09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki tímann mikið. Það eru að vísu margar fsp., sem hér hafa komið fram, og athyglisverð ræða ein hefur verið hér flutt af hv. 1. þm. Austf.,sem vissulega hefði verið fróðlegt að gera að umtalsefni, ef lengri tími hefði verið til, vegna þess að þar var að finna mjög eftirtektarverðar kenningar í efnahagsmálum, peningamálum, en ég ætla ekki að þreyta þm. með langri ræðu um það. Ég ætla hins vegar að reyna fyrst og fremst að víkja að þeim atriðum, þar sem um beinar fsp. er að ræða í sambandi við frv.

Hv. 1. þm. Vestf. spurði að tvennu. Í fyrsta lagi, hvort allt það fé, sem ég hefði verið að tala hér um, væri umfram vegáætlun. Ég held, að hann hafi misskilið mín orð þar, vegna þess að ég var að ræða um frv., sem hér var í þinginu. Ég sagði, að það fé, sem þar væri gert ráð fyrir að afla nú innan framkvæmdaáætlunarinnar, væri til viðbótar því fé, sem þar væri ráðgert að afla með sérstökum hætti. Ég sagði að það vantaði um 200 millj. núna til vega, og með þessum tvennum ráðstöfunum, annars vegar fjáröfluninni beint hér í þessu frv. eða innan framkvæmdaáætlunarinnar og hins vegar með hinni nýju fjáröflun til vegasjóðs,er verið að brúa þetta bil, en það felur ekki í sér, að ég hafi meint, að þetta væri utan vegáætlunar. Þessir vegir allir munu vera í vegáætlun, þannig að það er annað mál, sem ég veit, að hv. þm. skilur fullkomlega.

Varðandi aðra fsp. hans, um skuldagreiðslur vegna vegagerða, hef ég ekki annað að segja en að þessar skuldir eru væntanlega eins og þær eru hér tilgreindar á þessu blaði, ég hef það ekki sundurliðað hjá mér. En þar kom einnig fram, að því er ég held, annar misskilningur hjá honum. Þessi listi, sem hér er á töflu II gefur alls ekki til kynna, að það eigi að taka inn á framkvæmdaáætlun alla þessa liði, sem þar eru taldir, heldur er verið að gera grein fyrir heildarframkvæmdunum, sem að hluta til eru fjármagnaðar innan framkvæmdaáætlunarinnar með hinni sérstöku fjáröflun, sem er í næstsíðasta lið. Svo eru aftur ótalmargir aðrir tekjustofnar, eigið fé og fjárveitingar, þegar tryggt og væntanlegt lánsfé eftir öðrum leiðum, og þar í er að finna fjárveitingarnar, sem einmitt eru til þessara vega á vegáætlun eða með öðrum hætti, svo að það merkir ekki, að þessar 94.8 millj. verði greiddar innan framkvæmdaáætlunarinnar, heldur er hér aðeins verið að bókfesta það, að í heildina eru skuldirnar eða greiðslubyrðin á þessum vegum sem hér segir: Samtals er þörfin 174 millj. og af því er gert ráð fyrir að afla innan framkvæmdaáætlunar 82.6 millj. Að hve miklu leyti það svo fer í að borga þessar 94.8 millj., um það er auðvitað ekkert sagt. Í mörgum greinum er það að vísu eingöngu afmarkað við skuldagreiðslur, eins og t.d. Keflavíkurvegurinn, hann er allur tekinn, ja, ekki allur, en að meginhluta til. Það er viss upphæð, sem fer í hann í vegáætlun. Það eru 43,7 millj., sem fara af framkvæmdafénu til þessa vegar, en fjárveiting til hans í vegáætlun er nokkur og eigin tekjur líka. Það er gert ráð fyrir, að það samtals, vegaskatturinn og fjárveitingin, sem er í vegáætlun til þess vegar, gefi 20.8 millj. og nokkurt framlag er einnig í þessu til þess að ljúka því verki. Ekki er enn lokið vegagerð hér handan við Hafnarfjörð, þannig að gert er ráð fyrir, að kostnaður við þennan veg á árinu 1968 verði 11.3 millj. Hér er því að sjálfsögðu um blandaða fjárþörf að ræða, annars vegar greiðslu á skuldum, hins vegar greiðslu á framkvæmdakostnaði, og síðan er tekið það sem á vantar, að hinir föstu stofnar standi undir greiðslunum og það fjármagnað innan framkvæmdaáætlunarinnar. Ríkið verður einhvern veginn að standa undir þessu, þetta eru opinberar skuldbindingar, og þá verður að afla fjárins með þessum hætti.

Varðandi fsp. hv. 3. þm. Vesturl. um Heydalsveg, þá er það rétt, að hann er ekki í þessari framkvæmdaáætlun. Innan framkvæmdaáætlunarinnar eru yfirleitt ekki aðrir vegir en þeir, sem óumflýjanlegt er að afla fjár til, eins og ég sagði um Reykjanesbrautina, í samræmi við þær skuldbindingar sem hvíla á ríkinu. Sama er um Breiðholtsveginn að segja og um Kísilveginn, Landsvirkjunarveginn einnig, það verður að greiðast. Þetta var lagt út af Landsvirkjuninni og á að greiðast af ríkisfé. Og 10 millj. til viðbótar sem ég gat um, að væri afborgun af lausaláni í Hambros Bank vegna Keflavíkurvegar, bætist þarna einnig við, þannig að í þessari áætlun eru í rauninni engir almennir vegir aðrir en þeir, sem eðli málsins samkvæmt varð ekki hjá komizt að afla fjár til vegna skuldbindinga og vegna skuldagreiðslna, sem varð að standa undir. Það eru auðvitað tugir vega, sem ég geri ráð fyrir, að menn hefðu áhuga á, að aflað væri fjár til með þessum hætti, en það hafa ekki verið tök á því. Ég efast ekkert um og veit, að það er rétt hjá hv. þm., að Heydalsvegur er mikið nauðsynjamál, og það eru margir aðrir vegir, en það hefur ekki þótt fært að taka þá inn í þessa áætlun innan þess ramma, sem fjáröflunarmöguleikar afmarka.

Hv. 4. þm. Austf. vék að því og einnig hv. 1. þm. Austf., að þetta bæri óheppilega að, þessa framkvæmdaáætlun. Æskilegast væri, að hún fylgdi fjárl. og sömuleiðis væri æskilegt, að áætlunin kæmi fyrst fyrir Alþ. og lægi fyrir, þegar frv. um lánsfjáröflun væri tekið til meðferðar og enn fremur, að eðlilegra væri, að formlega væri leitað samþykkis Alþ. á áætluninni. Þetta má allt til sanns vegar færa. Og gjarnan vildi ég, að hægt væri að láta framkvæmdaáætlun fylgja fjárl., en þess er naumast nokkur kostur, vegna þess að vissir þættir í henni eru alls ekki ljósir, þegar fjárlög eru samin, og margt af því, sem komið hefur til hér og hv. þm. munu sjá, þegar þeir fara að skoða þetta frv., eru atriði, sem alls ekki var vitað um, þegar fjárlög voru samin. Einn mjög veigamikill þáttur í þessu eru sjóðirnir, sem ekki eru ríkisframkvæmdir, en talið er ógerlegt að ákvarða fyrr en eftir áramót, hver sé fjárþörf sjóðanna. Það þarf að athuga, hve miklar lánveitingar þeirra hafi orðið árið áður, og framkvæmdasjóðurinn eða Seðlabankinn, sem hefur undirbúið það mál, hefur ekki hingað til talið gerlegt að leggja þær upplýsingar fram um áramót.

En ég skal fúslega játa, að það væri æskilegt, að þetta væri þáttur í fjárlagaafgreiðslunni. Þetta stafar þó alls ekki af því, að ríkisstj. hafi haft einhverja löngun til að hafa þetta öðruvísi, heldur vegna þess, að þetta hefur a.m.k. hingað til ekki verið viðráðanlegt með öðrum hætti.

Varðandi það atriði, að það sé æskilegt, að þm. fái rétt til þess að ráðstafa þessu fé og ríkisstj. eigi ekki að hafa þetta í sinni hendi, þá er þetta auðvitað allt rétt og í meginefnum ráðstafar Alþ. auðvitað því fé, sem aflað er til þessara framkvæmda. Þar er a.m.k. gerð grein fyrir því í öllum meginefnum, hvernig eigi að ráðstafa fénu, og sannleikurinn er nú sá, að þetta er að ákaflega litlu leyti fé, sem er til frjálsrar ráðstöfunar og raunar að engu leyti til frjálsrar ráðstöfunar fyrir ríkisstj. Þetta er yfirleitt vandamál, sem hún stendur andspænis og verður að leysa. Yfirleitt er ekki tekið inn í þessa framkvæmdaáætlun annað en þess konar viðfangsefni, að það leiðir algjörlega af eðli málsins, að þau verður að leysa. Það skal að vísu játað, að það hefur kannske verið farið fullgeyst í sumar ríkisframkvæmdir, s.s. einstaka skólabyggingar, sérstaklega á undanförnum árum, og það getur þá verið álitamál, hvort átti að taka aðra skóla. Um það hefur hins vegar aldrei verið nein deila hér á Alþ., að eðlilegt væri, að þeir skólar, sem hafa verið teknir, sem fyrst og fremst hafa verið menntaskólarnir, sætu í fyrirrúmi. En að öðru leyti er ríkisstj. í sannleika sagt bundin í langflestum greinum. Dyrnar sem hún gengur um, eru í rauninni ákaflega þröngar, þannig að hún getur ekki ráðstafað eftir geðþótta neinu fé. Og það munu menn bezt sjá af þessari áætlun, sem hér liggur fyrir, að yfirleitt er hver einasta upphæð, sem þar er um að ræða, þess eðlis, að hún er annaðhvort skuldagreiðsla eða þá greiðsla til þeirra framkvæmda sem ríkið hefur beinlínis skuldbundið sig til að leysa af hendi.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að það væri farið að leika þann leik að taka fjárveitingar út af fjárlögum og fjármagna með lántöku. Þetta er ekki rétt nema að nokkru leyti. Í rauninni hafa engar fjárveitingar verið teknar út af fjárlögum. Heildarframkvæmdafé í fjárlögum til opinberra framkvæmda hefur hækkað ár frá ári,en það er rétt, að þetta hefur ekki verið tekið inn í fjárlög. Hér um að ræða upphæðir umfram það, sem Alþ. telur hverju sinni mögulegt að verja af skattheimtufé til þessara opinberu framkvæmda. Ég skal fúslega játa, að í mörgum greinum væri æskilegt, að þetta væri í fjárl. og við hefðum getað hækkað þessar fjárveitingar. En það hefur ekki verið talið gerlegt. Nú síðast átti að gera þetta, en ég skal játa, að við verðum að taka það aftur vegna þeirra þrenginga, sem við lentum í með afkomu ríkissjóðs á þessu ári vegna nýrra skuldbindinga.

Efnislega get ég alveg fallizt á þetta sjónarmið, en hins vegar ekki á þá röksemd, að við séum hér að taka út, við séum hér að létta af ríkissjóði því, sem hann hafi borið til þessa, og raunverulega að fela útgjöld að þessu leyti. Það get ég ekki fallizt á. Hér er verið að auka fjárfestingar. Það er t.d. alveg greinilegt um flugmálin, sem á síðustu tveimur árum hafa fengið margfaldar fjárveitingar með þessum hætti einum, að það hafa verið tekin lán innan framkvæmdaáætlunarinnar. Sama er að segja um skólamálin, sem hafa hækkað ár frá ári, meira en aðrar framkvæmdir. Og engu að síður hefur verið talið óumflýjanlegt að afla einnig fjár með lánum, til þess að hægt væri að vinna að ákveðnum verkefnum í stærri áföngum en fjárveitingar hafa leyft.

Hv. 1. þm. Austf. spurðist fyrir um það, hvaða heimildir væru til þess að verja fé til þeirra framkvæmda, sem gert er ráð fyrir hér í framkvæmdaáætluninni, eða hvort þörf væri á að afla sérstakra heimilda í því skyni. Ég tel ekki, að það sé þörf að afla neinna heimilda í þessu sambandi. Ýmist eru heimildir fyrir hendi eða þessar framkvæmdir eru með þeim hætti, að það hefur ekki sérstaklega þótt ástæða til að afla til þeirra heimilda á undanförnum árum.

Við skulum taka Rafmagnsveitur ríkisins. Þær hafa á hverju ári notað mikið lánsfé, en það hefur ekki verið borið undir Alþ. sérstaklega, hvaða mannvirki þær réðust í. Við vitum, að átt hefur sér stað aukning á dísilstöðvum og viðbót við stöðvar og dreifikerfi og eitt og annað, sem aldrei hefur verið aflað sérstakra heimilda fyrir. Þetta er fyrirtæki, sem hefur tekið sín lán til þeirra framkvæmda, sem hverju sinni hefur verið talið óumflýjanlegt að ráðast í.

Um gufuveituna í Námaskarði getur verið álitamál, ef í hana verður ráðizt. Hún er í rauninni þáttur af Laxárvirkjunarvandamálinu, og ef í hana verður ráðizt, verður það í samráði við stjórn

Laxárvirkjunar, sem er sameignarfyrirtæki ríkis og Akureyrarbæjar. Sérstök lagaheimild er þegar fengin fyrir Laxárvirkjun, þannig að ég tel, að Námaskarðsveitan mundi falla með eðlilegum hætti undir þá heimild. Gufuveitunni í Reykjahlíð fylgja vissar skuldbindingar, sem um getur í samningi þeim, sem gerður var í sambandi við Kísiliðjuna, og á ekki að þurfa að leita sérstakrar heimildar vegna hennar, því að hún er einn þáttur í því, sem ríkið tók þar á sig að inna af hendi.

Um jarðborun á Reykjanesi er það að segja að það hefur hingað til ekki verið aflað sérstakrar heimildar fyrir framkvæmdum á vegum jarðhitadeildar Raforkumálaskrifstofunnar. Það er gerð sérstök áætlun um það, sem gengið er út frá í orkulögum, að komi til meðferðar í orkuráði og sé síðan endanlega samþ. af ráðinu, en það hefur ekki verið aflað neinnar sérstakrar heimildar fyrir einstökum jarðborunum.

Landshafnirnar eru að sjálfsögðu byggðar samkvæmt lögum um þær. Þetta fé, sem hér er um að ræða, á að renna til þriggja núverandi landshafna, Njarðvíkur og Þorlákshafnar aðallega og að nokkru leyti til Rifshafnar. Fyrir öllum þessum höfnum eru ákveðin lög, sem heimila framkvæmdir á þeirra vegum.

Vegirnir eru, að ég hygg, innan vegáætlunar, Reykjanesbraut er það einnig, og þar er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdir með vissum hætti, svo að það þarf því í rauninni ekki annað en afla lántökuheimildanna. Vegirnir hafa allir verið lagðir eða á þeim byrjað með heimildum frá Alþ., þannig að ég sé ekki, að hér sé um neinn nýjan veg að ræða, sem ekki er til á vegáætlun.

Skipting fjár til flugmálanna hefur ekki verið framkvæmd af Alþ. til þessa, heldur er þar um að ræða heildarfjárveitingu, sem er síðan skipt af flugráði og endanlega af flugmálaráðh. Alþ. hefur ekki skipt þessu framkvæmdafé, svo að það er ekkert vald af því tekið í því efni.

Varðandi skólana og sjúkrahúsin er um að ræða sömu fjárhæðir og samþykktar voru í fjárl., þannig að þar er aðeins um að ræða að verja því fé í samræmi við það, sem gert var ráð fyrir í fjárl., og ekki ætlunin að breyta því á neinn hátt efnislega.

Fyrir Búrfellsvirkjun er lagaheimild, og um lögreglustöðina í Reykjavík vita menn, að hún hefur verið hér í byggingu í mörg ár og sérstök heimild fyrir því, samkvæmt viðkomandi lögum, að hún verði byggð. Og hinir einstöku fjárfestingarlánasjóðir, sem eiga að taka fé að láni, hafa allir heimildir til lántöku í sínum sérlögum.

Ég gæti að vísu svarað hér öllum einstökum atriðum, sem hv. 1. þm. Austf. bar fram fsp. um, varðandi skiptingu fjár til hafna og vega, en ég sé ekki ástæðu til að vera að þylja það hér yfir nokkrum hv. þm., heldur tel ég eðlilegt, að það komi til meðferðar í n., og ég hef gert ráðstafanir til þess, að hv. n. fái allar þær upplýsingar sem hún óskar eftir, sem er sjálfsagt og eðlilegt, og skal ég ekki telja eftir neina vinnu við það. Ég held, að ég þurfi því ekki að víkja meira að einstökum atriðum varðandi frv. sjálft, en eins og ég áðan sagði, hefði verið ákaflega fróðlegt að víkja að stefnu hv. 1. þm. Austf. í efnahagsmálum. Það yrði bara of langt mál að fara út í það hér, en mér skildist nánast sagt á hans ræðu, að hann teldi ákaflega hæpið eða a.m.k. að þá væri mjög illa komið, ef þyrfti að taka erlend lán til þess að fjármagna þessar ríkisframkvæmdir. Hann taldi hins vegar alveg fráleitt að leggja það á bankakerfið að leggja fram 10% af sparifjáraukningu, og það mætti alls ekki selja verðtryggð skuldabréf, vegna þess að það yrði til þess að draga fé frá atvinnuvegunum.

Eins og ég áðan sagði, hefur ríkisstj. haft fullan skilning á því að fara eins hófsamlega í þetta og auðið er, en hún hefur ekki séð önnur úrræði til þess að afla fjár en einhverjar lántökur á þennan hátt. Það er hins vegar til önnur leið, og hún er sú að afla miklu meira fjár með sköttum. Hvort það er nákvæmlega það, sem við ætlum að gera í dag, skal ég ekkert um segja, en einhver úrræði verður að hafa til að ná fénu, úr því að menn eru sammála um það, og einnig hv. 1. þm. Austf., að sjálfsagt sé að leggja í þessar framkvæmdir, og hann vildi ekki draga úr því, að út í þessar framkvæmdir allar yrði ráðizt. Það var að vísu ein leið kannske, sem er rétt að játa, að hann benti á. Hún er sú að auk þess, sem nú væri ekki ástæða til þess að binda sparifé, væri það í rauninni ekkert atriði, hvað væri gefið út mikið af seðlum, og þess vegna mættum við bara fjármagna þetta með því að láta seðlapressuna velta. Ég held nú, að það þurfi ekki að orðlengja mikið um það, hver afleiðing af slíkri stefnu eða ráðslagi mundi verða, ef út í það yrði farið. Hv. þm. sagði, að stefna ríkisstj. hefði verkað eins og seigdrepandi eitur á atvinnuvegina. Það er rétt, að hans stefna, ef hún hefði verið hér í útfærslu seinustu árin, hefði ekki verkað sem seigdrepandi eitur, heldur hefði það drepið samstundis.