16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

185. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breytingu á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem hér er til umr., er flutt til efnda á fyrirheiti, sem ríkisstj. gaf í sambandi við lausn verkfallanna í s.l. mánuði, en það fyrirheit var á þá leið, að breyta skyldi vísitöluákvæðum þeim, sem gilt hafa á húsnæðismálalánum, til hagsbóta fyrir lántakendur. Og er aðalefni þessa frv. annars vegar að kveða á um nýja vísitölu, og eru ákvæði um það í 5. mgr. 1. gr. frv., en þessi vísitala á að sýna breytingar á dagvinnutímakaupi fyrir almenna verkamannavinnu í Reykjavík og skal reiknuð út af Hagstofu Íslands samkv. nánari ákvörðun hennar. Grunntími þessarar vísitölu skal vera 1. febr. 1968.

Það lá í hlutarins eðli, að það varð ekki hjá því komizt að reikna út nýja vísitölu, þar sem kaupgreiðsluvísitalan, sem lánin höfðu verið miðuð við frá 1964, var úr sögunni og hætt að reikna hana út vegna þeirra vísitölubreytinga, sem urðu hér í vetur, og enn fremur var úr sögunni framfærsluvísitala sú, sem gilti á vissa lánaflokka af eldri húsnæðismálalánum.

Það er í öðru lagi kveðið svo á í 1. gr. þessa frv., að á ársgreiðslur lána, sem byggingarsjóður tekur, og reyndar líka þeirra, sem hann veitir, skuli greiða viðbót, sem svarar helmingi þeirrar hækkunar, er hverju sinni hefur orðið á kaupvísitölu, en það er sú vísitala, sem ég greindi frá áðan og Hagstofan á að reikna út, þannig að aðalefni þessa frv. er því eiginlega tvenns konar, annars vegar ákvæði um nýja vísitölu, sem húsnæðismálalánin miðast við, og hins vegar þau, að eftirleiðis skuli lántakendur greiða hálfa vísitöluuppbót á ársgreiðslur lána í staðinn fyrir að áður var það full vísitöluuppbót. Að öðru leyti get ég um þetta leyft mér að vísa til grg. með frv. og framsöguræðu hæstv. félmrh. við 1. umr. þessa máls hér í þessari hv. d.

Þessu máli var vísað til heilbr.- og félmn. og varð niðurstaðan sú, að n. mælir með því, að þetta frv. verði samþ., en þó áskilja nm., hver um sig, sér rétt til þess að flytja hreyt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Tveir hv. nm. voru fjarstaddir, þegar málið var afgreitt í n., hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Reykjaneskjördæmis.

Ég vil þó jafnframt, þó að ég sé að halda hér framsöguræðu fyrir nál., nota tækifærið til þess að mæla fyrir brtt., sem ég flyt hér um þetta frv. á þskj. 610, ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Sunnl., en í þessari brtt. segir, að húsnæðismálastjórn sé heimilt að veita lán til byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja, er byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar. Það er skilyrði fyrir slíkum lánum, að íbúðirnar verði eigi seldar, nema húsnæðismálastjórn samþykki söluverð þeirra fullgerðra. Við verðlagningu íbúðanna skal hafa hliðsjón af byggingarvísitölu.

Þessi brtt. er flutt samkv. óskum hæstv. ríkisstj., en upphaf þessa máls er það, að hinn 11. ágúst s.l. skipaði félmrn. fimm manna n. til þess að athuga, hvernig hægt sé að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir framleiðslu félagsmanna í félagi byggingarmeistara í Reykjavík á húsum á sem hagkvæmastan hátt og í samkeppni við önnur félagssamtök, þannig að öryggi framleiðanda og íbúðarkaupanda verði sem bezt tryggt. Í öðru lagi var hlutverk n. að athuga, hvernig hægt væri að tryggja, að lán fáist út á sérhverja íbúð, þegar hún er veðhæf, lán, sem ekki sé lægra en núverandi veðdeildarlán. Í þessari n. áttu sæti: Valdimar Kristinsson, Haukur Vigfússon og Björgvin Vilmundarson og enn fremur Magnús Vigfússon og Gissur Sigurðsson, en tveir síðast nefndu nm. eru byggingarmeistarar. Það hefur lengi verið áhugaefni byggingarmeistara og þeirra, sem hafa það að atvinnu að byggja íbúðir og selja, að eiga kost á því að fá lánsfé til bygginganna sem fyrst eftir að byggingarframkvæmdir hefjast. Að vísu er það svo, að þeir reyna oft að selja þessar íbúðir áður en þær eru fullgerðar, og algengast er, að salan sé miðuð við það, að íbúðin sé tilbúin undir tréverk, eins og kallað er. Stundum fer salan að vísu fram áður, jafnvel þegar teikningarnar liggja á borðinu og byggingarframkvæmdir eru ekki hafnar, en aðalgreiðslu sína fær byggingarmeistarinn venjulega ekki fyrr en hann afhendir íbúðina á því byggingarstigi, sem kaupsamningurinn segir til um, þannig að viðkomandi byggingarmeistari, byggingarfyrirtæki, á oft í fjárhagslegum örðugleikum meðan verið er að koma byggingunni upp.

Þá hafa byggingarmeistarar líka, einkum hér í Reykjavík og nágrenni áhuga á því að breyta nokkuð til. Þeir sjá, að þetta kerfi, sem gilt hefur hér á undanförnum árum og jafnvel áratugum, og felur í sér, að sérhver byggingarmeistari fær úthlutað einu stigahúsi og byggir það síðan og selur íbúðirnar í því, sé ekki alls kostar heppilegt til frambúðar, heldur verði byggingarmeistararnir og byggingaraðilarnir að slá sér saman í stærri samtök og byggja heilar blokkir eða margar blokkir, þannig að um miklu stærri byggingaráfanga í senn verði að ræða. Þetta fyrirkomulag felur í sér leið til þess að lækka byggingarkostnaðinn vegna stærri áfanga og enn fremur hafa þessir menn komið auga á það, sem er alveg rétt, að það er ekki heppilegt að selja íbúðirnar ófullgerðar, hvort sem þær eru seldar fokheldar, tilbúnar undir tréverk eða á einhverju öðru byggingarstigi. Það er eðlilegast og heilbrigðast að selja íbúðirnar fullgerðar. En við það að selja íbúðirnar fullgerðar og byggja margar íbúðir í einu er mjög auðvelt að spara á öllum innréttingum með því að samræma þær, staðla þær og nota fjöldaframleiðsluaðferðir við þær í staðinn fyrir það að selja íbúðirnar tilbúnar undir tréverk og láta svo hvern íbúðareiganda koma með sérinnréttingu fyrir sig.

Nefnd sú, sem ég vitnaði til, komst að þeirri niðurstöðu, að þróunin þyrfti einmitt að beinast í þessa átt og nauðsynlegt væri að geta aðstoðað byggingaraðila, byggingarmeistara eða byggingarsamtök við að fá lán eða eiga aðgang að fjármagni meðan húsin væru í byggingu, en ekki að bíða eftir því, að þeir, sem keyptu af þeim, fengju húsnæðismálalánin. Og meistararnir gengu inn á það, að ef þarna yrði komið til móts við þá í þessu efni að útvega þeim meira fjármagn en unnt hefur verið, þá gengju þeir til móts við sjónarmið húsnæðismálastjórnar á þann veg, að þeir féllust á, að hún gæti fylgzt með verðlagningu íbúðanna, og að þeir seldu ekki íbúðirnar nema að húsnæðismálastjórn hefði samþykkt verðlagið. Þeir beygja sig undir það, að húsnæðismálastjórn samþykki það verð, sem þeir selja íhúðirnar fyrir, í staðinn fyrir, að áður, a.m.k. þegar mestu uppgripatímar voru hér, var talið, að íbúðarbyggjendur eða meistarar ættu þess oft kost að selja íbúðir með óhæfilegum hagnaði. Og ég tel þetta einmitt vera mjög mikilvægt atriði., að þarna hafi náðst samkomulag milli húsnæðismálastjórnar, sem átti sinn fulltrúa í þessari n., og meistaranna um þetta atriði.

Þessi brtt. gengur sem sagt út á það að heimila húsnæðismálastjórn að veita lán til byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja, sem eru að byggja íbúðir, sem ætlað er að selja fullgerðar. Það er skilyrði, að þeir selji þessar íbúðir fullgerðar, en ekki hálfgerðar. Og þeir verða að selja einstaklingum, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar, þ.e.a.s. þeir einstaklingar, sem kaupa þessar íbúðir, verða að fullnægja þeim reglum, sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, til þess að þeir geti fengið lán. Tekið er fram í till., að það sé skilyrði fyrir slíkum lánum, að íbúðirnar verði eigi seldar, nema húsnæðismálastjórn hafi samþykkt söluverð þeirra fullgerðra, og við verðlagningu íbúðanna skuli höfð hliðsjón af byggingarvísitölu.

Það liggur í hlutarins eðli, að þessi lán til byggingarmeistara eða byggingarfyrirtækja, sem þessi till. fjallar um, eru að sjálfsögðu bráðabirgðalán, eða a.m.k. má segja, að það séu bráðabirgðalán gagnvart byggingaraðilum, gagnvart þeim, sem byrjar á byggingunni, byggingarmeistara eða byggingarfyrirtæki, sem ætlar að selja íbúðirnar, þó að þau síðar kunni að verða færð yfir á þá einstaklinga, sem síðan kaupa íbúðirnar. Ég held, að ég hafi þá ekki fleira um þessa till. að segja. Ég tel, að það sé spor í rétta átt, ef þessi till. næði fram að ganga.