18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

89. mál, verslunaratvinna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera lítillega grein fyrir frv. því til l. um verzlunaratvinnu, sem hér er á dagskrá.

Eins og fram kemur í grg. frv., var það árið 1964, í lok þess árs, að ég skipaði n. til þess að endurskoða eldri lög um verzlunaratvinnu, þ.e.a.s. l. nr. 52 frá 1925, og það var af því tilefni, að þess hafði verið óskað af Félagi íslenzkra stórkaupmanna og Kaupmannasamtökunum, að slík n. yrði sett á laggirnar til þessarar endurskoðunar. En frá báðum þessum aðilum voru fulltrúar í n. auk annarra fleiri, sem getið er í grg.

Það kemur fram í grg., að þessi n. hafi verið skipuð vegna ítrekaðra óska Félags ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtaka Íslands um endurskoðun á gildandi l. um verzlunaratvinnu til samræmis við breyttar aðstæður og verzlunarhætti frá þeim tíma, sem gildandi lög voru sett. Ég fékk hins vegar ekki þetta frv. eða till. að þessu frv. frá n. fyrr en 16. jan. 1967, svo að n. hafði þá haft þær til meðferðar um tveggja ára skeið. Ég hafði hugsað mér hins vegar að leggja frv. fyrir þingið, strax og það kom saman í haust, en það tafðist af ýmsum ástæðum, sem ég kannske get síðar gert lítillega grein fyrir. En í aðalatriðum má segja um þetta frv., að það er endurskoðun á eldri lögum, og ég tel engan efa á því, að það sé til mikilla bóta og n. hafi að öllu athuguðu unnið gott starf. Hún hefur mótað þá meginstefnu, sem hún telur, að fylgja beri við setningu slíkra l. um verzlunaratvinnu, sem kemur fram í 1. gr. frv. og er þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að borgararnir eigi völ á sem beztri verzlunarþjónustu á hverjum stað og tíma.

2. Að þeir aðilar, sem fást við verzlun, séu búnir þeim hæfileikum, að þeir geti uppfyllt skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu.

3. Að verzlun geti þrifizt í landinu sem atvinnugrein.“

Það er athyglisvert, sem fram kemur í aths. n., að hún bendir á þá þróun, sem hefur átt sér stað, og það með réttu, að ýmsar atvinnustéttir hafa sótzt eftir einkarétti og forgangsrétti til ákveðinnar tegundar vinnu, en n. telur hins vegar ekki æskilegt með hliðsjón af þeim markmiðum, sem hún setur sér og ég vék að í 1. gr. frv., að rétturinn til að stunda verzlun verði gerður að neins konar sérréttindum. Það skýrir nokkuð þann langa tíma, sem n. tók að semja frv. Hún aflaði sér víða upplýsinga, eins og fram kemur, ritaði öllum sýslumönnum og bæjarfógetum bréf og óskaði aths. og ábendinga um drög að frv., eins og það þá var, og n. bárust ýmis svör, sum seint og önnur ekki. En aftur á móti nokkur svör, sem voru mjög ýtarleg og mikið verk lagt í.

Ef ég ætti að víkja nánar að sérstökum atriðum, vil ég vekja athygli á 2. gr. frv., þar sem ákvæði eru um það, til hverra atriða þessi lög taka ekki. Þar hefur verið gerð á nokkur breyting frá eldri lögum, sem er í því fólgin, sem ég tel rétt, að komi fram. Það er ekki stórvægileg breyting að vísu, en það er fellt niður úr eldri lögum, að undanskilin þessum l., eins og þar stendur, sé sala á öðrum slíkum innlendum afla eða framleiðslu, eins og það er orðað. En samkv. þessari breytingu, með því að fella þetta úr eldri l., mundu fisksalar og brauð- og mjólkursalar þurfa verzlunarleyfi. En það mun sennilega vera svo, að margt af því fólki, sem nú stundar þessa atvinnu, mun ekki fullnægja þeim þekkingarkröfum, sem gerðar eru til þess að öðlast verzlunarleyfi. Ég hef hins vegar ekki séð ástæðu til annars en að taka þessar till. n. óhreyttar og megi teljast kannske til bóta að kveða sterkar á um þetta nú heldur en áður var.

Þá vil ég víkja sérstaklega að 4. gr. frv. Hún fjallar um það, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á leyfi eða endurnýjun leyfis til verzlunar, enda hafi réttur til verzlunarrekstrar ekki verið af viðkomandi dæmdur.

Þar er 1. liðurinn: „Hefur íslenzkt ríkisfang og er heimilisfastur á Íslandi.“ Hér er sú breyting frá því, sem áður var, að það var nægjanlegt að hafa haft búsetu hér eitt ár áður, en hér er tekið upp ríkisfangsákvæðið. Það má segja, að hér sé um allveigamikla breytingu að ræða. Svo er einnig, að erlendir farandsalar og umboðssalar, sem ekki hafa fast aðsetur hér á landi, geta samkv. l. nr. 78 frá 1907 keypt leyfisbréf til þess að bjóða til kaups eða útvega erlendan varning, en frv. gerir ráð fyrir, að þessi heimild verði afnumin. Það er gert ráð fyrir því, að l. nr. 78 frá 1907 falli úr gildi. Það má segja um þetta, að íslenzk verzlunarfyrirtæki missi spón úr aski sínum vegna starfsemi þessara erlendu farandsala, og það er talið af mörgum, að þarna sé misjafn sauður í mörgu fé. Það er líklega einnig svo, að þessir menn greiða engin opinher gjöld af atvinnurekstri sínum nema leyfisgjaldið og væri þess vegna frá þessum sjónarmiðum æskilegt að losna við þessa erlendu verzlunarmenn. Hins vegar er á það að líta, að nágrannaþjóðirnar krefjast ekki innlends ríkisfangs til umboðs- og farandsölu, og það má kannske frekar segja, að stefnt hafi að því í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndum, og komið upp í Norðurlandaráði að skapa á þessu sviði meiri sameiginlegan vinnumarkað en áður hefur verið, en að margra áliti og n., sem samdi þetta frv., mundi það tæpast samrýmast okkar hagsmunum.

En í sambandi við þetta ákvæði um ríkisfang, sem ég út af fyrir sig hef ekki séð ástæðu til þess að breyta og tekið upp till. n., vil ég vekja athygli á síðustu mgr. í 4. gr., en þar stendur, að ákvæði þessarar gr. skuli gilda, að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við ákvæði í samningum Íslands við erlend ríki eða ákvæði alþjóðlegra samninga, sem Ísland kann að gerast aðili að. Ég verð að segja það eins og er, ég felli mig ekki sem bezt við þessa mgr., og ég bað n. um að endurskoða afstöðu sína til þessara atriða, því að þá er annars vegar í l. ákvæði um það, að ríkisfang skuli vera skilyrði til þess að fá verzlunarleyfi, en ef einhver samningur er í gildi nú, sem ákveður annað, gildir ekki þetta ákvæði gr., og enn fremur gæti þá hvaða ríkisstj. sem væri gert viðskiptasamninga, af því að þessi mgr. er þannig, sem fara í bága við ríkisfangsákvæðið, og þá mundi samningurinn gilda að þessu leyti, ef t.d. væri aðeins krafizt heimilisfesti, en ekki ríkisfangs, þó að í upphafi gr. sé svo kveðið á sem í l. tölulið segir. Ég tel, að þurfi undir meðferð málsins í þinginu að líta svolítið betur á þetta atriði og hvort ekki væri hægt að koma því heppilegar fyrir.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um það, að verzlunarleyfi megi ekki veita starfsmönnum ríkisins eða ríkisstofnana, starfsmönnum sveitarfélaga eða stofnana þeirra og ekki heldur opinberum sýslunarmönnum né mökum þeirra, ef hjón búa saman, nema ráðh. hafi úrskurðað, að verzlunarreksturinn megi samrýmast stöðu þeirra. Þetta er ekki nýtt ákvæði, en var í eldri l., en þó nokkuð öðruvísi orðað, og kemur það fram í aths. við 6. gr., að n. hefur orðað gr. að nýju og látið hana ná til starfsmanna ríkisins eða ríkisstofnana, starfsmanna sveitarfélaga og stofnana þeirra og til opinberra sýslunarmanna og maka þeirra, ef hjón búa saman. En að öðru leyti gerir n. þannig grein fyrir þessu ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæða er til að undirstrika, að þessi gr. miðar ekki að því að koma í veg fyrir, að ríkisstarfsmenn almennt eða starfsmenn bæjarfélaga geti fengið verzlunarleyfi. Á hinn bóginn er gr. ætlað að tryggja, að þeir slíkra starfsmanna, sem gegna opinberum störfum, sem eru ósamrýmanleg verzlunarrekstri, hljóti ekki verzlunarleyfi. Þannig yrði að telja fráleitt, svo að dæmi sé nefnt, að starfsmenn Innkaupastofnunar ríkisins eða tollstjóraskrifstofunnar rækju innflutnings- og heildverzlun.“

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á efni verzlunarbréfa, eins og þau eru ákveðin með frv. þessu, en ákvæðin um það eru í 8. og 9. gr., og þau eru nokkru fyllri en áður hefur verið, og er nánar gerð grein fyrir því í aths. við þessar greinar, 8. og 9. gr. Þar er beinlínis vakin athygli á því, að það eru allmiklar efnisbreytingar. Það er gert ráð fyrir því, að verzlunarleyfi sé samkv. 9. gr. frv. annaðhvort gefið út fyrir ákveðið lögsagnarumdæmi, sem tiltekið sé í leyfisbréfi, eða fyrir landið allt og síðan kemur þar athyglisverður kafli, sem ég vil leyfa mér að vekja sérstaka athygli á og hefur vakið nokkurt umtal og jafnvel blaðaskrif, nokkrar deilur, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi er gert ráð fyrir sérstöku ákvæði um verzlun í hreyfanlegri starfsstöðu (t.d. kjörbúðabílar). Er með þessu ákvæði viðurkennd nauðsyn þess, að slík verzlun sé rekin. Jafnframt er tekið fram í 9. gr. frv., að verzlunarleyfi, sem gefið er út fyrir landið allt, veiti takmarkaða heimild til verzlunar, þannig að það veiti í fyrsta lagi heimild til verzlunar utan löggiltra verzlunarstaða og í öðru lagi veiti það heimild til verzlunar innan löggiltra verzlunarstaða með þær vörutegundir, sem ekki er verzlað með í þeim verzlunarstað.

Hér er um að ræða nýmæli, sem vert er að skýra nokkru frekar. N. hefur gert sér Ijóst, að víða á landinu, þar sem viðskiptavinahópur verzlunar er mjög þröngur, getur verið örðugt að halda uppi verzlun sem lífvænlegri atvinnugrein, þannig að séð sé fyrir sæmilegu úrvali vara. Þessi aðstaða hefur orðið kaupmönnum og kaupfélögum þeim mun erfiðari, sem þeir viðskiptahættir hafa tíðkazt allmikið og færzt í vöxt, að verzlanir, aðallega í Reykjavík, setji upp stóra markaði, aðallega í sjávarplássum úti um land, þegar ætla má, að fólk á þessum stöðum hafi handbært fé. Vöruúrval á slíkum mörkuðum er skiljanlega miklum mun meira en kaupmenn eða kaupfélög þessara staða geta boðið, og því fer svo, að þessir aðilar njóta viðskipta, sem er miklu meiri en svarar til þeirrar takmörkuðu þjónustu, sem þeir veita íbúum þessara þorpa og kaupstaða, þegar litið er á allt árið. N. telur æskilegt, að löggjöfin um verzlunaratvinnu sporni gegn þessari þróun og reyni að sjá til þess, að þeir aðilar, sem sjái tilteknum stað fyrir verzlunarþjónustu allt árið, megi að sem mestu leyti njóta allra viðskipta íbúanna. N. telur þá takmörkun, sem hér er gert ráð fyrir, engan veginn koma í veg fyrir, að neytendur á þessum stöðum njóti þeirrar þjónustu, sem þeir nú fá með stórum vörumörkuðum, sem koma og fara. Á hinn bóginn telur hún eðlilegt, að slík þjónusta sé veitt á vegum þeirra aðila, sem reka verzlun á viðkomandi stað, sem umboðsmanna verzlana í Reykjavík eða annars staðar.“

Ákvæði þessarar gr. miðar að því, að þeir þurfi að fá sérstakt leyfi lögreglustjóra á staðnum og slíkir markaðir væru í beinum tengslum við þær verzlanir, sem fyrir eru á staðnum.

Þá vil ég loks vekja athygli á því ákvæði þessa frv., sem fram kemur í 10. gr. og er nýmæti, að verzlunarleyfi er gert tímabundið og þá ætlazt til, að það gildi í 5 ár, en sé endurnýjað að þeim tíma liðnum, ef leyfishafi fullnægir þá enn skilyrðum þessara laga. Þetta hefur kannske nokkru meiri skriffinnsku í för með sér, en það kemur hins vegar meiri röð og reglu á skipan þessara mála. Það er talinn tilgangur þessa nýmælis að reyna að tryggja betri vitneskju almennings og ekki sízt opinberra aðila um þá, sem leyfi hafa til að stunda verzlunaratvinnu, og sama tilgangi þjónar einnig ákvæði 11. gr., sem kveður á um, að Hagstofa Íslands skuli halda skrá um þá aðila, sem á hverjum tíma hafa leyfi til verzlunarrekstrar. Álít ég, að slík heildarskrásetning þeirra aðila, sem við verzlunarrekstur fást, auðveldi ýmiss konar eftirlit, svo sem skatteftirlit, heilbrigðiseftirlit og annað slíkt. Og nokkuð í samræmi við þetta er það nýmæli í þessari sömu gr., að það er gert ráð fyrir tilkynningu, sem birtist í Lögbirtingablaðinu um útgáfu leyfisbréfs til að stunda verzlunaratvinnu.

Ég held, að ég hafi með þessu gert nægjanlega grein fyrir efni þessa frv. Ég veit, að það er mikið áhugamál þeim; sem að verzlun standa, og einnig þeirra annarra aðila, sem þátt tóku í að semja þetta frv. í þeirri n., sem ég hef gert grein fyrir, að þetta frv. mætti ná fram að ganga á þessu þingi, og ef svo yrði, er gert ráð fyrir því, að það taki gildi 1. júlí 1968. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, reyndi því eftir atvikum að hraða afgreiðslu þess. Hins vegar er mér ljóst, að ýmis atriði í því þurfa gaumgæfilegrar athugunar við, og mundi þá þn. eðlilega geta snúið sér til rn. eða þeirrar n., sem undirbjó frv., og þá vil ég sérstaklega mælast til þess, að til athugunar komi þau sérstöku atriði, sem ég vék að í sambandi við 4. gr.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.