16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að árétta það, sem ég sagði áðan um meðferð þessa máls hér.

Hæstv. ráðh. virtist undrast það, að við hefðum ekki fengið nægar upplýsingar í n. Ég get skýrt frá því að það voru haldnir tveir fundir í fjhn. um þetta mál. Sá seinni var haldinn á skírdag. En þegar farið var að hringja kirkjuklukkum, var fundi slitið, svo að menn gætu farið í kirkju. Það var vissulega búið að upplýsa mjög margt á þessum tveimur fundum. En áreiðanlega hefði það verið ýmislegt fleira, sem hefði verið þörf á að athuga og menn hefðu gjarnan viljað athuga, ef næði hefði gefizt til. En hvað er svo að segja um framhaldið, um meðferð málsins yfir páskahelgina? Eftir að þessum nefndarfundi lýkur á skírdag, eru eintómir helgidagar, þangað til málið er tekið hér fyrir í d. Og okkur var gert að gera nál. og ganga frá því yfir páskahelgina. Við áttum þess engan kost að ræða málið t.d. á flokksfundi, eins og venja er um stórmál, engan, né ráðgast um meðferð þess í einstökum atriðum, auk þess, eins og ég var að segja, að það voru auðvitað ekki nándar nærri allar þær upplýsingar fram komnar, sem menn hefðu viljað fá fram um þetta mjög svo umfangsmikla mál, sem hér er til meðferðar. Þannig er meðferð málsins. Hæstv. fjmrh. viðurkennir það, að þetta frv. er allt of seint fram borið og það er allt of stuttur tími til þess, að hægt sé að meðhöndla það á eðlilegan hátt hér í Alþ. En hvernig stendur á því, að þessi tími er svona naumur? Ég spurðist fyrir um það í minni ræðu áðan, hvernig á því stæði, að Alþ. þyrfti að slíta á laugardag og engum öðrum degi. Og hæstv. ráðh. svaraði því engu. En ég vil spyrja um þetta enn. Ég álít, að starfstími Alþ. hverju sinni eigi ekki að markast af einhverjum einum og ákveðnum degi, heldur eigi hann að markast af þeim verkefnum, sem Alþ. hefur með höndum og ljúka þarf að dómi meiri hl. Alþ. Og það þarf að stilla svo til, að hægt sé að vinna að þeim á eðlilegan hátt. En eins og þetta mál ber hér að, — ég árétta það, sem ég sagði áðan, — þá virðist bara alls ekki að því stefnt, að Alþ. fjalli um þetta mál á eðlilegan hátt, heldur er málinu fleygt hér inn í þingið á allra síðustu dögum og síðan er ætlazt til þess, að málið sé samþ. óbreytt að öllu. Það er sannleikurinn um meðferð þessa máls og fjölmargra annarra mála hæstv. ríkisstj.