16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir það mjög gleðilegt, að hv. Vestfjarðaþm. geta þó verið sammála og talað saman í bróðerni og fundið einhvern sameiginlega til að snúa geiri sínum að, en sleppum því.

Ég get alveg fúslega fallizt á, að það hefði verið æskilegra, að þetta mál hefði borið fyrr að og verið í ýmsu tilliti með öðrum hætti, og ég gerði grein fyrir því í minni framsöguræðu um málið. Ég hefði talið æskilegast og að því er stefnt, að framkvæmdaáætlunin gæti að meginefni til verið samferða fjárlagafrv., og ég skýrði frá því, að í haust við undirbúning fjárlagafrv. hefðu verið gerð drög að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1968. Um það mál var hins vegar ekki fengin það endanleg niðurstaða, að hægt væri að láta það fylgja fjárl. M.a. var ógerlegt á því stigi málsins að gera sér grein fyrir fjárþörf framkvæmdasjóðanna og ýmsu öðru, sem þá var ekki ljóst. Það þótti hins vegar nauðsynlegt að gera sér þá grein fyrir málinu, einmitt vegna þess, að menn þyrftu að átta sig á því, hvaða fé væri hugsanlega hægt að ráðstafa til framkvæmda á þessu ári: Ég held, að ekki þurfi að fara mörgum orðum um þetta mál til þess, að öllum hv. þdm. ætti að vera það fullkomlega ljóst, að eins og málum var háttað, var þetta gersamlega útilokað. Þróun mála hefur orðið svo hröð og breytingar svo miklar á síðustu mánuðum, að framkvæmdaáætlun, sem þá hefði verið gerð, hefði orðið að takast gersamlega til endurskoðunar eftir áramót, og ég býst við, að hefði sungið eitthvað í ýmsum hv. þm., ef þá hefði þurft að fara að endurskoða framkvæmdaáætlunina ásamt mörgu öðru, sem hefur þurft að endurskoða, bæði í sambandi við fjárlög og annað og margoft hefur verið fundið að. En eins og málið liggur nú fyrir mönnum, er það ljóst, að áhrif aðgerðanna eftir áramót, bæði ráðstafananna vegna sjávarútvegsins og þar af leiðandi endurskoðunar fjárl. fyrir 1968 og sparnaðarráðstafananna, sem þar voru ákveðnar, hafi gert óumflýjanlegt að taka framkvæmdaáætlunina alla til heildarendurskoðunar og því miður að draga málið eins og raun hefur orðið á. Það var ekki hægt, þó að ég fullkomlega taki undir, að það hefði verið æskilegt, að leggja framkvæmdaáætlun eða þetta frv. fyrir þingið fyrr en nú. Það var ekki hægt. Og ég verð að sjálfsögðu að taka því, ef mönnum finnst vera óhæfilega að unnið, en um það þýðir ekki að fást.

Það er tiltölulega skammt síðan ákveðið var að freista þess að fjármagna þær 62 millj. t.d., sem voru teknar út úr fjárl., með lántökum, og það þurfti að kanna til hlítar, hvort hugsanlegt væri að ná saman endum með þessum hætti, og eins voru mörg önnur vafaatriði, sem ekki voru ljós fyrr en nú alveg síðustu daga. Og það var ekki dregið einn dag að leggja þetta frv. fyrir Alþ., þegar tekizt hafði að ganga endanlega frá því. Ég get svo alveg tekið undir það með hv. 4. þm. Vestf., að auðvitað hefði verið æskilegast, að gefin hefði verið skýrsla um framkvæmdaáætlunina, áður en þetta frv. var lagt fram um lántökuheimildirnar, til þess að menn fengju yfirlit yfir það, hvað áformað væri að gera. Ég held þó, að það ráði ekki úrslitum málsins, vegna þess að sú grg. er miklu víðtækari, þ.e. yfirlitsskýrsla um þróun og horfur efnahagsmála almennt, fjárfestingarmála í þjóðfélaginu, og svo að sjálfsögðu grg. um þær framkvæmdir, sem ríkið hyggst standa að, ekki eingöngu það, sem framkvæmt er innan ramma þessarar lántökuheimildar, heldur margt annað, vegna þess að þær framkvæmdir, sem lántökuheimildirnar ná til, eru sjálfsagt ekki nema lítill hluti af opinberum framkvæmdum. Það má vel vera, og ég skal fúslega fallast á það, að að þessu megi finna. Því miður hefur bara vinnubrögðum verið þannig háttað og aðstaða manna slík til þess að ljúka öllum þeim verkefnum, sem á þeim mönnum hafa hvílt, sem að þessu þurfa að vinna, að það hefur verið ógerlegt að koma þessu á annan hátt fyrir, og það er sjálfsagt að biðja afsökunar á því, ef mönnum þykir það fordæmanlegt. En við þetta varð því miður ekki ráðið, og miðað við það, að þingi átti að ljúka innan skamms, varð ekki hjá því komizt að leggja þetta frv. fyrir þingið það tímanlega, að það gæti fengið afgreiðslu.

Hingað til hefur þetta mál ekki verið deilumál hér á Alþ., og hefur það þó borið að með mjög svipuðum hætti og það hefur nú borið að. En hvað um það, allar réttmætar ábendingar og aðfinnslur er auðvitað sjálfsagt og skylt að taka til greina.

Hitt þykir mér mjög leitt, ef ekki hafa komið fram fullnægjandi upplýsingar um málið. Ég gerði grein fyrir því hér við 1. umr., að hv. fjhn. mundu verða látnar í té allar upplýsingar, sem þyrfti í sambandi við einstakar framkvæmdir, því að ég taldi of langt mál að rekja það í minni ræðu þá. Og hv. 1. þm. Austf., sem þá einmitt skaut fram slíkum aths., alveg með réttum og eðlilegum hætti, vék einmitt að því sjálfur í sinni ræðu, að þess væri ekki að vænta, að ég mundi svara því þá á stundinni, heldur að fjhn. fengi allar þessar upplýsingar og gæti áttað sig á, hvað hér væri um að ræða. Og þetta vonast ég til, að n. hafi fengið í hendur og fullvissað sig um, hvað hér væri á ferðinni. Auðvitað er það sjálfsagt mál, að ég reyni að gera grein fyrir frekari sundurliðun hér, en þar sem tími er naumur, verð ég samt að biðja afsökunar á því, að ég reyni að takmarka mig sem mest.

Sumt af þessu skýrði ég þegar í framsögu minni, og ef ég lít aðeins yfir þessa liði, sem hér er um að ræða, þá skulum við fyrst taka Vestfjarðaáætlunarféð, sem mikið er um talað og báðir hv. þm. gerðu að umtalsefni og báru fram fsp. um og þarf út af fyrir sig engan að undra það. Ástæðan til þess, að það er ekki sérstaklega sundurliðað hér, er sú m. a., að það er ætlunin, að Framkvæmdasjóður Íslands taki þetta lán, eins og Framkvæmdabankinn áður gerði, það er því ekki sundurliðað sérstaklega fremur en annað það, sem fer í gegnum framkvæmdasjóðinn. En ég skal fúslega gefa upplýsingar um það. Það eru 27 millj. kr., sem hér er um að ræða tilheyrandi Vestfjarðaáætlun, sem gert er ráð fyrir, að verði tekið að láni hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, og það er gert ráð fyrir, að 16 millj. af því fari í vegi, 9.8 millj. í hafnir og 1.2 millj. í flugmál. Það er gert ráð fyrir því, að sú upphæð öll, sem ætluð er til flugmála, fari til Ísafjarðarflugvallar. Af lánsfjárupphæðinni til hafnanna er gert ráð fyrir því, að Bolungarvík fái um 6.5 millj., Súðavík 0.4 millj., Suðureyri 1.3 millj., Patreksfjörður 0.8 millj. og Flateyri 0.7 millj. Þetta eru þó ekki nákvæmar tölur, ég sleppi þarna tugum þúsunda.

Um vegina er það að segja, að það er gert ráð fyrir því samkv. þeirri áætlun, sem ég hef hér fyrir mér um þetta efni, að vegafénu verði ráðstafað þannig, að í Vestfjarðaveg sunnan Þingmannaheiðar fari 5 millj. 990 þús., í flugvallarveg á Patreksfirði fari 60 þús., í Bíldudalsveg fari 280 þús., í Vestfjarðaveg á Breiðadalsheiði fari 5 millj., í Súgandafjarðarveg fari 2 millj. 890 þús., í Bolungarvíkurveg fari 1 millj. en þar getur orðið breyting á með samkomulagi, og í flugvallarveg við Ísafjörð um 680 þús. Þetta eru 16 millj., sem hér er um að ræða, og þetta eru þær upplýsingar, sem fyrir liggja um Vestfjarðaféð.

Ég hygg, að hv. fjhn. hafi fengið sundurliðun á fjárupphæð til vegaframkvæmda almennt. Sú upphæð er líka ósundurliðuð hér í þessu frv. Bróðurparturinn af þeirri fjárhæð rennur til Reykjanesbrautar, 43.7 millj. Í Breiðholtsveg, sem er hér innan við bæinn, og þarf að leggja þann veg í sambandi við byggingaráætlunina, fara 3.6 millj., í Heydalsveg 1.5 millj., í Siglufjarðarveg 0.5 millj., (fjármagnið til hans kemur aðallega úr vegasjóði), í Kísilveginn frá Mývatni 11.6 millj. og í Austurlandsveg 1.5 millj. 10 millj. renna til vegar þess, sem Landsvirkjun lánaði fé til og lagður var vegna virkjunarinnar, og 10 millj. eru sérstök afborgun af bráðabirgðaláni í Hambrosbanka vegna Keflavíkurvegar, og er þá treyst því, sem þó er ekki vitað um enn, að því láni fáist breytt í lán til nokkurra ára. Þetta eru upplýsingarnar um vegina.

Varðandi Rafmagnsveitur ríkisins, þá er þetta almenn fjáröflun til þeirra, eins og undanfarin ár, og ekkert sérstaklega greint frá því, hvernig því er ráðstafað. Það hefur verið athugað, hver þörfin er, bæði í sambandi við dísilstöðvar og annað, og hér er ekki um að ræða sérstaka fjáröflun vegna dreifiveitna út um landið, það er sérstök fjárveiting í fjárl., sem fer til þeirra þarfa. Um ráðstöfun á liðnum „Raforkumál sérstakar framkvæmdir“ er heldur ekki endanlega ákveðið. Þar af er áætlað, að 5 millj. renni til Rafmagnsveitna ríkisins til ýmissa endurbóta, sem þær telja nauðsynlegar og 10 millj. eru lagðar til hliðar vegna bugsanlegrar gufuveitu við Mývatn. Það liggja till. fyrir um það, til þess að hægt sé að fresta Laxárvirkjun um skeið, að byggð verði þar raforkustöð, þar sem hagnýtt verði jarðgufa með nýrri aðferð, og eru menn yfirleitt, að því er ég hygg, nokkurn veginn orðnir sammála um það, að rétt sé að gera þessa tilraun. Til gufuveitu í Reykjahlíð er um fjáröflun að ræða til framkvæmda, sem þegar er lokið að mestu og eru í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna og ríkið er bundið með samningi til þess að gera.

Varðandi Reykjanesið kann svo að vera, að mönnum standi einhver Reykjanes mismunandi nærri huga, ég skal ekki segja um það, en hv. þm. hefur þá ekki hlustað mjög á það, sem ég sagði í 1. umr. þessa máls, því að ég skýrði þá frá því, að það væri hér á Reykjanesi syðra í sambandi við hugmyndir um það að koma hér e. t. v. Upp sjóefnaverksmiðju og þá þyrfti að gera þar athuganir varðandi hafnirnar. Þá er ekki um að ræða aðrar hafnir en landshafnirnar, því skýrði ég frá, það eru Þorlákshöfn og Njarðvíkurhöfn og smáupphæð til Rifshafnar.

Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi býst ég við, að skýri sig sjálfur. Hvað flugmálin snertir, þá eru það ekki ákveðnir flugvellir, heldur er þetta viðbótarfé, sem verður deilt niður á sama hátt og fé því, sem veitt er til flugvalla í fjárl. Það er flugmálaráðherra, sem skiptir fénu eftir till. flugráðs. Það er mun meira fé, sem gert er ráð fyrir í þessu sambandi, vegna þess að það er leitað eftir lántökum í þessu frv. einnig í sambandi við tækjakaup til flugmála, sem eru fyrir utan þetta.

Skólana og sjúkrahúsin hygg ég, að hv. þm. sé fullkunnugt um, vegna þess að þar er um að ræða millifærslu frá fjárl., og eru teknar þær upphæðir, sem þar er gert ráð fyrir að veita í þessu skyni. Lögreglustöð í Reykjavík og Búrfellsvirkjun held ég, að skýri sig sjálft. Ég hygg þess vegna, að það hafi ekki verið svo ákaflega erfitt, ef menn hafa viljað leggja sig eftir því, að fá upplýsingar um þetta efni, sem hér er um að ræða og fá sundurliðun, og það hefur sannarlega ekki verið reynt að fela það fyrir einum né neinum.

Hitt má vel segja, og ég skal fúslega taka við þeirri gagnrýni, að það hefði verið æskilegt, að þetta frv. kæmi fyrr fram og meiri tími hefði gefizt til þess að ræða það. Um það hef ég ekkert annað að segja en ég áðan sagði, að það hefur hver stund verið í það notuð, sem möguleg hefur verið, en miðað við þær erfiðu aðstæður allar, sem verið hafa og þær miklu breytingar, sem við höfum staðið andspænis síðustu mánuði og sem hafa leitt til endurskoðunar löggjafar æ ofan í æ, þá hefur ekki verið auðið í þetta sinn að hafa annan hátt á. En ég skal fúslega fallast á, að það er ekki til fyrirmyndar, og það er sjálfsagt, ef ég hef einhver afskipti af því máli, að reyna að vinna að því, að það geti orðið með öðrum hætti, og við skulum líka vonast til þess og gerum það vafalaust allir, að við stöndum ekki næsta ár eða um næstu áramót andspænis sambærilegum erfiðleikum og við höfum þurft að leysa nú.