04.04.1968
Neðri deild: 90. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

89. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til l. um verzlunaratvinnu, hefur verið til athugunar í allshn., og n. hefur rætt frv. á nokkrum fundum sínum og leitað umsagnar um það hjá nokkrum aðilum. Allir. þeir aðilar, sem svöruðu eða sendu umsagnir frá sér, mæla með samþykkt frv. Allshn. var sammála um afgreiðslu málsins og mælir því með, að frv. verði samþ. með einni breytingu, en það er umorðun og nokkur breyting við 4. gr. frv., 3. tölul., sem prentuð er á þskj. 488. Einn nm. skrifar þó undir nál. með fyrirvara.

Eins og fram kemur í aths. við þetta lagafrv., er það samið af n., sem atvmrn. skipaði í árslok 1964, og í þeirri n. áttu sæti fulltrúi frá Félagi ísl. stórkaupmanna, fulltrúi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, fulltrúi frá Neytendasamtökunum og fulltrúi frá Kaupmannasamtökum Íslands, en deildarstjóri í atvmrn. var 5. maður í n. og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar.

Þetta mál hefur verið tekið upp fyrir beiðni Félags ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtaka Íslands, en það hafa borizt beiðnir frá þessum aðilum oftar en einu sinni um endurskoðun á gildandi l. um verzlunaratvinnu til samræmis við hreyttar aðstæður og verzlunarhætti frá þeim tíma, sem gildandi lög voru sett. Eins og fram kemur hjá þeirri n., sem samdi þetta frv., segist hún hafa tekið til greina atriði, sem þessi samtök hafa leitað eftir, að vissu marki.

N. leitaði álits bæði Félags ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtakanna á frv., en atriði, sem Félag ísl. stórkaupmanna óskaði breytinga á og ekki hafa verið tekin til greina í frv., eru í sambandi við 4. gr., 3. tölul., að í frv. komi 5 ára störf við verzlun sem mark við verzlunarleyfisveitingu í stað þriggja ára starfa. Meiri hl. n. telur ósennilegt, að síðustu tvö árin aukist hæfni verzlunarmannsins verulega í þessu tilliti, og heldur sér þess vegna við þriggja ára starfstíma. Þá fóru Kaupmannasamtökin fram á það, að fortakslaust hann yrði gegn veitingu verzlunarleyfis til handa þeim, sem gegna opinberum störfum og getið er um í 6. gr., en meiri hl. n. taldi sig ekki geta lagt til svo umfangsmikla skerðingu á atvinnurekstrarréttindum þessa stóra hóps manna. Þá var einnig farið fram á það, að verzlunarleyfi gilti ævilangt og komi ekki til endurnýjunar, en á það gat n. ekki heldur fallizt.

Eitt atriði, sem Kaupmannasamtökin gerðu aths. við, var, að verzlun í hreyfanlegri starfsstöð, en þar er átt við kjörbúðarbíla, sé óheimil nema utan löggiltra verzlunarstaða, ef verzlað er með vörur, sem í þeim verzlunarstað eru seldar. Meiri hl. n. taldi svo mikilvæga þessa þjónustu, þar sem svo hagar til, að langt er í verzlanir eða þær óbyggðar, að fyrir henni yrði að sjá með einhverjum hætti. Þá fóru sömu samtök fram á, að það nýmæli yrði tekið í frv., sem banni leigusölum verzlunarhúsnæðis að hefja sjálfir að reka verzlun eða leigja húsnæði til verzlunar, sams konar og verið hefur í húsnæðinu, í 5 ár eftir að leigutaka hefur verið sagt upp leigu. Á þetta atriði gat n. ekki heldur fallizt og telur meginefni l. um verzlunaratvinnu varða form og efniskröfur til að mega reka verzlun, og vandamál, sem upp rísa gegn „goodwill“ verzlunar í leiguhúsnæði, taldi n. því ekki eiga heima í þessum lögum.

Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir allmikilli efnisbreytingu, því að þar er gert ráð fyrir, að verzlunarleyfi sé samkv. þeirri gr. frv. annaðhvort gefið út fyrir ákveðið lögsagnarumdæmi, sem tiltekið er í leyfisbréfi, eða fyrir landið allt. Í því sambandi er gert ráð fyrir sérstöku ákvæði um verzlun í hreyfanlegri starfsstöð eða kjörbúðarbíla, eins og ég kom inn á áðan, og jafnframt er tekið fram í 9. gr. frv., að verzlunarleyfi, sem gefið er út fyrir landið allt, veiti takmarkaða heimild til verzlunar, þannig að það veiti í fyrsta lagi heimild til verzlunar utan löggiltra verzlunarstaða og í öðru lagi veiti það heimild til verzlunar innan löggiltra verzlunarstaða með þær vörutegundir, sem ekki er verzlað með í þeim verzlunarstað.

Hér er um að ræða nýmæli. N. hefur gert sér það ljóst, að víða á landinu, þar sem viðskiptamannahópur verzlana er mjög þröngur, getur verið örðugt að halda uppi verzlun sem lífvænlegri atvinnugrein þannig, að séð sé fyrir sæmilegu úrvali af vörum. Þessi aðstaða hefur orðið kaupmönnum og kaupfélögum þeim mun erfiðari sem þeir viðskiptahættir hafa tíðkazt allmikið og færzt í vöxt í seinni tíð, að verzlanir, aðallega í Reykjavík, setji upp stóra markaði, einkum í sjávarplássum úti um land, þegar ætla má, að fólk á þessum stöðum hafi handbært fé. Vöruúrval á slíkum mörkuðum er skiljanlega miklum mun meira en kaupmenn og kaupfélög á þessum stöðum geta boðið, og því fer svo, að þessir aðilar njóta viðskipta, sem eru miklu meiri en svarar til þeirrar takmörkuðu þjónustu, sem þeir veita íbúum þessara kauptúna og kaupstaða, þegar litið er á allt árið. N. taldi því æskilegt, að löggjöfin um verzlunaratvinnu sporni gegn þessari þróun og reyni að sjá til þess, að þeir aðilar, sem sjá tilteknum stað fyrir verzlunarþjónustu allt árið, megi að sem mestu leyti njóta allra viðskipta íbúanna. N. taldi þá takmörkun, sem hér er gert ráð fyrir, engan veginn að koma í veg fyrir, að neytendur á þessum stöðum njóti þeirrar þjónustu, sem þeir nú fá með stórum vörumörkuðum, sem koma og fara. Á hinn bóginn telur hún eðlilegt, að slík þjónusta sé veitt á vegum þeirra aðila, sem reka verzlun á viðkomandi stað, sem umboðsmanna verzlana í Reykjavík eða annars staðar. Í samræmi við þetta gerir n.till. sinni að taka það nýmæli upp í 3. mgr. 9. gr. frv., þar sem leyfi til verzlunar samkv. 2. mgr. 9. gr. er bundið samþykki viðkomandi lögreglustjóra hverju sinni. Er lögreglustjóra þannig veitt vald til að meta þá hagsmuni, sem hér eru í húfi, með hliðsjón af 1. gr. frv., sem er almenns eðlis, að borgararnir eigi völ á sem beztri verzlunarþjónustu á hverjum stað og tíma.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um efni þessa frv. Hér er um nýja og samræmda löggjöf að ræða og niður felld gömul lög, allt frá 1907 og 1909. Sum þessi lagaákvæði eru fyrir löngu orðin úrelt, og því var mikil þörf á því að setja hér nýja löggjöf, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.