28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram við þær aðstæður, að Alþ. og þjóðin öll í raun og veru standa frammi fyrir þeim orðna og óbreytanlega hlut, að gengi gjaldmiðilsins hefur verið fellt um tæp 25% með ákvörðun ríkisstj. og bankastjórnar Seðlabankans. Ein af mörgum afleiðingum þessarar miklu gengisfellingar og sú, sem raunar var auðsæjust fyrir, er sú, að allt verðlag í landinu mun hækka gífurlega mikið, fyrst verðlag allra innfluttra vara og erlendrar þjónustu, sem keypt er, en brátt mun svo sú hækkun þrengja sér inn í allt verðmyndunarkerfið, svo mjög sem það er háð verðlagi innflutningsins, og valda þar, áður en lýkur, jafnmikilli hækkun eða jafnvel meiri, ef að reynslu og líkum lætur.

Að mati hæstv. ríkisstj. og sérfræðinga hennar mun gengisfellingin ein leiða til allt að 8% almennrar verðhækkunar á tiltölulega skömmum tíma eftir mælikvarða þeirrar nýju vísitölu, sem nú á að taka upp. Þessari hækkun til viðbótar eru nú þegar komnar fram verðhækkanir vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstj. í s.l. mánuði að fella niður 410 millj. kr. niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur o.fl. og mælir sú hækkun nú 3.39%, en þá eru ekki enn fram komnar hækkanir, sem áætlaðar hafa verið um 1% samkv. vísitölu og leiða mun af ráðstöfunum, sem ákveðnar voru í sama mund og niðurfelling niðurgreiðslnanna. Nýorðnar verðlagshækkanir að viðbættri hækkun vegna gengisfellingarinnar yrðu þá samanlagt ca. 121/2 % samkv. mati nýju vísitölunnar og áætlunum ríkisstj. Þessar hækkanir mundu allar eða svo að segja allar ganga yfir á u.þ.b. hálfu ári og munu sjaldan eða aldrei aðrar eins verðlagshækkanir hafa átt sér stað á jafnskömmum tíma, og má þó telja víst, að allar áætlanir að þessu lútandi séu ákaflega varlega gerðar.

Í fyrsta lagi mun gengið út frá þeim hækkunum einum, sem beint reikningslega leiða af þessum ráðstöfunum öllum, en löng reynsla er fyrir því, að innflytjendur, smásalar og hvers konar milliliðir, notfæra sér slíkar kollsteypur með margvíslegum hætti til þess að auka sinn hlut og ná til sín í leiðinni auknum ágóða. Svo mikið er víst, að ekki mun þá skorta til þess viljann.

Í annan stað mun svo reiknað með því, að laun haldist óbreytt, svo sennilegt sem það er, ef slíkri flóðbylgju dýrtíðar er skellt yfir launastéttirnar í einu vetfangi. Það má þess vegna með mikilli vissu fullyrða, að verðlagshækkanir verði miklum mun meiri en þessar áætlanir sýna, jafnvel þótt gengið væri út frá því, að kaupgjald stæði í stað. Þykir mér harla ótrúlegt, að hér verði, þótt sú forsenda sé gefin, um minna en 15–16% hækkun almenns verðlags að ræða, a.m.k. ef ekki verður gripið til alveg sérstakra nýrra ráðstafana til þess að hafa taumhald á verðmyndunarkerfinu. En í dag verður litlu eða engu um það spáð, hvernig þar tekst til. Í því sambandi dylst þó sjálfsagt fáum sú reynsla, sem fengizt hefur á undanförnum árum, um undanlátssemi núv. hæstv. ríkisstj. við verzlunar- og milliliðastéttina, sem ég tel óhikað, að sé ein höfuðorsök þess, hvernig nú er komið í okkar efnahagsmálum, þ.e. þess ástands, sem ríkisstj. metur nú svo, að óhjákvæmilegt sé að fella gjaldmiðilinn í þriðja skiptið á 7 ára valdatíma hennar. Þetta fylgifrv. gengisfellingarinnar verður að skoðast í ljósi þessara staðreynda um þær miklu verðlagshækkanir, sem nú munu næstu dagana og næstu mánuðina dynja yfir þjóðina. Meginefni þess má skipta í tvennt. Annars vegar er það ákvæði, sem tryggja á verðbætur á laun nú 1. des. n.k. fyrir þær hækkanir, sem orðið hafa frá 1. ágúst s.l. samkv. mati nýju vísitölunnar. Hins vegar sú fyrirætlan að fella úr gildi lög um verðbætur launa og taka upp þá meðferð þeirra mála, að um þær verði samið milli hagsmunasamtaka launþega og vinnuveitenda.

Um fyrra atriðið er það að segja, að það fullnægir að þessu sinni og í bili þeim kröfum, sem verkalýðssamtökin settu fram í sambandi við hið fyrra efnahagsfrv. ríkisstj., þ.e.a.s. þeirri kröfu, að fullar bætur kæmu fyrir þær verðhækkanir, sem leiddu af brottfalli niðurgreiðslna, en eins og alkunnugt er, var það fyrsta hugmynd ríkisstj. að engar bætur kæmu þar í móti, en síðari fyrirætlanir eða tilboð, að hluti þeirra kæmi á 11/2 ári, í þrjú skipti. Eftir að Alþýðusambandið hafði lýst yfir ákvörðun sinni um að hvetja verkalýðsfélögin til að undirbúa allsherjarverkfall 1. des. n.k., og gengisfall pundsins kom svo sem happ fyrir ríkisstj. af himni sent, féll hún frá þessari ætlun sinni og bauð nú samhliða gengisfellingunni fullar vísitöluuppbætur 1. des. fyrir þá orðnar hækkanir.

Þegar verkalýðsfélögin boðuðu aðgerðir sínar 1. des., var afstaða þeirra fyrst og fremst mótuð af þeirri ákvörðun ríkisstj. að fella niður verðbætur þann dag, og voru kröfur þeirra í því sambandi ekki aðrar að sinni en þær, að laun yrðu þá hækkuð til jafns við þá fyrirhuguðu skerðingu vísitölunnar. Var þá heldur ekki ljóst, að til gengisfellingar drægi og enn síður, hver kjaraskerðing henni yrði samfara.

Með tilliti til þessa var það samhljóða álit miðstjórnar Alþýðusambandsins á fundi hennar s.l. föstudag, að aflýsa bæri boðuðum vinnustöðvunum 1. des., þar sem fyrir lá ákvörðun ríkisstj. um að tryggja fullar bætur að því sinni fyrir þær verðlagshækkanir, sem orðið hefðu. Hér var ekki, eins og sums staðar hefur verið haldið fram og raunar örlaði á í ræðu hæstv. forsrh., um neins konar samninga eða samkomulag að ræða, heldur stóð stjórn Alþýðusambandsins aðeins frammi fyrir þessum orðna hlut og tók sínar ákvarðanir í samræmi við það til bráðabirgða. En ég legg áherzlu á það, að hér var ekki um neins konar samning í venjulegum skilningi þess orðs að ræða.

Þessa ákvörðun um aflýsingu vinnustöðvana ber heldur auðvitað alls ekki að skoða sem neins konar undanhald frá þeirri meginkröfu samtakanna, að kaupgjald hverju sinni þurfi og eigi að miðast að einhverjum samningsbundnum eða lögfestum hætti við verðlag eða verðlagsbreytingar. Ætti það raunar að vera auðskilið hverjum manni, að samningar um kaup og kjör hafa því í raun og veru harla lítið gildi fyrir þá, sem laun taka, ef ekki er um slíka verðviðmiðun að ræða og þá auðsæilega allra sízt á tímum stórfelldra verðbreytinga þeirra vara og þjónustu, sem enginn fær umflúið að gjalda fyrir með launum sínum. Festing slíkra samninga án ákvæða um einhvers konar verðviðmiðun til lengri tíma og jafnvel til skamms tíma er vitanlega hin mesta fásinna. Tilgangur allra kaupsamninga launamanna er vitanlega sá og sá einn, að tryggja a.m.k. eitthvert lágmarksraungildi og helzt fullt raungildi þeirra launa, sem um er verið að semja. Stoðar því í raun ekkert að semja um ákveðna fjárupphæð launa, ef allt leikur á lausu um það, hvaða gæði verða fyrir slíka upphæð keypt, hvort heldur er til matfanga, klæða, húsnæðis eða annarra nauðþurfta. Afnám verðviðmiðunar kaupgjalds jafngildir því í raun réttri að útiloka gerð kaupgjaldssamninga nema þá í hæsta lagi til örstutts tíma í senn, og á þetta þó alveg sérstaklega við, þegar um miklar verðbreytingar er að ræða eins og þær, sem nú eru fram undan.

Ef slíkt ástand skapast, býður það heim margháttuðum vandkvæðum og þó tveimur helztum. Í fyrsta lagi fullkominni óvissu á vinnumarkaðinum, jafnt fyrir vinnuseljendur sem vinnukaupendur, þar sem enginn veit stundinni lengur, hvert kaupgjaldið verður. Er fullljóst að mínu viti, að öllu afkomuöryggi launafólks er með slíku stefnt í algera tvísýnu og atvinnurekendur geta heldur ekki haft uppi neinar fyrirætlanir um rekstur eða framkvæmdir, sem á neinum öruggum grundvelli verða reistar. Afleiðingin verður óhjákvæmilega glundroði og upplausn, tíðar kjaradeilur, vinnustöðvanir, skæruhernaður, tilviljunarkennd yfirboð til einstakra hópa launþega, rekstrartruflanir. Í þessum efnum ætti reynslan frá 1960–1964 að vera slíkt viti til varnaðar, að engum, sem ber öryggi á vinnumarkaðinum fyrir brjósti, ætti að koma til hugar að skapa slíkt ástand aftur, ástand, sem aðeins á einu ári, 1963, leiddi til þriggja erfiðra vinnudeilna og lyktaði með allsherjarverkfalli í árslokin, en verðlag fór allt úr skorðum í enn ríkara mæli en nokkra nauðsyn bar til.

Þegar júní-samkomulagið var svo gert 1964, var það líka orðin skoðun a.m.k. sérfræðinga hæstv. ríkisstj. og trúlega hennar sjálfrar einnig, að lögbann við greiðslu verðlagsuppbóta væri sýnu verra úrræði en það að hafa í gildi fasta og lögskipaða verðviðmiðun, og var farið að í samræmi við þá skoðun, sem þá hafði skapazt út frá reynslunni og með þeim árangri, að mjög dró úr verðþenslu næstu árin og ró færðist yfir á vinnumarkaðinum. Ég minnist þess vel enn þann dag í dag, að einn af helztu ráðunautum ríkisstj. í efnahagsmálum sagði í sambandi við þetta, þegar þessir samningar stóðu yfir, að það væri alls staðar reynslan, að á því væri í raun og veru enginn munur, þegar til lengri tíma væri lítið, hvort vísitöluuppbætur væru lögfestar eða samningsbundnar eða ekki. Það væri raunverulega eini munurinn, að kaupsveiflurnar yrðu stærri og erfiðari viðfangs, ef slík viðmiðun ætti sér ekki stað.

Í annan stað leiðir svo afnám verðviðmiðunar til þess, að aðhald atvinnurekenda og ekki síður stjórnvalda til þess að hindra verðlagshækkanir, eftir því sem í þeirra valdi stendur, stórminnkar eða jafnvel hverfur. Reynslan frá 1960–1964 er einnig í þessum efnum ólygin, þegar álagningarfrelsi verzlunar og milliliða var aukið — ég vil segja — á blygðunarlausan hátt með þeim afleiðingum, að dýrtíð magnaðist með hverju ári, svo að ekki verður jafnað nema til óðaverðbólgu. Verzlunarstéttin fékk strax eftir gengisfellinguna 1960 leyfi til þess að leggja á verulegan hluta, að mig minnir 1/3 hlutann af gengisfellingunni, og síðan voru verðlagsákvæði rýmkuð í sífellu og stórir flokkar nauðsynjavarnings með öllu leystir undan verðlagsákvæðum með þeim árangri, að í mjög þýðingarmiklum vöruflokkum hefur álagning í heildsölu tvöfaldazt og jafnvel meira á því tímabili, sem síðan er liðið. Það hefur sannazt greinilega af þeirri reynslu, að verzlunarstéttinni var ekki trúandi fyrir auknu frelsi frá því, sem áður var. Og það má segja, að með þeirri frammistöðu allri, sem þá var viðhöfð í verðlagsmálunum, hefur verið safnað ötullega í þá gengisfellingu, sem við stöndum nú frammi fyrir sem orðnum hlut.

Það er þess vegna sannfæring mín, að einmitt nú væri það hið mesta óráð og til þess eins fallið að rjúfa öll grið á vinnumarkaðinum og leiða til óviðráðanlegrar dýrtíðarþróunar umfram þá, sem gengisfellingin óhjákvæmilega leiðir af sér, að hverfa nú frá öllum verðbótum á laun og kippa þar með raunverulega úr gildi þeim samningsgrundvelli, sem hefur gilt í þessum efnum frá 1964 og hefur að mínu viti að ýmsu leyti gefizt mjög vel til þess að skapa nokkurt öryggi og festu í samskiptum hagsmunaaðilanna á vinnumarkaðinum.

Ég ætla ekki í þessu sambandi að hafa uppi nein stór orð eða brigzl um svik. Mér er það alveg ljóst, að það, sem einu sinni er fest í l., er hægt að taka út aftur með einu pennastriki, eins og sýnir sig nú. En hitt dylst þó engum, sem hafa fengizt við kjarasamninga á þessu tímabili, að þó að ekki hafi verið mikið um þennan grundvöll, sem þarna var lagður, verðviðmiðunina, rætt í þeim samningum, hafa allir gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut, að hann mundi haldast að meira eða minna leyti óbreyttur.

Með þessu frv., sem hér er á ferðinni, eru numin úr gildi lagaákvæðin frá 1964 um verðtryggingu launa, en hins vegar gefið frjálst gagnstætt því, sem var gert 1960, að samtök verkafólks og atvinnurekenda megi semja um verðtryggingu kaupgjalds. Ég vil segja það, að ég tel fyrir mitt leyti, að þessi skipan, sem hér er gert ráð fyrir, sé almennt séð engan veginn fráleit sem framtíðarskipun, þar sem reynslan hefur að mínu viti sannað, að tíð afskipti stjórnarvalda um þessi efni eru engan veginn ein fullkomin trygging fyrir verkalýðsstéttina. Lögum er hægt að breyta, eins og ég sagði áðan, með einu pennastriki og jafnvel, þegar verst gegnir, og reynslan sannar, að þess er ekki svifizt, þegar svo ber undir. Lögbinding ákvæða um verðlagsbætur á laun er því engin fullkomin trygging fyrir raungildi launa og tæpast á nokkurn hátt hagkvæmari til frambúðar en samningar. En við þau skilyrði, sem nú hafa skapazt, ber þó ýmislegs að gæta, þegar þetta nýmæli er metið. Í fyrsta lagi það, að það er ríkisstj. sjálf, en ekki atvinnurekendur í landinu, sem stendur fyrir þeirri stórfelldu verðlagshækkun, sem nú er að skella yfir, og henni bar því og ber fyrstri skyldan til að hamla gegn áhrifum hennar á hagsmuni láglaunastéttanna í þjóðfélaginu. Þeirri skyldu bregzt hún í einum mikilvægasta þættinum með því að afnema vísitöluna eftir 1. des. og kasta ábyrgðinni á aðra. Hefði hún haft það eitt í huga að framkvæma þá formbreytingu, sem ég tel út af fyrir sig engan veginn fráleita, eins og ég sagði, og jafnvel æskilega undir hagstæðari kringumstæðum fyrir verkalýðsstéttina, að hagsmunasamtökin semji um þetta mikilvæga atriði kjaramálanna, en löggjafarvaldið komi þar ekki nærri, sýnist mér auðsætt, að kveða hefði átt svo að í þessu frv., að áframhaldandi verðlagsbætur, verðtrygging eftir 1. des. í samræmi við þá vísitölu, sem nú á að taka upp, yrði í gildi þar til samningar tækjust um annað milli hagsmunasamtakanna. Með því hefði ákvæðum þessa frv. í raun og veru verið alveg snúið við, og það hefði þá verið undir neitunarvaldi verkalýðshreyfingarinnar komið, hvort slíkir samningar gengju í gildi eða ekki. Ef þannig hefði verið staðið að, hefðu samtök atvinnurekenda orðið að sækja málið, ef þeir teldu sér það hagstætt eða nauðsynlegt, á hendur verkalýðssamtökunum og afstaða þeirra hefði því orðið mjög erfið til að koma fram launalækkunum eftir þeirri leið. En hér er þessu snúið algerlega við. Rétturinn til verðviðmiðunar launa er afnuminn úr lögum eftir 1. des. og raunverulega sagt við verkalýðshreyfinguna: Þið skulið sækja þennan rétt í hendur atvinnurekenda, ef þið getið og hafið afl til.

Þessi háttur er auðvitað skiljanlegur frá því sjónarmiði og frá þeirri yfirlýstu skoðun og stefnu ríkisstj., sem raunar kom fram í framsöguræðu hæstv. forsrh., að það sé nú mál málanna fyrir eðlilega, efnahagslega þróun í þjóðfélaginu, að stórfelld kjaraskerðing eigi sér stað hjá sjómönnum, hjá verkafólki og öðrum launþegum, og virðist þá ekki þurfa í neinar grafgötur um það að fara, hvorum megin ríkisstj. muni standa í þeim átökum, sem hljóta að verða um verðbætur undir hinni nýju skipan, a.m.k. í fyrstu. Þar verði að etja við sameiginlega fylkingu ríkisstj, og samtaka atvinnurekenda. Það sýnist því harla líklegt, að þessi höfuðbreyting, sem hér er ráðgerð, leiði af sér a.m.k. tímabundin átök og það fyrr en síðar á vinnumarkaðinum. A.m.k. er alveg óhætt að slá því föstu, að full alvara fylgir þeirri margítrekuðu yfirlýsingu Alþýðusambandsins, sem ríkisstj. fékk síðast yfirlýsta í bréfi núna s.l. föstudag, þegar Alþýðusambandið samþykkti að mæla með aflýsingu verkfalla 1. des., að ekki væri hvikað frá kröfunni um verðbætur á laun með vaxandi dýrtíð.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að verkalýðshreyfingin sé algerlega einhuga um þá skoðun, að engin efnahagsleg rök finnist fyrir því, að 15–16% almennar verðhagshækkanir nú og á næstu mánuðum eigi að lenda með a.m.k. sáralitlum bótum á herðum láglaunafólks í landinu. Allir draumar og fyrirætlanir um slíkt eru dæmdir til að verða sér til skammar og mistakast með öllu. Spurningin í því sambandi er sú ein, hve fljótt ríkisstj. og samtök atvinnurekenda átta sig á því, hve vonlaus barátta þeirra gegn verkalýðshreyfingunni er í þessu tilliti, þegar um grundvallarhagsmuni hennar er að ræða, grundvallarhagsmuni, sem hún er algerlega einhuga um að verja til hins ýtrasta. Á það verður seint lögð of mikil og of oft áherzla, að sjómenn og verkafólk almennt hafa þegar tekið á sínar herðar hlutfallslega miklu meiri kjaraskerðingu vegna verðfalls á afurðum okkar og minnkandi sjávarafla í bili en nokkrir aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Og hversu fráleitt það er því að ætla að reyna að margfalda þær byrðar með afnámi verðlagsbóta í kjölfar stórfelldrar gengisfellingar. Og hvað sjómennina snertir, sem hafa tekið langsamlega mestan skellinn á sínar herðar af bæði verðfalli og veiðibresti, kannske allt að því að hálfu leyti eða sem svarar þeirra samningsbundna hlut í afla, en það mun vera eitt helzta ráð efnahagssérfræðinga ríkisstj., að það verði gert og jafnvel talið, að öll gengisfellingin sé unnin fyrir gýg, ef þær breytingar nást ekki fram. Og þetta bergmálar síðan í samtökum atvinnurekenda, eins og ég sá t.d. í þeim ummælum framkvæmdastj. LÍÚ núna í Morgunblaðinu, að eina vonin til þess að útvegsmenn fengju eitthvað út úr þessari gengisfellingu væri sú, að hlutaskiptunum væri breytt og þeir gætu sótt bættan hlut í hendur sjómannastéttarinnar.

Ég held, að það sé ástæða til að endurtaka það, að fyrirætlanir um slíka hluti eru óframkvæmanlegar, og eins og ég sagði, spurningin í því sambandi ekki önnur en sú, til hve mikils ófriðar er efnt áður en menn vitkast eitthvað í þessum efnum. Og það mun fara svo um þær, eins og aðrar óréttlátar, að ég segi ekki ósvífnar árásir og þjóðfélaginu í heild hættulegar, að þær munu stranda á þeim vegg, sem einhuga verkalýðssamtök geta byggt upp engu síður eftir 1. des. eins og þau voru tilbúin að gera þá.