21.03.1968
Efri deild: 73. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 8. mál um sölu á prestssetursjörðinni Setbergi o.fl. á þskj. 387. Áður en ég vík að efni brtt. vil ég vekja athygli á því, að samkv. 40. gr. stjórnarskrárinnar má ekki selja eða með öðru móti Láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkv. lagaheimild.

Skátafélagsskapur á Akranesi hefur um nokkurt skeið leitað eftir því að fá til umráða hluta úr kirkjujörðinni Stóru-Drageyri í Skorradal, en þessi skátafélagsskapur er mjög almennur félagsskapur á Akranesi, og það sem fyrir þeim vakir er að koma upp útivistarsvæði með svipuðum hætti og tíðkazt hefur hjá skátum víða annars staðar, sennilega einkum að sumarlagi, þarna í Skorradalnum, og fyrri liður brtt. fjallar um það, að ríkisstj. sé heimilað að fá þessum félagsskap til umráða, með nánar tilteknum skilmálum, spildu úr landi kirkjujarðarinnar Stóru-Drageyrar í Skorradal, allt að 700 m meðfram Skorradalsvatni og upp í fjallshlíð.

Þessi afnotaréttur yrði veittur með nokkuð sérstökum hætti, því að rétt þykir að hafa um hann einhvern fyrirvara ef félagsstarfsemin kynni að breytast eða verður minni en áætlað er, og þá sé hægt að kippa þessu til baka. Og reynslan sker úr um það, hvernig skátunum hagnýtist þetta land til afnota fyrir sinn félagsskap, og þá fyrst og fremst ungmennum úr byggðum ofan frá Akraneskaupstað.

Ég skal geta þess í þessu sambandi, að skógræktarstjóri hefur farið þess á leit við ráðuneytið að mega girða landsvæðið þarna úr Stóru-Drageyri á þessum stað og víðtækara, með það fyrir augum, að þarna kynni að vaxa upp meiri skógur en þar er þegar, ef hann væri friðaður. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það, en ég held, að aldrei hafi verið talin nauðsyn að leita sérstakrar heimildar til slíkra aðgerða á löndum ríkisins, eins og þeirrar að skógræktarsvæði yrðu girt til þess að friða land og auka gróður, og hýst ég við, að af því geti orðið, enda mun það samrýmast þeim afnotum, sem skátafélagsskapurinn fer fram á.

Þá vil ég víkja að seinni lið þessarar brtt., en það er, að ríkisstj. sé heimilt að afhenda Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til umráða allt að 50 hektara úr svonefndum Móadal þar í landi prestssetursjarðarinnar Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd, svo og aðgang að 1/2 hektara á sjávarströnd jarðarinnar. Þetta er staðfesting á orðnum hlut, sem hv. þm. er sjálfsagt öllum kunnugt um, en þegar þessi samtök áttu 25 ára afmæli á s.l. ári, vildi ríkisstj. gjarnan koma til móts við óskir þeirra um að fá einhvers staðar afnotarétt af landsvæði, sem þau gætu notað sem útivistarsvæði fyrir sinn félagsskap og til þess að byggja þar á orlofsheimili. Þetta bar nokkuð bráðan að þá, og gafst ekki tóm til að leita heimildar fyrir þessari ráðstöfun. Ég hafði hins vegar samband við alla þingflokka um málið, og var hver þeirra fyrir sig samþykkur þeirri ráðstöfun, að fjmrh. f. h. ríkisstj. afhenti þessum félagsskap á 25 ára afmælinu þetta land, eins og það er til tekið, til umráða, en kirkjumálarn. hafði áður fyrir sitt leyti á það fallizt.

Ég taldi nú rétt, þegar færi gafst, að staðfesta þetta formlega hér í þinginu. Það kann að fyrnast síðar yfir óformlegar samþykktir þingflokka, sem þá kunna að vera fyrir hendi um tilteknar ráðstafanir, og það er eingöngu þess vegna, sem þessi þáttur till. er nú fluttur og tekur hann þá líka af allan vafa um réttmæti þessarar ráðstöfunar. Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess að till. fái góðan byr í deildinni.