08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til breytinga á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Það eru aðallega tvær breytingar, sem ráðgert er að gera. Í fyrsta lagi, að elliheimili komi til greina í sambandi við útlán úr byggingasjóði, ég tel sjálfsagt að styðja það, og svo í öðru lagi, að í staðinn fyrir að byggingarsjóður hefur greitt fulla vísitölu og tekið fulla vísitölu af húsnæðislánum, þá verði nú í samningum, sem gerðir eru hér eftirleiðis, aðeins miðað við hálfa vísitölu, sem reiknuð er á þann hátt, sem í l. gr. frv. segir.

Eins og allir hv. þm. muna, gerðist það í sambandi við lausn vinnudeilunnar í júlí 1964, að samningar voru þá gerðir um að greiða skyldi vísitöluálag á húsnæðislán. Eins og við munum, þá var ein mesta breytingin, sem gerð var í samkomulaginu 1964 sú, að vísitala, sem um skeið hafði verið rofin úr sambandi við kaupgjaldið, var á ný sett í samband, og ég hygg, að þeir, sem samkomulagið gerðu fyrir hönd verkalýðsfélaganna hafi treyst því, að hæstv. ríkisstj. mundi reyna að hafa hemil á verðbólguvextinum, þegar það var hvort tveggja sett í samkomulag, að laun skyldu eftirleiðis greiðast samkv. vísitölu og að lán Húsnæðismálastofnunarinnar ættu einnig að miðast við vísitölu. Það má kannske segja, að þessir samningar hafi lýst talsverðu trúnaðartrausti af hendi verkalýðsfélaganna. Ég hygg, að þeir hafi verið á þessum grunni byggðir, en eins og allir vita, þá tókst ekki nema að mjög litlu leyti að hafa hemil á verðbólguvextinum. Verðbólgan hélt áfram. Hún var að vísu risavöxnust 1963, þá hækkaði vísitalan um 16,2% á einu ári og hefur náttúrlega ekki tekið slíkt heljarstökk síðan, en engu að síður hefur orðið verulegur verðbólguvöxtur, t.d. var vöxturinn 12,6% árið 1964, 1965 9,4%, 1966 8,5% en 1967, á tímabili verðstöðvunar, var vöxturinn 5,9%.

Nú hefur verið breytt um vísitölugrundvöll og ný vísitala tekin upp, þannig að samanburður við það sem af er þessa árs er mjög erfiður, og ég hef a.m.k. ekki gert hann, en enginn vafi er á því, að allt verðlag hlýtur að hafa stórhækkað nú eftir gengisfellinguna. Nú hefur sem sagt verið knúið fram nokkurt samband milli kaupgjalds og verðlags í síðustu kjarasamningum, að vísu mjög takmarkað, aðeins miðað við 10 þús. kr. hámarkslaun og vísitölugreiðslur í áföngum, þannig að nú fá aðeins þeir lægst launuðu vísitölu, en aðrir verða að bera að fullu alla verðlagshækkun, sem m.a. leiðir af þessari miklu gengislækkun, sem ég áðan minntist á. Afleiðingin af þessu er m.a. sú, að allur byggingarkostnaður stórhækkar og vísitala sú, sem húsnæðislánin eru miðuð við, hefði vitanlega stórhækkað. Það er þess vegna til mjög mikilla bóta, að nú skuli þó vera slakað þannig til, að eftirleiðis skuli aðeins vera miðað við hálfa vísitölu í stað fullrar áður. Eftir því sem mér er sagt, er þetta frv. í fullu samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. lofaði í sambandi við lausn verkfallsins, og ekkert að því að finna, þannig að ég tel einsýnt, að allir hv. alþm. hljóti að vera samþykkir þessu frv. og veita því greiðan gang í gegnum deildir þingsins. Nógar eru kvaðir húsbyggjenda fyrir því, þó að þessi lagfæring sé gerð.

Því miður hefur okkur ekki tekizt hér að útvega þeim, sem byggja, lán með viðráðanlegum kjörum. Vextir af þessum lánum eru að vísu lágir á okkar mælikvarða, 4%, en eftir sem áður verða menn að greiða vísitölu, að vísu nú hálfa. Ég ætla ekki að gerast spámaður um það, hver vísitöluhækkunin verði á þessu ári, en miðað við reynslu undanfarinna ára væri ekki ósennilegt, að hún gæti orðið um 8%. Ef hún yrði það, yrðu vextir af þessum lánum 8% og það eru vitanlega allt of háir vextir af slíkum lánum og miklu hærri en af lánum, sem aðrar þjóðir, sem við erum alltaf að bera okkur saman við og hæstv. samgmrh. var að bera sig saman við áðan, hafa getað látið húsbyggjendum í té. Þetta er vandamál, sem vissulega þyrfti að ráða við á einhvern hátt, vegna þess að það er ekki einangrað, heldur hefur þær afleiðingar eins og margsinnis hefur verið rakið, að allt kaupgjald verði t.d. að miðast við möguleika manna til að standa undir þessum lánum, því að minna er ekki hægt að bjóða en svo, að menn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Þó ég láti þessa getið, að okkur þyrfti að takast að ganga lengra í lagfæringarátt að þessu leyti, þá ætla ég ekki að halda uppi, á þessu stigi, neinni gagnrýni á hæstv. ríkisstj, af því tilefni, heldur aðeins lýsa því, að ég mun fylgja þessu frv.