17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv það, sem hér liggur fyrir, er þess efnis að afla heimildar fyrir ríkisstj. til að taka lán með ýmsum hætti til að standa straum af þeim framkvæmdum, sem ríkisstj. telur óumflýjanlegt af ýmsum ástæðum að fjármagna með sérstökum lántökum á þessu ári. Undanfarin ár hefur árlega verið aflað slíkra heimilda og samin sérstök áætlun um ýmsar ríkisframkvæmdir, sem talið hefur verið nauðsynlegt að afla sérstaks fjár til, til viðbótar því fé, sem veitt er til þeirra í fjárl.

Þessar framkvæmdaáætlanir hafa verið með tvennum hætti. Annars vegar fjáröflun til ríkisframkvæmdanna í þrengri merkingu og hins vegar fjáröflun til hinna ýmsu framkvæmdasjóða atvinnuveganna. Samkv. l., sem nú gilda um Framkvæmdasjóð Íslands, var þeim sjóði fengið það hlutverk að afla fjár til framkvæmdasjóða atvinnuveganna. Framkvæmdasjóðurinn hefur ákveðið fjármagn sjálfur, sem hann ráðstafar árlega til þeirra þarfa, en til viðbótar hefur jafnan verið nauðsynlegt, einnig eftir tilkomu framkvæmdasjóðsins, að afla verulegs fjármagns til viðbótar til þess að fullnægja þörfum sjóðanna eða að veita þeim það viðbótarfjármagn, sem talið hefur verið óumflýjanlegt að afla, til að þeir geti starfað með eðlilegum hætti, og þessi fjáröflun er áfram innan ramma fjáröflunaráætlunar ríkisstj. Það er svo aftur framkvæmdasjóðurinn, sem raunverulega skiptir þessu fé á milli hinna einstöku framkvæmdasjóða.

Það er ætlunin, að á morgun verði flutt hér almenn grg. um framkvæmdaáætlunina í Sþ., hliðstæð þeirri, er flutt hefur verið af fjmrh. undanfarin ár, þar sem bæði verður gerð grein fyrir í einstökum atriðum fjáröflun til ríkisframkvæmda og þeim framkvæmdum, sem aðallega verður unnið að, ekki eingöngu þeim, sem eru innan þessarar framkvæmdaáætlunar í þrengri merkingu, sem hér er verið að fjalla um, heldur þeim, sem almennt verður unnið að á vegum þess opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, og jafnframt gerð grein fyrir niðurstöðum framkvæmda s.l. framkvæmdaárs og þeim viðhorfum, sem ríkjandi eru í efnahagsmálum og grundvallarþýðingu hafa fyrir fjárfestingarmál ársins. Ég mun því ekki fara langt út í þessa sálma við grg. fyrir þessu frv., til þess að lengja það ekki um of, en aðeins með fáum orðum víkja að viðhorfinu, sem við blasti, þegar framkvæmdaáætlunin, sem hér er til meðferðar, var í undirbúningi.

Það er vitanlega eðlilegt, að framkvæmdaáætlunin sé unnin sem mest í sambandi við fjárlög, og það hafa komið fram kvartanir um það hér á Alþ., sem ég tel ekkert óeðlilegar, að þetta beri að með þeim hætti, að þessi mál komi of seint fram, bæði fjáröflunarúrræðin og lántökuheimildirnar, og þá ekki síður grg. um framkvæmdaáætlunina í heild. Það var ætlunin á s.l. hausti að breyta þessu á þann hátt, að þá var gerð bráðabirgðaframkvæmdaáætlun yfir helztu ríkisframkvæmdir jafnhliða undirbúningi fjárlaga, og sú áætlun var gerð einmitt vegna þess, að menn sáu, að efnahagsþróunin var slík og ástandið á peningamarkaðinum, að það mundi verða mjög erfitt á árinu 1968 að afla nauðsynlegs fjár til framkvæmdaáætlunarinnar. Af þessum sökum þótti nauðsynlegt að gera sér þá þegar grein fyrir þeim viðfangsefnum, sem óumflýjanlegt yrði að vinna að á árinu 1968, og líkunum fyrir því, með hvaða hætti væri hægt að afla fjár til framkvæmdanna. Síðan þetta gerðist hafa orðið, eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, mjög miklar breytingar á allri efnahagsaðstöðu. Vandanum var þá mætt með því, að í fjárlagafrv. voru teknar verulegar fjárhæðir til ýmissa ríkisframkvæmda, sem á s.l. ári og árunum þar næst á undan höfðu verið fjármagnaðar með lánsfé, og gert ráð fyrir að verja til þeirra fé beint úr ríkissjóði. Eftir áramótin var ljóst, að breyting var mjög mikil í öllum þessum efnum, sem ég þarf ekki hér að fara út í nánar. Þá varð að gera sérstakar ráðstafanir til aðstoðar sjávarútveginum til viðbótar gengisbreytingunni, og þeim ráðstöfunum og þeirri auknu fjáröflun, sem nauðsynleg var í því sambandi, var mætt með ýmsum aðgerðum, sem ég þarf ekki hér að rekja, en m.a. stóðu menn andspænis þeim vanda að afla um 60 millj. kr. með einhverjum hætti umfram þær ráðstafanir, sem þá þóttu tiltækar. Það varð í rauninni að fara einhverja þriggja leiða, að skera niður þessar framkvæmdir, leggja á nýja skatta til að mæta þeim eða freista þess að fjármagna þær innan framkvæmdaáætlunarinnar, þ.e.a.s. færa í rauninni til baka yfir á framkvæmdaáætlunina þær framkvæmdir, sem höfðu verið teknar inn í fjárlagafrv. í haust, miðað við þá aðstöðu, sem þá var fyrir hendi.

Vitanlega hafði á þessu tímabili síður en svo vænkazt um það að afla fjár innanlands til framkvæmdaáætlunarinnar, þannig að þetta var ljóslega ekki hægt með neinu móti nema með nýjum fjáröflunaraðgerðum, og af þeim sökum hefur verið kannað á undanförnum mánuðum, hvort auðið væri að fá allverulegt erlent lán, sem að vísu er einnig torfengið nú á dögum, til þess að leysa þennan vanda. Vitanlega væri mjög hæpið á venjulegum tímum að taka slíkt lán, og það hefur ekki verið tekið síðan 1963, slíkt framkvæmdalán, enda ekki eðlilegt miðað við þá þenslu, sem verið hefur í landinu. Það hefur hins vegar ekki þótt óeðlilegt miðað við þann samdrátt, sem í ýmsum greinum verður vart, að grípa til slíkra aðgerða til þess að stuðla að því að halda uppi fullri atvinnu. Og miðað við það, að fjármagn og spenna á vinnumarkaði er ekkert svipuð og verið hefur undanfarin ár, ætti það ekki að hafa sömu afleiðingar, þó að gripið væri til slíkrar ráðstöfunar.

Það er of snemmt að fullyrða um það nú, hvort tekst að fá þetta lán, en það miklar vonir standa til, að auðið sé að fá það, að leitað er hér heimildar fyrir slíkri lántöku, og jafnframt er beinlínis reiknað með því, að framkvæmdaáætlunin byggist að töluverðu leyti á öflun þessa nýja fjármagns. Það er því ljóst, að ef slíkt lán ekki fæst, leiðir það af sér, að það verður að gera grundvallarendurskoðun á allri framkvæmdaáætluninni, en á þessu stigi vil ég þó vonast til, að til þess þurfi ekki að koma. Enn þá er ekki fullvitað, í hvaða gjaldeyri þetta lán yrði tekið, og af þeim sökum er fjárhæðin nefnd í ísl. krónum eða jafnvirði þeirra í erlendri mynt, en gert hefur verið ráð fyrir því, að lánsupphæðin yrði 2 millj. sterlingspunda eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt. Það er gert ráð fyrir því, að þetta erlenda lán skiptist síðan á milli fjárfestingarsjóðanna, sem léttir að sjálfsögðu á bankakerfinu, því að fjár til þeirra hefur hingað til verið aflað innanlands, og mun vart gerlegt að gera það með öðrum hætti. Og að öðru leytinu fer rúmur helmingur lánsins til hinna opinberu framkvæmda.

Innanlandsfjáröflun er verulega miklu minni en var á s.l. ári, og kemur þar fyrst og fremst það til, sem ég áðan gat um, að þröngt er mjög á innlendum lánamarkaði. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að spariskírteinalán verði aðeins 75 millj. kr. í staðinn fyrir 125 millj. á s.l. ári, og ekki þykir sennilegt, miðað við þá þróun, sem nú er, að samningar við bankana, sem einnig hafa verið teknir upp um sérstakt framlag þeirra til fjárfestingarlánasjóðanna, 10% af innlánsaukningu, muni gefa nema 50 millj. kr., ef það þá nær þeirri fjárhæð.

Þá hefur sömuleiðis einn tekjuliður algerlega fallið niður, sem var í framkvæmdaáætluninni síðast, en það voru 53 millj. kr., sem hægt var að verja af greiðsluafgangi ársins 1966, og að sjálfsögðu er nú ekki til staðar.

Það er því í fyrsta lagi leitað hér heimildar til þess að mega bjóða út spariskírteinalán að upphæð 75 millj. kr. með sömu kjörum og gert hefur verið undanfarin ár.

Þá er í öðru lagi leitað eftir heimild til þess að taka það erlenda lán, sem ég gat um, að jafnvirði 275 millj. kr.

Í þriðja lagi er leitað heimildar til þess að taka áframhaldandi lán hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins vegna Vestfjarðaáætlunar eða samgöngumála á Vestfjörðum að fjárhæð 500 þús. dollara.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að fá heimild til lántöku hjá ríkisstjórn Bandaríkjanna, PL-480 láni, allt að 1 millj. 425 þús. dollurum, og þá er enn fremur leitað eftir heimild til þess að taka lán vegna tækjakaupa í þágu flugmála og raforkumála allt að 10 millj. kr., en það er sams konar lán og tekin hafa verið undanfarin ár.

Síðast er svo leitað heimildar til þess, að fjmrh. megi fyrir hönd ríkissjóðs taka innlend eða erlend lán að jafnvirði allt að 90 millj. kr. til smíði tveggja strandferðaskipa, en þess lánsfjár er nauðsynlegt að afla í því skyni, og verður það að verulegu leyti tekið í sambandi við vörukaup erlendis til þessara framkvæmda.

Það er gert ráð fyrir, að lán vegna Vestfjarðaáætlunar verði á vegum framkvæmdasjóðsins, en skiptist þannig, að til vegamála á Vestfjörðum fari 16 millj., hafnarmála 9,8 millj. og flugmála 1,2 millj., eða alls 27 millj. kr.

Í 11. gr. frv. er gerð grein fyrir því, hvernig ætlunin er að ráðstafa því lánsfé, sem á að ganga til framkvæmdaáætlunarinnar sjálfrar, en í 10. gr. er leitað heimildar til að endurlána framkvæmdasjóði af þessu erlenda lánsfé 113 millj. kr., sem síðan verður skipt á milli sjóðanna af framkvæmdasjóðsstjórninni, svo sem ég áðan gat um og fer ekki nánar út í.

Í 11. gr. eru tilteknar þær ýmsu framkvæmdir, sem ætlunin er að ráðstafa fénu til. Það eru í fyrsta lagi 20,3 millj. til Rafmagnsveitna ríkisins. Það er til almennra framkvæmda á þeirra vegum, svo sem verið hefur undanfarin ár, bæði í sambandi við dísilstöðvar, endurbætur kerfa og eitt og annað. Þetta fyrirtæki er því miður mjög illa statt fjárhagslega og hefur lengi verið, eins og hv. þm. er kunnugt, og hefur þurft að afla því láns til að standa straum af öllum þess framkvæmdum, og verður svo einnig að gera í þetta sinn.

Annar liður er raforkumál, sérstakar framkvæmdir. Þar er um tvö atriði að ræða 5 millj. eiga að ganga til Rafmagnsveitna ríkisins, og verður það fé aðallega notað í sambandi við ýmsan undirbúning við orkuveitur, en 10 millj. er ætlunin, að til ráðstöfunar verði í sambandi við gufuaflsstöð, sem kann að verða reist í Námaskarði, og allar horfur eru á, að verði reist í rauninni sem upphaf Laxárvirkjunar. Það er talið mjög hagkvæmt fjárhagslega að reisa slíka stöð með nýrri aðferðum en þeim, sem áður hafa verið notaðar við gufuaflsstöðvar hér á landi, og það er nauðsynlegt að sjá fyrir einhverju fjármagni í þessu sambandi. Hér er ekki um dýra stöð að ræða, enda mundi hún ekki verða nema í kringum 3 megavött, en það er ætlunin, að 10 millj. af þessu lánsfé verði handbærar til þeirrar ráðstöfunar.

Þá er gufuveitan í Reykjahlíð. Hún er í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna og er samningsbundið, að ríkið leggi henni til gufu, en þessi stöð verður svo að sjálfsögðu greidd af kísilgúrverksmiðjunni með leigugjaldi eða afnotagjaldi af jarðhita.

Þá er næsti liður jarðborun á Reykjanesi. Það er hugmyndin að framkvæma sérstaka jarðborun nú í sumar með hliðsjón af þeim athugunum, sem eru í gangi og hafa farið fram um sjóefnaverksmiðju, sem talið er eðlilegt, að verði reist hér á Reykjanesi, ef þar finnst nægur jarðhiti. Hér er að sjálfsögðu um mjög mikilvæga framkvæmd að ræða miðað við atvinnuástand í landinu að reyna að hagnýta alla þá möguleika, sem tiltækir eru í því sambandi, og þykir þess vegna ekki fært að fresta þessari athugun.

Til landshafnanna eru ætlaðar 40 millj. Það fer aðallega til framkvæmda við Þorlákshöfn og Njarðvíkurhöfn, sem báðar eru í gangi skv. verksamningi og óumflýjanlegt er að afla fjár til. Smáupphæð fer einnig til Rifshafnar af þessu, en það eru aðallega þessar tvær landshafnir.

Vegirnir fá 82.6 millj. og raunar þó meira, vegna þess að til viðbótar eru 10.9 millj. vegna Hafnarfjarðarvegar í Kópavogi, sem gert hefur verið samkomulag um milli samgmrn. og bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar að ráðizt verði í og hafizt framkvæmda á nú á þessu ári. Þessi vegaframkvæmd á að greiðast með sérstökum hætti af kaupstaðafé til vega, en það er nauðsynlegt að afla lánsfjár á vissum tímabilum til þess að standa straum af framkvæmdinni, því að hún gengur hraðar en tekjurnar koma inn á móti, og er því gert ráð fyrir, að aflað verði um 11 millj. á þessu ári til þessara framkvæmda. En vegirnir eru að öðru leyti þessir: Reykjanesbraut 43.7 millj., sem er fyrst og fremst fjáröflun til þess að standa straum af árgjöldum lána, sem á brautinni hvíla. Til viðbótar því er að vísu nokkur framkvæmd á þessu ári til að ljúka við Reykjanesbraut í nánd við Hafnarfjörð. Þá eru 3.6 millj. til Breiðholtsvegar, sem er í sambandi við byggingaráætlunina hér og hvílir á ríkinu sú skylda að sjá fyrir veg að þessu svæði. Gert er ráð fyrir, að Heydalsvegur fái 1.5 millj., Siglufjarðarvegur 1/2 millj. Það er það, sem á vantar til þess að sjá fyrir fjárþörf þessa vegar til viðbótar við það, sem er í vegáætlun. Kísilvegurinn við Mývatn 11.6 millj. til viðbótar þeim 15 millj., sem eru í fjárl. Ætlunin er að ljúka þeim vegi nú á þessu sumri. Það er einnig samningsbundið verk, og var samið á s.l. ári við verktaka um að ljúka þessari framkvæmd, og verður því að inna þessa greiðslu af hendi. Austurlandsvegur 1.5 millj. kr. Þá eru 10 millj. kr., sem þarf að greiða Landsvirkjun vegna vegar, sem gerður var í sambandi við Búrfellsvirkjun og Landsvirkjun lagði fram fé til á fyrsta stigi, og 10 millj. eru ætlaðar til þess að greiða afborgun og vexti af lausaskuld við Hambrosbanka, sem einnig er vegna Reykjanesbrautar. Gert er ráð fyrir að öðru leyti að reyna að fá samning um þetta lán til nokkurra ára, en lágmark að verða að greiða þessa upphæð af láninu.

Hér er því að meginefni um að ræða fjárhæðir, sem óhjákvæmilega verður að greiða á þessu ári í sambandi við margvíslegar skuldbindingar, bæði til greiðslu lána og til þess að geta staðið við verksamninga.

Til flugmála eru ætlaðar 6 millj. kr. Það er ekki til neinna ákveðinna flugvalla, heldur er gert ráð fyrir, að það sé viðbótarframkvæmdafé flugmála, og verður það þó allverulega minna á þessu ári en s.l. 2 ár. Þessu fé verður skipt á milli einstakra flugvalla af flugráði og samgmrn., eins og gert hefur verið undanfarin ár með allt framkvæmdafé flugmálanna.

Skólana og sjúkrahúsin þarf ekki að útskýra. Það eru liðir, sem voru teknir út úr fjárlögum og verða fjármagnaðir innan framkvæmdaáætlunar með þessum hætti.

Lögreglustöðin í Reykjavík hefur verið hér alllengi í smíðum. Upphaflega var samið við bankana um sérstök lán til þeirrar framkvæmdar. Þetta hefur, eins og margar aðrar framkvæmdir, farið verulega fram úr áætlun, enda það langur tími liðinn, síðan upphaflegar áætlanir voru gerðar. Það er mikil nauðsyn, að þetta mannvirki þurfi ekki lengi enn að standa hálfkarað og því talið nauðsynlegt að afla nokkurs fjár innan framkvæmdaáætlunar til að þoka því áleiðis. Stærsta upphæðin innan þessarar fjáröflunar er þó framlag til Búrfellsvirkjunar, 75 millj. Ríkinu er skylt að leggja 100 millj. fram til Búrfellsvirkjunar. 25 millj. voru lagðar fram í fyrra. Viðbótin verður að leggjast fram á þessu ári, og þar sem ekki var mögulegt að taka þetta inn í fjárlög sem bein framlög, enda kannske ekki eðlilegt að gera það, er gert ráð fyrir, að þess verði aflað með láni á þennan hátt.

Heildarframkvæmdaáætlunin, bæði fyrir sjóðina og ríkisframkvæmdirnar, er 575 millj. Það er nokkru hærri fjárhæð en á s.l. ári. Þá nam heildarupphæðin 521 millj. Að vísu er vafasamt, hvort þar er um hærri upphæð að ræða, þegar tekið er tillit til verðhækkana, en krónulega séð er um nokkru hærri fjárhæð að ræða í heild. Það er rétt að leggja áherzlu á það, að hér er vitanlega ekki um að ræða nema lítinn þátt fjármunamyndunar hins opinbera, og skal ég aðeins til skýringar því nefna þá heildartölu, sem þar er um að ræða, sem sagt bæði framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga.

Fjármunamyndun hins opinbera, þessara aðila, varð á árinu 1967 samkv. bráðabirgðaniðurstöðu 2 milljarðar 490 millj. Það er áætlað, að á árinu 1968 nemi þessi fjárhæð 3 milljörðum 210 millj. á verðlagi ársins 1968, en á verðlagi ársins 1967 eru það 2 milljarðar 770 millj. eða nokkru hærri upphæð en á árinu 1967 miðað við fast verð. Hér munar að sjálfsögðu mest um Búrfellsvirkjun, þannig að aðrar fjárfestingar eru heldur minni. Út í þetta skal ég ekki nánar fara, það mun ég gera í skýrslu minni á morgun, en nefni aðeins þessa tölu til þess að sýna, að þessi fjáröflunaráætlun, sem hér er um að ræða til ríkisframkvæmda og sjóða, er að sjálfsögðu ekki nema lítill þáttur heildarfjárfestingarmála ríkisins á þessu ári.

Með frv. fylgja tvær töflur, tafla I, sem er sundurliðun á framkvæmdaáætlunarfénu í þrengri merkingu, og tafla II, sem er um þær opinberu framkvæmdir, sem framkvæmdaáætlunin fjallar um, þ.e.a.s. þar er einnig tekið annað fjármagn, sem rennur til þeirra framkvæmda, sem sýnir, að samtals er þar um að ræða framkvæmdir upp á 639,9 millj., eða fjáröflun upp á 639,9 millj., en þessi sérstaka fjáröflun hér er aðeins 330,2 millj., þannig að hitt féð kemur með fjárveitingum og úr ýmsum áttum, sem þar er nánar gerð grein fyrir.

Ég tel ekki rétt, herra forseti, að lengja tímann með lengri ræðu, nema tilefni gefist til frekar í umr., en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.