24.10.1967
Neðri deild: 8. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að tilhlutan kirkjumálastjórnarinnar og vil ég í fjarveru hæstv. dómsmrh. mæla með því, að því verði vísað til n. og 2. umr. Efni þess er, að nokkrar eignir verði seldar til þess að hafa upp í kostnað við embættisbústaði þeirra manna, sem áður bjuggu á þessum eignum, en nú hafa fengið annað húsnæði eða annað húsnæði er í undirbúningi þeim til handa. Þar er annars vegar um að ræða nokkra presta og hins vegar biskupinn yfir Íslandi. Þetta sýnist vera skynsamleg tilhögun. Varðandi jarðasölur hefur þeim málum yfirleitt verið vísað til landbn., en hér er einnig um að ræða nokkrar lóðasölur, m.a. í Reykjavík, og er þess vegna eðlilegast, að það fari til þeirrar neindar, er fjallar um prestakallaskipun. Þetta er um aðbúnað að prestum og þau mál hafa heyrt undir menntmn. Legg ég því til, að þessu frv. verði vísað til hv. menntmn.