18.04.1968
Neðri deild: 101. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það er út af orðum, sem féllu hjá hæstv. forsrh., sem ég vil vekja athygli sérstaklega á því, að BSRB er alls ekki að frábiðja sér þessa gjöf. Það er öðru nær. Enda hefur það komið fram áður, að bandalagið er mjög þakklátt fyrir þessa gjöf. Ástæðan fyrir því, að bandalagið fer nú fram á makaskipti er alls ekki sú, að það hafi neitt út á gjöfina að setja, eins og hún var fram reidd, þvert á móti, heldur eingöngu fyrir það, að eftir að það hefur tekið við gjöfinni, koma fram svo sterk andmæli, sem ég hef nú rækilega bent á, frá aðilunum þarna uppfrá, hinum væntanlegu nágrönnum, ég vil segja sambýlismönnum. BSRB telur það fyrir alla aðila heppilegra að fá nú annað land, til þess að enginn ágreiningur verði. Þetta er eina ástæðan og engin önnur.

Ég get vel skilið þá afstöðu hæstv. forsrh., að honum þyki slæmt að fresta öllu málinu til þess að þessu atriði verði frestað. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Ekki hef ég á móti því, að málið gangi fram að öðru leyti, að undantekinni þeirri sérstöðu, sem ég hafði um Setberg, sem ekki er til umr. nú. Þess vegna er það slæmt, að Alþ. verði eiginlega hálfnauðugt að styðja að áframhaldandi ágreiningi og óánægju út af þessu máli. Hæstv. ráðh. segir, að hann hafi ekkert við það að athuga, þó að Alþ. felli þetta, þessar málsgr. Ég segi fyrir mig, að ég vil alls ekki fella þær. Það yrði skilið þannig, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki haft neina heimild til þess að afhenda landið. Ég er alveg þvert á móti þeirrar skoðunar, þó að ég sé enginn lögfræðingur, að ríkisstj. hafi fulla heimild til þess að gefa þessa gjöf og mér er eiginlega hálfóskiljanlegt enn, að hún skuli vera að óska eftir lagaheimild.

Hæstv. forsrh. hefur að vísu skýrt þetta svo núna, að það sé meira afnotaréttur en venjuleg leiga, þessi gjöf. Ekki er bandalaginu gefið landið. Því er bara veittur afnotaréttur af því. Ég skil það svo. En um lögfræðileg atriði ætla ég ekki að fara að deila, en er samt þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. hafi alls ekki þurft að óska eftir lagaheimild fyrir þessu. Hún hafi gert rétt, þegar hún afhenti landið og hafi ekki þurft að óska eftir sérstakri heimild hjá Alþ. Ef nú á að leysa þennan vanda, losa málið úr þessari klípu, sem það er óneitanlega komið í, þá sé ég enga leið aðra en þá, að hæstv. forsrh. fallist á það að fresta þessum lið, þessum 2 málsgr. úr frv., með því að flytja um það sjálfur brtt. Auðvitað fær hæstv. ríkisstj. undir eins á næsta þingi þá heimild, sem hún vill, til þess að afhenda þetta land, eða annað í þess stað. Það stendur ekkert á því. Og áhugi okkar er enginn annar en sá að afstýra erfiðleikum, sem að okkar dómi er auðvelt að afstýra, ef eitthvert tóm gæfist til þess. T.d. má fresta því til næsta þings, þá yrði ágreiningi afstýrt.

Ég hef hins vegar enga trú á, að það þýði neitt fyrir mig né aðra að fara að flytja um það brtt. að fella niður þessar 2 málsgr. Það yrði skoðað sem andstaða gegn sjálfri gjöfinni og það kæri ég mig ekkert um. Ef aftur á móti hæstv. ríkisstj. teldi sér fært að gera það á þeirri forsendu, að það væri til þess að leysa vandann þangað til í haust, teldi ég það mjög æskilega lausn.