28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kemur hér til umr., þá hafa málefni skipazt svo, að búið er að ákveða stórfellda gengislækkun. Gengislækkun hefur hverju sinni mjög víðtæk áhrif á efnahagskerfi þjóðfélagsins, þó að nokkuð megi draga úr þeim á ýmsan hátt með hliðarráðstöfunum, sem oft eru gerðar í því sambandi, en nú að þessu sinni virðist lítið bóla á. Ein augljósasta afleiðing gengislækkunar er sú, eð verðlag hækkar að miklum mun og er það alveg fyrirsjáanlegt. Af því leiðir, að tekjur launþega og raunar meiri hluta manna í þjóðfélaginu endast verr en áður til þess að greiða þær lífsnauðsynjar, sem menn óhjákvæmilega þurfa að komast yfir. Og það er, eins og fram kom hér hjá einum ræðumanni í dag, höfuðatriði hjá launþeganum að hafa viðhlítandi rauntekjur, þ.e.a.s. að tekjurnar hrökkvi til þess að afla sér þeirra gæða, sem nauðsyn ber til, að hver maður og hvert heimili geti komizt yfir. Og þegar kaupið er komið í hendur launþegans, þá er vitanlega ekki neinn munur á því, hvort það er greitt sem grunnkaup eða sem verðlagsuppbót. En í eðli sínu er þó samt sem áður munur á þessu.

Grunnkaupshækkun er hægt að knýja fram, án þess að það standi í beinu sambandi við nýorðnar verðlagshækkanir. Það getur verið, að launþegum og samtökum þeirra þyki það eðlilegt, þyki það hlýða að leitast við að auka tekjur sínar á þann hátt frá því, sem áður hefur verið. En verðlagsuppbótin er ávallt greidd eftir á. Hún er afleiðing af því, sem orðið er, og felur einungis í sér viðurkenningu á því, að verðlagshækkanir hafi orðið.

Nú hefur ríkisvaldið mikil afskipti af verðlagsmálum, og það má segja, að það beri því öðrum fremur ábyrgð á því, hvernig skipast um verðlag nauðsynjavara í þjóðfélaginu. Og í beinu sambandi við það má með miklum rökum segja, að ríkisvaldinu beri fremur skylda til að taka afleiðingum af því, sem orðið er, með því að viðurkenna í reynd, að launþegum beri kaupuppbót í sambandi við verðvísitölu, heldur en að því leyti, sem að grunnkaupinu sjálfu snýr. Verðlagsuppbót skv. vísitölu snertir mjög marga þegna þjóðfélagsins, sennilega mikinn meiri hluta þjóðarinnar, þar sem kaup allra launþega er við það bundið, bæði opinberra starfsmanna og hinna, sem vinna skv. samningum. Þetta snertir enn fremur bændastéttina, því að svo er um hnúta búið í l., sem um verðlag landbúnaðarafurða gilda, að verðlagsuppbót er tekin þar til greina í kaupi bóndans með hliðsjón af því, sem öðrum stéttum er greitt. Gengislækkanir á hverjum tíma hafa víðtæk áhrif í efnahagskerfi þjóðarinnar. Og við, sem höfum fengizt nokkuð lengi við almenn mál og erum komnir um eða yfir miðjan aldur, munum eftir a.m.k. 4 gengislækkunum og getum af eigin raun nokkuð metið þau áhrif, sem af þeim hafa orðið. Árið 1939 var gengi ísl. kr. fellt gagnvart sterlingspundi að verulegum mun. Þá var það viðurkennt, að það væri eðlilegt að bæta að verulegu leyti upp þær verðhækkanir, sem af gengisfallinu leiddi, með verðlagsuppbót og í gengisfellingarl. frá 1939 voru ákvæði, þar sem gengið var verulega til móts við launþega að þessu leyti. Og ég hygg, að til þeirrar löggjafar megi raunar rekja það fyrirkomulag, sem síðar hefur lengst af verið í gildi, að greiða verðlagsuppbót á laun.

Árið 1950 var aftur horfið að því ráði að fella gengið og þá að verulegum mun. Ég verð að telja, að sú gengislækkun hafi verið miklum mun betur undirbúin en sú gengislækkun, sem nú nýlega hefur verið ákveðin. Þá höfðu vissulega farið fram hagfræðilegar athuganir, margvíslegar athuganir á aðstöðu þjóðfélagsins og efnahagskerfinu og niðurstöður þeirra athugana voru skilmerkilega lagðar í hendur þm., áður en ákvörðunin var tekin um gengislækkunarl. sjálf. En í gengislækkunarl. 1950 var enn fremur, eins og 1939, viðurkennt af löggjafans hálfu það sjónarmið, að eðlilegt væri að bæta launþegunum að verulegu leyti þær verðhækkanir, sem gengislækkunin hefði í för með sér, og þar var gengið til móts við þetta sjónarmið með sérstökum ákvæðum um verðlagsuppbætur í l. sjálfum.

Árið 1960 er svo enn horfið að því ráði að fella gengi ísl. krónu að miklum mun. Þá var brugðið á það ráð af þeim, sem að því máli stóðu og knúðu það fram hér á hv. Alþ., að hætta að greiða verðlagsuppbót skv. vísitölu. Þá var vísitalan tekin úr sambandi, eins og það er oft orðað, í sambandi við kaupgreiðslur. Þetta var skýrt á þann veg, að með þessu mundi hagur atvinnuveganna verða betur tryggður og það yrði séð fyrir hagsmunum þeirra, sem stæðu höllum fæti í þjóðfélaginu, m.a. með auknum tryggingum og á annan hátt en þann að greiða verðlagsuppbót skv. vísitölu. En ég held, að það sé rétt og sjálfsagt fyrir okkur alla að rifja það upp, hvaða reynsla fékkst af þessum ákvæðum.

Því hefur nú verið lýst hér af mönnum, sem betur fylgjast með kaupgjaldssamningum en ég hef haft aðstöðu til, að einmitt á þessu tímabili, sem málum var skipað á þann veg að greiða kaupgjald ekki í samræmi við vísitölu, hafi orðið meiri ókyrrð og tíðari verkföll en jafnan áður eða síðan 1964, að júní-samkomulagið var gert. Og það þarf ekki um það að deila, að þótt ætlunin væri sú, að kaupgjald hækkaði a.m.k. minna en ella væri með þessari ráðstöfun 1960, þá skýra Hagtíðindin frá því, að á þessu tímabili, sem kaup var ekki greitt skv. vísitölu, hækkaði samt sem áður tímakaupið allverulega. En sú hækkun var bara fengin á annan hátt. Skv. Hagtíðindunum var tímakaup í almennri verkamannavinnu í Reykjavík í árslok 1959 kr. 21.91, en í árslok 1963 er tímakaupið í almennri verkamannavinnu í Reykjavík orðið 34.45. Og í árslok 1964, en á síðari hluta þess árs kom vísitölukerfið aftur í samband, ef svo má segja, þá var tímakaupið kr. 36.52. Þó að kaupgjaldið hækkaði á þessu tímabili, svo sem Hagtíðindin skýra frá, þá nægði það launþegum vitanlega ekki til þess að vega á móti þeim verðlagshækkunum, sem efnahagsráðstafanirnar frá 1960 og gengisfellingin 1961 höfðu í för með sér, þannig að ég hygg, að kaupmáttur tímakaupsins hafi fremur lækkað á þessu tímabili en hækkað. En þetta sýnir eigi að síður það, að sú fyrirætlun, sem fyrir valdhöfunum, er stóðu að efnahagsmálalöggjöfinni 1960, vakti, misheppnaðist að verulegu leyti, þannig að ekki varð hjá því komizt, að tímakaupið hækkaði verulega, þó að sú hækkun væri aðeins knúin fram á annan hátt en að hún væri fengin með verðlagsuppbót skv. vísitölu. Og mig minnir, að þegar hið margnefnda júní-samkomulag var gert, þá væri því fagnað af beggja hálfu eða réttara sagt af hálfu allra þeirra aðila, sem að því stóðu, og þar á ég við vinnuveitendur, launþegasamtök og hæstv ríkisstj. Og ég minnist þess, að hæstv. forsrh. stóð hér í ræðustól á hv. Alþ. haustið 1964 og talaði um það, að því er virtist, af skilningi, að sú ósk og krafa launþegasamtakanna að miða kaupgjald við vísitölu væri ekki óeðlileg. Ég held því, að það hljóti að vera nokkuð þung spor fyrir þennan sama hæstv. ráðh. að ganga nú í ræðustól Alþ. og leitast við að færa rök fyrir því, að frá því, sem var eðlilegt og sanngjarnt og jafnvel réttlátt 1964, sé ástæða til að hverfa nú. En skv. ákvæðum þessa frv. er það svo, að meðan sú skipan gildir, sem hér er ráðgerð, þá eiga launþegar að sækja allan rétt sinn með samningum gagnvart vinnuveitendum — allan rétt sinn um kauphækkanir. Ég get ekki komizt hjá að benda á það, að mér sýnist, að með þessu sé stefnt að því að skapa mikið og ég vil segja óhæfilegt ósamræmi milli hinna ýmsu hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Segjum, að það takist með samningum, að vissir launþegahópar tryggi sér verðlagsuppbót á kaupið skv. vísitölu. Þá er það augljóst, að aðrir launþegahópar og þeir mjög fjölmennir hafa ekki aðstöðu til þess að tryggja sinn hlut á þann hátt. Í þessu sambandi nefni ég, eins og fleiri ræðumenn hafa gert, opinbera starfsmenn, sem ekki hafa nema takmarkaðan samningsrétt — og ekki verkfallsrétt. Ég nefni bótaþega almannatrygginganna, því að ég fæ ekki betur skilið en að með þessu frv. sé að því stefnt að afnema einnig greiðslu verðlagsuppbótar á bætur almannatrygginganna. Það mun þó varla vera ætlazt til þess, að gamalmenni og öryrkjar tryggi sinn hlut að þessu leyti með samningum.

Og í þessu sambandi kemur einnig upp sú spurning, sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 11. þm. Reykv., lagði mikla áherzlu á, og ég skal af þeim ástæðum ekki fjölyrða um, hvað verður um húsnæðislánin? Er fyrirhugað að halda áfram þeirri skipan að láta afborganir þeirra lána hækka skv. byggingarvísitölu, þótt verðlagsuppbætur á kaup verði niður felldar? Þetta er svo veigamikill þáttur, að það er ekki hægt að ganga fram hjá því og vænti ég þess, að skýr svör fáist við þessu, áður en frá þessu máli verður endanlega gengið hér í hv. þd.

Ég vil því segja það að lokum, að í ljósi fenginnar reynslu í sambandi við verðhækkanir sem af gengisfellingum leiða og í sambandi við það samræmi, sem ríkisvaldið á fyrir sitt leyti að beita sér fyrir og leitast við að tryggja milli launþegahópanna í þjóðfélaginu, þá er það að mínum dómi í senn óhyggilegt og ógætilegt að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, nema á því verði gerðar miklar breytingar frá því, sem nú er fyrirhugað.