01.04.1968
Neðri deild: 87. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

67. mál, bókhald

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. L. þau, sem nú gilda um bókhald, eru orðin 30 ára gömul og á því tímabili hafa vitanlega orðið mjög miklar breyt. í sambandi við þær kröfur, sem gerðar eru um bókhald fyrirtækja, og margvíslegar upplýsingar, sem nú er talin þörf á að fyrir liggi um afkomu fyrirtækja, en ekki var á þeim tíma gerð jafnsterk krafa um.

Hér er um að ræða hagsmunamál eigenda fyrirtækjanna. Mönnum hefur orðið æ ljósara, að það er hin brýnasta nauðsyn fyrir heilbrigðan rekstur fyrirtækja, að eigendurnir geti haft á hverjum tíma sem gleggsta yfirsýn yfir afkomu þeirra, og í annan stað hafa komið til eigi síður margvíslegar kröfur vegna annarra þarfa, sem gert hafa nauðsynlegt að gera bókhald fyrirtækja gleggra og fullkomnara í ýmsum greinum. Á síðustu tímum hefur komið til aukin hagskýrslugerð í ýmsum greinum og jafnframt hefur reynzt nauðsynlegt af skattheimtuástæðum og vegna ýmissa annarra opinberra upplýsinga, sem nauðsynlegt er að fá um rekstur fyrirtækja, að bókhald þeirra sé gleggra og gefi á ýmsan hátt betri upplýsingar en oft og tíðum hefur verið.

Allar þessar ástæður ollu því, að fyrir tveimur árum fól fjmrn. nefnd manna að semja ný bókhaldslög. Í þessa n. voru valdir menn, sem allir hafa mikla sérþekkingu í þessum efnum, þ. á m. skattrannsóknarstjóri, sem valinn var í nefndina vegna þeirra hagsmuna, sem kom á daginn, að skattamálin og skattrannsóknir gerðu nauðsynlegt, að gætt væri í þessu efni. Hann hafði einnig sérþekkingu í þessum efnum sem viðskiptafræðingur, lögfræðingur og löggiltur endurskoðandi. Aðrir nm. voru Bjarni Bragi Jónsson, deildarstjóri í Efnahagsstofnuninni, Guðlaugur Þorvaldsson, þá ráðuneytisstj. og nú prófessor í viðskiptafræði við háskólann, Sigurður Stefánsson, löggiltur endurskoðandi, og Þorvarður Elíasson fulltrúi hjá kjararannsóknarnefnd.

Síðan var frv., eftir að þessir menn höfðu lokið samningu þess, tekið til athugunar af ýmsum aðilum, m.a. rætt á ráðstefnu löggiltra endurskoðenda, og hygg ég því, að þegar endanlega var frá því gengið, hafi verið komin til öll sú sérþekking, sem nauðsynlegt var að hafa hliðsjón af í máli sem þessu, sem er mjög tæknilegs eðlis.

Frv. hefur verið til allýtarlegrar athugunar í fjhn. Ed., og hefur n., eftir að hafa haft samband við ýmsa aðila, gert þar nokkrar breytingar á frv., fæstar þeirra þó veigamiklar. Það má e.t.v. segja, að veigamesta breytingin, sem gerð var á frv. og rétt er að vekja athygli á, sé sú, að felld var niður 23. gr. þess, sem gerði ráð fyrir því, að heimilt væri að endurmeta eignir og hækka þær til samræmis við verðbreytingu. N. taldi, eftir allýtarlega athugun málsins, og var um það sammála, að örðugt væri að setja um slíkt endurmat almennar heimildir sem þessar, heldur væri eðlilegra að til kæmi, ef ástæða þætti til, almenn ákvörðun með einhverra ára millibili, þar sem heimilað væri að taka upp allsherjarendurmat á eignum, svo sem gert var ráð fyrir í þessari grein. Varð því niðurstaðan sú, að á það var fallizt að fella þessa grein niður. Þá var einnig breytt gildistöku laganna. Það var gert ráð fyrir því, að þau tækju þegar gildi, en það þótti sýnt, að nauðsynlegt væri að hafa visst svigrúm í þessu efni, til þess að menn hefðu aðstöðu til að kynnast þessari löggjöf og hafa svigrúm til að gera þær breytingar á bókhaldi, sem löggjöfin, eða frv., ef að l. yrði, leiðir af sér, og var því ákveðið, að gildistakan yrði 1. jan. 1969.

Eins og ég áðan sagði, er hér um mjög tæknilegt mál að ræða, og sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um það langt mál. Grg. frv. skýrir, að ég hygg, mjög glögglega, hvað fyrir mönnum vakir með hverri einstakri grein þess, og auk þess er tilgreint í upphafi grg., hvaða helztu breytingar það eru, sem frv. myndi leiða af sér. Ég hygg það engum efa bundið, að það væri til mikilla bóta, ef þetta frv. yrði að lögum og hægt væri að koma við þeirri breyt. á bókhaldskerfi, sem gert er ráð fyrir. Breytingin er að vísu ekki svo mikil, að það sé ástæða til þess að neinn fælist að taka upp þessa nýju skipan. Það er meira í því fólgið að setja ljósari og skýrari reglur um ýmis framkvæmdaatriði og einmitt með hliðsjón af því, sem ég áðan sagði um nauðsyn margvíslegra upplýsinga, sem nú er orðin þörf á, að fyrir liggi um afkomu fyrirtækja. Það er meginsjónarmiðið, sem haft hefur verið í huga við samningu frv., að það gæti uppfyllt þær þarfir, sem viðskiptalíf nútímans krefst. Ég vildi leyfa mér að beina því til þeirrar hv.n., sem fær frv. til meðferðar nú, að hún taki það til athugunar, hvort hún sæi sér fært að afgreiða málið, áður en þingi lýkur. Það er nú farið að nálgast þinglok, þannig að ég veit, að það er kannske farið fram á nokkuð mikið í því efni, en ástæðan til þess, að ég geri það, er sú, að Ed. hafði þetta mál til meðferðar og nefndin þar aflaði um það rækilegra upplýsinga, sem ég tel víst að geti verið til afnota fyrir þá hv. n., sem fær málið til meðferðar í þessari d., og ætti því ekki að vera ástæða til þess að afla neinna sérstakra viðbótarupplýsinga með hliðsjón af því, að frv. hefur verið rækilega undirbúð.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.