16.04.1968
Neðri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi minnast hér á í tilefni þess, sem ég sagði í ræðu minni við 2. umr. út af framkvæmdum á Vestfjörðum. Og það var í sambandi við ráðstöfun á fé til Bolungarvíkurhafnar. Það var kannski nokkuð vafasamt að fullyrða um það á þessu stigi, um þá ráðstöfun fjárins, sem ég gerði þar grein fyrir í sambandi við Bolungarvíkurhöfn. Þannig standa sakir, að þar hefur gerzt mikið óhapp í vetur. Höfnina hefur fyllt að mestu af sandi, þannig að hún er lítt nothæf. Af þessu hafa risið mjög alvarleg vandkvæði, sem öllum hv. dm. munu vera Ijós, og hefur komið til athugunar um það, hvernig hugsanlegt væri að leysa þennan vanda. Og það, sem hefur komið til álita í því efni, er að leita eftir samkomulagi um það við Ísafjarðarkaupstað, að þar verði frestað framkvæmd, sem áformuð var á þessu ári, eða undirbúningi framkvæmdar, sem átti að verja verulegu fé til og féð yrði látið renna til Bolungarvíkurhafnar til að leysa hennar brýna vanda í ár með það svo í huga, að Ísafjörður sitji að því fé á næsta ári, sem annars hefði verið varið til Bolungarvíkurhafnar. Það var aldrei ætlunin, að framkvæmdir í Bolungarvík biðu nema til næsta árs, en talið líklegt af hafnaryfirvöldum, að þær gætu beðið í sumar, en nú hefur hins vegar farið svo óvænt sem ég áðan gat um.

Þetta er nú í athugun með viðræðum við viðkomandi aðila, og ég tel vonir standa til, að það takist að leysa þennan vanda með gagnkvæmum skilningi allra, sem hlut eiga að máli, en ég tel rétt. að þetta komi hér fram, þannig að þessi fyrirvari sé um þetta efni. Samþykki Ísafjarðarkaupstaðar liggur ekki endanlega fyrir. Þetta hefur verið rætt jafnframt við alla þm. kjördæmisins, sem hafa ríkan skilning á nauðsyn þess að leysa vandamálið, en ég tel sem sagt rétt að láta þennan fyrirvara koma fram með hliðsjón af því, að ég fullyrti ákveðið í orðum mínum áðan, að fé yrði varið til Bolungarvíkurhafnar á þessu ári, en þetta er þannig til komið.