09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að ræða um þetta frv. almennt, enda hefur hv. 1. þm. Austf. gert það svo rækilega, að þar þarf engu við að bæta. En það er ein fsp., sem mig langar að bera fram við hæstv. fjmrh. í sambandi við sundurliðunina í 11. gr. frv., þar sem eru 82.6 millj. kr. til vegamála.

Hæstv. fjmrh. nefndi nokkra vegi, sem fengju lánsfé samkv. þessari heimild, en einn var sá vegur, sem ég hlustaði eftir, en heyrði ekki, það var Heydalsvegur. Við afgreiðslu á vegáætlun eða við endurskoðun hennar á þinginu 1967 fékkst samþ. í vegáætlun 1 millj. kr. lánsheimild til Heydalsvegar á árinu 1967 og 3.7 millj. á árinu 1968. Þegar leitað var eftir aðstoð í sambandi við þessa 1 millj. kr. lánsheimild á árinu 1967, var því svarað til, að þessi lánsheimild hefði ekki verið tekin á framkvæmdaáætlun 1967 og úr lánsútvegun gæti þess vegna ekki orðið á því ári. Nú vorum við, þm. Vesturl. þeirrar skoðunar, að Vegagerð ríkisins hefði gert till. um það, að. í framkvæmdaáætlun fyrir árið 1968 yrðu þessar lánsheimildir teknar með, svo að hægt væri að nota þær og vinna að framkvæmdinni einmitt á árinu 1968 sem svaraði 4.7 millj. kr. En það eru þeir fjármunir, sem þarf til þess að undirbyggja veginn á árinu 1968, svo að hægt verði að ljúka vegarlagningunni á árinu 1969, eins og stefnt hefur verið að, ef fjármunir verða til þess. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort ekki sé gert ráð fyrir því í þessum 82 millj. kr. lánsheimildum vegna vega að taka 4.7 millj. kr. vegna Heydalsvegar?

Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, mál, sem lengi er búið að bíða eftir afgreiðslu, og við treystum því, þm. Vesturl., að það þurfi ekki lengur að bíða eftir framkvæmdum í þessum mjög svo nauðsynlega vegi, sem Heydalsvegur mun verða, er hann er orðinn að veruleika, og ég treysti hæstv. fjmrh. til að upplýsa þetta.