18.04.1968
Efri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

13. mál, vörumerki

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið flutt hér áður á síðasta þingi og vannst þá ekki tími til að afgreiða það. Nú var þetta frv. borið fram a ný, og það hefur verið samþ. í Nd. án nokkurra andmæla.

Þetta frv. er mjög sérfræðilegs eðlis, en því fylgir góð og glögg grg., þar sem þetta efni er rakið mjög ítarlega og vel. Okkar löggjöf um vörumerki er orðin mjög gömul og úrelt, frá því skömmu eftir aldamót, og reyndar höfum við þegar gengizt undir alþjóðlegar skuldbindingar, sem gera okkur skylt að breyta löggjöfinni. Það verður ekki annað séð en þetta frv. hafi hlotið mjög vandaðan og ítarlegan undirbúning. Sú n., sem hafði það til meðferðar, hv. allshn. Nd., sendi frv. mörgum aðilum til umsagnar, Verzlunarráði, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og ýmsum fleiri, og allir þessir aðilar mæltu eindregið með samþykkt þess.

Þessu frv. var vísað til allshn., og n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og kemur fram í nál. á þskj. 636. En eftir að n. afgreiddi þetta mál, sem var náttúrlega með nokkru hraði, vegna þess að mjög er orðið áliðið þingtímans og álag á n. að afgreiða málin fljótt, eins og allir hv. dm. þekkja, var mér bent á það, að í síðustu gr. frv., 48. gr., stæði: „Lög þessi öðlast gildi þann 1. jan. 1968,“ þ.e.a.s., þegar frv. var flutt í haust, hafa menn reiknað með, að það yrði afgr. fyrir áramótin, en þar sem svo varð nú ekki og naumast þykir nú fært að láta lögin verka aftur fyrir sig, hef ég leyft mér hér að flytja skriflega brtt. á þá leið, að þetta breytist þannig, að í staðinn fyrir „Lög þessi öðlast gildi þann 1. jan. 1968“ komi: „Lög þessi öðlast þegar gildi“. Ég tek það fram, að ég hef ekki getað náð til allra hv. nm. til þess að bera þessa till. undir þá og þess vegna flyt ég þessa till. sjálfur, en ég geri ráð fyrir, að þetta sæti engum andmælum, og ég vildi biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till.