28.11.1967
Efri deild: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

65. mál, verðlagsuppbót á laun og vísitala framfærslukostnaðar

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjhn. tók til meðferðar frv. til I. um verðlagsuppbót á laun, en varð ekki sammála. Minni hl. hefur skilað séráliti.

Í frv. er lagt til, að eftir 1. des. n.k. verði hætt að reikna út kaupgjaldsvísitölu og ákvæði um vísitölubætur umfram það, sem ákveðið verður 1. des., úr lögum fellt. Það er skoðun minni hl., að þessi breyt. leiði í fyrsta lagi til ófriðar á vinnumarkaði, sem sé báðum aðilum skaðlegur og þjóðinni hættulegur, og í öðru lagi, að aðhald stjórnarvalda og atvinnurekenda verði stórum minna en verið hefur.

Minni hl. flytur á sérstöku þskj. tvær brtt. Nái þær ekki samþykki, mun minni hl. greiða atkv. gegn þessu frv.

Ég hafði nú ætlað mér í framhaldi af þessu að segja hér nokkur orð, en þar sem orðið er nokkuð áliðið, skal ég mjög stytta mál mitt til þess að tefja ekki fundinn.

Það hefur mjög oft verið deilt um vísitölukerfið á undanförnum árum, kosti þess og galla, en óumdeilanlegt ætti það að vera, að þrátt fyrir ýmsa galla ætti þetta kerfi að veita ríkisvaldinu aðhald í verðlags- og dýrtíðarmálum. Ef ekki væri höfð stjórn á efnahagsmálunum, ef verðlagi væri sleppt lausu, hefði kaupgjald hækkað innan mjög skamms tíma, og þannig hefur það í reyndinni alltaf orðið. En kauphækkunin var ekki orsök, heldur afleiðing. Hún var afleiðing þess stjórnleysis, sem leiddi af sér stöðugar verðhækkanir, svo að kaupgjaldið dróst aftur úr. Þetta tímabil, þegar bann var við, að vísitala væri greidd á laun, var öllum aðilum mjög erfitt. Launastéttunum var það mjög erfitt í tekjuöflun stöðugt vaxandi dýrtíðar og verðbólgu og öllu atvinnulífi landsmanna var það enn þá erfiðara. Atvinnurekendur áttu yfir höfði sér stöðuga óvissu um allan tilkostnað við atvinnureksturinn. Aldrei var vitað, hver útgjöldin yrðu, ekki var vitað, hvaða launagreiðslur þeir þyrftu að miða við og yfirleitt hver tilkostnaðurinn yrði. Slík óvissa var óþolandi. Atvinnureksturinn þoldi ekki þessa óvissu á vinnumarkaðinum 1964, og hann þolir það enn verr í dag að fá yfir sig þetta ástand.

Þær aðgerðir, sem nú er verið að framkvæma, bjóða upp á átök á vinnumarkaðinum með skerðingu vísitölunnar, nema því aðeins að gerðar séu róttækar ráðstafanir til að draga úr því dýrtíðarflóði, sem alltaf fylgir gengislækkun. Það bjargar ekki undirstöðuatvinnuvegunum að skerða kjör launastéttanna, hvorki til lands né sjávar. Sjómenn hafa ekki, eins og formaður þeirra, Jón Sigurðsson, orðaði það, sagt upp samningum til þess að skerða kjör sín, heldur til hins gagnstæða. Og erfiðleikar atvinnuveganna stafa ekki af launagreiðslum til verkamanna eða sjómanna, það þarf annars staðar að leita að orsökunum fyrir erfiðleikunum. Það eru aðrar orsakir, sem valda því, að útgerðarmenn, sérstaklega útgerðarmenn minni bátanna og frystihúsaeigendur víðs vegar um landið, eru komnir í þrot og svo mikil vanskil, að þeir sjá enga leið út úr þeim. Þrautreyndir útgerðarmenn víðs vegar um landið sjá nú í lok viðreisnar ekkert fram undan nema botnlausa erfiðleika og eru vanskilamenn við allar lánastofnanir, sem veita sjávarútvegi fyrirgreiðslu.

Það hefur mikið verið rætt um gengisfellingu á undanförnum dögum. Ég skal ekki orðlengja eða bæta miklu við þær umr. og sleppa þeim kafla mínum hér, en fagurmæli um ástand efnahagsmála þjóðarinnar fyrir kosningarnar í vor koma heldur illa heim við þær staðreyndir, sem við okkur blasa í dag, þegar þær leiðir eru nú fyrst farnar til bjargar efnahagsmálunum út úr þessu öngþveiti, að gripið er til þess að skerða kjör launþega með afnámi vísitölu á kaupgreiðslur. Vísitala á laun er launþegum vörn gegn verðhækkunum, og vísitölugreiðslan dregur úr vinnudeilum. En fyrirkomulag þetta krefst þess, að stjórn sé á efnahagsmálunum. Orðrétt sagði eitt dagblaðanna í gær: „Hún krefst hins vegar sérstaklega nákvæmrar efnahagsstjórnar, svo að ekki fari allt úr skorðum með óstjórnlegri verðbólguþróun.“ Þetta var í forustugrein dagblaðsins Vísis í gær. Það er eins og það hvarfli að einhverjum, að það hafi ekki verið alveg nákvæmlega stjórnað eftir réttum leiðum á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég sagði áðan, að ég skyldi stytta mjög mál mitt. Ég hafði reiknað með því að tala hér a.m.k. í 1/2 klst., og mun ég þá spara hv. dm. að hlusta á það. Ég tei, að sú stefna, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum í efnahagsmálunum, hafi verið röng, og verði nú haldið áfram á þeirri braut eftir gengislækkunina, hlýtur það að leiða til óhjákvæmilegrar kjaraskerðingar alls almennings, miklu stórkostlegri, eins og hæstv. viðskmrh. tók fram hér í dag, en verið hefur og menn vilja vera láta. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv., eins og það liggur hér fyrir.