28.11.1967
Efri deild: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég hygg, að höfuðröksemdirnar í þessu máli hafi þegar komið fram við 1. umr. og mun þess vegna ekki vera langorður að þessu sinni, þótt ýmsu mætti svara. N. hefur klofnað um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og hv. Nd. gekk frá því, og því verði felldar þær brtt., sem útbýtt hefur verið hér á þskj. 99 frá hv. minni hl., en hinar sömu brtt. hafa þegar legið fyrir Nd. og verið felldar þar.

Ég á mikla von á því, að aðalatriði þessa máls eigi fyrir sér að verða rædd ítarlega í alþjóðar áheyrn í þeim bardaga, sem nú á að hefjast í kvöld, og ætla ég að gera mitt til að tefja hv. þdm. ekki frá að njóta góðrar máltíðar og ofurlítillar hvíldar áður en sú orrahríð byrjar; ég legg þess vegna til, að frv. verði samþ. óbreytt og vísað til 3. umr.