18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm, meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Mál þetta var afgreitt í þessari hv. d. fyrr á þinginu. Þegar það var á síðasta stigi meðferðar í hv. Ed. voru gerðar á því verulegar breytingar. Upphaflega var málið um sölu nokkurra húseigna, en síðan hefur verið bætt við það sölu húseignar á Húsavík, í Kópavogi, prestsseturs í Svarfaðardal, sumarleyfislands fyrir skáta í Skorradal og loks heimild til að veita BSRB 50 ha. land í svonefndum Móadal í Hvalfirði.

Fljótlega eftir að mál þetta hafði borizt til menntmn. þessarar d. á nýjan leik, streymdu inn mótmæli gegn þeim breytingum, sem urðu á málinu í Ed. Barst erindi frá KFUM, sem mótmælti vegna nálægðar Móadals við sumarstarf í Vatnaskógi og ótta við truflun af völdum þess, ef BSRB fengi sumarleyfisland á þessum stað. Mótmæli bárust frá sóknarprestinum í Saurbæ gegn því, að kirkjujörðin væri skert. Mótmæli bárust frá biskupnum yfir Íslandi og loks frá oddvita hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps. Að lokum barst bréf frá BSRB, þar sem bandalagið lýsti sig fúst til þess að falla frá tilkalli til þessa lands, en óskaði eftir öðru í staðinn. Í því bréfi segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem heimildar er nú leitað til afhendingar lands til BSRB að Saurbæ, fer bandalagið þess á leit, að hv. menntmn. taki til vinsamlegrar athugunar í samráði við hæstv. kirkjumálaráðherra, hvort eigi sé unnt að láta bæði BSRB og Skátafélag Akraness fá land að Stóru-Drageyri, þannig að allir aðilar geti vel við unað.“ Menntmn. hefur fjallað nokkuð um þetta mál, eins og það horfir við, og á fundi n. var það einróma niðurstaða, að n. treysti sér ekki til að taka afstöðu til þeirra atriða, sem bætzt hafa í frv. í Ed. eða til síðari brtt., sem hér hafa verið fluttar.