17.04.1968
Efri deild: 93. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til þess að vera að tala langt mál um þetta frv. Málsmeðferðin er þannig, að útskýringarnar koma allar á eftir. Það er boðað, að framkvæmdaáætlunin verði flutt á morgun, en þetta frv. á að ræðast í dag, en allt er þetta nú saman tengt að mínu áliti. Mér finnast þetta ekki vera rétt vinnubrögð, því að ég held, að það sé mjög satt og rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að vitanlega ættu þm. að fá þessi mál öll í samhengi, ef þeir ættu að geta áttað sig á þeim eins og þeir hljóta að þurfa að gera. En um það er ekki að ræða. Þessi fundur verður að halda áfram, þetta mál verður að ræðast ná með hálftíma hléi af einhverjum ástæðum, en lengri frestur er ekki gefinn. En það eru þó örfá atriði, sem mig langar til að gera hér að umtalsefni.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að mér finnst þetta mál vera furðulega seint lagt fyrir hv. Alþ., þegar búið er að slá því föstu, að þingi skuli ljúka á laugardaginn eða eftir tvo daga, hvernig sem á stendur. Og mér finnst það sérstaklega furðulega seint á ferðinni, vegna þess að það liggur fyrir, að þessi drög a.m.k. hafa verið til alllangan tíma. Bankastjórar hér í Reykjavík voru kvaddir til fundar hjá formanni framkvæmdasjóðs þann 2. apríl. Þar var þeim fengið plagg, sem að vísu var talið trúnaðarmál, en hefur inni að halda nákvæmlega eða svo til alveg nákvæmlega þessar tölur, sem nú eru lagðar fram í frv.-formi. Hvaða ástæða liggur til þess, að bankastjórum er gert hærra undir höfði en Alþ., skal ég ekkert um segja. Auk þess hygg ég, að þessi áætlun hafi legið fyrir í nokkurn tíma hjá stjórn framkvæmdasjóðs, áður en umræddur bankastjórafundur var haldinn, og mér finnst, að það hefði átt að sýna Alþ. þann sóma að sýna þm. þetta frv. og þessar áætlanir svona nokkurn veginn jafnsnemma og þessum aðilum, sem ég var áðan að minnast á, án þess að ég vilji gera þeirra hlut á nokkurn hátt lítinn.

Það eru í þessu frv. ráðgerðar lántökur upp á 570 millj. kr. Ein lántakan er sérstaks eðlis. Til hennar er aðeins leitað heimildar, þ.e. þar sem fjallar um í 12. gr., að heimilt sé að taka 90 millj. kr. lán til smíði tveggja strandferðaskipa. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé neinn ágreiningur um það, en líklegt er skv. frv., að þetta lán hafi ekki enn þá fengizt, en sjálfsagt er rétt að afla heimildarinnar um leið og þetta frv. er lagt fram. Ég tek það þá hér með út úr dæminu, en engu að síður er þar um lántökuheimild upp á 90 millj. kr. að ræða. Sama vil ég raunar segja um 10 millj. kr. lántöku til tækjakaupa í þágu flugmála og raforkumála. Þær koma ekki frekar í þetta dæmi eins og ég hafði hugsað mér það, en þarna er um 100 millj. kr. lántöku að ræða.

En lántökur að öðru leyti eru þannig, að erlent lán á að taka upp á 275 millj., spariskírteini skal selja innanlands upp á 75 millj., svo er póstur, sem kallaður er endurkaup spariskírteina, sem mig langar til að gera að umtalsefni aðeins síðar og áætlað er 50 millj., lán frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins 28.5 millj., vörukaupalán frá Bandaríkjunum, svo kallað PL-480 lán upp á 46 millj., og svo er lántaka hjá bönkum landsins, 10% af sparifjáraukningu ársins, sem áætlað er 50 millj., bráðabirgðalán upp á 12.2 millj., og eigið fé fram. kvæmdasjóðs upp á 53.3 millj., þá eftir því, sem sýnist. Þessar lántökuheimildir eru þá með eigin fé framkvæmdasjóðs 590 millj. Af þessu er svo ráðstafað 575 millj., en 15 millj, eru þarna einhvers staðar í lausu lofti, og væri fróðlegt að fá skýringu á því, hvers vegna þarf að gera ráð fyrir bráðabirgðalántöku upp á 12.2 millj., þegar ákveðnar lántökur virðast gera meira en nægja fyrir þeim framkvæmdum, sem vinna á. Það verður væntanlega upplýst.

Þetta fjármagn, sem hér er um að tefla, skiptist í tvennt. Annars vegar er framkvæmdasjóður, sem ráðstafar 1) eigin fé sínu, 2) 10% af sparifjáraukningu bankanna, hver sem hún kann að verða, áætlað 50 millj., 3) 113 millj. af erlendu láni og 4) 28.5 millj. kr. af láninu frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins eða samtals 244.8 millj. Um þetta er svo ekkert frekar sagt í frv., það er mál framkvæmdasjóðs. Mig minnir, að það sé þannig ákveðið í lögum hans, að sjóðstjórnin hafi ráðstöfunarrétt á þessu. Hins vegar er þetta ekki alþm. algerlega óviðkomandi, hvernig framkvæmdasjóður ráðstafar því fé, sem hann hefur undir höndum, og mér þætti fróðlegt að fá skýringar á því eða upplýsingar um það, skulum við segja, t.d. í hv. fjhn., þegar hún heldur fund, hvernig lánin skiptast, sem framkvæmdasjóður ráðstafar, milli erlends fjármagns og innlends, en það hefur vitanlega mjög mikla þýðingu fyrir þá, sem lánin taka, vegna þess að erlenda lántakan er með gengisákvæði, hún hefur gengisáhættuna. Lántakarnir bera gengisáhættuna, eins og segir í 6. gr. frv., að „heimilt er að endurlána fé samkv. 5. gr., og skal það gert með gengisákvæði“.

Nú veit ég ekki, hvort heimilt er að upplýsa hér það, sem bankastjórar og forstöðumenn banka fengu að vita um fyrirhugaða ráðstöfun þessa fjár hjá framkvæmdasjóði. Ég skal allavega ekki gera það, nema leyfi fáist til, en þar er þessi skipting sundurliðuð mjög nákvæmlega og getur áreiðanlega orkað tvímælis, hvaða atvinnuvegir eigi að búa við þau kjör að hlíta gengisálagi og hvaða atvinnuvegir eigi að fá lánin í innlendu fjármagni. Að öðru leyti skal ég ekki ræða um hlut fjárfestingarlánasjóðanna eða framkvæmdasjóð í þessu frv., þar sem það er sérstakt mál.

Um þær opinberu framkvæmdir, sem framkvæma á fyrir umrætt lánsfé, er einnig hægt að vera nokkuð stuttorður, vegna þess að hæstv. fjmrh. gaf nú nokkrar skýringar á því, hvaða framkvæmdir það eru, sem hugsað er að vinna fyrir þetta fjármagn. Það er auðvitað alltaf álitamál, hvaða opinberar framkvæmdir á að leggja áherzlu á. Það er vitað og viðurkennt, að ekki er hægt að gera allt, sem gera þarf, í einu, og það verður matsatriði, hvað verður tekið fram fyrir. Ég mun ekki halda uppi neinni sérstakri gagnrýni á þá ráðstöfun, sem hér er lögð til, enda er hér að mestu leyti um að ræða lið í víðtækara framkvæmda- og fjáröflunarkerfi, eins og hæstv. fjmrh. réttilega gerði grein fyrir hér áðan. Um smávægilegan mismun á þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, og þeim upplýsingum, sem gefnar voru í hv. fjhn. beggja d., þegar þær héldu fundi á skírdag s.l., skal ég ekki ræða mikið, en að mismunur skuli þó geta komið fram sýnir það, að vinnan er ekki nægilega vel undirbúin. Það kom fram smámismunur, eftir því sem ég tók eftir, á ráðstöfun fjármagns þess, sem aflað er frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðs og lagt er í vegi á Vestfjörðum, mismunur upp á eitthvað 2 eða 3 millj. Það er vafalaust hægt að fá skýringar á því utan þessa fundar, og ég skal ekki halda uppi neinu málþófi út af svo litlu tilefni í öllu þessu stóra máli. (Gripið fram í.) Ég tók nú ekki eftir því, ég þurfti aðeins að fara frá, svoleiðis að ég ábyrgist nú ekkert, en ég tók eftir þessum mismun, og ég tel víst, að hæstv. ráðh. hafi skýringar á reiðum höndum á honum, enda geri ég það ekki að neinu atriði í sambandi við þetta mál sérstaklega.

Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. áðan, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki fundizt tilhlýðilegt eða mögulegt að leggja jafnþungar byrðar á bankakerfið í landinu og gert hefur verið á undanförnum árum. Mig langar til þess að athuga þessa staðhæfingu örlítið nánar. Eins og allir hv. dm. vita og margoft hefur verið rifjað upp, þá eru þessar kvaðir bankanna aðallega með þrennu móti. Það er í fyrsta lagi almenn sparifjárbinding, bundin 30% af nýju sparifé, sem myndast í bönkunum, þó aldrei meira en 20% af heildarinnstæðu hvers banka fyrir sig. Það hefur í öðru lagi verið gerður samningur við bankana um það, að þeir legðu fram 10% af nýju sparifé, sem myndaðist í bönkum ár hvert, og það hefur í þriðja lagi verið keppt við bankana um fjármagnið með útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa og spariskírteina, sem eru þannig úr garði gerð, að bankarnir hafa enga möguleika til þess að standast þá samkeppni, hafa enga möguleika haft til þess, eru kannske að fá einhverja möguleika til þess, en þó mjög takmarkaða eins og ég mun kannske koma örlítið að síðar.

Hvað er það þá af þessum þremur atriðum, sem hefur verið fellt niður af hæstv. ríkisstj. í ár, en verið haft uppi s.l. ár? Það er ekki almenna bindingin, reglum um hana er ekki breytt. Það á enn þá að binda 30% af nýju sparifé, sem myndast í bönkunum. Eins og hæstv. fjmrh. upplýsti hér áðan, standa nú yfir samningar við bankana um það, að þeir leggi enn sem fyrr 10% af nýju sparifé til kaupa á ríkisskuldabréfum eða ríkistryggðum skuldabréfum til þess að nota í framkvæmdaáætlunina, enda gert ráð fyrir því fjármagni hér. Það er áætlað 50 millj. Það veit auðvitað enginn, hvað það verður, en það lítur ekki vel út, að það verði einu sinni sú upphæð. — [Fundarhlé].

Herra forseti. Mig minnir, að ég væri kominn þar áðan, sem ég var að reyna að gera samanburð á því, hvaða kvaðir hæstv. ríkisstj. vildi leggja á bankana eða treysti bönkunum til að bera nú annars vegar, og svo hins vegar á fyrri árum, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að af þrennum álögum, sem bönkunum er gert að standa undir, væru tvær óbreyttar, nefnilega almenn sparifjárbinding og lán vegna innlendra framkvæmdalána. En þá er eftir þriðja atriðið, þ.e. sparifjárskírteinasala hæstv. ríkisstj. Það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að það er gert ráð fyrir því þessu frv. að selja 50 millj. kr. minna af slíkum skírteinum á þessu ári en heimildin t.d. í fyrra hljóðaði upp á, svoleiðis að í fljótu bragði mætti þá ætla, að hér væri um minni kvöð á bankana að ræða en fyrr hefur tíðkazt. En á bls. 4 á þskj. 547 er liður, sem heitir endurgreiðsla spariskírteinalána. Þegar við í fjhn. spurðum þá sérfræðinga, sem mættu á fundi n., hvaða fjármunir þetta væru, sem færðir eru teknamegin í framkvæmda- og fjáröflunaráætlunina, þá upplýstu þeir það, að þetta væri fjármagn, sem aflað hefur verið með spariskírteinum og síðan endurlánað, og hér væri um að ræða endurgreiðslur af þeim lánum. Þetta getur vel verið. Ég hef ekki nein gögn til þess að rengja þetta, má vel vera, að svo sé. En það, sem er þá að brjótast í mér, er það, hvort ekki muni koma til þess, að ríkissjóður þurfi að endurgreiða spariskírteini, sem hann áður hefur selt.

Fyrstu spariskírteinin eru gefin út samkv. l. nr. 54 frá 1964, 75 millj. kr. Í þeim l. er, eins og nú, tilsvarandi heimild við þá, sem er í 4. gr. núna, þ.e. að ráðh. er heimilt að gefa út ný ríkisskuldabréf eða spariskírteini samkv. ákvæðum 2. gr., eftir því sem á þarf að halda í stað þeirra, er upphaflega verða útgefin samkv. ákvæðum 1. gr., að viðbættri áfallinni verðlagsuppbót. Nú er það spurningin, sem mér fannst þessir sérfræðingar ekki geta svarað, þegar ég varpaði henni fram: Hvað er áætlað, að ríkissjóður þurfi að endurgreiða mikið af þessu fjármagni? Því að eins og hv. alþm. allir muna, eru þessi bréf innleysanleg eftir 3 ár. Sá tími er liðinn frá sölu fyrstu spariskírteinanna og skuldabréfanna, og mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að þannig geti á staðið, að ýmsir þeir, sem keyptu þessi skírteini, þurfi nú á sínum fjármunum að halda og fá bréfin innleyst. Þessu gátu sérfræðingarnir ekki svarað. Þeir vísuðu á Seðlabankann til þess að svara þessu. Ég hef ekki haft aðstæður til þess að leggja þessa spurningu fyrir neinn í Seðlabankanum, en vildi gjarnan leyfa mér að bera þessa spurningu fram hér og nú við hæstv. fjmrh. Það eina svar, sem ég fékk hjá sérfræðingunum, var það, að þeir sögðu: „Þessi heimild verður notuð, eftir því sem á þarf að halda.“ Hér sýnist mér vera möguleiki fyrir ríkissjóð til þess að gefa út meiri skuldabréf en þetta frv. fjallar um, og ég tel alveg víst, að menn hafi gert sér þetta ljóst, þegar þeir sömdu þessa fjáröflunaráætlun og hafi áætlað, hversu mikið komi til innlausnar af þessum bréfum. Nú kann að vera, að hugsunin sé að gefa ekki út ný bréf í stað þeirra, sem þarf að innleysa. Þá væri gott að fá að vita það. En heimildin er fyrir hendi, og svar sérfræðinganna var þetta: „heimildin verður notuð, eftir því sem á þarf að halda.“

Ef svo færi nú, að öll þau bréf, sem gefin voru út samkv. l. frá 1964, bærust ríkissjóði til innlausnar, þá var ekki um mikla tilslökun að ræða, ef þessi heimild verður notuð. Þá er þvert á móti aflað meira fjár með sölu slíkra skírteina en gert var t.d. í fyrra. En það skiptir verulegu máli fyrir bankana, hversu mikið af þessum bréfum er selt. Að vísu liggja ekki fyrir neinar áreiðanlegar skýrslur um, hvað mikið af þessu fjármagni kemur úr bönkunum eða mundi annars hafa farið í bankana, en allir, sem við banka starfa, eru, að ég held, á einu máli um það, að mjög verulegur hluti af þessu fjármagni komi þarna, og vitað er, að þegar Alþ. hafði frv. um gengisbreytinguna til meðferðar hér í eina viku í nóvembermánuði, þá fór gífurlegt fjármagn út úr bönkunum. Þá seldust öll sparifjárskírteini, sem óseld voru, og það fjármagn kom að verulegum hluta úr bönkum. Það er alveg vitað. Þetta er ein spurning, sem mig langar til þess að varpa fram.

Ég hef við fyrri tækifæri, þegar slík heimild fyrir ríkisstj. til þess að gefa út og selja ríkisskuldabréf hefur verið til umr., oft rætt um það, hversu ranglátt mér finnst, að þessi bréf séu undanþegin framtalsskyldu. Ég get vel fallizt á það, að til þess að örva sparnað séu þessi bréf höfð skattfrjáls eins og annað sparifé, en ég kem ekki auga á nauðsyn þess að hafa þau einnig undanþegin framtalsskyldu, og ég vil leyfa mér að varpa fram þeirri spurningu, hvort nokkurt samráð hafi verið haft við ríkisskattstjóra, þegar þetta ákvæði var samið. Mótbáran gegn því að hafa þessi bréf framtalsskyld hefur ævinlega verið sú, að það gerði þau ekki söluhæf. Á þá mótbáru get ég alls ekki fallizt. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt það, að þessi bréf hafa svo mikið upp á að bjóða umfram það, sem hægt er að fá með öðru móti, að þau renna út, og að framtalsskyldan mundi þar ekki, að ég hygg, breyta neinu, sem máli skipti. Hins vegar hlýtur framtalsskyldan að vera þess eðlis að auðvelda mjög eftirlit með skattgreiðslum, sem ég veit, að er hæstv. fjmrh. mjög mikið kappsmál, og hann hefur raunar sýnt á sínum embættisferli, að hann vill ganga langt í því að uppræta skattsvikin, og ég get ekki sagt annað en hrósyrði um hann fyrir það. Þess vegna finnst mér það þeim mun fáránlegra að opna hér leið fyrir þá, sem eru í vandræðum með að stinga undan fjármunum sínum, með því að ríkið sjálft gefi út skírteini, sem þeir þurfa ekki einu sinni að telja fram til skatts. Framkvæmdin á því að hafa þau framtalsskyld er mjög auðveld. Ég hef oft rætt þetta, ég skal ekki þreyta hv. þdm. á langri ræðu um þetta atriði, en ég leyfi mér að gagnrýna þetta mjög stíft enn þá einu sinni og boða það, að ég muni flytja brtt. um þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að vera að lengja þennan fund, það er nóg annað að gera. Ég sé, að það eru hér tvö mál enn á dagskrá, sem þurfa að komast að fyrir kvöldið. Þess vegna vil ég nú slá botninn í þessa ræðu, þó að margt fleira mætti um þetta segja. Ég vil aðeins að lokum segja það, að þessar lántökur eru vitanlega nauðsynlegar. Svo er nú komið, að ekki er hægt að halda uppi eðlilegum fjárfestingum og framkvæmdum á vegum hins opinbera án þess að taka til þess lán og það erlend lán, nú í fyrsta skipti um nokkra hríð. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við þær staðreyndir. Þessar framkvæmdir verða að halda áfram, þær eru allar nauðsynlegar, en það má deila um það, hvort ein er nauðsynlegri en önnur, hvort finnast kunni framkvæmdir, sem enn þá meiri þörf væri á að taka inn. Eins og ég sagði, skal ég ekki vera að karpa um það við einn eða annan, en þetta fjármagn verður að fást, og þess vegna munum við, ég a.m.k., ekki bregða fæti fyrir þetta frv. En ég vil að endingu aðeins segja það, að ég tel, að eins og ástatt er í banka- og fjárhagskerfi landsins, þá sé of mikið saumað að viðskiptabönkunum, og að rétt væri miðað við ástandið, sem nú er í þjóðfélaginu, að fella niður eða fresta, skulum við segja, almennri sparifjárbindingu, a.m.k. fyrir þetta ár og lofa bönkunum að hafa það, sem til fellur hjá þeim, til frjálsrar ráðstöfunar. Og ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að þau spariskírteini, sem seld kunna að verða, verði gerð framtalsskyld a.m.k.