og þá sérstaklega þessu ákvæði, sem hér hefur verið mest um rætt, þ.e.a.s. breyt. á 27. gr. kosningalaganna, skapist öryggi. Breytingin skapar líka miklu meiri vissu fyrir kjósandann. Ef við lítum enn á ný til baka til kosninganna 1967 og sjáum, hvernig ástandið var: fyrst kemur yfirkjörstjórn í Reykjavík og merkir listann I-lista, það stendur á kjörseðlinum, síðan birtir landskjörstjórn yfirlýsingu í blöðum og útvarpi, þar sem hún segir, að hún muni ekki hlíta þessari merkingu og taka listann sem GG-lista, og svo vita allir, að Alþingi á svo hið endanlega úrskurðarvald, þá verður auðvitað allt of mikil óvissa fyrir kjósandann, hann veit ekki, hvernig þessu reiðir af að lokum, og m.a. ástæða til að samþ. þessa breyt. er sú, að þetta skapar miklu meiri vissu fyrir kjósandann. Og ég álít, að þrátt fyrir þennan úrskurð landskjörstjórnarinnar, sem tvímælalaust segir, að það sé heimilt að bjóða fram tvo lista fyrir sama stjórnmálaflokk í sama kjördæmi, — hann nær það langt, að það sé heimilt, þrátt fyrir mótmæli viðkomandi stjórnmálaflokks, því að Alþb.-félagið hér í Reykjavík, sem hafði rétt til að bjóða fram G-listann, mótmælti þessum lista, en þrátt fyrir það leit landskjörstjórn svona á, að þetta væri heimilt, — en samt sem áður tel ég, að í þessum úrskurði landskjörstjórnar felist ekki endanleg úrlausn, það er aðeins skorið úr þessari tilteknu deilu. Ef slíkar deilur kæmu upp aftur, þori ég ekki að fullyrða, hvort landskjörstjórn teldi að einhver lágmarkstengsl þyrftu að vera á milli viðaukalista og lista þess flokks, sem hann vill kenna sig við. En þarna er alveg nauðsynlegt að hafa nokkuð skýr mörk, og ég held einmitt, að þessi brtt., sem gerð var í Nd., leysi þetta mál á nokkuð ákjósanlegan hátt. Það er ekki lokað fyrir þann möguleika, að flokkur hafi fleiri en einn lista í kjöri í sama kjördæmi, en hins vegar er óheimilt að bjóða fram lista gegn mótmælum flokksins, enda verð ég að segja, að það sé alger lágmarkskrafa frá hendi stjórnmálaflokkanna, að það geti ekki hver og einn hlaupið með þeirra nafn og notað sér það án nokkurrar heimildar frá viðkomandi flokki og það gegn mótmælum hans.

Þessu frv., eins og það lá fyrir eftir breyt. í Nd., var við 1. umr. hér í þessari hv. d. vísað til allshn., og meiri hl. n., eins og nál. hans ber með sér, mælir með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.