17.01.1968
Neðri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. lýsti ég fylgi mínu við frv. Það, sem síðar hefur komið fram í málinu, hefur ekki orðið þess valdandi, að ég hafi skipt um skoðun. Ég vil taka það fram, að í sambandi við þetta frv. eða þann þátt frv., sem ég gerði að umtalsefni, sölu jarðarinnar Setbergs í Eyrarsveit, vil ég undirstrika það, að það, sem fyrir mér vakir í þessu máli, er að tryggja það, að jörð þessi verði í ábúð. Ég tel mig hafa nokkra reynslu af því, að það, að ríkið eigi jarðirnar, er ekki alltaf að tryggja þær í ábúð. Ýmis skipti þeirra, sem ríkisjarðir sitja, eru ekki með þeim hætti, að þau hafi laðað mig að þeirri stefnu, að ríkið ætti að eiga mikið af jörðum. Ég óttast líka í þessu tilfelli, sem ég þekki nokkuð til, að einmitt það, ef ríkið ætti að eiga þessa jörð áfram, yrði til þess, að hún færi úr ábúð og yrði limuð sundur til annarra jarða í sveitinni. Setberg hefur ekki verið neitt stórbýli og verður ekki heldur neitt stórbýli, en það er hæg jörð og snotur jörð og má hún verða sæmileg, ef vel er setið.

Ég lýsti því hér við 1. umr., að þegar núv. sóknarprestur í Setbergssókn gerði samkomulag við Elís Gunnarsson, núv. ábúanda á Setbergi, um það, að hann flytti sig á Setberg, en presturinn fengi íbúðarhús hans í Grundarfirði, þá stefndi Elís Gunnarsson að því að verða framtíðarbóndi á þessari jörð og hefur setið jörðina með prýði síðan. Það kemur fram í áliti meiri hl. hv. menntmn., að þeir gera ráð fyrir því, að þessum ábúanda verði seld jörðin, sem eðlilegt er. Ég tel því, að með samþykkt þessa frv., eins og meiri hl. hv. menntmn. leggur til, verði það tryggt, að jörðin haldist í ábúð og verði vel setin. En það verði hins vegar ekki tryggt, ef horfið verður frá sölunni.

Út af því atriði, sem fram kemur hjá hv. menntmn., að undanskilja Melrakkaey, mun ég ekki gera neina andstöðu út úr því, þar sem færð eru gild rök fyrir því, að nauðsyn beri til að vernda þessa eyju vegna fuglalífsins þar. Mér er það líka ljóst, að eyjan er ekki eins mikils virði fyrir Setberg og hún áður var, vegna þeirra breytinga, sem nú eru á orðnar í búnaðarháttum, að heyskapur er seintekinn og dýr úr eyjum, og þess háttar starfsemi mundi tæplega verða nytjuð af núverandi bónda eða bóndanum á Setbergi í framtíðinni, þó að hann ætti eyjuna. Hins vegar verða hlunnindi hennar nytjuð eins og hingað til og eðlilegt, að kirkjan hafi tekjur af þeim, enda mun eyjan hafa verið gefin undir Setberg. Ég vil því undirstrika það, að ég tel, að með afgreiðslu meiri hl. hv. menntmn. í málinu, sé það betur tryggt heldur en með nokkrum öðrum hætti, að þessi jörð verði í ábúð og vel setin, a.m.k. um næstu framtíð.