19.04.1968
Efri deild: 99. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

8. mál, sala Setbergs o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að stjórnarandstaðan hafi ekki hér í þessari hv. d. sýnt neina tilburði til að koma í veg fyrir eðlilega meðferð mála. En ég leyfi mér hins vegar mjög að efast um það, að mikið sé að byggja á loforðum um þetta efni með hliðsjón af því, sem hér er að gerast varðandi mál, sem búið var að semja um við þingflokkana. Þetta mál er afhending á landi til BSRB, og finnst mér alveg gegna furðu, að það skuli hér vera gagnrýnt, að þetta mál var tekið hér upp, jafnvel þó að seint sé, af þeirri einföldu ástæðu, að um þetta var búið að semja. Og ástæðan fyrir því, að málið er tekið hér í þetta frv., byggist eingöngu á því, að það þótti við nánari athugun öruggara að afla þessarar heimildar, enda þótt menn teldu ekki nokkurn vafa á því, að enginn færi að amast við þessu vegna þess samkomulags, sem búið var að gera, og þó að það þess vegna hafi ekki farið í n., var engin sérstök ástæða til þess heldur, að það gerði það.

Mér er vel kunnugt um það frá fyrstu tíð, að þetta vakti vissa óánægju hjá ýmsum aðilum, m.a. prestinum í Saurbæ, og dóms- og kirkjumrn. hafði rannsakað þetta mál og stjórn BSRB var meira að segja kunnugt um það, áður en landið var afhent, að bryddað hefði á vissri óánægju hjá ýmsum aðilum þarna, bæði prestinum og KFUM, en það var mat manna, að rökin fyrir slíkri andstöðu væru algerlega út í hött. Þarna er um land að ræða, sem skiptir engu máli fyrir prestssetrið varðandi nýtingu þess og búskap þar. Og af þeim sökum var það, að þetta var gert engu að síður að lofa afhendingu þessa lands. Og ég vonast til, að hv. þdm. telji það ekkert undarlegt af minni hálfu, þó að ég sé næsta gramur yfir svona afstöðu, af því að það vildi svo til, að ég skrifaði BSRB þetta bréf og undirritaði það með tilkynningu um þessa afhendingu, þannig að það að ætla að neita staðfestingu þess hér er ekki annað en gera algerlega ómerka yfirlýsingu, sem ég hef gefið í trausti þess, að allir þingflokkar stæðu með því, og það hafa ekki komið fram nokkur minnstu andmæli gegn þessu máli.

Hitt er allt annað mál, eins og ég sagði hér áðan, að það hafa farið fram viðræður milli mín og BSRB um það, hvort það væri e.t.v. hægt að finna annað land. Það er allt annað mál og ég tel ekkert útilokað, að það verði haldið áfram að skoða það mál. En ég get ekki unað því að fá ekki staðfestingu á því, sem gert hefur verið í góðri trú, þannig að mín undirskrift á gjafabréfi til BSRB sé ónýtt. Því get ég ekki unað. Og það held ég, að menn hljóti að verða að skilja. Það útilokar ekkert það, eins og hv. síðasti ræðumaður einnig kom inn á, að það sé hægt að skoða það ofan í kjölinn að reyna að leysa þetta mál með samkomulagi eftir því, sem mögulegt er. Og þótt þetta ákvæði verði samþ. hér eins og farið er fram á, breytir það auðvitað engu um það. Óski BSRB eftir því að fá einhverja breytingu á þessu, er það þeirra mál. En það er útilokað, að ríkisstj. fari fram á það við BSRB að fá að breyta því, sem búið er að afhenda BSRB í góðri trú, það er gersamlega útilokað og það vona ég, að allir hv. þdm. skilji.

Varðandi það, að þetta frv. sé að öðru leyti með eitthvað óeðlilegum hætti og það sé óeðlilegt að tengja saman allar þessar jarðir, þá á það einnig að mínu mati ekki við nein rök að styðjast, vegna þess að þetta frv. fjallar allt um prestssetur í einhverri mynd eða afhendingu á landi úr prestssetursjörðum. Og ekki býst ég við, að nokkur hv. þdm. telji það æskilega meðferð hjá þinginu að afgreiða 10—12 lög sérstök um þessi mál, og það er nú ekki einu sinni svo, að málið hafi verið seint lagt fram, því að þetta er 8. mál þingsins og var þá meginhluti þess frv. eða sett inn í það snemma á þingi. Deiluefnið skilst mér nánast eingöngu vera þetta atriði, þó að menn tali um, að ýmsar aðrar breytingar hafi verið gerðar. Og þetta er atriði, eins og ég segi, sem mér finnst ekki þurfa að rannsaka í neinni n. með hliðsjón af því, sem á undan er gengið. Það kann vel að vera, að hv. þdm. finnist þetta einhver óbilgirni af mér að sækja það svo fast að fá þessa heimild staðfesta hér. En ég vonast nú samt til, að þeir geri sér grein fyrir því, þegar þeir skoða það niður í kjölinn, að það er ógerlegt fyrir mig að una því, að það fáist ekki staðfesting á því, úr því að hennar er á annað borð hér leitað, sem ég er búinn að staðfesta út í frá með eigin undirskrift, að afhenda eign, sem hér er um að ræða, og það í fullu trausti þess, að allir þingflokkar standi með því, og ég geri ekki ráð fyrir, að neinn hv. þm. vefengi það, að formenn þeirra þingflokka hafi haft fullt leyfi til þess að lýsa þeirri skoðun sinni.