18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en ég þarf að gera stuttlega grein fyrir tveim brtt., sem ég stend að á þskj. 416 og 604. Till. á þskj. 416 flyt ég einn, en till. á þskj. 604 flyt ég ásamt hv. 3. þm. Austf., Jónasi Péturssyni. En það má segja um báðar þessar till., að þær eru dálítið svipaðs eðlis og viðbætur, sem komu inn í frv. í hv. Ed., sem voru um heimildir til þess að láta af hendi spildur úr ríkisjörðum af sérstökum ástæðum.

Till. á þskj. 416 er um það að heimila ríkisstj. að afhenda ábúandanum á nýbýlinu Tungunesi í Fnjóskadal til eignarumráða vegna landskemmda af völdum vegagerðar spildu úr landi prestssetursins Háls í nesinu austan Fnjóskár. Þessi till. er orðuð í samráði við landnámsstjóra. Málavextir eru þeir, að nú er í smíðum brú á Fnjóská á nýjum stað og nokkur vegargerð í sambandi við hana, en af þeim ástæðum, vegna brúargerðarinnar og vegagerðarinnar, verður land nýbýlisins vestan árinnar fyrir það miklum skemmdum, að vafasamt er að hægt sé að halda þar áfram búskap. A.m.k. skerðast stórlega ræktunarmöguleikar nýbýlisins, og mönnum hefur hugkvæmzt að bæta úr þessu á þann hátt, að ríkið léti af höndum við nýbýlið litla sneið af landi prestssetursins Háls austan Fnjóskár. Ég skal taka fram, að ég hef rætt um þetta við hæstv. landbrh., sem jafnframt er samgmrh. og þessu máli kunnugur, og held ég, að mér sé óhætt að segja, að till. sé flutt í samráði við hann.

Hin till. á þskj. 604 er um það að selja eigendum Ærlækjar í Öxarfirði spildu úr landi Skinnastaða, en ástæðan til þess að farið er fram á þetta er sú, að gert er ráð fyrir, að Ærlækur láti af höndum allstórt land vegna skólans, miðskólans eða héraðsskólans, í Lundi í Öxarfirði. Skólanum er mjög nauðsynlegt að fá þetta land, og það hefur þótt eðlilegt, að Ærlækur, sem illa má við því að láta þetta land af hendi, fái þarna þessa sneið í staðinn, og hefur þetta mál verið til meðferðar og ýtarlegrar athugunar í hreppsnefnd Öxarfjarðarhrepps og liggur fyrir bréf frá henni, sem ég hef sýnt hv. landbn. þessarar d., þar sem hreppsnefndin mælir með því, að þessi heimild verði veitt.

Ég vonast eftir, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja báðar þessar brtt. við frv., sem mér virðast mjög eðlilegar. Ég skal geta þess, að hæstv. fjmrh., sem eins og kunnugt er er einn af þm. þessa kjördæmis, sem hér á hlut að máli, og kunnugur er þessu máli, hefði gjarnan viljað vera meðflm. till. á þskj. 604, en hann á, eins og kunnugt er, sæti í Ed. Þess vegna er till. flutt af okkur tveimur, hv. 3. þm. Austf. og mér.