18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. þm. gleymdi ég henni áðan og biðst afsökunar á því. Ég tel víst, að ástæðan til þess, að ekki hefur verið talin þörf á því að leita samþykkis þingsins á ráðstöfun sumarbústaða, sem mér er annars alveg ókunnugt um, hvernig fram hefur farið, sé sú, að þar sé um tímabundinn og takmarkaðan leigurétt að ræða, sem sé samrýmanlegur venjulegum ráðstöfunarrétti yfir jörðinni. Hins vegar er hér, varðandi bæði ráðstöfunina til skáta og til BSRB, um miklu víðtækari ráðstöfun að ræða, slíka, að eftir fyrirmælum stjórnarskrárinnar verður ætlað, að þar þurfi atbeina Alþ. til. Um hina ráðstöfunina er það svo, ekki einungis varðandi þessa jörð, heldur ótalmargar aðrar, að þetta hefur verið talið rúmast innan venjulegs ráðstöfunarréttar að veita heimild til sumarbústaðabyggingar og nokkur landsafnot, en þá eru það að sjálfsögðu, eins og ég segi, tímabundin og takmörkuð réttindi. Hitt er svo allt annað mál, sem ég tek ekki afstöðu til, hvort þessi tiltekna ráðstöfun hafi verið æskileg eða ekki. Ég tel, að víða hafi verið gengið of langt í að ráðstafa slíkum ríkiseignum til sumarbústaða og ekki ætíð haft nægt eftirlit með því. En það er annað mál. Að mestu leyti gengur það fyrir sig innan Stjórnarráðsins sem hreint afgreiðslumál í rn., án þess að ráðh. hafi þar skipti af eða komi nærri, þó að hann auðvitað geti þar látið til sín taka, ef svo vill verkast, en það mun yfirleitt ekki hafa verið venjan.

En út af þeirri aths., sem hv. þm. gerði áðan, að hér væri blandað saman óskyldum málum, er það misskilningur, vegna þess að það er sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sem gerir atbeina Alþ. að málinu í öllum tilfellum nauðsynlegan að mati stjórnarinnar. Nú er hér nokkurt áhorfsmál að vísu, og þess vegna var ekki strax í fyrra leitað formlegs samþykkis hjá Alþ. fyrir ráðstöfun þessara réttinda til starfsmanna ríkis og bæja, en að betur athuguðu máli var það eitt talið rétt að fá þá heimild. Þótt heimildin sé veitt, kemur auðvitað ekki til mála, að henni verði beitt gagnvart starfsmönnum ríkis og bæja, að þeim nauðugum. Ef þeir frábiðja sér þessa gjöf, þá er auðvitað sjálfsagt að taka því með skilningi og athuga, hvort hægt er að leysa þeirra vanda á annan veg. Ég skil ekki, að hér þurfi að koma nokkur tortryggni eða illindi manna milli út af þessu atriði. Og eins og ég segi, þá er það algjörlega þykkjulaust af minni hálfu, gjörsamlega kuldalaust, ef þingið vill, eða dm. vilja fella þetta úr frv. til þess að athuga þetta atriði nánar. Ég tel, að það sé eðlilegt, að heimildin sé veitt, en ef móttakandi gjafarinnar óskar að betur athuguðu máli að þarna verði höfð skipti á, þá getur engum komið til hugar að fara að halda gjöfinni að honum, þó að hún hafi verið ákveðin á sínum tíma í samráði við hann. Menn eru ekki hér að bekkjast til við neinn, heldur einungis að framfylgja því heitorði, sem gefið var. Síðan verður auðvitað að fara með þetta með venjulegri skynsemd og lipurð, eins og tíðkast í viðskiptum manna á milli og ekki sízt, þegar gefa á gjöf einhverjum aðila til heiðurs. Hitt held ég, að sé óhagganlegt, sem ég sagði, að það er búið að kanna það, og að mati rn., — ég hef ekki átt þátt í því mati og þekki það ekki í einstökum atriðum, — að mati rn. var talið, að það væri hægt að láta starfsmennina fá réttindi yfir hluta af Stóru-Drageyrarlandi.

Hitt vitum við svo, að okkar land er stórt, og ég trúi því vart, að það sé ekki hægt að finna eitthvert annað land heldur en þarna niðri við Hvalfjörð, ef menn óska og vilja raunverulega að athuguðu máli hafa þar breytingu á, og þá er hægt að fá heimild fyrir því á seinna stigi málsins. Eins og ég segi, þá er hægt að fella þessa heimild nú úr, ef mönnum svo sýnist. Þá þarf málið auðvitað að fara til Ed. og þar með eru fallin burtu þau mótmæli, sem ég hafði gegn þeim smátill., sem hv. 1. þm. Norðurl. e. bar hér fram áðan og mér sýnist efnislega með öllu saklausar og skal afturkalla mín andmæli gegn, ef sem andmæli mátti skilja. Ef menn telja rétt að blanda því inn í þetta mál, hef ég út af fyrir sig ekki á móti því.

Hitt legg ég áherzlu á, að það er æskilegt, það er æskilegt, ég bið menn að taka það trúanlegt, að fá nú þegar heimild til þess að ráðstafa þeim eignum, sem óumdeilanlegt er, að ráðstafa þarf. Og ekki ætla ég að fara að deila á n. fyrir afgreiðslu hennar á málinu, en ég vil upplýsa, að hér liggur fyrir í plöggum Ed.-nefndarinnar, sem Nd.-nefndin hefur meira að segja getað aflað sér upplýsinga um, grg. fyrir því, af hverju lagt er til að fá þessa söluheimild á prestsseturshúsi á Húsavík, húseigninni Melgerði 10 í Kópavogi og prestssetursjörðinni Völlum í Svarfaðardal.

„Um þessar fyrirhuguðu sölur skal upplýst eftirfarandi,“ segir í þessu bréfi, sem er dags. 26. jan. s.l.:

„Nýtt prestsseturshús hefur verið keypt á Húsavík, þar sem ekki var talið hagkvæmt að kosta til viðgerðar á gamla húsinu.

Fyrirhugað er, að ekki verði framvegis embættisbústaður í Kópavogi, og er því óskað heimildar til sölu á þeirri húseign, en hún hefur reynzt talsvert gölluð og viðgerðarkostnaður fyrirsjáanlega mjög mikill. Prestshús er í byggingu á Dalvík og verður prestssetur flutt þangað frá Völlum í Svarfaðardal, er prestssetrið á Dalvík verður tekið í notkun á þessu ári, og er þá æskilegt, að jörðinni verði ráðstafað, en húsakostur á henni er mjög lélegur.“

Ég get ekki séð annað en þessar upplýsingar séu alveg fullnægjandi, og þær hafa legið fyrir og eins og ég segi, mér skilst, að það sé með öllu hættulaust að samþykkja þær heimildir, sem í frv. eru, og ég get lýst því yfir af hálfu stjórnarinnar, að það kemur ekki til mála að halda því að BSRB nauðugu að þiggja þessa gjöf, slíkt hefur engum manni dottið í hug. En það er búið að tilkynna hana hátíðlega og þess vegna er eðlilegt, að menn vilji fá þá formlegu heimild, sem má lasta stjórnina fyrir, að hún aflaði sér ekki þegar í fyrra. Nú, en ef þingið vill skilja það frá, þá er það allt í lagi með það. Ég tel það ástæðulaust, og síður en svo er ég þess letjandi, að um það verði flutt brtt. af þeim, sem finnst eðlilegt að láta það mál bíða og þá e.t.v. mál skátanna líka. Ég veit ekki, hvort menn vilja fresta því, en ég sé ekki ástæðu til þess. að það eigi að verða til þess að fresta hinu, að ráðstafað sé eignum, sem sumpart liggja undir skemmdum og eðlilegt er, að seldar séu sem fyrst, og að nokkru leyti þarf á fénu að halda til annarrar ráðstöfunar og hefur verið tengt við aðrar ráðstafanir. En það er auðvitað, eins og ég sagði áðan og endurtek, það er enginn héraðsbrestur, þó að málið allt frestaðist.