11.10.1967
Sameinað þing: 0. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni yfir þeim umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál og þeim yfirlýsingum, sem hér hafa verið gefnar af báðum stjórnarflokkunum. Það, sem hér liggur fyrir, er það, að Alþ. á samkv. lögum að úrskurða um kjörbréf, sem því berast. Það er skylda Alþ. að taka afstöðu til þeirra kjörbréfa, sem þm. koma hér með eftir kosningar á 1. fund þingsins.

Svo gerist það, að þeir, sem tala hér fyrir umboð meiri hl. Alþ., fyrir stjórnarflokkana báða, lýsa því yfir, að þeir taki enga afstöðu til eins kjörbréfsins, og það er ekki hægt að heyra annað á málflutningi hæstv. dómsmrh. en hann hafi enga skoðun á því, hvort beri að taka kjörbréfið gilt eða ekki. Ja, hvernig færi nú, ef Alþ. brygðist við á hliðstæðan hátt eins og þm. stjórnarflokkanna ætla að gera í þessu tilfelli, ef aðrir þm. gerðu hið sama í öðrum tilfellum? Vitanlega mundi slíkt leiða til algers öngþveitis. Ég tel því, að þessi framkoma, sem hér kemur fram hjá báðum stjórnarflokkunum, sé hreinn skollaleikur af þeirra hálfu og í rauninni skollaleikur, sem er beint framhald af skollaleik, sem þeir voru búnir að taka þátt í í sambandi við alþingiskosningarnar. Það, sem hér var um að ræða í þessu máli, var það, að það mátti segja, að fyrir kosningarnar væri hér um tvenns konar ágreining að ræða, sem deilur stóðu um meðal manna. Annars vegar var það, að það reis upp deila í Alþb. í Reykjavík, í flokksfélagi Alþb. í Reykjavík, um skipun manna á framboðslista þess. Þetta hefur ekki verið dulið fyrir neinum, þetta hefur legið fyrir öllum allan tímann, að það var ágreiningur um þetta atriði, menn komu sér ekki saman. Þeir, sem höfðu orðið í minni hl. í félaginu hér í Reykjavík, töldu sig hafa rétt til þess samkv. gildandi l. að bjóða fram annan lista í nafni Alþb., og það gerðu þeir. Þá reis upp hinn ágreiningurinn um það, hvort þetta væri leyfilegt, og þeir, sem töluðu aðallega fyrir Alþb.-félagið í Reykjavík, vitnuðu til þess, að í lögum þess félags stæði skýrt og skorinort, að ákveðin stofnun innan félagsins hefði ein rétt til þess að bjóða fram í nafni félagsins. En hinir, sem stóðu að framboði l-listans, sögðu: Samkv. gildandi kosningalögum höfum við rétt til að bjóða einnig fram lista í nafni Alþb.

Enginn þarf í rauninni að vera hissa á þessu og allra sízt t.d. hæstv. dómsmrh. Ætli hann þekki ekki dæmi þess, að það hafi komið upp ágreiningur af svipuðu tagi áður? Ætli það hafi ekki komið upp ágreiningur hjá fleiri flokksfélögum um það, hvaða menn ættu að skipa hin ýmsu sæti á framboðslista? Auðvitað er það þekkt í öllum flokkum, slíkt hefur komið fyrir. Og það er líka þekkt í öllum flokkum, að það hafi komið fyrir, að menn hafi gripið til ýmissa ráða, þegar þeir eru ósáttir varðandi framboð. Og það hafa komið tvö framboð á vegum sama flokks áður. En þegar þetta gerðist í þessu tilfelli, gerist þetta furðulega. Þá kemur annars vegar yfirkjörstjórnin í Reykjavík, skipuð 5 mætum lögfræðingum, að ég hygg, og fellir einróma úrskurð um það, hvernig skuli merkja þennan síðari lista Alþb., sem Hannibal Valdimarsson skipaði efsta sætið á. Og síðan kemur önnur 5 mannanefnd, landskjörstjórn, líka skipuð 5 mjög þekktum lögfræðingum, og þeir fella alveg gagnstæðan úrskurð og segja, að það eigi að merkja listann á allt annan hátt.

Þegar þetta gerist nú, og þegar svo vill til, að í yfirkjörstjórn er enginn fulltrúi Alþb. og í landskjörstjórn er heldur enginn fulltrúi Alþb., en þannig ágreiningur kom upp á milli þessara tveggja stofnana, ja, geta menn þá verið hissa á því, þó að eitthvað hafi verið skiptar skoðanir innan Alþb. líka um það, hvernig að þessu ætti að standa? Menn geta blásið út stóran belg og talað um það, að svona sé ástandið í þessum flokki, þeir eru bara ekki sammála. Þessi segir þetta, hinn segir hitt. En mennirnir, sem þeir höfðu sjálfir lagt til í yfirkjörstjórn, Sjálfstfl., og mennirnir, sem Sjálfstfl. hafði lagt til í landskjörstjórn, voru öldungis ósammála um það, hvernig ætti að bregðast við þessu.

Í mínum augum var það svo, að þetta var ekkert einkennilegt, sem hér var að gerast. Ég lít svo á, að það sé tiltölulega auðvelt að þræta um það, hvernig hafi átt að merkja þennan lista, sem svona kom fram. Hannibal Valdimarsson telur, að ákvæði kosningalaga séu skýr um þetta efni. En hvað sem því líður, er eitt víst, að svona margir menn hafa óumdeilanlega tekið að sér að rífast um það, hvernig ætti að bregðast við þessum vanda. Það liggur fyrir. Og þegar þetta gerist svo, hefst þessi einkennilegi leikur allan tímann í kosningabaráttunni, að t.d. sjálfur forsrh. spyr mig í útvarpsþætti og sjónvarpsþætti: Hver er þín afstaða? Hvernig ætlar þú að bregðast við að kosningum loknum? Hverjum ætlar þú að greiða atkv.? Ég beindi spurningunni til hans, hver er afstaða Sjálfstfl.? Hvert er þitt álit á málinu? Hann vildi ekkert segja um það. Ég sagði auðvitað, að afstaða mín mundi koma fram á sínum tíma. Það var alveg augljóst mál og gat ekki farið fram hjá neinum manni, að menn voru hér að spila fram og til baka um það og ætluðu sér að notfæra sér þetta á þennan einkar haganlega hátt að geta fellt dóminn ýmist svona eða á hinn veginn, eftir því sem henta þætti.

Það má kannski segja það um alla, að það hafi verið svo, að menn vildu gjarnan hafa þetta opið. Það er ekkert um það að villast, að málið bar þannig að, að það var ekkert auðvelt verk að ákveða neitt í þessum efnum. En nú, þegar Alþb. kemur saman að kosningum loknum, á það ekki að fella neinn dóm um það, hvort átti að merkja þennan lista sem I-lista eða G-lista. Um það er Alþ. ekki kvatt til neinna ráða. Það á ekki að svara því. Það á ekki að kveða upp neinn dóm um það, hvorir höfðu á réttu að standa í þessum leik, sem fram hafði farið í kosningunum. Það á hins vegar að fella dóm um það, hvort á að taka það kjörbréf, sem hér hefur borizt Alþ., gilt eða ekki. Og ég segi, það er alveg furðulegt ábyrgðleysi, að meiri hl. alþm. ætli að taka þá afstöðu, að þeir ætli að sitja hjá við afgreiðslu þessa kjörbréfs. Þeir gátu vissulega tekið þá afstöðu að vera á móti því, það var annað mál. En svo kemur hér fulltrúi Sjálfstfl., dómsmrh., og segir: ja, þeir segja, umboðsmenn Magnúsar Kjartanssonar sögðu þetta í kosningahitanum. Hannibal sagði þetta og það er hans innlegg í málið. En skyldi maður ekki gjarnan spyrja: Hvað segir dómsmrh.? Hvað vill hann segja? Hver er hans skoðun? Hann getur vitanlega ekki vikið sér undan þeirri skyldu, að hann á að fella sinn dóm hér á Alþ. um það, hvort á að taka þetta kjörbréf gilt eða ekki. Ég kalla þetta skollaleik af hálfu stjórnarflokkanna, sem þeir hafa haldið uppi í þessu máli frá upphafi, skollaleik, sem þeir ætluðu að notfæra sér, en örlögin hafa nú snúið því þannig við, að þetta skiptir þá ekki verulegu máli. Það er að mínum dómi alveg rangt, þegar því er haldið fram, að Alþb. hafi lagt ákveðinn dóm á þessa deilu hér í kosningahitanum. Ég vil einmitt upplýsa það í þessu sambandi, að sú deila, sem varð um framboðið og merkingu á framboðslista, var bundin við Reykjavík eina, hún var bundin við félagið hér í Reykjavík og þá, sem áttu hlutdeild í framboðum hér. En æðstu stofnanir Alþb. sem landssamtaka, þ.e.a.s. framkvæmdastjórn og miðstjórn Alþb., tóku aldrei neina afstöðu í þessu máli. Það var ekki lagt fyrir þessa aðila og það er algerlega rangt, að það hafi komið á nokkru stigi málsins fram frá hálfu Alþb. sem landssamtaka, að það afsalaði sér einu eða neinu í þessu máli.

En það, sem við Alþb.-menn stöndum nú frammi fyrir, er það, að hér er kominn maður með kjörbréf, sem landskjörstjórn hefur gefið út. Við teljum, að það leiki enginn vafi á því, að stuðningsmenn Alþb. í Reykjavík hafi í kosningunum skipað sér á þessa tvo lista, og það er því réttmætt að telja atkv. beggja þessara lista til Alþb. og því er það, sem við stöndum allir að því að vilja samþykkja kjörbréf Steingríms Pálssonar.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en mér þykja þessar umr., sem hér hafa farið fram, alveg furðulegar. Og þó held ég, að yfirlýsingar þær, sem hér liggja fyrir frá stjórnarflokkunum, muni geymast enn þá lengur í minnum manna sem furðuleg afstaða meiri hl. Alþ. í sambandi við þau skyldustörf, sem menn eiga að vinna hér einmitt á 1. fundi hins nýkjörna þings.